Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Hv. 14. þm. Reykv. Guðmundur H. Garðarsson ræddi hér nokkuð um félagslega kerfið og fjármögnun þess. Ég vil í því sambandi segja að ég er sannfærð um að ég og hv. þm. deilum því sameiginlega að það þurfi að efla félagslega kerfið enda eru það hagsmunir launþegasamtakanna að svo sé gert. Nokkurt átak hefur verið gert í því að undanförnu. Ég vil sérstaklega nefna að á síðasta ári fór af stað töluverður fjöldi félagslegra íbúða eða um 800 íbúðir og fjármagnið til þess var tvöfaldað. Verulegur áfangi hefur því náðst þar að því er varðar félagslega kerfið en auðvitað má þar gera betur því það eru margir í þörf fyrir félagslega aðstoð og félagslegt húsnæði. Auðvitað ber að fagna því að ákveðið hefur verið að gera enn átak í því máli með samkomulaginu við Alþýðusamband Íslands og í því samkomulagi við Kvennalistann sem hér hefur verið marglesið og ítrekað.
    Að því er varðar þá fjármögnun sem hv. þm. minntist á, þær 600 millj. sem eru í samkomulaginu við Kvennalistann, þá er í því samkomulagi gert ráð fyrir að 500 millj. kr. komi á næsta ári. Það verður því fjallað um það við næstu fjárlagaafgreiðslu og þar kemur líka fram að um raunaukningu eigi að vera að ræða. 100 millj. af þessum 600 millj. er ætlað að komi á þessu ári. Um það hvaðan það fjármagn verður tekið hefur ekki verið tekin ákvörðun um af ríkisstjórninni en það hefur komið fram í þessu samkomulagi að ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að fjármagn fáist. Ég sé því enga ástæðu til þess að ætla að ríkisstjórnin standi ekki við það samkomulag sem hún hefur gert í því efni, enda er það í samræmi við stefnu þessarar ríkisstjórnar að byggja upp félagslega íbúðakerfið.