Framhaldsskólar
Laugardaginn 20. maí 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Það er örstutt. Það er einungis vegna þess að hv. þm. Ragnar Arnalds upplýsti að hann hefði fengið skýringu á þessu ákvæði, þ.e. að það sé ekki prentvilla sem stendur í 7. gr. frv. Þá er líka rétt að það liggi fyrir að um leið og kennurum er veitt aukið vald við stjórn skólanna með aukinni hlutdeild þeirra í skólanefndunum er tekinn af skólanefndunum réttur til að ráða kennarana eins og greinargerðin upplýsir okkur um að hafi einu sinni verið meiningin. Þessu er breytt á einhverju stigi málsins þannig að um leið og kennurunum er hleypt inn í skólanefndirnar skulu skólanefndirnar hafa minna vald. Þetta er niðurstaðan í frv. sem hæstv. ráðherra Svavar Gestsson vill fá með einhverju móti, illu eða góðu, í gegnum þingið.