Ferill 108. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 108 . mál.


Sþ.

111. Tillaga til þingsályktunar



um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa á vegum Náttúruverndarráðs í samráði við yfirvöld orkumála áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera. Slík áætlun verði lögð fyrir Alþingi til kynningar og staðfestingar haustið 1990.

Greinargerð.


    Á fimmta náttúruverndarþingi 1984 var ályktað að við undirbúning orkumannvirkja þurfi strax í upphafi að ganga úr skugga um umhverfisáhrif þeirra og flýta þurfi vinnu við endurskoðun á forgangsröð með hliðsjón af umhverfis- og náttúruvernd.
    Á vegum Náttúruverndarráðs hefur þegar farið fram mikil vinna og gagnaöflun til að flokka vatnsföll og fossa, jarðhitasvæði og einstaka hveri út frá verndargildi, svo og votlendissvæði og aðrar gróðurvinjar á hálendinu sem gætu orðið í hættu vegna vatnsmiðlana (sjá fylgiskjöl).
    Sérstök samráðsnefnd Náttúruverndarráðs og iðnaðarráðuneytis hefur allt frá árinu 1972 fjallað um virkjanaáform og umhverfisáhrif sem þeim mundu fylgja ef til framkvæmda kæmi. Þar hefur hins vegar ekki verið um heildstætt mat að ræða með tilliti til nýtingar og verndunar.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir að Náttúruverndarráð hafi forgöngu um gerð verndaráætlunar að höfðu samráði við yfirvöld orkumála. Er eðlilegt að það gerist á vettvangi samráðsnefndarinnar. Alþingi fjallaði síðan um og staðfesti áætlunina og þannig fengjust marktækar leiðbeiningar um rannsóknir og framkvæmdaáform til langs tíma. Með slíkri vinnuaðferð væri tryggt að ekki sé verið að verja fjármagni til rannsókna í þágu orkuvinnslu á svæðum sem vilji er til að varðveita sem lengst í náttúrulegu horfi og jafnframt væru síður líkur á hagsmunaárekstrum og hatrömmum deilum sem dæmi eru um hérlendis.
    Í þessu sambandi má vísa til reynslu Norðmanna þar sem norska Stórþingið hefur friðlýst fjölmörg vatnsföll, sumpart um takmarkaðan tíma.
    Sem dæmi um vatnsföll, þar sem árekstrar eru auðsæir á milli sjónarmiða hagnýtingar og verndunar, má nefna Hvítá í Árnessýslu með Gullfossi og gróðurlendi við Hvítárvatn. Svipuðu máli gegnir um Jökulsá á Fjöllum með Dettifossi og fleiri fossum neðar í ánni. Þegar hefur verið varið umtalsverðum fjármunum vegna hugsanlegra virkjana sem nýta mundu vatnið í þessum ám.
    Af jarðhitasvæðum má nefna Hengils- og Torfajökulssvæðið. Varðandi bæði háhita- og lághitasvæði þarf að koma til forgangsröð um nýtingu og skýrt mörkuð verndunarstefna áður en lengra er haldið.
    Eðlilegt er að stefnt sé að því að áætlun þessi verði fullmótuð af hálfu Náttúruverndarráðs fyrir næsta náttúruverndarþing sem lögum samkvæmt á að halda á árinu 1990. Þar yrði leitað viðbragða, en málið síðan lagt fyrir Alþingi haustið 1990.



Fylgiskjal I.


Repró í Gutenberg.





Fylgiskjal II.


Repró í Gutenberg.





Fylgiskjal III.


Repró í Gutenberg.





Fylgiskjal IV.


Repró í Gutenberg.





Fylgiskjal V.


Vatnasvæði í hættu.



    Listi yfir vatnasvæði sem eru í hættu vegna athafna mannsins. Listinn er unninn upp úr fjölriti Náttúruverndarráðs nr. 4, Vatnavernd, og vísast í það varðandi frekari upplýsingar.

Verndarflokkur A.



    A 3     Arnarvatnsheiði — náttúruminjaskrá
         Vegagerð
    A 7     Lýsuhóll — náttúruminjaskrá
         Heitavatnsöflun
    A 10     Vatnsfjörður — Friðlýst svæði
         Ofbeit
    A 17     Svarfaðardalur — Friðlýst svæði
         Árfarvegi breytt vegna vegagerðar
    A 19     Hólmarnir — náttúruminjaskrá
         Vegagerð og flugvöllur
    A 21     Mývatn — Friðlýst svæði
         Kísilgúrvinnsla, ferðamenn og fólksfjölgun
    A 28     Litlaá — náttúruminjaskrá
         Fiskeldi og mengun
    A 30     Skógarkíll — náttúruminjaskrá
         Fiskeldi, heitavatnsöflun
    A 32     Jökuldalsheiði — náttúruminjaskrá
         Fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir
    A 34     Hjaltastaðablá — náttúruminjaskrá
         Fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir
    A 41     Landmannalaugar — Friðlýst svæði
         Ferðamenn
    A 42     Veiðivötn — náttúruminjaskrá
         Ferðamenn
    A 43     Þjórsárver — Friðlýst svæði
         Virkjanaframkvæmdir, breytingar á vatnsrennsli, myndun
         uppistöðulóna
    A 53     Varmá í Ölfusi — náttúruminjaskrá
         Fiskeldi og mannfjölgun

    Af 56 svæðum í verndarflokki A eru 14 í hættu og þar af eru fimm friðlýst og níu sem eru á náttúruminjaskrá.

Verndarflokkur B.



    B 1     Úlfarsá — náttúruminjaskrá
         Vatnsöflun fyrir Áburðarverksmiðjuna
    B 2     Leirvogsá — náttúruminjaskrá
         Fólksfjölgun
    B 22     Orrastaðarústir — náttúruminjaskrá
         Virkjanaframkvæmdir (uppistöðulón og breytt jarðvatnsstaða)
    B 24     Flókadalsá — Ekki á náttúruminjaskrá
         Hafbeit
    B 25     Miklavatn í Fljótum — Ekki á náttúruminjaskrá
         Fiskeldi
    B 31     Íshólsvatn — Ekki á náttúruminjaskrá
         Fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir
    B 32     Lón í Kelduhverfi — náttúruminjaskrá
         Fiskeldi, hafbeit
    B 39     Eyjabakkar — náttúruminjaskrá
         Virkjanaframkvæmdir, stíflugerð
    B 53     Höfðaflatir — náttúruminjaskrá
         Framræsla
    B 55     Hvítárvatn — Friðlýst svæði
         Hugsanlegar virkjanaframkvæmdir
    B 58     Þingvallavatn — Friðlýst svæði að hluta til
         Sumarbústaðir og ferðamenn
    B 59     Varmá og vatnsvið hennar — náttúruminjaskrá
         Fiskeldi og mannfjölgun
    B 63     Straumur — náttúruminjaskrá
         Fiskeldi


    Af 63 svæðum í verndarflokki B eru 13 í hættu og þar af er eitt friðlýst og tíu sem eru á náttúruminjaskrá.