Tekjustofnar sveitarfélaga
Föstudaginn 19. maí 1989

     Sighvatur Björgvinsson:
    Herra forseti. Það er stefna míns flokks að allir eigi að vera jafnir fyrir lögum, einnig þeir sem greiða skatta. Það er ekki eðlilegt að undanþiggja í landslögum einhverja tiltekna tegund fyrirtækja eða atvinnurekstrar því að greiða gjöld sem almennum atvinnurekstri er ætlað að greiða. Ef menn vildu í þessu tilviki undanþiggja þá aðila sem hér um ræðir skattgjöldum er hægur vandi að gera það með ákvörðun sveitarstjórnar því að sveitarstjórn sjálf getur undanþegið þá aðila aðstöðugjöldum sem menn kæra sig um.
    Þá er það einnig ekki eðlilegt þegar um er að ræða atvinnurekstur sem hugsanlega gæti farið út í samkeppnisstarfsemi við aðra tegund atvinnurekstrar sem ekki er undanþegin umræddum gjöldum. Þannig gætu sláturhús sem eru undanþegin gjöldunum eins og frv. er nú úr garði gert t.d. lagt út í kjötvinnslu í samkeppni við kjötvinnslufyrirtæki án þess að þurfa að greiða aðstöðugjald af þeirri starfsemi.
    Enda þótt tekist hafi að lagfæra málin þannig í Ed. að atvinnurekstur mjólkurbúa sem tengist átöppun áfengis eða gerð grauta og pökkun þeirra sé ekki lengur undanþeginn aðstöðugjaldi heldur ber að greiða aðstöðugjald fyrir það, sem er til mikilla bóta því að ég sé ekki rök fyrir því að ekki eigi að greiða aðstöðugjald fyrir átöppun áfengis eða grautargerð, væri engu að síður möguleiki og unnt fyrir mjólkurbú eins og frá frv. yrði gengið við þessa afgreiðslu að fara t.d. út á þá braut að hefja sælgætisgerð í samkeppni við sælgætisverksmiðjur sem þurfa að greiða aðstöðugjöld og losna við aðstöðugjöld af því. Vissulega má heimfæra ákveðinn hluta sælgætisgerðar eins og t.d. gerð súkkulaðis og hvers konar sælgætis sem unnið er úr súkkulaði undir mjólkuriðnað. Sama er um bakarí. Mjólkurbú gætu stofnað bakarí. Það er iðnaður úr mjólk og er undanþeginn aðstöðugjaldi. Ég er ekki að segja að þetta gerist, en gerist þetta verður Alþingi að sjálfsögðu að taka á málunum að nýju.
    Hér er hins vegar um að ræða að menn verða að meta hagsmuni. Ef sú tillaga yrði samþykkt sem hér liggur fyrir frá hv. alþm. Geir Haarde væri ljóst að miklu stærra máli yrði stefnt í hættu sem er verkaskiptamálið milli ríkis og sveitarfélaga sem er nú við lokaafgreiðslu. ( GHH: Það er orðið að lögum.) Þarna vil ég ekki og hef ekki viljað standa í vegi fyrir samkomulagi sem hefur verið gert á milli stjórnarflokkanna þar sem meiri hagsmunir réðu en minni hagsmunum var fórnað. Þess vegna mun ég ekki greiða þessari tillögu Geirs Haarde atkvæði, en tek fram að ef sú þróun verður, sem ég var að nefna, að lögin gætu út af fyrir sig heimilað að þeir aðilar sem undanþegnir eru aðstöðugjaldi settu upp frekari iðnað úr þeim vörum sem þeir framleiða í samkeppni við önnur fyrirtæki sem aðstöðugjöld eru látin greiða, er tímabært fyrir Alþingi að taka málin að nýju til skoðunar og ég trúi því ekki að sá sé vilji Alþingis að þannig sé haldið á málum.
    En eins og ég segi, herra forseti, hefur verið gert ákveðið samkomulag þar sem minni hagsmunum var

fórnað fyrir meiri og þó svo það sé enn skoðun mín og minna flokksbræðra að allir eigi að vera jafnir fyrir lögum vil ég virða það.