Vegáætlun 1989-1992
Föstudaginn 19. maí 1989

     Frsm. minni hl. fjvn. (Pálmi Jónsson):
    Virðulegi forseti. Till. til þál. um vegáætlun sem ætlað er að gildi til fjögurra ára hlýtur að teljast meðal stórmála þingsins. Það er því býsna lítill sómi sem þessu máli er sýndur á hinu háa Alþingi að hefja umræðu um þetta mál þegar dregur að miðnætti. Það er raunar svo komið að eftir að lokið er ræðu formanns og framsögumanns meiri hluta nefndarinnar sýnist vera næsta tilgangslítið að tala vegna þess að þingmenn eru ekki í salnum nema örfáir og fjölmiðlamenn eru gengnir til náða. Þetta er sannarlega alvarleg staða og ekki hægt að hugsa sér að þannig eigi að ganga til um hin þýðingarmestu mál. Ég er ekki að ásaka hæstv. forseta, enda þótt mér hafi fundist að mátt hefði taka þetta mál fyrr á dagskrá á þessum fundi en raun hefur á orðið, en ég hlýt einnig að segja að það má vitaskuld við fjvn. sakast vegna þess að till. er ekki afgreidd þaðan fyrr en í gær.
    Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum, en það er í rauninni hryggileg staða að þurfa að ræða jafnþýðingarmikið mál og hér er á ferðinni undir þessum kringumstæðum. Við fyrri umr. þessa máls, hinn 10. apríl sl., lýsti ég höfuðeinkennum tillögunnar eins og hún var þegar hún var lögð fram. Ég gagnrýndi það þá að tillagan var seint fram komin, en það sem e.t.v. var enn þá verra að tillagan var losaralega samin og um hana urðu strax deilur í röðum stuðningsmanna hæstv. ríkisstjórnar, þannig að sýnilegt var að þar var djúpstæður ágreiningur sem ekki hafði tekist að vinna bug á áður en tillagan var flutt. Þetta er vitaskuld ámælisvert og þetta er auðvitað hluti af því vandamáli sem við hefur verið að fást í starfi meiri hl. nefndarinnar sem ég mun koma að nokkru síðar í máli mínu.
    Þau höfuðeinkenni sem blöstu við þegar tillagan var flutt, auk þeirra vankanta sem ég hef hér lýst, voru auðvitað þau að eins og ákveðið var með fjárlögum og lánsfjárlögum voru lögboðnir tekjustofnar Vegagerðar ríkisins skertir að þessu sinni um 682 millj. kr. og það er í fyrsta sinn sem það gerist á þessu ári að lögboðnir tekjustofnar Vegagerðar ríkisins eru skertir með lánsfjárlögum og tekið stórfé, nær 700 millj. kr., af fé sem lög kveða á um að skuli ganga til vegamála beint yfir til þarfa ríkissjóðs. Þessu mótmælum við, fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjvn., og ég held að við höfum rætt þetta svo ítarlega innan fjvn. að við fjárveitinganefndarmenn, bæði meiri og minni hluti, séum sammála um að þetta megi ekki gerast oftar. Þetta er óhæfa miðað við þær miklu þarfir sem eru í vegagerð á Íslandi. Þetta er líka gagnrýnisvert vegna þess að um leið og vegafé er svo skert og skorið niður á þessu ári sem raun ber vitni er í senn um verulega aukna skattheimtu á umferðina að ræða.
    Ég rifja upp að þegar tillagan var lögð fram blasti þetta vitaskuld við ásamt einnig því að það vantaði fé til óhjákvæmilegra útgjaldaliða í tillögunni og vantar raunar enn bæði til vetrarviðhalds, þ.e. snjómoksturs, og til framkvæmda við Ólafsfjarðarmúla eins og fram kom í ræðu hv. frsm. meiri hlutans.

    Í þriðja lagi var engin grein gerð fyrir því hvernig skyldi skila því fé sem ríkissjóður hafði innheimt á árunum 1987 og 1988 af sérmerktum tekjustofnum vegamála umfram það sem gert var ráð fyrir samkvæmt vegáætlun. Þannig voru meiri háttar gallar á tillögunni eins og hún var sett fram og skal ég ekki orðlengja það, enda fór ég allítarlega yfir það mál við fyrri umr. um tillöguna þann 10. apríl.
    Það var því augljóst að það þurfti verk að vinna í fjvn. til að stoppa í götin á þessari tillögu og til að vinna hana betur auk þeirra venjulegu verka sem þar eru unnin með skiptingu á fé í framkvæmdaflokka milli kjördæma og á einstaka framkvæmdaliði.
    Ég get ekki komist hjá því að gagnrýna nokkuð hvernig vinnulag fjvn. hefur verið að þessu sinni. Nefndin hélt þrjá fundi þegar tillagan kom fram. Þessir fundir voru haldnir á tímabilinu 10.--18. apríl. Á þessum fundum var tillagan eins og hún var lögð fram tekin til umræðu. Þar voru starfsmenn Vegagerðar ríkisins, vegamálastjóri og hans starfsmenn, sem gáfu margháttaðar upplýsingar og skýrðu tillöguna eins og hún lá fyrir með kostum hennar og göllum. Þetta var eins konar frumyfirferð yfir tillöguna eins og hún var lögð fram. Síðan gerist það að það er eigi haldinn fundur í nefndinni um vegáætlun fyrr en 6. maí og þá var dreift eins konar áfangahugmyndum um breytingar á tekjuhlið og nýjum tillögum um útfærslu á fé til stórverkefna. Á grundvelli þessara áfangahugmynda var síðan þingmannahópum kjördæmanna falið að vinna að skiptingu vegafjárins, en þetta var gert án þess að tekin hefði verið ákvörðun um einn einasta lið í tillögunni, hvorki um skiptingu á fé á milli kjördæma né um skiptingu á fé á milli einstakra framkvæmdaþátta. Ég minnist þess aldrei að þingmenn kjördæma hafi fengið málin með þeim hætti í sínar hendur fyrr en nú. Þetta tel ég vitaskuld ámælisvert.
    Síðan líða enn dagarnir í fjvn. án fundahalda um þetta mál, allt til 17. maí eða í fyrradag, en þá voru haldnir tveir stuttir fundir og lokafundur í gær, 18. maí. Á þeim tíma var málið afgreitt eins og það lá fyrir hjá meiri hl.
nefndarinnar.
    Þegar afgreiðsla fer fram með slíkri skyndingu gefst ekki tóm til þess fyrir minni hlutann, sem haldið hefur verið frá málinu allan tímann að mestu leyti, að ræða þetta eins og nauðsynlegt er og það gefst heldur ekki tóm til að vinna upp ýmis gögn um þróun vegamála á áætlunartímabilinu vegna þess að starfsmenn Vegagerðar ríkisins, sem vissulega eru allir af vilja gerðir og sýna mikla lipurð í störfum sínum eins og jafnan áður, geta ekki unnið slík gögn upp fyrr en eftir að ákvarðanir hafa verið teknar. Og þegar ákvarðanir eru ekki teknar um einn einasta lið fyrr en á allra síðustu dögum, í gær og í fyrradag, vinnst ekki tóm til þess að útbúa slík gögn sem nauðsynleg þykja og a.m.k. minni hlutinn hefði kosið að geta náð að vinna upp.
    Ég vil láta þess getið að þetta vinnulag er að mínum dómi afar óhyggilegt og ekki til eftirbreytni.

Ég segi: Það er óvenjulegt, en ég hef komist að raun um að það er ekki einsdæmi í meðferð tillögu um vegáætlun í fjvn. Ég hef komist að raun um að árið 1977 var svipað haldið á málum af þáv. forustu nefndarinnar og ég hef hér ræðukafla eftir framsögumann minni hlutans frá þeirri tíð, hv. þm. Geir Gunnarsson, sem mig langar til að vitna til með örfáum orðum. Í ræðu hv. þm. Geirs Gunnarssonar frá þessum tíma um vegáætlun 1977--1980 segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í þáltill. um vegáætlun eins og hún er jafnan lögð fram eru ekki gerðar tillögur um skiptingu fjár til nýrra þjóðvega á milli kjördæma eða til einstakra verkefna fremur en um er að ræða í fjárlagafrv. varðandi fjárveitingar til hafnaframkvæmda, sjúkrahúsabygginga, flugvalla eða samsvarandi verklegra framkvæmda. Til þess starfar fjvn., öll nefndin, að ræða þá skiptingu og gera um hana tillögur. Ýmist fjallar öll nefndin um slíkar frumtillögur eða nefnd er skipt í starfshópa eða undirnefndir þar sem sæti eiga venjulega tveir nefndarmenn frá meiri hl. og einn frá minni hl. nefndar og fylgjast þá gjarnan allir nefndarmenn með hvað tillögugerð undirnefndar líður áfram en þær ganga endanlega frá sínum tillögum til allra nefndarmanna.``
    Síðar segir hv. þm.: ,,Í nærfellt einn mánuð frá því að þáltill. um vegáætlun var vísað til fjvn. vann hún sem heild ekkert að tillögugerð að venjulegum starfshætti nefndarinnar heldur sat meiri hl. nefndarinnar einn að störfum með starfsliði Vegagerðarinnar og gekk frá endanlegum tillögum um tilfærslur á fjárveitingum milli útgjaldaliða og um skiptingu fjár milli kjördæma, bæði varðandi stofnbrautir og þjóðbrautir. Þegar þær endanlegu tillögur sem hér liggja óbreyttar fyrir á þskj. 428 höfðu verið fjölritaðar var kallað á minni hl. nefndarinnar og ákvörðunum útbýtt.``
    Hér var um vinnulag að ræða sem er nokkuð sambærilegt við það sem var hjá fjvn. að þessu sinni. Í heilan mánuð var aðeins einn fundur haldinn þar sem, eins og ég sagði, áfangahugmyndum var útbýtt um tekjuhliðina og nokkrum tillögum og gögnum varðandi gjaldahlið án þess að nokkuð væri afgreitt eða umræða færi fram um það við minni hl. hvernig það skyldi afgreitt.
    Í ræðu hv. þm. Geirs Gunnarssonar segir enn, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ég hef ekki kynnst slíkum aðferðum hjá neinum þeim sem stjórnað hafa störfum í nefndinni í u.þ.b. hálfan annan áratug sem ég hef átt sæti í fjvn. og ég vænti þess fastlega að slíkir starfshættir verði ekki viðhafðir framvegis. Sé það ætlunin að innleiða þá starfshætti sem nú voru viðhafðir sé ég ekki að minni hl. nefndarinnar, hverjir sem hann skipa hverju sinni, þurfi að hafa fyrir því að ómaka sig á fund í nefndinni.``
    Þetta voru orð hv. þm., þess reynda fjárveitinganefndarmanns, á árinu 1977.
    Hann segir enn fremur undir lok ræðu sinnar að hann vonist til þess að hér hafi verið um misgáning

að ræða en ekki ásetning af hálfu þáv. forustu nefndarinnar.
    Ég mun ljúka þessari yfirferð um störf nefndarinnar á því að segja eins og Geir Gunnarsson sagði 1977, að þótt ég taki undir hvert orð sem hann sagði, að þetta er ekki viðunandi vinnulag og gagnstætt því sem á að vinna mál innan fjvn., held ég að ég verði að segja: Vonandi hefur hér verið um mistök að ræða en ekki að þetta eigi að verða fordæmi fyrir vinnulagi innan fjvn. í framtíðinni. Þá væri sannarlega illa farið og hægt að taka undir það, sem hv. þm. Geir Gunnarsson sagði 1977, að þá er til lítils fyrir minni hl. að mæta á fundum í nefndinni. Þess vegna vara ég við því að þannig verði haldið á málum.
    Ég hlýt að segja þetta þrátt fyrir að að ýmsu leyti hafi ég haft og við í minni hl. gott samstarf við þá menn sem skipa meiri hl. nefndarinnar. En þetta vinnulag gengur ekki.
    Í tillögunni eins og hún nú liggur fyrir koma fram ýmsar breytingar sem hv. formaður fjvn. hefur lýst. Ég þarf ekki að fara yfir þær í mörgum greinum, en ég lýsi því yfir, sem fram kemur á þingskjölum, að minni hl. stendur að þeim brtt. sem eru á þskj. 1237, en hefur um þær brtt. eðlilegan og almennan fyrirvara svo sem venja er til. Minni hl. nefndarinnar treystir sér hins vegar ekki til að standa að sameiginlegu nál. að þessu sinni, bæði vegna þess að við töldum nauðsynlegt að fram kæmi gagnrýni á það vinnulag sem verið hefur innan nefndarinnar að þessu sinni og einnig vegna nokkurra efnisatriða í þessari
tillögu.
    Ég vil þó geta þess að það er raunar fremur venja en hið gagnstæða að fjvn. takist að halda þannig á málum við afgreiðslu till. til þál. um vegáætlun að þar geti bæði meiri og minni hl., þ.e. stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar í fjvn., staðið sameiginlega að nál. Það er frekar venja en hið gagnstæða. Því er ekki til að dreifa að þessu sinni.
    Ég mun þá fara örfáum orðum efnislega um þetta mál eins og það liggur nú fyrir.
    Í brtt. nefndarinnar eru vitaskuld fjölmörg mál sem hafa mikla þýðingu og vegamálin í heild hafa afar mikla þýðingu í okkar þjóðfélagi. Ég ætla ekki að setja á langa ræðu um þýðingu samgangna, en vegamál og bættar samgöngur á landi eru meðal allra þýðingarmestu framkvæmdaþátta sem lagt er í í þessu landi. Ég veit að allir fjárveitinganefndarmenn vilja stuðla að því að þau verk komist sem greiðast áfram, enda þótt meiri hl. nefndarinnar hafi mátt sætta sig við það nú í fyrsta skipti í sögunni að sérmerktir tekjustofnar til vegamála væru skertir um 682 millj. kr. Hér áður, til að mynda á síðasta áratug, deildi minni hl. fjvn. og stjórnarandstæðingar á Alþingi á ríkisstjórn, hæstv. samgrh. og á stjórnarmeirihluta hverju sinni fyrir að ríkissjóður legði ekki nægilega mikið fé fram til viðbótar sérmerktum tekjustofnum til vegamála. Á fyrri áratug var öll árin verulegt fé lagt fram úr ríkissjóði til viðbótar sérmerktum tekjustofnum til þessara mála, oft sem svaraði 1 milljarði en líka afar oft verulega hærri fjárhæð. Þá deildu menn um

að það væri ekki nægilega mikið fé sem ríkissjóður legði þannig af mörkum, en engum datt í hug á þeim tíma að einhvern tíma væri svo komið að ekki væri skilað því fé sem innheimt væri af sérmerktum tekjustofnum vegamála. Það hefur því miður nú gerst.
    Þrátt fyrir að tillagan sé enn því marki brennd að þessi niðurskurður sé á fé til vegamála gildir það þó ekki nema fyrir árið í ár og það er stefna þessarar tillögu að sérmerktum tekjustofnum til vegamála verði skilað á síðari árum þessa áætlunartímabils. Ég segi að það er vel hvað sem er um þær skýringar hæstv. samgrh., sem hann gaf við fyrri umræðu, að mundi verða léttara að sjá fyrir hagsmunum ríkissjóðs og ekki við eins mikinn efnahagsvanda að stríða og var við afgreiðslu fjárlaga á þessu þingi. Það er nú önnur saga. En þrátt fyrir að hér sé um slíkan niðurskurð að ræða á árinu 1989 er um gífurlega skattahækkun að ræða á bifreiðaeigendur og á umferðina í landinu.
    Formaður fjvn., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, skýrði nýjar verðlagsforsendur og hvernig þær koma út og þarf ekki að endurtaka það mörgum orðum, en svo tekinn sé annar aðaltekjupóstur vegamála, bensíngjaldið, var bensíngjald á árinu 1988, allt árið, 12,60 kr. Nú er bensíngjaldið 16,70 kr. og boðað hefur verið að það muni hækka eftir fáa daga um 1,25 kr. þannig að þá verði það 17,95 kr. Því er a.m.k. haldið opnu að ef fé skortir þegar dregur á seinni hluta ársins, þegar fé skortir til vetrarviðhalds, snjómoksturs, kunni bensíngjaldið enn að verða hækkað. En þó við tökum ekki þær tölur sem þá kunna að liggja í loftinu heldur það sem þegar er vitað, þ.e. 17,95 kr., er það hækkun frá fyrra ári um 42,5% á sama tíma sem gert er ráð fyrir því í verðlagsforsendum tillögunnar að verðlag hækki á milli ára um 22,9%. Hér er því um gífurlega hækkun á skattheimtu að ræða og langt umfram verðlagsbreytingar. Svipaðar eða sambærilegar hækkanir er um að ræða á þungaskattinum. Miðað við áætlanir sem fyrir liggja varðandi árið 1990 er gert ráð fyrir að þá verði bensíngjaldið að meðaltali 22,14 kr. og hefur bensíngjaldið þá hækkað á tveimur árum um 75,5% á sama tíma sem verðlagsforsendur sem tillagan er byggð á hækka um rúm 46% þannig að þó að í þessu felist lítils háttar magnaukning, er ekki talin vera magnaukning á þessu ári en lítils háttar á árinu 1990, þá er hér um að ræða stóraukna skattheimtu á bifreiðaeigendur, á þá sem þurfa að nota flutningatæki og alla umferð í landinu langt umfram það sem verðlagsforsendur segja til um. Hæstv. ríkisstjórn leitar á þessu sviði sem öðrum allra ráða við að auka skattheimtu svo sem mögulegt er og það langt umfram það sem verðlagsforsendur í þessu tilliti segja til um á sama tíma sem verulegt fé af þessum skattpeningum á árinu 1989 er tekið beint í ríkissjóðsreksturinn eða 682 millj. kr. Þessi efnisatriði ráða því að það er ekki unnt annað en skila séráliti varðandi þetta mál. Tillagan er sem sé niðurskurðartillaga á árinu 1989 þó hún sé það ekki á seinni árum áætlunartímabilsins, en hún er líka mikil skattheimtutillaga og bregður hæstv. ríkisstjórn þar

ekki vana sínum miðað við það sem gerist á öðrum sviðum þjóðlífsins.
    Til viðbótar við þetta og þrátt fyrir þessa miklu skattheimtu vantar enn fé til nauðsynlegra verka eins og fram kom í máli hv. formanns fjvn. rétt áðan eða um 90 millj. kr. til Ólafsfjarðarmúla á þessu ári ef að líkum lætur og allt að 60--70 millj. kr. til snjómoksturs. Skýringarnar sem gefnar voru á skyndifundum fjvn. í gær og fyrradag voru þær að til þess að ná þessu fé, 90 millj. kr. til Ólafsfjarðarmúla, mundi fjmrh. ætla sér að ná með nýjum sköttum
eins konar fjáraukalögum á haustþingi, en eins og áður er fram komið til snjómokstursins með því að hækka enn bensíngjaldið.
    Ég lít svo á að það sé verulegur galli á þessu máli öllu, svo að ekki sé meira sagt, að ganga frá því á þann hátt að það vanti fé til nauðsynlegra og fyrirsjáanlegra verkefna á þessu ári, fé sem ekki verður hægt að komast hjá að greiða. Og þó svo að tillagan hafi batnað í meðförum fjvn., þar hafi verið stoppað upp í nokkur af þeim götum sem á þessu plaggi voru þegar það var lagt fram og það verði skilað nokkru af því fé sem virtist vera ætlun hæstv. samgrh. og hæstv. ríkisstjórnar að halda eftir hjá ríkissjóði á þessu ári, þ.e. 170 millj. kr. sem innheimst hafði áður og með bættri innheimtu 50 millj. kr., þá eru verulegir meinbugir á þessari afgreiðslu að það skuli ekki takast að haga henni þannig að það sé séð fyrir þeim útgjöldum sem fyrirsjáanleg eru og þurfi með einhverjum aðgerðum á haustþingi að grípa þá til nýrrar skattheimtu til að standa straum af þeim útgjöldum.
    Ég held að það væri hægt að brýna þá hv. stjórnarliða sem hér eru nú í salnum og hæstv. samgrh. á því að það eru vitaskuld takmörk fyrir því hvað hægt er að ganga langt í skattheimtu. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur hækkað skatta á þjóðina gífurlega mikið. Hún hefur seilst dýpra og dýpra í vasa borgaranna og það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að ganga langt. Það endar með því að það verður tómahljóð og það er þegar farið að sjá þess merki í skýrslum um afkomu ríkissjóðs fyrstu fjóra mánuði þessa árs að það er tómahljóð í innheimtunni. Þar er nú þegar farið að koma í ljós að staðan er verri en á síðasta ári sem nemur 1,7 milljörðum kr. í rekstrarafkomu ríkissjóðs á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs samkvæmt skýrslu sem lögð var fram á Alþingi í dag. Það eru vitaskuld verulegir meinbugir á þessu máli og ástæða til að á því sé vakin athygli og það gagnrýnt.
    Ég held því fram og hef haldið því fram áður að á undanförnum árum höfum við unnið stórvirki í vegagerð og á því er mikil nauðsyn. Það er ekki langt síðan aðeins örfáir spottar þjóðvegakerfisins voru með bundnu slitlagi. Nú hefur þó tekist svo að slitlag er komið á tæplega 2000 km á þjóðvegakerfi landsins, tæplega 2000 km af heildarvegakerfi sem er um 8500 km. Við eigum mikið verk óunnið þó svo okkur hafi skilað nokkuð á leið og við verðum að standa vörð um þennan þátt framkvæmda í landinu til þess að við

getum haldið uppi eðlilegum og greiðum samgöngum um landsbyggðina alla. Á því veltur búseta fólksins og á því velta eðlilegir lífsmöguleikar þess hvarvetna um landsbyggðina. Við í minni hl. og sumpart raunar nefndin í heild leggjum áherslu á nokkur atriði í þessum málum, þar á meðal um endurskoðun langtímaáætlunar sem nauðsynlegt er að hefja hið allra fyrsta og þegar á þessu ári. Það er allmikið verk og vandasamt, en það er nauðsynlegt að ráðast að því verki.
    Við leggjum einnig áherslu á að þegar langtímaáætlunartímabilinu lýkur 1994 verði hægt að hverfa að því að leggja meiri áherslu en verið hefur nú um skeið á að byggja upp þjóðbrautirnar. Það er ekki hægt að komast hjá því eftir að þjóðbrautirnar í þjóðvegakerfinu hafa mátt bíða að verulegu leyti allt langtímaáætlunartímabilið meðan verið er að byggja stofnbrautirnar að byggja þær upp með auknum þunga þegar langtímaáætlunartímabilinu lýkur. Það er nauðsynlegt að ráðast í stórverkefni, bæði í jarðgangagerð eins og hér er gerð tillaga um, brúargerð og framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. Ég lýsi stuðningi við þær fyrirætlanir. En þær fyrirætlanir mega þó ekki draga til sín svo mikið fé á næsta áætlunartímabili að okkur takist ekki að greiða úr með samgöngubótum í þjóðbrautakerfinu sem soltið hefur að verulegu leyti síðan aðaláherslan var lögð á stofnbrautirnar eftir að langtímaáætlunartímabilið hófst. Ég hygg að fjárveitinganefndarmenn séu sammála um þetta efni.
    Þá vil ég geta þess að í nál. okkar minni hl. fjvn. og fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna í fjvn. gerum við grein fyrir þeirri skoðun okkar að það sé tímabært að fella niður þungaskatt á dísilbifreiðar og taka upp þess í stað skattlagningu á dísilolíu sem hefur að vísu verið rætt um í allmörg ár en hlýtur að vera mögulegt að koma í verk. Það hefur margháttaða kosti í för með sér sem allir sjá, til að mynda að það greiðist jafnóðum af rekstri en ekki með jafnþungum greiðslum eins og nú er. Þungaskatturinn eins og hann er nú á dísilbifreiðum er orðinn afar þungbær. Hann er vitaskuld fyrst og fremst landsbyggðarskattur. Hann er skattur á alla flutninga á landsbyggðina. Hann er skattur á dísiljeppa og aðrar dísilbifreiðar, þungbær skattur á marga þá aðila sem eiga t.d. gamla jeppa sem ekkert er hægt að gera við, enginn vill kaupa vegna þess að skattlagningin er svo harkaleg á þessu tæki. Ef menn ekki treysta sér til þess að rísa undir því er bara að leggja þeim þó svo að nýtileg áhöld séu. Ég er þeirrar skoðunar að við séum búnir að ganga svo langt í þessum landsbyggðarskatti að við eigum að vara okkur að halda áfram á þeirri braut.
    Virðulegi forseti. Ég skal stytta mál mitt. Ég hef skýrt á hvern hátt ég gagnrýni það vinnulag sem verið hefur af hálfu meiri hluta fjvn. að þessu sinni. Ég endurtek að ég vona að það sé ekki fyrirboði þess að það eigi að taka upp nýja siði innan þeirrar nefndar og að meiri hluti nefndarinnar haldi
málum algerlega í sínum höndum tímum saman, vikum, jafnvel í heilan mánuð og slengi síðan fram

tillögum sínum á lokadegi og ætlist til þess að afgreitt sé á svo sem einum hálftíma eða kannski tveimur. Það er ekki vinnulag sem getur gengið og ég vænti þess að nú hafi verið um mistök að ræða hvað þetta snertir.
    Ég minni enn á að tillagan eins og hún liggur fyrir og er hér til afgreiðslu er niðurskurðartillaga á árinu 1989 þrátt fyrir stóraukna skattheimtu og enn vantar fé til nauðsynlegra verkefna. Við fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í fjvn. skilum af þessum orsökum séráliti. Undir það sérálit skrifa auk mín Málmfríður Sigurðardóttir og Egill Jónsson og Óli Þ. Guðbjartsson með fyrirvara.