Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 16. maí 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að gefa færi á að reyna að ljúka þessum umræðum. Vegna spurninga hv. 1. þm. Vestf. um Atvinnuleysistryggingasjóðinn og fjárhag hans bið ég hann forláts á því að hafa ekki vikið orðum að þeirri spurningu. Það var ekki ásetningssynd heldur yfirsjón af minni hálfu og ég heyrði þetta ekki nógu vel.
    En svarið er að ég sé ekki neitt í því sem hingað til hefur verið gert sem bindur ákvarðanir um framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðsins í eina átt eða aðra á næsta ári. Ég minni aðeins á að það að beina fé sem annars hefði runnið til Atvinnuleysistryggingasjóðs til Atvinnutryggingarsjóðs eins og gert var með bráðabirgðalögunum 28. sept. í fyrra var einfaldlega til þess að þjóna því markmiði sem atvinnuleysistryggingunum er sett og því aðeins var það réttlætanlegt. Ég held að sá útgjaldaauki, sem fylgir 6., 7. og 8. gr. frv. í þeirri mynd sem það kemur frá hv. Ed., sé ekki þungt vegandi fyrir fjárhag sjóðsins. Af þeirri ástæðu sé ég því ekki þörf á því að endurskoða þessar ákvarðanir sem hv. þm. vitnaði til. Það er engu að síður svo að þótt þessu fylgi ekki verulegar skuldbindingar fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð þá geta þessar greiðslur skipt ákaflega miklu máli fyrir það fólk sem hefur orðið fyrir þeirri hremmingu að hafa ekki vinnu svo langan tíma sem um er fjallað í 6. gr. frv. Því er þessi tillaga flutt. Hins vegar er í 7. og 8. gr. fyrst og fremst um það að ræða að flýta greiðslum og ábyrjast þær fremur en að leggja varanlegar byrðar á Atvinnuleysistryggingasjóðinn.
    Að lokum vegna þess sem hv. 1. þm. Vestf. vék að og ég hafði nefnt, um betra jafnvægi í efnahagsmálum, þá var það fyrst og fremst, eins og hann réttilega gat um, tilvitnun í orð seðlabankastjóra á ársfundi Seðlabankans þar sem þessi orð féllu nákvæmlega eins og ég fór með þau. Í öðru lagi benti ég á að viðskiptahalli væri miklum mun minni fyrstu þrjá eða fjóra mánuði þessa árs en var í fyrra og minna en spáð hafði verið og, sem ég held að sé líka óumdeilanlegt, að afkoma útflutnings- og samkeppnisgreina hafi þrátt fyrir allt skánað. --- [Fundarhlé.]