Ferill 57. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 57 . mál.


Nd.

59. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um getraunir, nr. 59 29. maí 1972.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



1. gr.

    1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Félagið starfrækir íþróttagetraunir, en með íþróttagetraunum er átt við það að á þar til gerða miða, getraunaseðla, sem félagið eitt hefur rétt til að gefa út, eru merkt væntanleg úrslit íþróttakappleikja, íþróttamóta.

2. gr.

    1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Að minnsta kosti 40% af heildarsöluverði raða eða miða skal varið til vinninga.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt að beiðni stjórnar Íslenskra getrauna sem starfa að íþróttagetraunum samkvæmt lögum um getraunir frá 1972.
    Samkvæmt gildandi lögum skal helmingi af heildarsöluverði miða eða raða í íþróttagetraunum varið til vinninga. Til að tryggja afkomu íslenskra getrauna og hagsmuni íþróttahreyfingarinnar er talið nauðsynlegt að fá heimild til að breyta vinningshlutfallinu. Er lagt til að ákveðið verði að það verði ekki minna en 40%, en það er sama vinningshlutfall og gildir við talnagetraunir Íslenskrar getspár. Þetta er meginefni frumvarpsins. Komið hefur verið á samstarfi milli Íslenskrar getspár og Íslenskra getrauna um nýtingu tölvubúnaðar og á sviði sölustarfsemi og er eðlilegt að sömu reglur gildi um vinningshlutfall hjá þessum aðilum.
    Jafnframt er lagt til að breyting verði gerð á 2. gr. laga um getraunir þar sem kveðið er á um starfsemi Íslenskra getrauna. Samkvæmt lögum um talnagetraunir, nr. 26 2. maí 1986, hefur Íslensk getspá heimild til að starfrækja talnagetraunir. Var heimild Íslenskra getrauna til slíkrar starfrækslu skv. 2. gr. laga um getraunir felld niður meðan heimild samkvæmt lögum um talnagetraunir er í gildi. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ákvæði um talnagetraunir verði fellt úr lögunum um getraunir og að 2. gr. þeirra verði aðlöguð breyttu sölufyrirkomulagi miða (getraunaseðla) þar sem sala fer fram við afhendingu útfyllts getraunaseðils.