Ferill 13. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 13 . mál.


Sþ.

36. Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um mengun við fiskeldi.

1. Hverjir fjalla um mengun við fiskeldi


þegar undirbúin eru starfsleyfi fyrir fiskeldisstöðvar?



    Fiskeldi er fellt undir mengandi starfsemi samkvæmt reglugerð nr. 390/1985, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, en sú reglugerð er sett samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sbr. 3. gr. laga nr. 81/1988, þar sem fjallað er um setningu mengunarvarnareglugerðar.
    Samkvæmt áðurnefndri reglugerð fer umfjöllunin fram með eftirfarandi hætti:
    Ákvörðun um staðsetningu, þar á meðal seiða- og fiskeldisstöðva, er háð samþykki heilbrigðisráðherra. Umsóknir skulu sendar Hollustuvernd ríkisins á þar til gerðum eyðublöðum sem stofnunin hefur látið útbúa. Hollustuvernd ríkisins leitar álits heilbrigðisnefndar, Náttúruverndarráðs, skipulags- og byggingarnefndar og gerir tillögur til heilbrigðisráðherra um afgreiðslu málsins. Samkvæmt reglugerðinni skal Hollustuvernd ríkisins ávallt leita umsagnar Náttúruverndarráðs. Enn fremur skal leita umsagnar Ríkismats sjávarafurða, Vinnueftirlits ríkisins, eiturefnanefndar, Siglingamálastofnunar ríkisins, yfirdýralæknis og annarra sérfróðra aðila, eftir því sem við á hverju sinni.
    Þegar Hollustuvernd ríkisins hefur unnið starfsleyfistillögur skulu þær liggja frammi á skrifstofu viðkomandi sveitarstjórnar til kynningar þeim aðilum sem rétt hafa til að gera athugasemdir, en þeir eru:
1.     Sá sem sótt hefur um starfsleyfi svo og forsvarsmenn tengdrar og nálægrar starfsemi.
2.     Íbúar þess svæðis sem ætla má að geti orðið fyrir óþægindum vegna mengunar.
3.     Opinberir aðilar, félög og aðrir þeir sem málið varðar. Frestur til að gera athugasemdir er sex vikur frá því að starfsleyfistillögurnar eru fyrst kynntar.
    Að liðnum frestinum tekur Hollustuvernd ríkisins málið aftur upp og gerir starfsleyfistillögu til ráðherra sem gefur út endanlegt starfsleyfi.

2. Hvaða reglur hafa verið settar um mengunarvarnir


vegna fiskeldis, þar með taldar um förgun úrgangs?



    Í umsóknum fyrir fiskeldisstöðvar skal m.a. fylgja nákvæm lýsing á starfseminni, upplýsingar um mengunarhættu og fyrirhugaðar mengunarvarnir. Margar umsóknir frá fiskeldisfyrirtækjum eru ítarlegar hvað þetta varðar, en aðrar innihalda mjög takmarkaðar upplýsingar ef þá nokkrar. Í þeim tilvikum verður Hollustuvernd ríkisins að meta hvort nauðsynlegt sé að afla frekari upplýsinga. Mat á umhverfisaðstæðum með hliðsjón af mengunarhættu, sem hlýtur að vera grundvöllur fyrir kröfu til mengunarvarna, lendir því á Hollustuvernd ríkisins.
    Kröfur til stöðvanna varðandi mengunarvarnir eru settar í starfsleyfi, en starfsleyfi ber samkvæmt áðurnefndri reglugerð að birta í B-deild Stjórnartíðinda í formi auglýsingar. Kröfur um mengunarvarnir eru bæði háðar umhverfisaðstæðum og stærð stöðvanna sem hefur mikið að segja í þessu tilviki. Hvað snertir stöðvar inni í landi sem leiða frárennsli í ár hefur Hollustuvernd ríkisins lagt til grundvallar að hönnun stöðvanna miðist við að saur og fóðurleifar berist hratt burt úr eldiskerum, ekki verði mikið rót í leiðslum frá kerum og að fjarlægð frá kerum til hreinsibúnaðar verði sem styst. Þar er gert ráð fyrir eftirfarandi kröfum um hreinsibúnað:
1.     Setþró með lágmarksviðstöðutíma 20–30 mín.
2.     Hámarksrennslishraði yfir þró 2–3 sm/sek.
3.     Á eftir þrónni hefur verið gert ráð fyrir malarsíu til eftirhreinsunar.
    Þar sem ofangreindar kröfur hafa ekki verið settar fram hafa verið gerðar eftirfarandi kröfur:
1.     Svifskilja sem grófhreinsar frárennslið. Setið úr skiljunni berst í sérstaka þró þaðan sem því er dælt reglulega.
2.     Yfirfallið, þ.e. grófhreinsað vatnið, rennur í setþró eða settjörn með lágmarksviðstöðutíma 20–30 mín. sem í er hámarksrennslishraði 2–3 sm/sek.
    Þessi síðasttaldi hreinsibúnaður hentar mjög vel þar sem við hönnun og rekstri stöðvar er tekið mið af aðgerðum sem draga úr mengun. Komið hefur í ljós að nokkur misbrestur er á því að settur sé upp hreinsibúnaður í seiðaeldisstöðvum. Hollustuvernd ríkisins telur að ástæðuna megi rekja til staðsetningarleyfisins, þ.e. að ekki ætti að veita stöðvunum sjálfum slíkt leyfi heldur ætti leyfið að vera niðurstaða úttektar og liggja fyrir sem heimild varðandi skipulagningu viðkomandi starfsemi á svæðinu. Á vegum Hollustuverndar ríkisins er unnið að breytingum á reglugerðinni samhliða vinnu við heildarmengunarvarnareglugerð sem áætlað er að staðfesta um næstu áramót, en ráðuneytið hefur hug á því að draga alla þessa þætti saman og setja undir eina reglugerð. Áformað er að taka sérstaklega á staðsetningarleyfum í breyttri reglugerð. Ekki hafa hlotist teljandi vandræði vegna þessa þar sem seiðaeldisstöðvar eru almennt ekki það stórar og flestar mjög vel staðsettar. Í sambandi við setningu mengunarvarnareglugerðar þarf að setja nánari reglur um magn mengunarefnis í frárennsli og um hámarksfrárennslismagn. Enn fremur þarf að gera kröfur um að frárennsli fari niður fyrir stórstraumsfjöruborð sé um að ræða fiskeldisstöðvar við sjó og ákvæði um að straumar verði kannaðir út frá blöndun frárennslis. Það hefur að vísu verið sett sem skilyrði varðandi stærri stöðvar.

3. Hvernig er háttað eftirliti varðandi mengun frá fiskeldi?



    Hollustuvernd ríkisins hefur með höndum reglubundið sérhæft eftirlit með fiskeldisstöðvum í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 390/1985. Stofnunin innheimtir árlega eftirlitsgjöld af starfleyfisskyldri starfsemi til þess að standa straum af reglubundnu eftirliti og til starfsleyfisvinnslu.
    Eftirlit stofnunarinnar með einstökum fiskeldisstöðvum er í lágmarki í dag. Ástæðan er fjöldi umsókna um staðsetningar- og starfsleyfi og að aðaláherslan hefur verið lögð á að afgreiða þær. Auk þess er eftirlit með fiskeldi ekki eins einfalt og ætla mætti því að í því felast mælingar á líffræðilegum, efnafræðilegum og eðlisfræðilegum þáttum. Þannig fer eftirlitið eftir gerð starfseminnar og staðsetningu stöðvanna. Þörf á eftirliti á vegum utanaðkomandi aðila fer einnig eftir stærð, gerð og staðsetningu stöðvanna.
    Þörfin á eftirliti vex óneitanlega samhliða vexti í greininni. Vegna almennrar umhverfisverndar er eftirlitið ekki aðeins nauðsynlegt til að koma í veg fyrir mengun, heldur er það einnig oft lífsnauðsynlegt fyrir fiskeldið sjálft. Ástæðan er sú að afleiðing mengunar, t.d. frá sjókvíaeldi, bitnar oft fyrst á fiskeldinu sjálfu. Þetta á sérstaklega við þar sem aðstæður eru viðkvæmar eins og t.d. í lagskiptum lónum.
    Sem stendur er mengun frá fiskeldi lítil hér á landi en þó vaxandi hluti heildarnæringarefnamengunar landsins. Árið 1985 var næringarefnaauðgun vegna fiskeldisstöðva áætluð 6 tonn af köfnunarefni og 1,5 tonn af fosfór. Í ár er næringarefnaauðgun áætluð 165 tonn af köfnunarefni og 27 tonn af fosfór. Á næsta ári vaxa þessar tölur í 270 tonn og 44 tonn sem annars vegar er 3% og hins vegar 54% aukning miðað við það magn sem talið er að berist frá íbúðarbyggð, fiskvinnslu og landbúnaði samanlagt. Í sjálfu sér er ekki þörf á að óttast neikvæð áhrif næringarefnaauðgunar nema á einangruðum svæðum, t.d. í lokuðum fjörðum, lónum, ám og vötnum. Hins vegar eru það áhrif hins lífræna þáttar úrgangsins og súrefnisþörfin sem ástæða er til að óttast.

4. Hvaða reglur gilda um notkun lyfja og rotvarnarefna við fiskeldi?



    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Hollustuvernd ríkisins hafa hvorki fjallað sérstaklega um þennan þátt né kannað notkun lyfja og rotvarnarefna við fiskeldi. Á vegum landbúnaðarráðuneytis starfar hins vegar sérstakur dýralæknir í fisksjúkdómum sem heyrir undir embætti yfirdýralæknis. Þessi þáttur starfseminnar lýtur forsjá landbúnaðarráðuneytisins.
    Eigi að síður eru heilbrigðisyfirvöld meðvituð um nauðsyn þess að settar verði reglur um notkun lyfja og rotvarnarefna í fiskeldi og að eftirliti verði komið á fót í framtíðinni. Enn fremur er mjög nauðsynlegt að fylgst verði vel með rannsóknum á áhrifum þessara efna á umhverfið, þannig að hægt verði að hindra notkun hættulegra efna m.a. með því að skipta út hættulegum efnum fyrir önnur hættuminni.

5. Er talin hætta á að þörungablómi (eitraðar þörungategundir)


geti valdið tjóni í fiskeldi hérlendis? Ef svo er, hvaða ráðstafanir


hafa verið gerðar til að varna því og fylgjast með þeirri hættu?



    Þess eru þegar dæmi að tjón hafi orðið í fiskeldi hér á landi vegna þörungablóma. Í þessu tilviki er rétt að benda á grein sem Gunnar Steinn Jónsson líffræðingur, starfsmaður Hollustuverndar ríkisins, ritaði í 35. hefti tímaritsins Hafrannsóknir 1987. Helstu niðurstöður greinarhöfundar voru þær að eitraðar þörungategundir finnast hér við land engu síður en í nágrannalöndum okkar. Óvenjulegir þörungablómar eru ekki óþekktir hér við land og ekki er hægt að útiloka hættu af völdum eitraðra þörungablóma hér. Í greininni bendir höfundur á að haffræðilegar aðstæður skipta oft meira máli en breiddargráðan, en sú skoðun var ríkjandi fyrir nokkrum árum að eitthvert lágmarkshitastig þyrfti til að blómi myndaðist. Hins vegar hefur hiti að sjálfsögðu áhrif á vaxtarhraða þörunga og þar með samkeppnishæfni tegunda innbyrðis. Samkvæmt niðurstöðum greinarhöfundar myndast blómi við 7–9°C við Skotland og 6–9°C í Hvalfirði. Í þessum tilvikum myndast blóminn við hitalagaskiptingu eða setlagaskiptingu, nema hvort tveggja sé.
    Frá því þessi grein var skrifuð hafa frekari upplýsingar komið fram. Blómi eitraðrar tegundar, Heterosigma akasiwo, sem ekki hafði fundist áður, fannst í Hvalfirði á miðju síðasta ári. Þessi tegund hefur ekki sterkan lit heldur varð sjórinn gruggugur og móbrúnn. Alls drápust nálægt 10.000 fiskar af völdum þessa þörungablóma í fiskeldisstöðinni Strönd hf. Það er því fyllsta ástæða til þess að gjalda varhug við þessum vágesti ekki síður hér á landi en annars staðar, ekki síst á svæðum sem líkur eru á lagskiptingu sjávar og í þessu tilviki hefur næringarefnaútfall frá fiskeldi mikið að segja.
    Ekki hefur verið gripið til neinna sérstakra aðgerða hér á landi til að fyrirbyggja þörungablóma. Hins vegar hefur verið rætt um að koma þurfi á samvinnu Hollustuverndar ríkisins, dýralæknis fisksjúkdóma á Keldum og Hafrannsóknastofnunar, og hugsanlega fleiri aðila, til þess að hægt verði að grípa til skjótra og samræmdra aðgerða þegar blómi kemur upp.

6. Hvaða rannsóknir fara helstar fram


eða eru ráðgerðar hérlendis vegna mengunarhættu við fiskeldi?



    Í þessu tilviki hefur aðallega verið rætt um forrannsóknir í tengslum við leyfisveitingar til stærri stöðva. Hér má nefna rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar vegna fiskeldisstöðvar við Apavatn og stöðvar sem fyrirhuguð var við Mývatn. Þannig eru til skýrslur um mat á mengun fyrir einstakar seiðaeldisstöðvar. Framkvæmdar hafa verið rannsóknir í Miklavatni í Fljótum og í Ólafsfjarðarvatni í tengslum við fiskeldi. Straummælingar og mat á dreifingu úrgangsefna eru til fyrir nokkrar stöðvar, m.a. vegna fiskeldiskvía í Eiðsvík við Reykjavík og svo mætti áfram telja. Enn fremur er að finna ýmsar upplýsingar í niðurstöðum Hollustuverndar ríkisins vegna sjálfs eftirlitsins. Til þessa hefur ekki verið unnt að vinna endanlega úr þeim niðurstöðum nema þeim sem varða mengun Varmár í Ölfusi. Ráðuneytið hefur skipað nefnd til þess að takast á við þau vandamál sem komu fram í Varmá og eiga sæti í henni fulltrúar ráðuneytisins, Hollustuverndar ríkisins, hlutaðeigandi sveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    Engar kerfisbundnar rannsóknir fara fram á vegum Hollustuverndar ríkisins. Ekki liggur fyrir áætlun um slíkar rannsóknir, en óskir hafa verið settar fram við Hollustuvernd ríkisins þar að lútandi. Ráðuneytið hefur gefið stofnuninni fyrirmæli um mælingar í Skógalóni í Vopnafirði sem fara fram í þessum mánuði.
    Það er svo með þennan þátt sem marga aðra er snerta umhverfisvarnir að litlu verður áorkað nema með rannsóknum og rannsóknir kosta fé. Hafa starfsmenn Hollustuverndar ríkisins, sem og stofnunin sjálf, reynt að leita í þær matarholur sem finnast á þessu sviði því að ekki er um auðugan garð að gresja varðandi fjárveitingar til stofnunarinnar. Þannig hefur verið sótt um styrki til Rannsóknasjóðs vegna verkefna er tengjast hreinsun frárennslis. Slíkum erindum hefur verið hafnað til þessa.