Ferill 90. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 90 . mál.


Sþ.

92. Tillaga til þingsályktunar



um bann við innflutningi og dreifingu á fóstureyðingarpillum.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



    Alþingi ályktar að skora á heilbrigðisráðherra að undirbúa nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir innflutning eða framleiðslu, sölu og aðra dreifingu hér á landi á pillum eða öðru efni og búnaði til að eyða fóstri í móðurkviði, nema um sé að ræða viðurkenndan búnað fyrir sjúkrahús þar sem aðgerðir fara fram undir læknishendi.

Greinargerð.


    Æðsta skylda Alþingis er að vernda mannslífin og hvar sem líf og dauði takast á ber Alþingi að veðja á mannslífið.
    Pillur til að eyða fóstri í móðurkviði eru að koma á markað erlendis og rætt er opinberlega um að bjóða þær á íslenskum markaði.
    Fóstureyðingar eru viðkvæmasta einkamál fólks og skiptar skoðanir eru um hve víðtækar heimildir eiga að vera til að eyða fóstri. Þess vegna er eðlilegt að allar fóstureyðingar fari fram undir læknishendi á sjúkrahúsum og á engan hátt verði stuðlað að fjölgun þeirra umfram það sem nú er eða að unnt verði að eyða fóstri utan sjúkrahúsa. Slíkt mundi aðeins leiða til þess að fóstureyðingar yrðu misnotaðar í auknum mæli sem getnaðarvarnir.
    Íslensku þjóðinni hefur ekki fjölgað eðlilega síðustu árin. „Fólkspíramítinn“ í landinu er að snúast við. Bráðum verða ekki nógu margir ungir Íslendingar til að sjá sómasamlega fyrir fólki í ellinni. Alþingi ber að sporna við þeirri þróun og færa til betri vegar, auðvelda ekki fólki að láta eyða fóstri.