Leigubifreiðar
Miðvikudaginn 17. maí 1989

     Benedikt Bogason:
    Herra forseti. Það er aðeins örstutt. Kannski sem svar við svari hv. 2. þm. Austurl. sem er talsmaður nál. Eins og ég sagði áðan er það að mörgu leyti ágætt það sem það nær, en mér finnst það ná of skammt og ég mundi heldur vilja láta þetta taka einhverja mánuði í viðbót og reyna að enda vissa slæma hluti sem hafa viðgengist í áratugi. Það kann vel að vera að einhverjir vilji viðhalda einhverjum sérstökum atriðum sem maður hefur stundum heyrt gagnrýnd, en ég treysti mér ekki til þess að fara út í það á þessum stað og þessari stundu. En í sambandi við 5. og 6. gr. mundi ég eftir því þegar hæstv. samgrh. fór að ræða um erfiðleikana --- sem ég hef fulla samúð með því að ég hef kynnst því aðeins. Ég veit að þetta er erfitt. En mér hefur verið tjáð að nýlega hafi fallið hæstaréttardómur um einmitt þetta varðandi stéttarfélagið. Hæstiréttur úrskurðaði að þetta stæðist ekki á grundvelli þeirrar reglugerðar, eftir því sem ég skil, og þetta stæðist ekki gagnvart stjórnarskránni. Reglugerðir verða að standast gagnvart lögum og lög gagnvart stjórnarskránni þannig að ég sé ekki að það standist gagnvart stjórnarskránni heldur ef þetta er rétt.
    En það sem mig langar sérstaklega til að leggja áherslu á við hv. 2. þm. Austurl. er að mér finnst það dálítið ,,kómískt`` að einmitt hann, sem kemur frá rótum alræðis öreiganna, skuli alveg bíta sig í þetta orð, ,,eigi``. Við getum ekkert miðað við það okurkerfi sem óx hér allt í einu upp öllum að óvörum og heitir kaupleiga. Ég býst við því að þessi okurvíma fari að renna af Íslendingum eða þeim hluta Íslendinga sem hafa stundað þetta á næstunni. Ég þekki þetta í útlöndum, siðmenntuðum löndum þar sem kaupleiga er notuð sem mjög hentugt og heppilegt tæki og Íslendingar hafa t.d. notað það mjög mikið í sambandi við flugvélakaup. Loftleiðir notuðu þetta alltaf á sínum tíma og það er notað enn. Kaupleigukerfið á nefnilega að bjóða upp á lægri vexti en venjuleg bankalán vegna þess að tökurétturinn er svo ótvíræður og skýr. Um leið og kaupleigan kemur inn í landið er smellt á tvöföldum vöxtum. Þess vegna, ef hér myndast heilbrigt kaupleigukerfi, er mjög hagstætt fyrir efnalitla menn sem eru að hefja sinn atvinnurekstur að taka kannski allt upp í heilt atvinnutæki á kaupleigusamningi. Ég býst við að hv. þm. hafi átt við það að við vitum mýmörg dæmi um hvernig bæði leigubílstjórar og smábátaeigendur hafa flækt sig í þetta okurnet. En Íslendingar eru siðmenntuð þjóð og við erum að sjá í gegnum þennan okurvef sem hefur lagst yfir þjóðina á síðustu 5--6 árum og við skulum vinna okkur út úr honum. Það er það sem ég er með í huga sérstaklega. Fyrir utan að það tíðkast nú líka að menn ná sér í lán á lágum vöxtum meðan þeir eru að koma sér í gang finnst mér að þetta eigi ekki að standa þarna í lögum.