Afgreiðsla mála úr nefndum
Föstudaginn 19. maí 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það var gert um það samkomulag milli flokka í fyrsta lagi að það frv. sem liggur fyrir í Nd. um umhverfismál kæmi ekki úr nefnd og í öðru lagi um að frv. um rétt til fiskveiða í landhelgi Íslands fengi þinglega afgreiðslu í hv. deild. Ég hef nú farið fram á það við formann sjútvn. að fundur verði kallaður saman í nefndinni til að ræða þetta frumvarp og ég hef enn fremur vakið athygli forseta deildarinnar á því að um það hafi verið gert samkomulag að þetta frumvarp kæmi til þinglegrar meðferðar. Hvorugur þessara þingmanna vill verða við þeirri beiðni minni að sjútvn. verði kölluð saman, formaður nefndarinnar að kalla nefndina saman og forseti deildarinnar að beita áhrifum sínum til þess að sjútvn. verði kölluð saman.
    Ég vil af þeim sökum biðja hæstv. forseta að gera hlé á þessum fundi og ganga úr skugga um hvort ég fari með rétt mál eða ekki. Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef. Við höfum í stjórnarandstöðunni tekið mjög lipurlega á þeim málum sem hér hafa verið til umræðu þó umdeild séu. Við höfum meira að segja stillt okkur um að spyrja hæstv. húsnæðisráðherra hvernig honum hafi gengið að halda utan um húsnæðismálin þann tíma sem hann hefur gegnt því embætti og fer nú fáum góðum sögum af og væri auðvitað ástæða til að ræða ítarlega um það hér í þessari hv. deild. Við höfum líka stillt okkur um það að ræða um hvernig komið er fyrir sjávarútveginum eftir allan þann tíma sem núv. sjútvrh. hefur gegnt því embætti á eftir formanni Framsfl. Þegar talað er um góðar horfur í sjávarútvegi um langt skeið verður maður að leita til þess tíma áður en formaður Framsfl. eða varaformaður Framsfl. gegndi því embætti.
    Ég vil því, herra forseti, óska eftir því að það verði gert hlé á þessum fundi og það verði gengið úr skugga um hvort þær upplýsingar sem ég hef um þetta mál séu réttar eða rangar og ég vil enn fremur hvetja hæstv. forseta enn til þess að sjá um að sjútvn. verði kölluð saman. Þetta frv. hefur verið samþykkt í Nd. Við höfum eytt dýrmætum tíma þingdeildarinnar nú til þess að vísa málinu til nefndar. Ef hugmynd forseta hefur verið að málið skuli stranda þar hefði verið nær að taka málið ekki á dagskrá.