Skýrsla umboðsmanns Alþingis
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim hv. þm. sem hér hafa talað um þýðingu þeirrar umræðu sem hér fer fram með tilliti til þess starfs sem umboðsmaður Alþingis vinnur og honum er ætlað að sinna samkvæmt þeirri löggjöf sem Alþingi hefur sett þar um. Ég skal ekki fjölyrða um þessa skýrslu en ég vil vekja athygli á því ef það gæti orðið til eftirbreytni að þessi skýrsla, sem dagsett er í febrúar, er núna til umræðu á seinustu dögum þingsins. Ég hefði talið eðlilegt og rétt að þessi umræða hefði farið fram töluvert mikið fyrr. Ég hef ekki dagsetninguna á því hvenær hún barst til Alþingis en ég trúi því að hún sé búin að liggja hjá þingmönnum um nokkurt skeið. Þetta mál er þess eðlis að það þarf að gefa þinginu góðan tíma til að ræða það en það sem gerist, þ.e að umræðunni er ætlað að fara fram á tveimur seinustu sólarhringum þingsins, sýnist mér ekki vera í samræmi við þá hugsun sem liggur að baki stofnun þessa embættis og því að þessi embættismaður gefi Alþingi slíka skýrslu. Að öðru leyti, eins og ég sagði, tek ég undir þau sjónarmið sem hér komu fram hjá hv. þm. og tel að þessi umræða sé og komi síðar meir til með að verða enn þýðingarmeiri en hún er í dag. Þetta er fyrsta umræða sem fer fram um skýrslu umboðsmanns Alþingis og við munum að sjálfsögðu sjá um það þegar fram í sækir að hún verði höfð með þeim hætti að alþingismenn geti gefið sér tíma til skoðunar og umræðu.