Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Mér er ljóst að frv. sem hér er til umræðu verður að lögum. En e.t.v. einmitt þess vegna er rétt að eyða dálítilli stund til að hugleiða hvernig Alþingi Íslendinga stendur að fjárútlátum á fjárlögum.
    Það er útbreiddur misskilningur að stærstu ákvarðanir í þeim efnum séu teknar í desembermánuði ár hvert. Stærstu ákvarðanir í þeim efnum hafa ávallt verið teknar í maímánuði á sama ári, þ.e. þessa dagana er Alþingi Íslendinga að moka út ákvörðunum sem þýða ákvarðanir um fjárlög í haust. Þannig standa málin.
    Hvatinn að frv. sem hér er til umræðu er að fyrir Haag-dómstólnum er verið að reka tiltekið mál og menn segja: Við verðum að taka þær ákvarðanir sem duga til þess að hægt sé að sýna fram á að við séum búnir að tryggja það réttarfar í þessu landi sem samrýmst getur þeim samþykktum sem við höfum skuldbundið okkur til að standa að. Gott og vel. Útgáfan að því hvað við þurfum að gera er aftur á móti á mjög mismunandi vegu. Sumir fullyrða að við þurfum aðeins að staðfesta að sjálfstæði örfárra manna sem í dag raunverulega vinna þessi verk hjá sýslumannsembættunum sé nægilega mikið til að hægt sé að líta svo á að þeir séu óháðir dómendur. En þetta dugar ekki. Við erum staðráðnir í því að hella yfir íslenska þjóð verulegum kostnaði í þessum efnum. Og satt best að segja verð ég að segja eins og er að ég tel að það sem fyrst og fremst sé í ólagi í íslenska dómskerfinu sé það að við erum ekki lengur öruggir um það hvort dómar Hæstaréttar séu samhljóða vegna þess að við erum búnir að kljúfa dóminn. Við erum komnir með of marga menn í Hæstarétt til að niðurstaða hans, vegna þess að dómurinn er klofinn, sé fordæmisgefandi gagnvart þeim aðilum sem eru að dæma í undirrétti. Þú rekur ekki lengur prófmál fyrir Hæstarétti Íslands vegna þess að það er hlutkesti sem ræður hver niðurstaðan verður. Þetta er það sem ekki gengur í íslenska dómskerfinu og er aðalatriðið.
    Annað er það sem ég vildi segja í þessu sambandi. Ég var skipaður í nefnd fyrir nokkrum árum til að fara yfir stöðu fangelsismála á Íslandi. Og ef ég man þetta rétt tengdist þetta þáltill. sem núv. félmrh. flutti. Við fórum í vettvangskannanir í íslensk fangelsi. Ég verð að segja eins og er að óneitanlega væri ég glaðari að standa að því á fjárlögum í haust að setja peninga til þess að reyna að koma fangelsismálum Íslendinga í viðunandi horf. En við erum harðákveðin í því að afgreiða hér og nú útgjöld vegna dómskerfisins og vitum jafn vel að þegar kemur að fangelsismálunum verður niðurskurðarhnífurinn á lofti. Ég held nefnilega að það þurfi að fara að skoða það í alvöru hvort ekki sé skynsamlegt að afhenda fréttamönnum og þingmönnum reglulega í lok þingsins lista yfir það hvað ákvarðanirnar sem menn hafa verið að taka á seinustu vikum kosta ríkissjóð mikið á næsta ári.
    Það getur vel verið að menn segi: Þetta eru góð mál. Þetta er falleg skipan. Við ætlum að hafa þessa menn á ferðalögum á Vestfjörðum, í Strandasýslu og

í Barðastrandarsýslu. Við ætlum ekki kalla fólkið á staðina. Við ætlum ekki að boða menn úr Strandasýslu til að mæta fyrir dómi á Ísafirði. Við ætlum að halda þetta dómþing í Strandasýslu. --- Ég held aftur á móti að varðandi það atriði hafi það gleymst að fyrsta verkefni sýslumanna varðandi dómsmálin hefur verið að reyna að vinna að sáttum og margir af mætustu sýslumönnum vors lands náðu undraverðum árangri í þeim efnum að sætta menn. Það er nefnilega ekki víst að undir öllum kringumstæðum sé skynsamlegt hjá aðilum að standa í þeim deilum sem þeir standa í frammi fyrir dómstólum. Ég óttast mjög að það verði afturför hvað þetta snertir með þeirri tilfærslu sem verið er að leggja til. Mér er ljóst að það er hægt að heimila að greiða útlagðan kostnað sem vitni þarf að hafa af því að þurfa t.d. að mæta á dómsstað ef það þarf að fara langan veg. Ég hygg aftur á móti að það hafi sárasjaldan gerst að þetta hafi verið gert og oftast nær hafi menn mátt búa við að hafa slíkar kvaðningar bótalaust. Hins vegar hlýtur það að koma til umhugsunar þegar þetta frv. er samþykkt og verið er að tala um að menn ætli að dæma málin á hinum ýmsu stöðum hvernig slíkar yfirlýsingar hafi raunverulega haldið þó þær hafi verið gefnar hér í þinginu. Hvernig héldu yfirlýsingarnar sem voru gefnar á Alþingi Íslendinga varðandi Bifreiðaskoðun Íslands hf.? Þar er réttlætið komið í hlutafélag og eigendur hlutafélagsins útdeila réttlætinu. Alþingi samþykkti og ber alla ábyrgð á þeim.
    Ég er nefnilega ekki búinn að sjá að það verði niðurstaðan þegar fram líður að þeir hinir háu herrar sem setjast að á hinum ýmsu stöðum muni nenna að standa í því að þvælast mikið á milli heldur verði niðurstaðan sú að þeir boði menn á sinn fund og þá gæti farið svo að sumum þætti þeir þurfa að fara um nokkuð langan veg og e.t.v. gæti niðurstaðan af réttarbótinni miklu orðið hin fleygu orð í Íslandsklukkunni sem höfð eru eftir Jóni Hreggviðssyni eða búin til af nóbelsskáldinu: ,,Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti.`` Því segi ég þetta hér og nú að ég vil að þetta komi fram. Ég er ekki trúaður á það að við séum að bæta íslenskt dómskerfi í neinu samræmi við þann aukna kostnað sem við erum að leggja til.
    Ég er hér með möppu með gögnum og aðalniðurstaðan, þegar yfir þetta er
farið, er að það hafa verið mjög mismunandi viðhorf hjá lögfræðingum í þessu landi og sýslumönnum um það hvort sú breyting sem menn eru að leggja til sé æskileg. Og eitt sýnist mér að blasi við: Ég held að þetta kalli á enn eina gengisfellinguna á sýslumönnum. Það er nú spurning hvort sú mynt þolir mikið fleiri gengisfellingar því að satt best að segja held ég að það sé orðið alvörumál líka ef við skoðum þetta að það er trúlega betra að gerast innheimtulögfræðingur hér í Reykjavík undir annarra stjórn en að taka við veigaminnstu embættunum í sýslumannskerfi landsins eftir að þessi breyting hefur verið gerð.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að þreyta þetta þinghald

með langri ræðu um þetta mál, en ég vildi að þessar efasemdir mínar kæmu hér fram.