Skýrsla um Sigló hf.
Föstudaginn 19. maí 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseta er ljúft og skylt að svara þessu. Forseti framsendi ekki erindi hæstv. fjmrh. Sama dag og erindi hans barst, sem hér hefur verið lesið, skrifaði forseti eftirfarandi bréf:

,,8. maí 1989.
    Hef móttekið bréf fjmrh. frá í dag varðandi málefni Sigló hf. Þar sem fram kemur í bréfinu að afrit hefur þegar verið sent Ríkisendurskoðun sér forseti ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu.``
    Undirritað Guðrún Helgadóttir.
    Ég hefði e.t.v. átt að geta þess í bréfinu, sem ég gat í samtali mínu við hæstv. fjmrh., að auðvitað er það gersamlega fráleitt að einhver aðili, hvort sem það er ráðherra eða hv. þm. ( SighB: Eða ígildi.) eða ígildi, fari inn í skýrslubeiðni þingmanna sem þegar hafa lagt hana fram. Þeir hafa beðið um og óskað eftir ákveðnum upplýsingum og auðvitað hefur Ríkisendurskoðun enga skyldu aðra en að svara því hafi forsetar sent slíkt erindi til endurskoðunarinnar. Ég vil þess vegna upplýsa að ég tók ekki við þessu erindi nema til þess eins að svara því á þann veg að ég teldi ekki ástæðu til þess að senda það áfram. Hæstv. ráðherra tilkynnti mér síðan að hann mundi gera það sjálfur og ég hafði ekkert vald til að banna honum það. Fljótsvarað er því að ég tel að Ríkisendurskoðun hefði ekki átt að verða við erindi hæstv. fjmrh. á þennan hátt heldur hefði henni borið að gera nýja skýrslu með svari við því sem hann bað um, en ekki blanda því saman við allt aðra skýrslu um annað efni. Það er því skoðun mín að þarna hafi ekki verið rétt að farið. En ég vil taka fram að ég tel að forsetar þingsins hafi ekki brugðist við þessu nema á þann eina hátt sem við gátum.