Framvinda þingfundar
Föstudaginn 19. maí 1989

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Okkur var tjáð um miðjan dag í dag að samkomulag hafi orðið milli ríkisstjórnarinnar og stjórnenda þingsins um að umræður um vegáætlun mundu hefjast í hv. Sþ. um sexleytið í dag. Nú er klukkan að verða 11 og nú tilkynnir forseti úr forsetastól að nauðsynlegt sé að fresta umræðu, sem hér varð samkomulag um að færi fram áður en vegáætlunarumræðan færi fram, til þess að hægt sé að leita afbrigða um hvort hægt sé að taka vegáætlunina fyrir þannig að hv. þm. geti farið heim og látið forseta og þá ræðumenn sem óska eftir að vera hér að fjalla um vegáætlun verða eftir í þinginu. Ég tel alveg fráleitt að hér sé frestað umræðu um Byggðastofnun til að hleypa þingmönnum heim svo þeir geti losnað við að fylgjast með umræðu um vegáætlun. Ég tel líka fráleitt að það sé farið að ræða um vegáætlun um það bil kl. 11. Eigum við að sýna landsbyggðarfólki og öllum þeim sem hafa áhuga fyrir þessu máli og líta á þetta mál sem eitt af stærstu afgreiðslumálum Alþingis að það sé nauðsynlegt að senda þingið heim, það sé nauðsynlegt að halda næturfund til að ræða þetta mál?
    Mér finnst það svo fráleitt og mér finnst það svo sjálfsagt að þessum fundi verði frestað og við hefjum umræðu um vegáætlun á mánudaginn kemur. Ég lít á það hreinlega sem móðgun við landsbyggðarfólk að þingið þurfi að flýta sér svo að það hafi ekki tíma til að ræða þetta mikilsverða mál á öðrum tíma en um miðja nótt.