Byggðastofnun
Föstudaginn 19. maí 1989

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég get tekið það strax fram að ég ætla ekki að tala langt mál. En ástæðan fyrir því að ég tek hér til máls eru þau orð sem hæstv. forsrh. lét falla fyrr í þessari umræðu. Reyndar hlýtur það að hafa vakið mikla eftirtekt hvernig þingmenn Framsfl. hafa látið orð falla við þessa umræðu og þá horfi ég nú út í hornið til þeirra félaga minna úr fjvn., Ólafs Þ. Þórðarsonar og Alexanders Stefánssonar. Það fór ekkert á milli mála hverjar meiningar þeir voru að flytja úr þessum ræðustól.
    Ég bíð á meðan ráðherrarnir eru að tala, virðulegi forseti. ( Forseti: Það er óskað eftir að hæstv. ráðherrar hlýði á mál ræðumanns.) Því var ég ekki sérstaklega að óska eftir, en það hefði hins vegar verið mér kærara að þeir kynnu mannasiði í Alþingi og hefðu vit á því að vera ekki að tala þegar þeir eru ekki í ræðustól.
    En út af orðum hæstv. forsrh. og þeim efasemdum sem komu fram í máli þingmanna Framsfl. langar mig að minna á boðskap hæstv. forsrh. í upphafi stjórnarferils þessarar ríkisstjórnar. Hann birtist m.a. í blaði framsóknarmanna í Kópavogi sem heitir Framsýn. Þar segir á forsíðu: ,,Hjól atvinnulífsins verða að snúast á fullri ferð.`` Til núverandi ríkisstjórnar var stofnað á grundvelli þessarar yfirlýsingar. Hjól atvinnulífsins ættu að fara á fulla ferð. Í viðtali við forsrh. sem birtist í þessu blaði segir svo, með leyfi hæstv. forseta, og vil ég nú biðja menn að taka vel eftir:
    ,,En það er ljóst að þegar líður að lokum þessa tímabils verður að skoða vel hversu mikið rekstrargrundvöllurinn hefur batnað. Reyndar þarf að fylgjast með því strax og ég ætla að hafa stöðuga varðstöðu yfir alla línuna.`` Menn taki eftir. Forsrh. ætlaði að hafa stöðuga varðstöðu yfir alla línuna.
    Enn fremur segir: ,,Tekst t.d. að ná vöxtunum enn meira niður fyrir þennan tíma? Raungengi krónunnar þarf að lækka. Við erum að lækka kaupmáttinn. Þetta verður væntanlega til þess að það dregur úr viðskiptahallanum. Ég tel að viðskiptahallinn sé alvarlegasta vandamálið sem eftir er að leysa. Þar er hins vegar ekki búið að taka inn í hvaða áhrif skattahækkanir hafa á viðskiptahalla, a.m.k. ekki til fulls. Við erum á mjög viðkvæmri braut þar sem í raun og veru þarf að hafa varðmenn úti á öllum sviðum.``
    Þessum varðmönnum stillti hæstv. forsrh. upp í byrjun stjórnarferils síns og þeir hafa staðið þar á verði síðan.
    Svo vill til að í blaði forsrh. frá því í gær segir með afar skýrum hætti hvernig varðstaðan hefur gengið. ,,Tuttugu dauðadómar kveðnir upp yfir fyrirtækjum``, segir á forsíðu. Svona hefur þá varðstaðan gengið. Og inni í blaðinu eru í rauninni enn merkilegri upplýsingar. Þar er boðskapur Framsfl. Þetta er blað forsrh., mannsins sem stillti upp varðmönnum á öll svið fyrir tæplega átta mánuðum. Þar segir: ,,Enginn héraðsbrestur þótt einhverjir fjúki.`` Og meira er nú að hafa í þessu blaði því að í

yfirfyrirsögn segir: ,,Viðbúið að um 40 fyrirtæki hverfi af sjónarsviðinu eftir endurskipulagningu í útflutnings- og samkeppnisgreinum.`` Forsíðan segir að það sé búið að kveða upp dauðadóm yfir 20 fyrirtækjum. Inni í blaðinu er sagt frá því að það séu ekki neinir héraðsbrestir þótt það fjúki 40 fyrirtæki. Þetta er boðskapur Framsfl. daginn áður en skýrsla Byggðastofnunar er rædd á Alþingi. Þetta kemur fram í málgagni forsrh. daginn áður en hann lýsir því hér yfir að Byggðastofnun hafi ekki það frumkvæði í byggðamálum sem henni beri og að það standi á Fiskveiðasjóði og öðrum slíkum sjóðum að greiða þessa götu.
    Það er kaldhæðni örlaganna að blað Framsfl., blað forsrh., skuli senda þjóðinni þessar kveðjur, senda þennan boðskap út um allt Ísland til fólksins sem þar lifir og starfar. Tuttugu fyrirtæki hafa fengið dauðadóm og 40 fjúka og það þýðir að mati blaðs forsrh. enga héraðsbresti. Þarna er stefnan. Þarna er árangurinn af stefnu núv. ríkisstjórnar. Þarna er komin fram varðstaðan sem var stillt upp á öllum sviðum í Kópavogi í októbermánuði sl.