Viðskipti á hlutabréfamarkaði
Fimmtudaginn 18. maí 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég taldi rétt að hinkra við af því að ég ætla að beina orðum mínum til viðskrh. og meðan hann var á þessum prívatfundi við hv. þm. taldi ég ekki við hæfi að trufla þau fundahöld.
    En ég vildi taka undir þau orð sem hafa fallið í garð hæstv. ráðherra um það að hann hafi sýnt þessu málefni, þ.e. að reyna að örva verðbréfaviðskipti á Íslandi, sérstaklega mikinn áhuga sem og einnig með sérstöku tilliti til þess að hæstv. ráðherra hefur lagt áherslu á að reyna að skapa þau skilyrði að hér gæti verið líflegur hlutabréfamarkaður. Að vísu vil ég samt segja það að eftir að hæstv. ráðherra fór í núv. ríkisstjórn hefur ekki verið staðið þannig að málum að hæstv. ráðherra gæti staðið við þau góðu fyrirheit sem hann hefur haft undanfarin ár um að hann vildi efla hér heilbrigðan hlutabréfamarkað vegna þess að núv. ríkisstjórn hefur því miður staðið þannig að málum að allt sem hún gerir stefnir að því að eyðileggja það að hér geti orðið frjáls og öflugur hlutabréfamarkaður. Því miður. Stefna núv. ríkisstjórnar er svo neikvæð gagnvart íslensku atvinnulífi og gagnvart þeim eignaraðilum sem hugsanlega gætu komið til skjalanna í sambandi við verðbréfakaup og væntanlega aðild að fyrirtækjum að ég geri mér litlar vonir um það að hæstv. ráðherra geti staðið við þau fyrirheit sem hann gaf og sem hann hefur endurtekið í ræðum á þingi í vetur. Það eru aðrir aðilar sem koma í veg fyrir það að hæstv. ráðherra geti komið góðum áformum sínum í framkvæmd. Því miður. Hins vegar tek ég undir það að hæstv. ráðherra hefur sýnt fullan vilja til þess en greinilega ekki ráðið við það þegar á átti að herða.
    Ég vildi, virðulegi forseti, fá að segja nokkur orð um þessa þáltill. og einnig víkja nokkuð að ræðu hv. þm. Friðriks Sophussonar af því tilefni. Það er góðra gjalda vert að leggja fram þáltill. sem fela það í sér, eins og þessi till., að örva skuli viðskipti á hlutabréfamarkaði á Íslandi. En það sem er náttúrlega grundvallaratriði ef það á að gerast er auðvitað að það verður að skapa almenn og jákvæð starfsskilyrði í atvinnulífinu til að svo geti orðið. Það þarf einnig að efla trú fólksins á því að það eigi að taka þátt í atvinnulífinu með eignarhlutum. Þá þarf ekki síður að breyta viðhorfum alls almennings varðandi atvinnurekstur því viðhorf fólks til atvinnurekstrar á Íslandi er því miður mjög neikvætt. Ég vil þar helst kenna því um að íslensk stjórnvöld hafa því miður verið allt of neikvæð í afstöðu sinni til atvinnulífsins og til sjálfstæðs atvinnurekstrar. Opinber afskipti, ríkisafskipti á öllum sviðum hafa því miður hamlað þar gegn því að einstaklingar gætu komið að íslenskum atvinnurekstri með þeim hætti að það væri aðlaðandi eða það örvaði viðskipti með hlutabréfum.
    Ég hef átt þess kost í tæplega tvo áratugi að fylgjast nokkuð með íslensku atvinnulífi og þeim þætti er lýtur að því að fyrirtæki eða sjóðir og bankar kæmu til skjalanna sem kaupendur að hlutabréfum. Ég verð því miður að segja að það hefur ekki verið skilningur fyrir hendi af hálfu ríkisvaldsins, það hefur ekki verið skilningur fyrir hendi sem skyldi af hálfu

valdamikilla embættismanna í íslensku embættismannakerfi og það hefur ekki verið skilningur á því í íslensku bankakerfi hvernig að þessum málum ætti að starfa.
    Þessi markaður er mjög þröngur. Við búum við lítið og þröngt hagkerfi sem skapar því miður ekki þá miklu möguleika sem menn hafa víða í löndum í kringum okkur. Fyrir utan það er ekkert land í Vestur-Evrópu sem býr við skattalöggjöf sem er jafnneikvæð gagnvart því að menn eigi hlutabréf þannig að þau beri sama arð og t.d. skuldabréf eða jafnvel það að ávaxta sína peninga á bundnum reikningum í bönkum. Þetta hefur auðvitað haft það í för með sér að almenningur hefur ótrú á því að einstaklingar eigi að reyna að eignast eignarhlut í fyrirtækjum, auk þess sem almenningur er því mjög andvígur að þeir sjóðir, sem hugsanlega gætu verið hér stórir aðilar að, taki yfirleitt þátt í íslensku atvinnulífi með þeim hætti sem hæstv. viðskrh. vill stefna að og við viljum flestöll gera sem aðhyllumst frjálst efnahagslíf.
    Ef við lítum á starfsskilyrði sjáum við strax að sú atvinnugrein, sem helst ætti að vera sá vettvangur sem við mundum beina peningum til í formi hlutabréfakaupa, er auðvitað sjávarútvegur og fiskiðnaður. Starfsskilyrði þessara atvinnugreina hafa verið með þeim endemum síðustu árin og enn er ekki aðlaðandi fyrir fólk að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum í íslenskum sjávarútvegi og fiskiðnaði. Það hefur m.a. haft það í för með sér að þar sem sjávarútvegur og fiskiðnaður eru sífellt vera rekin með tapi hafa þeir, sem bera ábyrgð á stórum sjóðum sem almenningur á, ekki treyst sér til þess að mæla með því sem skyldi að keypt yrðu hlutabréf í stórum og ég vil segja sæmilega vel reknum fyrirtækjum á þessu sviði, því miður, vegna þess að þessi aðalatvinnugrein þjóðarinnar er alltaf rekin á horriminni. Það er sama hvaða ríkisstjórn er við völd á Íslandi. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál.
    Það sama má segja um almennan iðnað. Það er mjög erfitt að reka fyrirtæki í iðnaði þannig í dag að þau hafi þann arð að það sé fýsilegt að festa peninga í þessum fyrirtækjum. Það er helst á sviði þjónustugreina sem það hefur komið til greina að leggja fé í kaup á hlutabréfum. En þá kemur það að núv.
ríkisstjórn hefur breytt skattalögum þannig að það er óhagkvæmt að fjárfesta í hlutabréfum. Það er yfirleitt óhagstætt að eiga miklar eignir á Íslandi.
    Við þetta bætist svo það að vissir forustumenn stjórnmálaflokkanna hafa sífellt verið að tönglast á því að þeir sem taka þátt í slíkum viðskiptum, hvort sem það eru skuldabréfakaup eða hlutabréfakaup, séu að versla á hinum svokallaða gráa markaði. Það eitt út af fyrir sig gerir það að verkum að menn veigra sér við að koma inn á þetta viðskiptasvið og þarf ærið þrek til vegna þess að þegar slíkir menn koma í fjölmiðlana með þeim orðum og athöfnum sem þeir hafa gert á undangengnum árum er það ekki fýsilegt fyrir þá sem eiga að taka þátt í að fjárfesta mikið fé

í íslensku atvinnulífi sem býr við erfiðar kringumstæður.
    Varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði um lífeyrissjóðina, þá kom hann inn á atriði sem hefur verið hálfgert feimnismál, ég vil segja því miður, fyrir íslenskt atvinnulíf. Það er um þátttöku lífeyrissjóðanna í íslensku atvinnulífi með öðrum hætti en þeim að lána bara peninga. Það er fyrir löngu tímabært að íslenskir lífeyrissjóðir komi inn í atvinnulíf á Íslandi sem hluthafar.
    Virðulegi forseti, vegna þess að þetta er eiginlega meginmál vil ég að lokum segja að lífeyrissjóðirnir hafa ekki getað fengið að taka þátt í því að kaupa hlutabréf í stórum fyrirtækjum, m.a. vegna þess að þetta er lokaður markaður. Það eru ekki nema örfá stór fyrirtæki á Íslandi sem hafa þá rekstrarafkomu sem réttlætir það að lífeyrissjóðirnir kaupi hlutabréf.
    Því miður er mínum tíma lokið. Ég hefði viljað koma inn á það atriði, virðulegur forseti, þar sem ráðherra talaði um að hann vildi opna möguleika á erlendum viðskiptum. Það hefur hann sagt áður en það er því miður ekki komið til framkvæmda. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann ætli að koma því í höfn núna á þessu vori að slík viðskipti geti hafist.