Málefni aldraðra
Laugardaginn 20. maí 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið. En hv. 3. þm. Reykv. fór ítarlega yfir þetta frv. í gær og benti á ýmis atriði í ræðu sinni sem hún taldi að a.m.k. væri rétt að leggja áherslu á og vekja athygli á og ef ég man rétt sagði hún svo í ræðu sinni að það mætti þó e.t.v. verða til þess að aðstoða við framkvæmd laga og hugsanlega við setningu reglugerða, enda var ítarlega farið yfir fjölmörg efnisatriði frv. í ræðu hv. þm.
    En hv. þm. beindi til mín nokkrum fyrirspurnum eða a.m.k. athugasemdum sem ég vil aðeins koma inn á. Það var sérstaklega í sambandi við IV. kafla laganna um fyrirkomulag öldrunarþjónustu og þá t.d. 19. gr. sem fjallar um vistun fólks á stofnunum, en eins og þingmönnum er vafalaust kunnugt hefur um þetta svokallaða vistunarmat verið allmikil umræða, ég vil ekki segja deila eða ágreiningur en allmikil umræða, og heilbrigðisyfirvöld og reyndar fjölmargir aðrir sem vinna að þessum málaflokki hafa talið nauðsynlegt að koma á nokkuð meiri festu hvað varðar þetta svokallaða vistunarmat. Þó er ekki gengið svo langt sem sumir hefðu sjálfsagt viljað, að inn á stofnanir færu ekki aðrir en þeir sem hafa gengið undir ítarlegt vistunarmat af hálfu sérfróðra manna, heldur er hér fjallað um það að stjórnir stofnananna, stjórn dagvistar og stjórnir stofnana fyrir aldraða, ákveði vistun fólks á viðkomandi stofnunum sem er sjálfsagt og eðlilegt og er hliðstætt því sem er í núgildandi lögum, en síðan er hér kveðið á um að að jafnaði skuli vistunarmat fara fram af hálfu svokallaðs þjónustuhóps aldraðra sem nánar er gerð grein fyrir hvaða verksvið hafi hér í þessu frv.
    Þó segir hér ,,að jafnaði`` sem auðvitað gefur möguleika á að hafa í þessu ákveðinn sveigjanleika og einnig er í 19. gr. talað um að um þetta vistunarmat skuli setja sérstaka reglugerð og þá verður við þá reglugerðarsetningu stuðst við þá reynslu sem fengist hefur og einnig til að reyna að ná sem bestu samkomulagi við þá aðila sem stjórna öldrunarstofnununum eða veita þeim forstöðu.
    Hv. þm. spurði hvort ekki yrði reynt að taka tillit til óska einstaklinganna um það. Ef þeir á annað borð hafa flokkast svo að þeir eigi rétt á vistun og eitthvert svigrúm kann að vera í því að velja þeim vistunarstað finnst mér það bæði sjálfsagt og eðlilegt að reynt verði að finna leið til þess, en það verður sjálfsagt að athuga nánar við reglugerðarsmíðina í samræmi við fengna reynslu og eins og ég sagði áðan í samráði við forsvarsmenn stofnananna.
    Einnig spurði hv. þm. hvernig yrði farið með þá einstaklinga sem hafa hugsanlega komið sér saman um að byggja sér eins og segir í 4. tölul. 17. gr. sjálfseignar-, leigu- eða búseturéttaríbúðir. Það er einnig ljóst að á málum þessara einstaklinga hlýtur að þurfa að taka með þeim hætti að það geti fallið að því félagsformi og því samkomulagi sem þessir einstaklingar hafa gert með sér þegar þeir hefja byggingu íbúða sem þeir ætla að eyða sínu ævikvöldi

í. Ég trúi ekki að um þetta verði ágreiningur og ég vænti þess að um þetta hljóti að nást samkomulag og samstaða sem þarf ekki að leiða til erfiðleika í framkvæmdinni.
    Síðan fjallaði þingmaðurinn nokkuð um það sem kemur fram í 20. gr. þar sem rætt er um framkvæmdaleyfi sem þeir þurfa að afla sér sem ætla sér að hefja byggingar fyrir aldraða. Þetta ákvæði kemur sérstaklega til vegna fenginnar reynslu. Því miður hafa samtök og ýmsir aðilar byggt húsnæði sem síðan hefur verið auglýst og selt sem sérhannað fyrir aldraða en í raun alls ekki fullnægt þeim kröfum sem nauðsynlegt er að gera t.d. um aðgang að húsnæðinu, um það hvernig það er fyrir fullorðið fólk og kannski í sumum tilfellum fatlað að athafna sig í viðkomandi húsnæði. Það hlýtur að teljast nauðsynlegt ef menn byggja og auglýsa til sölu húsnæði sem ætlað er ákveðnum sérhópum, í þessu tilfelli öldruðum, að það sé tryggt að það fullnægi þeim kröfum sem nauðsynlegt er að setja í því sambandi. Þess vegna er talað um að samþykkis þurfi að afla hjá heilbrmrn. til að mega hefja framkvæmdir við slíkar byggingar.
    Síðan segir að framkvæmdaleyfum skuli fylgja greinargerð um eigendur og fjárhagsástæður og spurði hv. þm. sérstaklega um það atriði hvernig menn ætluðu að meta slíka hluti. Ég bendi hv. þm. á að þetta er reyndar nánast samhljóða ákvæðum í gildandi lögum þar sem segir í 21. gr. gildandi laga, með leyfi forseta: ,,Enn fremur skal fylgja greinargerð um eigendur þess og fjárhagsástæður`` --- þannig að hér hlýtur að verða farið nokkurn veginn eftir sömu aðferðum og gilt hafa. Hér er eingöngu verið að tala um þá sem að beiðni um framkvæmdaleyfi standa og þá aðila sem eiga að vera í forsvari fyrir þessar byggingar og ég hygg að þetta sé ákvæði sem þegar hefur fengist nokkur reynsla af og muni ekki verða torvelt að framfylgja.
    Við V. kafla laganna, sem fjallar um kostnað við öldrunarþjónustu, hafði hv. þm. einnig ýmsar athugasemdir og ekki síst við 27. gr. þar sem fjallað er um að vistmenn skuli taka þátt í greiðslu fyrir dvöl á stofnunum og einnig um hvaða upphæð væri við miðað og var þá líka að fylgja eftir brtt. sem hv. þm. flytur ásamt öðrum þingmönnum um að ekki sé heimilt að krefja vistmann um
greiðslu fyrir dvöl á stofnun að öllu leyti heldur aðeins að hluta. Við höfum talið eðlilegt sem höfum staðið að gerð þessa frv. að þessi heimild sé eins og hér er kveðið á um. Ég gerði grein fyrir því í framsöguræðu og einnig fyrr í þessari umræðu að það dytti engum í hug að krefja þann sem hefur 11 þús. kr. á mánuði eða eitthvað sem næst því marki um að greiða eða standa að fullu undir kostnaði við dvöl á stofnun heldur væri hér verið að tala um þá einstaklinga sem hefðu allmiklu hærri tekjur. Í þessu ákvæði felst fyrst og fremst jöfnun á milli þeirra aðila sem í dag dvelja á dvalarstofnunum annars vegar og hins vegar þeirra sem vistast á hjúkrunarheimili eða sjúkrastofnun fyrir aldraða. Hér er verið að koma á svipuðum reglum um greiðslu þessara einstaklinga.

Hitt er svo rétt, sem hv. þm. benti á, að menn geta haft tekjur sem ekki koma til álagningar við tekjuskatta og ef á að breyta þeim ákvæðum þannig að nái til einstaklinga sem hafa tekjur af eignum sem ekki koma til tekjuskattsálagningar er stigið enn stærra skref skulum við segja til jafnræðis eða til þess að allir sitji við svipað borð eftir því hvaða tekjur þeir hafa en ekki eftir því af hvaða stofni tekjurnar eru eins og er. En þar er orðið um að ræða mál sem verður að fjalla um í sambandi við breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt að mínu áliti og á síður heima í þessum lögum, enn síður en ákvæði um sérstakan skatt til Framkvæmdasjóðs aldraðra sem menn hafa þó efast um að ætti heima í þessum lögum. Það er enn þá stærra mál og verður ekki fjallað um í þessu sambandi.
    Einnig nefndi hv. þm. aðeins ákvæði um vasapeninga sem svo eru kallaðir sem eru þær greiðslur sem aldraðir þó fá frá Tryggingastofnun sem vistaðir eru á stofnun og hafa ekki aðrar tekjur. Þær upphæðir eru enn lægri en þær 11 þús. sem er hér við miðað og er einnig fjallað um í öðrum lögum en þessum, þ.e. lögum um almannatryggingar, en ekki ólíklegt að sú viðmiðun sem hér er sett inn kunni einmitt að leiða til þess að menn endurskoði upphæðina um vasapeningana og er það vel því að sú upphæð er smánarlega lág.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að eyða miklu fleiri orðum í þetta, ég lofaði að vera stuttorður, en nefndi þó nokkur atriði sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir kom með fram í sinni ágætu greinargerð og yfirferð um þetta frumvarp og vona að ég hafi svarað a.m.k. einhverju af því sem hún beindi til mín.