Ferill 50. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 50 . mál.


Sþ.

52. Tillaga til þingsályktunar



um alþjóðaflugvöll á Egilsstöðum.

Flm.: Guðmundur H. Garðarsson, Egill Jónsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja nú þegar undirbúning að stækkun og breytingum á Egilsstaðaflugvelli þannig að hann fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til alþjóðaflugvalla.

Greinargerð.


    Fáar þjóðir eiga jafnmikið undir góðum flugsamgöngum og Íslendingar. Á síðustu árum hefur mikið verið gert til að styrkja flugsamgöngur innan lands sem einkum byggjast á minni gerð flugvéla. Í þeim efnum má að sjálfsögðu gera betur. En nú er brýnt að brotið verði blað í sögu flugmála á Íslandi með gerð flugvallar á Austurlandi sem fullnægi kröfum alþjóðaflugs hvað varðar flugvallarstæði, öryggisbúnað, þjónustu o.fl. þessu tengt.
    Ástæður þessa eru einkum tvíþættar. Hin veigameiri, og sú sem ræður úrslitum um að á Íslandi verði að vera tveir flugvellir sem fullnægja kröfum alþjóðaflugs, er að á næstu árum mun millilandaflug yfir Norður-Atlantshaf byggjast æ meir á tveggja hreyfla farþegaþotum. Þótt öllu öryggi í flugi fleygi fram er það staðreynd að bilun í öðrum hreyfli af tveimur mun auka líkur á því að farþegaþotur þurfi að leita lendingar á næsta flugvelli. Á Íslandi er aðeins einn alþjóðaflugvöllur sem getur þjónað þessu hlutverki.
    Annað veigamikið atriði er að innan tveggja ára verða allar millilandavélar Íslendinga sjálfra tveggja hreyfla farþegaþotur. Nýlega voru undirritaðir samningar um kaup tveggja slíkra flugvéla sem munu taka á þriðja hundrað farþega. Slíkar flugvélar flokkast undir hinar stærri í alþjóðaflugi og krefjast fullkominna flugvalla hvað varðar stærð, öryggi og þjónustu. Þær aðstæður geta skapast, t.d. ef hreyfill bilar skömmu eftir flugtak, að nauðsynlegt sé að lenda á ný.
    Alkunnugt er að flugvélar geta hafið flugtak við mjög erfið skilyrði, en hins vegar getur verið erfitt að lenda aftur á sama flugvelli vegna veðurs. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að varaflugvöllur sé fyrir hendi. Erlendis er þetta yfirleitt svo en ekki á Íslandi hvað millilandaflug áhrærir. Lega landsins og veðurfar er með þeim hætti að óumflýjanlegt er að koma upp alþjóðlegum flugvelli annars staðar en á Suðvesturlandi.
    Að mati flutningsmanna eru Egilsstaðir á Austurlandi sá staður sem helst kemur til greina í þessum efnum. Líkur á því að bæði Keflavíkurflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur lokuðust samtímis vegna veðurs eru mjög litlar. Það er veigamikið öryggisatriði. Á Egilsstöðum er þegar fyrir öflug byggð og góður þjónustukjarni. Egilsstaðir eru miðsvæðis á Austurlandi. Með flugvelli, sem getur veitt stórum þotum þjónustu, er unnt að hefja útflutning á verðmætum vörum frá helstu framleiðslustöðum Austurlands. Alþjóðaflugvöllur á Austurlandi mun hafa mikil og góð áhrif á þróun byggðar á Íslandi, allri þjóðinni til blessunar.
    Flutningsmenn leggja áherslu á að þessi tillaga fái skjóta og jákvæða afgreiðslu á Alþingi svo að ríkisstjórnin geti þegar hafið það verk sem tillagan felur í sér. Ekkert má til spara í þessum efnum. Hér er um að ræða framkvæmd sem varðar öryggi landsmanna allra, sem og alþjóðaflug yfir Norður-Atlantshaf.