Byggðastofnun
Föstudaginn 19. maí 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég tel að það sé ekki ofsögum sagt þó að úr þessum ræðustól sé fullyrt að byggðaþróun í þessu landi er á tímamörkum. Við höfum horft á það sem þróun að íbúum sem stunda landbúnað fækki og að þeir flytji sig annaðhvort til þorpa við ströndina eða til stærri bæja.
    Nú blasir það aftur á móti við að nýr brestur er kominn í byggðir landsins. Sá brestur er á þann veg að þorpin eru að bresta. Þeirra flutningur er hafinn af svæðunum til suðvesturhornsins. Mér skilst að flestir hér inni hlusti nema ráðherrar og kannski væri rétt að spyrja hæstv. viðskrh. að því hvað hefur verið framkvæmt af markmiði núv. stjórnar þar sem fullyrt er á bls. 10, með leyfi forseta: ,,Unnið verður að því að bæta aðstöðu verslunarfyrirtækja í dreifbýlinu.``
    Ég held að það væri ekki sanngjarnt að ég hellti úr skálum reiði minnar yfir ráðherra þá sem nú sitja og varpaði á þá allri sök í þessum efnum. Það væri ekki eðlilegur málflutningur. Hins vegar hljóta þeir að gera sér grein fyrir því að sem handhafar framkvæmdarvaldsins geta þeir meir en aðrir mótað þessa stefnu. Mér er sagt að hæstv. forsrh. hafi undir höndum breska skýrslu þar sem sagt er að fá lönd í hinum vestræna heimi eigi meiri efnahagslega möguleika en Ísland. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að innan tíu ára sé hægt að flytja rafmagn á milli landa. Mér er ekki kunnugt um að þessari skýrslu hafi verið flíkað, en kannski væri þarft að íslensk þjóð fengi upplýsingar erlendis frá um þá gífurlegu möguleika til hagsældar sem við eigum í þessu landi ef við berum gæfu til þess að nýta auðlindir landsins. En þær verða aldrei nýttar með þeirri aðferð, sem nú hefur verið viðhöfð, að vanmeta þau störf í landinu sem snúast um að afla erlends gjaldeyris en ofmeta þau störf sem snúa að þjónustunni.
    Ég held að hæstv. forsrh. þurfi að átta sig á því að það dettur engum manni í hug að hægt sé að hefja byggðaaðgerðir og ekki heldur æskilegt, mundi ég segja, að standa þannig að málum að við ætluðum okkur að flytja stóra hópa frá þéttbýli út á land. Það er hvorki pólitískur möguleiki fyrir slíku né hægt að líta svo á að svo markvisst sé staðið að málum á landsbyggðinni eins og hlutir standa nú að það sé hægt. En halda menn, ef þjóðflutningarnir miklu halda áfram hér innan lands, að við getum nýtt auðlindirnar með sömu stefnu? Ég segi nei. Það mun aldrei ganga upp.
    Við stöndum frammi fyrir því að annað tveggja mun gerast í þessu landi. Ef við yfirgefum stór landsvæði, þessi þjóð, og teljum þau svo léleg að menn eigi ekki að búa þar munu Sameinuðu þjóðirnar óska eftir því að fá þessi landsvæði fyrir íbúa sem í dag eru geymdir í aumustu fátækt á bak við gaddavírsgirðingar. Það fær engin þjóð að ráðskast þannig með sitt land að hún setji það í eyði og ætli engum þar að búa þegar offjölgun mannkynsins er staðreynd.
    Ég hef horft á að á undanförnum árum hafa yfir 90% af nýjum störfum í þessu landi orðið til í

þjónustu, farið yfir 94%, og stöðugt berast fleiri og fleiri stjórnarfrumvörp inn á Alþingi Íslendinga sem gera ráð fyrir nýjum þjónustustörfum á höfuðborgarsvæðinu. Það er þess vegna Alþingi Íslendinga og ráðherrar vors lands sem móta þá stefnu að fari maður til mennta utan af landi eru 90% líkur á því, vilji hann fá störf hjá hinu opinbera, að hann verði þar með að flytja suður. Ég segi þetta hér og nú vegna þess að ég efa mjög að skilningurinn sé til staðar. Og ég efa líka viljann til að setjast niður og hugleiða hvaða stefnubreyting þarf að eiga sér stað svo að byggðaþróun í þessu landi sé með svipuðum hætti og öðrum löndum Evrópu.
    Það var sett á stofn þingkjörin nefnd af þinginu undir forustu Lárusar Jónssonar til að skila áliti um þetta. Alþingi hundsaði gersamlega hennar niðurstöður og taldi þær einskis verðar. Menn þóttust vita betur í öllum aðalatriðum málsins. Þar var talað um m.a. að án þriðja stjórnsýslustigsins væri vonlaust að byggja upp það þjónustukerfi úti á landi og fara í það að jafna þeim störfum sem ég hef verið að tala um um landið. Nei. Menn segja að það sé nóg að hafa öflug sveitarfélög og þegar þeir tala um öflug sveitarfélög eru þeir að tala um sveitarfélög með innan við 500 manns ef landsvæðið er nógu stórt sem þau ráða yfir.
    Ég hygg að þó fróðlegt sé að skoða tölur í þessari bók og átta sig á því að framlög íslenska ríkisins til byggðamála hafa farið lækkandi og jafnframt þá fullyrðingu sem í henni er að hvergi í nágrannalöndunum væri litið svo á að lán með fullum vöxtum væru framlög til byggðamála, þá eru það samt þessar myndir og línurit sem hérna eru sem segja langmest. Kannski er það línuritið á bls. 33 og stóri rauði hringurinn sem mundi henta sem byrjunarfræðsla í þessum efnum.
    Mér er ljóst að mínar skoðanir á aðgerðum í byggðamálum hafa gersamlega orðið undir innan Framsfl. og eiga þar ekki meirihlutastuðning, m.a. þriðja stjórnsýslustigið. Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur þeim mönnum innan þess flokks sem telja að þeir viti betur í þeim efnum. Og ég vil bæta því við varðandi þessa hluti: Það verður of seint eftir 15 ár að segja: Við hefðum átt
að standa öðruvísi að þessu. Það getur nefnilega farið svo að Ísland lendi í sömu stöðunni og flest borgríki sögunnar. Sjálfstæði þess líði undir lok vegna þess að menn gáfust upp á því að byggja landið allt.