Málefni aldraðra
Laugardaginn 20. maí 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég tek gjarnan undir það með hv. 5. þm. Norðurl. e., formanni heilbr.- og trn., að það hefur verið gott samstarf og málefnalegt í nefndinni og ég þakka henni fyrir samstarfið á þessum vetri.
    En ég vildi aðeins láta koma fram að ég styð þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. í meðferð Nd. Þegar frv. var til umfjöllunar í hv. Ed. gerði ég athugasemdir við 10. gr. Ég held að það sé rétt með farið hjá mér að það sé 10. gr. frv. sem er svokallaður nefskattur. Það var að vísu á öðrum forsendum, þ.e. að ég var með efasemdir og er með þær reyndar enn um að þessi nefskattur, ef á væri lagður, færi óskertur í Framkvæmdasjóð aldraðra. Hins vegar sást okkur yfir að hér væri um tvísköttun að ræða þar sem þetta var einn af þeim nefsköttum sem voru felldir út við staðgreiðslukerfið þegar það tók gildi og þess vegna væri rangt staðið að málum. Eftir því sem mér hefur verið tjáð hefur hæstv. þáv. fjmrh., núv. utanrrh., viðurkennt að þarna hafi verið um slys að ræða og ég fagna því að það hefur verið skýrt og að þetta verði þá lagfært og m.a. með því að fella út síðasta málslið á brtt. sem eru á þskj. 1250 og koma fram á þskj. 1320. Hins vegar þykir mér miður að sú brtt. sem við hv. 14. þm. Reykv. fluttum í Ed. og var endurflutt í Nd. náði ekki fram að ganga þar sem við vildum koma í veg fyrir að lagður væri á þessi skattur á aldrað fólk að láta það greiða af sínum launatekjum að fullu eða hluta eins og það var orðað í frv. ef ég man það rétt. En við því er ekki að gera. Þrátt fyrir það munum við styðja þessa brtt. eins og hún kemur fram.