Ferill 126. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 126 . mál.


Ed.

132. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um grunnskóla, nr. 63/1974, með síðari breytingum.

Flm.: Guðrún Agnarsdóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir.



1. gr.

    1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Skylt er ríki og sveitarfélögum að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6 til 16 ára, eftir því sem nánar segir í lögum þessum. Skóli þessi nefnist grunnskóli og er öllum börnum og unglingum á aldrinum 6 til 16 ára skylt að sækja skóla. Undanþágu má þó veita frá skólaskyldu, sbr. 5., 7. og 8. gr.

2. gr.

    2. mgr. 23. gr. laganna orðast svo:
    Í hverju skólahverfi skal vera skólahúsnæði sem fullnægir þörfum grunnskóla við þær aðstæður sem þar eru. Við gerð eða breytingar skólamannvirkja skal m.a. tekið tillit til hvort nemendur ganga til skóla, er ekið þangað daglega, búa þar í heimavist eða um blandað fyrirkomulag er að ræða. Menntamálaráðuneytið ákveður að fenginni umsögn hlutaðeigandi fræðsluráðs, skólanefndar og sveitarstjórna hvaða gerð skólamannvirkja skuli reisa á hverjum stað. Stærð skólahúsnæðis grunnskóla fyrir nemendur í 1.–10. bekk skal miða við að fjöldi nemenda í skólanum fari ekki yfir 400, né fjöldi nemenda í skólum fyrir nemendur í 1.–7. bekk yfir 300 nemendur.

3. gr.

    1. mgr. 25. gr. laganna orðast svo:
    Í skólahúsi skal auk kennslurýmis gera ráð fyrir aðstöðu fyrir nemendur milli kennslustunda, aðstöðu til að neyta málsverðar og njóta hvíldar, snyrtiherbergjum, skrifstofu- og vinnuherbergjum skólastjóra og kennara, safni bóka og annarra námsgagna, aðstöðu til heilsugæslu, íþróttaiðkana, almennrar félagsstarfsemi í þágu nemenda og annars þess er lög þessi gera ráð fyrir. Ef henta þykir má ætla aðstöðu til íþrótta og verklegrar kennslu í öðru húsnæði.

4. gr.

    1.–4. mgr. 34. gr. laganna orðast svo:
    Ráðuneytið ræður, setur eða skipar skólabryta til forstöðu mötuneytis í heimavistarskólum og öðrum grunnskólum, sem starfrækja mötuneyti, samkvæmt tillögum skólastjóra og skólanefndar.
    Heimilt er skólanefnd að setja skilyrði um menntun eða starfsþjálfun skólabryta.
    Skólabrytar og annað starfsfólk við framreiðslu eða umsjón skólamáltíða eru ríkisstarfsmenn.
    Skólastjóri ræður með samþykki skólanefndar stunda- og forfallakennara við skóla með nemendum færri en 30 og starfsfólk með uppeldisfræðimenntun til að annast nemendur í grunnskólum fyrir eða eftir eiginlegan skólatíma, svo og starfsfólk til aðstoðar í mötuneytum.

5. gr.

    44. gr. laganna orðast svo:
    Við ákvörðun daglegs og vikulegs starfstíma nemenda í grunnskóla skal þess gætt að hann fari í heild (kennslutími, stundahlé og sjálfsnám utan kennslustunda) ekki fram yfir hæfilegt vinnuálag miðað við aldur nemenda og þroska.
    Vikulegur kennslutími á hvern nemanda í grunnskóla skal vera sem næst þessi:

    a.     í 1. bekk         (6 ára)    1200 mínútur =    30 stundir.
    b.     í 2. bekk         (7 ára)    1200 mínútur =    30 stundir.
    c.     í 3. bekk         (8 ára)    1280 mínútur =    32 stundir.
    d.     í 4. bekk         (9 ára)    1280 mínútur =    32 stundir.
    e.     í 5. bekk         (10 ára)    1400 mínútur =    35 stundir.
    f.     í 6. bekk         (11 ára)    1400 mínútur =    35 stundir.
    g.     í 7. bekk         (12 ára)    1440 mínútur =    36 stundir.
    h.     í 8. bekk         (13 ára)    1440–1480 mínútur =    36–37 stundir.
    i.     í 9. bekk         (14 ára)    1440–1480 mínútur =    36–37 stundir.
    j.     í 10. bekk         (15 ára)    1440–1480 mínútur =    36–37 stundir.

    Í 1.–6. bekk er skólastjóra í samráði við kennararáð eða kennarafund og með samþykki fræðslustjóra heimilt að lengja eða stytta vikulegan kennslutíma nemenda um allt að 40 mínútur frá framangreindum ákvæðum. Skal þá hvors tveggja gætt að heildartímafjöldi nemenda skólans það skólaár fari sem minnst fram yfir ákvæðin og að samanlagður kennslutímafjöldi nemenda á skólaferli þeirra á umræddu skólastigi verði sem næst ákvæðunum.
    Um lengd kennslustunda fer eftir ákvörðun skólastjóra í samráði við kennararáð eða kennarafund. Eigi má þó samfelld kennslustund vera lengri en 80 mínútur og eigi að jafnaði skemmri en 20 mínútur. Meðallengd kennslustunda í grunnskóla telst vera 40 mínútur.
    Stundahlé í grunnskóla skulu að jafnaði vera 15 mínútur á móti hverjum 100 mínútum sem kenndar eru.
    Daglegur kennslutími nemenda skal vera samfelldur með eðlilegum stundahléum og matartímum.
    Nemendur skulu eiga þess kost að dveljast í umsjá kennara eða annarra með uppeldisfræðimenntun í skólanum utan kennslustunda, þ.e. frá kl. 8–9 að morgni, í hádegi og kl. 15–17 síðdegis.

6. gr.

    1. mgr. 46. gr. laganna orðast svo:
    Eftir að frá hafa verið taldir sérbekkir fyrir nemendur, sem ekki stunda nám í almennum bekkjum grunnskóla, sbr. 50. og 51. gr., skal við það miðað að meðaltal nemenda í 1. og 2. bekk, þ.e. 6 og 7 ára barna, hvers grunnskóla fari ekki yfir 14 né nemendafjöldi í einstakri bekkjardeild yfir 16. Á sama hátt skal við það miðað að meðaltal nemenda í 3.–10. bekk fari ekki yfir 18 né nemendafjöldi í einstakri bekkjardeild yfir 20.

7. gr.

    74. gr. laganna (XII. kafli) fellur brott.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 75. gr. laganna:
a.     Orðin „eða forskóla, sbr. 74. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. falli brott.
b.     Á eftir 1. mgr. bætist ný málsgrein er orðist svo:
    Óheimilt er einkaaðila að reka skóla fyrir börn undir skólaskyldualdri nema með leyfi fræðslustjóra og að uppfylltum skilyrðum sem menntamálaráðuneytið setur um starfsáætlun, menntun kennara og annan aðbúnað barnanna.

9. gr.

    5. mgr. 76. gr. laganna orðast svo:
    Til kennslutíma skal hvorki telja kennslustundir utan námsskrár né kennslustundir umfram þann tíma sem ákveðinn er í 44. gr. nema hvað verja má einni stund á viku á hverja 20 nemendur í 1.–10. bekk grunnskóla til reglubundins náms á skólasafni undir leiðsögn kennara.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæði 1. gr. um skólaskyldu 6 ára barna koma ekki til framkvæmda fyrr en á skólaárinu 1990–1991 og sömuleiðis ákvæði 7. gr. um niðurfellingu almennrar heimildar um rekstur forskóla. Fram að þeim tíma verður upphaf skólaskyldu við 7 ára aldur.
    Ákvæði 5. gr. um vikulegan kennslutíma á hvern nemanda koma ekki til framkvæmda fyrr en á skólaárinu 1991–1992. Fram að þeim tíma gilda eftirfarandi ákvæði:

    Fyrir skólaárið 1989–1990:

    a.     6 ára börn             880 mínútur =    22 stundir.
    b.     í 1. bekk         (7 ára)    1000 mínútur =    25 stundir.
    c.     í 2. bekk         (8 ára)    1080 mínútur =    27 stundir.
    d.     í 3. bekk         (9 ára)    1200 mínútur =    30 stundir.
    e.     í 4. bekk         (10 ára)    1280 mínútur =    32 stundir.
    f.     í 5. bekk         (11 ára)    1360 mínútur =    34 stundir.
    g.     í 6. bekk         (12 ára)    1400 mínútur =    35 stundir.
    h.     í 7. bekk         (13 ára)    1440–1480 mínútur =    36–37 stundir.
    i.     í 8. bekk         (14 ára)    1440–1480 mínútur =    36–37 stundir.
    j.     í 9. bekk         (15 ára)    1440–1480 mínútur =    36–37 stundir.

    Fyrir skólaárið 1990–1991:

    a.     í 1. bekk         (6 ára)    1000 mínútur =    25 stundir.
    b.     í 2. bekk         (7 ára)    1080 mínútur =    27 stundir.
    c.     í 3. bekk         (8 ára)    1200 mínútur =    30 stundir.
    d.     í 4. bekk         (9 ára)    1280 mínútur =    32 stundir.
    e.     í 5. bekk         (10 ára)    1360 mínútur =    34 stundir.
    f.     í 6. bekk         (11 ára)    1400 mínútur =    35 stundir.
    g.     í 7. bekk         (12 ára)    1440 mínútur =    36 stundir.
    h.     í 8. bekk         (13 ára)    1440–1480 mínútur =    36–37 stundir.
    i.     í 9. bekk         (14 ára)    1440–1480 mínútur =    36–37 stundir.
    j.     í 10. bekk         (15 ára)    1440–1480 mínútur =    36–37 stundir.


Greinargerð.


    Frumvarp þetta var flutt á síðasta þingi og er nú endurflutt, lítillega breytt.
    Brýn þörf er á því að samræma betur vinnudag barna og foreldra hérlendis. Gera þarf vinnudag barna í skóla samfelldan, lengja kennslutíma yngstu árganganna og öll börn verða að hafa tækifæri til þess að matast í skólanum. Enn fremur er nauðsynlegt að börnin eigi þess kost að dveljast í skólanum utan kennslustunda og njóta þar umsjár kennara eða annarra með uppeldisfræðimenntun. Grunnskólar þurfa að verða einsetnir heilsdagsskólar þar sem vinnutími og viðvera bæði nemenda og kennara er samfelld. Nauðsynlegt er að fækka nemendum í hverjum bekk þannig að nám og kennsla komi að sem bestum notum. Það er einkum mikilvægt í yngstu bekkjunum. Einnig þarf að gæta þess að skólar verði ekki of stórir eða fjölmennir.
    Í þessu frumvarpi er lagt til að lögbundin verði fræðsluskylda 6 ára barna á skólaárinu 1989–1990, en skólaskylda 6 ára barna verði lögbundin á skólaárinu 1990–1991. Enn fremur að kennslutími yngri árganga verði lengdur í áföngum sem miði að einsetnum heilsdagsskóla fyrir öll börn þar sem nemendur eiga einnig kost á viðveru utan kennslustunda í þroskandi umhverfi og umsjá fullorðinna. Jafnframt er gert ráð fyrir aðstöðu til hvíldar, einkum fyrir yngri börn og aðstöðu fyrir öll börn til að matast. Einnig er gert ráð fyrir að nemendur í yngstu bekkjunum verði að meðaltali 14 en 18 að meðaltali í öðrum bekkjum.
    Frumvarpið er lagt fram til að gera nauðsynlegar breytingar á grunnskólalögunum í þágu barna, foreldra og kennara. Breyting á samfélagsháttum á síðustu áratugum hefur leitt til þess að breyttar og
vaxandi kröfur eru nú gerðar til kennara og skóla. Til þess að þeir geti svarað þessum kröfum og veitt þá þjónustu sem börn og foreldrar þurfa verður að breyta lögum og jafnframt að verja nægilegu fé til nauðsynlegra umbóta.
    Undanfarin ár hafa umtalsverðar breytingar orðið á kennslu yngri barna (5/6–12 ára) í mörgum löndum Evrópu. Breytingarnar hafa aðallega falist í því að færa starf skólanna nær raunverulegum þörfum barna og fjölskyldna þeirra eins og þær birtast í nútímaþjóðfélagi og því varðað bæði starfið sjálft og starfstíma skólanna en einnig ýmsa aðra þætti.
    Mikil vinna hefur verið lögð í að fjalla um og endurmeta markmið, stefnur og vandamál við kennslu þessara aldurshópa í öllum aðildarríkjum Evrópuráðsins. Þetta hefur verið meginverkefni menningarmálanefndar Evrópuráðsins frá árinu 1983 en þá var hafist handa við „Verkefni nr. 8, nýbreytnistarf í grunnskólum í Vestur-Evrópu“. (Project Nr. 8, Innovation in Primary Education in Western Europe.) Íslendingar hafa átt aðild að þessu verkefni og er Sigríður Jónsdóttir námsstjóri fulltrúi okkar, en hún hefur unnið í starfshópi sem fjallar um tilraunastarf nokkurra skóla í Evrópu sem tengjast verkefninu á einn eða annan hátt vegna nýbreytni í starfi.
    Víðast hvar er megináherslan lögð á að lengja skólatíma yngstu barnanna og bjóða þeim jafnframt upp á dagvist fyrir eða eftir hinn eiginlega skólatíma. Þannig hefur áherslan hvarvetna verið að koma á og þróa heilsdagsskóla þar sem nemendur geta dvalist frá morgni og fram eftir degi við nám og leik í þroskandi og öruggu umhverfi með öðrum börnum og í umsjá fullorðinna. Mikil áhersla er lögð á að öll börn fái að þroskast með sínum eðlilega hraða bæði til líkama og sálar. Því er víðast reynt að hafa skóla yngri barna fámenna, allt frá skólum með um eða innan við 100 nemendur, t.d. í svonefndum grenndarskólum í Svíþjóð, til skóla með um 300–400 nemendur. Jafnframt er reynt að hafa bekki ekki of fjölmenna þannig að hægt sé að veita einstaklingsbundna kennslu.
    Víða er reynt með ýmsum ráðum að koma á heimilislegum blæ í þessum skólum, t.d. með því að blanda saman árgöngum þar sem þau eldri „fóstra“ þau yngri, og gerðar sérstakar ráðstafanir varðandi búnað og umhverfi til að fegra og gera heimilislegra. Séð er fyrir líkamlegum jafnt sem andlegum þörfum nemenda meðan þau dveljast í skólanum eftir því sem framast er unnt, líkt og á góðum heimilum. Þannig hafa mörg samfélög brugðist við breytingum sem orðið hafa á högum barna í nútímaþjóðfélagi með því að bæta þjónustu við þau.
    Helstu breytingar, sem orðið hafa á högum barna í öllum löndum Evrópu, eru fyrst og fremst stóraukin atvinnuþátttaka beggja foreldra utan heimilis.
    Almenn atvinnuþátttaka kvenna hérlendis hefur aukist mjög á sl. 20 árum svo að nánast má líkja við félagslega byltingu. Árið 1960 stunduðu um 20% giftra kvenna einhverja vinnu utan heimilis en árið 1985 var sú hlutdeild komin upp í 83,1%.
    Fjölskyldugerðin hefur einnig breyst á þessum tíma. Stórfjölskyldan er löngu horfin og kjarnafjölskyldur eru jafnvel minni en áður því að fæðingum fer fækkandi. Fleiri eru í óvígðri sambúð, hjónaskilnuðum hefur fjölgað um helming á sl. 25 árum úr u.þ.b. 5 í 10 á hver 1000 hjón á hverju ári. Einstæðum foreldrum fer fjölgandi, en þar eru einstæðar mæður í meiri hluta. Þessi síðastnefndi hópur stendur einna verst í þjóðfélaginu og er talið að stór hluti hans búi við afkomu sem er undir fátæktarmörkum. Er það ekki síst vegna þeirra lágu launa sem konur almennt fá en þær eru ekki nema hálfdrættingar á við karla í launum þrátt fyrir langan vinnudag.
    Félagsleg staða einstæðra foreldra er mjög erfið hér á landi og það bitnar fyrst og fremst á börnum.

Tafla 1.

Meðalfjöldi í hverri fjölskyldugerð.



         1964    1985
         Fjöldi    Meðalstærð    Fjöldi    Meðalstærð
        fjölskyldna    fjölskyldna    fjölskyldna    fjölskyldna
Hjónabönd án barna .......         10.303    2,00    19.204    2,00
Hjónabönd með börnum .....         24.074    4,49    25.919    3,93
Óvígð sambúð án barna ....         606    2,00    938    2,00
Óvígð sambúð með börnum ..         1.453    4,19    4.632    3,59
Faðir með börn ...........         254    2,50    453    2,23
Móðir með börn ...........         3.420    2,55    6.274    2,33

Kjarnafjölskyldur alls ...         40.110    3,63    57.420    3,04
Einhleypingar ............         44.350    1,00    67.235    1,00

>h8.5<Heimild: Hagstofa Íslands, hér tekið úr „Gróandi þjóðlíf“, bls. 185.>h8.5<

    Fjölskyldan og heimilið voru áður sterkar félagslegar einingar sem mynduðu stoð og athvarf fyrir nokkuð stóran hóp einstaklinga og þar fór uppeldi barna að verulegu leyti fram. Ætla má að fjölskyldutengslin hafi að ýmsu leyti verið sterkari þá en nú og tengt traustum böndum hina ólíku aldurshópa. Nú þarf fámenn kjarnafjölskyldan að sinna hlutverkum sem margir sinntu áður.
    Langur vinnutími og meira vinnuálag en gerist meðal nágrannaþjóða okkar leiða til fjarvista foreldra frá heimili og aukinnar streitu þeirra en vaxandi fjöldi heimila þarfnast vinnuframlags tveggja til framfærslu.
    Börnin þurfa oft að hafa ofan af fyrir sér sjálf, jafnvel frá unga aldri.
    Í skólaskýrslum úr Reykjavík frá 1975 kemur fram að um 40% 7–12 ára barna eru meira eða minna ein heima á daginn. Aðstaða einstæðra foreldra til að sinna börnum sínum er til m na erfiðari en annarra. Fram kemur t.d. í skýrslu landlæknis, „Mannvernd“ frá því í desember 1987, að um fjórðungur barna einstæðra foreldra 7 ára og yngri og um 64% 7–12 ára gangi sjálfala á daginn.
    Mörgum ógnar hve fjölmiðlar skipa stóran sess sem afþreying barna. Einkum hafa menn áhyggjur af því að mikil sjónvarps- og myndbandanotkun geri börn að óvirkum þiggjendum og margir óttast neikvæð uppeldisáhrif þess efnis sem þannig berst að ómótuðum barnshugum.
    Mikið af myndefni því, sem börn horfa á, er á ensku og þar sem tími til mannlegra samskipta er oft allt of naumur gefst mörgum börnum of lítill tími til að tala við fullorðið fólk og þjálfa þannig móðurmál sitt. Tilfinningaleg áhrif slíks afskiptaleysis geta orðið alvarleg og valda mörgum foreldrum stöðugri sektarkennd. Kennarar hafa jafnframt veitt því athygli á síðustu árum að kunnátta grunnskólanemenda í íslensku fer minnkandi, bæði hvað varðar orðaforða, málfræði og stafsetningu.
    Sú streita, sem leiðir af miklu vinnuálagi og ófullnægjandi tilfinningatengslum, hefur lítið verið rannsökuð hérlendis en í þeim rannsóknum, sem þó hafa verið gerðar, hefur hún fundist hjá börnum ekki síður en fullorðnum.
    Segja má að mörg heimili séu vanbúin til að gegna hefðbundnu uppeldishlutverki vegna breyttra félagslegra aðstæðna og foreldrar hafa þegar gert eindregnar kröfur til samfélagsins um að það taki í ríkara mæli þátt í uppeldi barna. Langt er frá að það hafi brugðist við sem skyldi og er nú mikill skortur víða um land á samastað fyrir börn þar sem þau geta unað við nám, leik og hvíld í öruggu, uppeldislega jákvæðu umhverfi.
    Lykill að því að stuðla að velferð fjölskyldunnar er að sjálfsögðu að minnka vinnuálag á foreldrum og gera þeim kleift að lifa af dagvinnulaunum
sínum. Jafnframt þarf að finna viðunandi lausnir á húsnæðisvandanum sem er mikill streituvaldur og hvati að auknu vinnuálagi. Slíkar ráðstafanir mundu einar sér gefa fjölskyldum meiri tíma til samvista en þær hafa nú.
    Á hinn bóginn eru síauknar kröfur gerðar í nútímaþjóðfélagi um menntun og þekkingu og ætla má að þær verði síst minni í framtíðinni.
    Flestir eru sammála um að sú ráðstöfun hafi verið rétt að hefja kennslu fyrir 6 ára börn í grunnskólum og flestir eru einnig sammála um að kennslutíma þeirra þurfi að lengja.
    Óþrjótandi forvitni og námfýsi ungra barna er þörf sem verður að svara og það getur skipt sköpum fyrir barn hvort, hvernig og hvenær slíkri þörf er svalað eða henni sinnt.

Fræðsluskylda og skólaskylda.
    Í grunnskólalögunum er heimildarákvæði í 74. gr. þar sem segir:
    „ Heimilt er sveitarfélögum að setja á stofn við grunnskóla og undir sömu stjórn forskóla fyrir 6 ára börn, eða 5 og 6 ára börn, enda samþykki mennt amálaráðuneytið starfsáætlun, húsnæði og annan aðbúnað skólans.“
    Þessa heimild hafa flest sveitarfélög nýtt sér nú þegar og hefur skólasókn 6 ára gamalla barna verið 95% eða meiri allt frá því að reglulegt forskólahald hófst 1970 og er nú um 98%.
    Þessar tölur segja þó ekki alla söguna því að kennslutími er afar misjafn, allt frá nokkrum dögum í senn á hverju ári upp í samfellda kennslu í 34 vikur á ári. Er það einkum í dreifbýli sem erfitt hefur verið að veita samfellda kennslu fyrir 6 ára börn.
    Því er í þessu frumvarpi lagt til að fræðsluskylda verði þegar næsta haust lögbundin fyrir 6 ára börn og verði það áfangi á leið til skólaskyldu þeirra sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu að tekin verði upp árið 1990.
    Árið 1907 voru í fyrsta sinn sett almenn fræðslulög hérlendis sem kváðu á um skólaskyldu barna frá 10 ára til 14 ára aldurs. Var heimilunum ætluð önnur fræðsla barnanna og þau áttu að koma nokkurn veginn læs og skrifandi í skólann.
    Heimild var í þessum lögum til þess að færa skólaskyldu niður í 7 ára aldur þó að hún væri almennt ekki notuð.
    Í fræðslulögum 1926 var svo prófskylda færð niður í 8 ára aldur og myndaði það aukna þörf fyrir kennslu yngri barna sem varð til þess að börn voru send fyrr í skóla en áður.
    Á árinu 1936 voru síðan sett ný fræðslulög þar sem skólaskylda var færð niður í 7 ára aldur um allt land.
    Um áratuga skeið voru þó reknir smábarnaskólar eða tímakennsla stunduð fyrir fjölda barna allt frá 5 ára aldri þar til þau hófu nám í barnaskólum. Allt frá árunum upp úr 1950 var þó alvarlega farið að huga að því að taka upp kennslu 6 ára barna í skólunum og vorið 1964 voru fyrst haldin tveggja vikna vornámskeið við alla skóla Reykjavíkur og sóttu þau yfir 90% allra barna sem urðu skólaskyld á árinu. Þessum námskeiðum var haldið áfram allt til 1970 þegar almenn forskólakennsla 6 ára barna hófst í Reykjavík.
    Heimildarákvæði til kennslu 5 og 6 ára barna hafði þó verið í lögum allt frá 1946 (54. gr. laga nr. 34/1946). Þrýstingur foreldra og forráðamanna 6 ára barna var sívaxandi á árunum fyrir 1970 áður en forskólakennsla h fst og lýsti sér með fjölgun umsókna um innritun 6 ára barna í 7 ára bekk og aukinni aðsókn að tímakennslu og smábarnaskólum.
    Síðan forskólakennsla hófst hefur verið mikil umræða bæði meðal foreldra og kennara um lengingu þess tíma sem yngri börn sækja skólann og nauðsyn þess að skólarnir sinni bæði aukinni kennslu- og umönnunarskyldu, einkum gagnvart yngri börnunum. Jafnframt hafa starfshópar og nefndir sinnt frekari athugun á kennslu, námsskrám, gerð náms- og kennslugagna og mörgum öðrum þáttum forskólans og tengingu hans við grunnskólann.
    Í nóvember 1979 var skipuð nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins „til að gera úttekt á vandamálum forskólans, marka stefnu og gera tillögur um aðgerðir á næstu árum“. Nefndin skilaði ítarlegri skýrslu í desember 1981 (skýrsla Forskólanefndar menntamálaráðuneytisins, desember 1981). Nefndin lagði til m.a. að lögfest verði fræðsluskylda 6 ára barna en taldi rétt að stefna ákveðið að því að taka upp skólaskyldu þessa aldurshóps. Einnig taldi nefndin að fella bæri niður almennt heimildarákvæði til handa sveitarfélögum að starfrækja forskóla fyrir 5 ára börn.
    Starfshópur um forskóla sem skipaður var haustið 1982 samkvæmt tillögum frá forskólanefnd lagði til í mars 1984 og í ágúst 1986 að komið yrði á skólaskyldu 6 ára barna og þau þannig viðurkennd sem fullgildir nemendur grunnskólans. Þetta var gert eftir samráð og samstarf við alla fræðslustjóra í landinu sem voru sammála um að gera 6 ára börn skólaskyld.
    Nefndin taldi það „mjög brýnt að viðurkenna þennan aldurshóp sem fyrsta námsár skólans með full réttindi bæði hvað varðar námsgögn og aðra þjónustu sem veitt er í skólum. Slí k viðurkenning er m .a. forsenda þess að unnt sé að vinna að heildstæðu, samfelldu námi frá skólabyrjun. Ef taka á mið af þörfum í nútímaþjóðfélagi ber að sjálfsögðu að stefna að heilsdagsskóla fyrir öll börn.“
    Í frumvarpi til laga um grunnskóla (354. mál), sem lagt var fram á þingi
1987, var lagt til að fræðsluskylda verði fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6–16 ára. Skólaskyld samkvæmt því frumvarpi voru börn og unglingar frá 7–15 ára aldurs.
    Í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um menntastefnu á Íslandi, sem gefin var út á íslensku í ágúst 1987, eru ekki gerðar beinar tillögur um breytingar á skólaskyldu en þó gerðar athugasemdir við það hve losaralegt skipulag ríki hérlendis í málefnum forskólans og umönnun barna sem enn eru ekki skólaskyld.
    Heildarstefna Kennarasambands Íslands í skólamálum, skólastefna, va samþykkt á 4. fulltrúaþingi sambandsins í júní 1987. Í henni er lögð áhersla á fræðsluskyldu fyrir 6 ára börn, en ekki mælt með því að 5 ára börn séu tekin í grunnskólann. Í nágrannalöndum okkar er þessu varið á ýmsan hátt. Í Svíþjóð er t.d. fræðsluskylda fyrir 6 ára börn og í Bretlandi hefst skólaskylda við 5 ára aldur.
    Rétt þykir að hið opinbera marki skýra stefnu varðandi þátttöku í uppeldi og menntun 5 og 6 ára barna. Slík stefnumörkun auðveldar bæði uppbyggingu dagvistarheimila og skóla og menntun fóstra og kennara.
    Ekki er tímabært að taka 5 ára börn inn í grunnskólann meðan aðbúnaði 6 ára barna og reyndar annarra aldurshópa er enn svo ábótavant sem raun ber vitni. Menntun grunnskólakennara hefur ekki verið miðuð við að kenna 5 ára börnum en menntun fóstra miðar hins vegar að því að sinna þessum aldurshópi, enda fær hann nú mun betri umönnun og þjónustu á dagvistarheimilum en í skólum.
    Það þykir því ekki réttlætanlegt að bjóða 5 ára börnum lakari aðbúnað og þjónustu en þeim býðst nú þegar á dagvistarheimilum. Er þá höfð í huga tímalengd dvalar á hverjum degi, fjöldi barna í umsjá hvers fullorðins og mikil útivinna foreldra sem þurfa á öruggri gæslu barna að halda.
    Enn fremur má búast við því að mikil eftirspurn yrði á þéttbýlissvæðum eftir skólarými fyrir 5 ára börn, meiri en í dreifbýli. Slíkt gæti aukið enn frekar á þann aðstöðumun sem þegar er of mikill milli þéttbýlis og dreifbýlis.
    Flestum nágrannaþjóðum okkar hefur tekist að samræma vinnudag barna og foreldra að verulegu leyti. Á Norðurlöndum, í flestum öðrum Evrópulöndum og í Bandaríkjunum fara börn til skóla á morgnana kl. 8 eða 9 og dveljast þar til kl. 2 eða 4 síðdegis. Það er venja að börnin geta matast í skólanum, annaðhvort með því að kaupa þar heita máltíð, brauð eða annað létt fæði eða neyta þar nestis að heiman. Stundum gefst yngri börnum þess kostur að fara heim í hádeginu í fylgd fullorðinna til að borða ef aðstæður leyfa. Algengt er að skólinn beri ábyrgð á börnum meðan þau dveljast þar og er nemendum ekki ætlað að fara út af lóð skólans meðan á skólatíma stendur. Þessu banni er
framfylgt og það virt. Yngri börnin eru gjarnan eitthvað skemur í skólanum en þau eldri og er vinnudegi þeirra jafnan lokið er heim kemur en þau eldri þurfa fremur að sinna einhverju heimanámi.
    Þessi háttur hefur verið hafður á um margra ára eða áratuga skeið meðal nágrannaþjóða okkar óháð því hvort fjarvistir beggja foreldra frá he mili eða aðrar félagslegar aðstæður krefðust þess. Það er því verulegt umhugsunarefni hvers vegna þetta fyrirkomulag hefur ekki verið tekið upp hérlendis, einkum þegar litið er til þeirra félagslegu aðstæðna sem hefur verið lýst hér að framan og varða hag barna.

Lenging kennslutíma og hámarksfjöldi nemenda í bekk.
    Í þessu frumvarpi er lagt til að lengja í áföngum kennslutíma barna frá 6–12 ára sem miði að einsetnum heilsdagsskóla. Börnum 6 og 7 ára er ætlað að vera samtals 30 kennslustundir á viku í skóla eða 20 klst.; 8 og 9 ára börnum er ætlað að vera 32 kennslustundir á viku eða 21 klst. og 20 mín.; 10 og 11 ára börnum 35 kennslustundir á viku eða 23 klst. og 20 mín. og 12 ára börnum er ætlað að vera 36 kennslustundir á viku í skóla eða 24 klst. Gert er ráð fyrir að allar kennslugreinar verði kenndar á þessum tíma, einnig list- og verkmennt og líkamsrækt. Vinnudegi barna er því lokið er heim kemur, a.m.k. yngri barna. Auk kennslutíma verður svo að ætla eðlileg stundahlé og matartíma sem lengir dvöl barna í skólanum. Síðan þykir nauðsynlegt að börn geti dvalist í skólanum utan kennslutíma í umsjá kennara eða annarra með uppeldisfræðimenntun, á morgnana frá kl. 8–9, í hádeginu og síðdegis eftir að skóla lýkur allt til kl. 17. Ætlast er til þess að börnin geti þá unnið, leikið sér eða hvílt sig, allt eftir þörfum. Gera þarf ráð fyrir starfsfólki til að sinna börnum á þessum tímum.

Tafla 2.

              Kennslu-    Stunda-    Matar-    Heildar-
             tími    hlé    hlé    dvöl
    Aldur         mín.    mín.    mín.    klst./mín.
     6 ára ...........         240    36    90    6,06
     7 ára ...........         240    36    90    6,06
    
     8 ára ...........         256    38    90    6,24
     9 ára ...........         256    38    90    6,24
    
    10 ára ...........         280    42    90    6,52
    11 ára ...........         280    42    90    6,52
    
    12 ára ...........         288    43    90    7,01
    
    13 ára ...........         296    44    90    7,10
    14 ára ...........         296    44    90    7,10
    15 ára ...........         296    44    90    7,10

    Samkvæmt þeim hugmyndum, sem settar eru fram í þessu frumvarpi, má ætla að börn dvelji a.m.k. 6 klst. í skóla á degi hverjum ef með eru talin eðlileg stundahlé og matarhlé. Ef börnin nýta sér þá viðveru sem skólanum er ætlað að bjóða þeim upp á gæti dvöl þeirra orðið eitthvað lengri.
    Fjöldi grunnskólakennara og forsvarsmanna barna, sem flutningsmenn ræddu við vegna þessa frumvarps, lögðu þunga áherslu á mikilvægi þess að fækka nemendum í einstökum bekkjardeildum grunnskólans. Sumir töldu það jafnvel brýnustu einstaka aðgerð til úrbóta í málefnum skólans. Má í þessu sambandi vísa til nýlegrar könnunar sem gerð var meðal grunnskólakennara af Þórólfi Þórlindssyni prófessor á vegum menntamálaráðuneytisins. Í henni kom fram að 23,75% aðspurðra töldu að nemendur ættu að vera færri en 15 í hverri bekkjardeild; 37,33% töldu að nemendur ættu að vera 15–17; 28,14% töldu að nemendur ættu að vera 18–20. Það eru því 89,22% grunnskólakennara sem telja að fækka þurfi í bekkjardeildum frá því sem nú er. Svör í þessari könnun bárust frá 83,9% aðspurðra.
    Flestir þeirra, sem flutningsmenn ræddu við, töldu að við núverandi aðstæður væri ekki unnt að sinna sem skyldi öllum nemendum í fjölmennum bekkjardeildum með 20–28 nemendum. Reyndin væri sú að kennslan miðaðist fyrst og fremst við getu meðal nemenda en þeir sem þyrftu sérstaka aðstoð kennarans yrðu einfaldlega út undan. Ekki væri hægt fyrir einn kennara að veita einstaklingsbundna aðstoð í fjölmennum bekkjardeildum. Þeir sem þannig njóta ekki kennslu í samræmi við námshæfileika sína og verða út undan geta misst bæði áhuga og tök á námi og yfirgefið skólann með skerta sjálfsímynd. Slíkt er í fyllsta ósamræmi við markmið og anda grunnskólalaganna og stríðir gegn betri vitund kennara. Það er því tvímælalaust bæði nemendum og kennurum í hag að fækkað sé í bekkjardeildum. Brýnast er þetta í yngstu bekkjum skólans þegar börn eru að hefja skólanám.
    Bæði forskólanefnd og starfshópur um forskóla lögðu til lengingu á kennslu 6 ára barna, nefndin allt að 20 kennslustundir á viku og starfshópurinn 20 kennsl stundir á viku að lágmarki. Jafnframt lögðu báðir vinnuhóparnir til að hámarksfjöldi nemenda í bekk verði 16–18 miðað við einn kennara. Enn fremur að börn eigi kost á dvöl í skólanum utan kennslutíma frá kl. 8–9 á morgnana, í hádegi og frá kl. 4–5 síðdegis.
    Gert er ráð fyrir því að boðið sé upp á viðfangsefni sem hæfi þroskastigi og áhuga hvers og eins. Í skýrslu forskólanefndar er fjallað um það hvort ætla megi 6 ára barni að hafa úthald til að stunda nám í skóla hálfan daginn fimm daga vikunnar. Fullyrða má að barn á þeim aldri hafi ekki þol til að sitja kyrrt og hljótt svo lengi enda slíkt ekki ætlunin. Miklu nær er að bera skólavist 6 ára barna saman við dvöl á dagvistarheimili þar sem börn eru daglega allt að 9 klst. á dag. Börn verða vitaskuld að fá útrás fyrir hreyfiþörf og leikþörf og taka verður mið af takmarkaðri einbeitingarhæfni þeirra. Námið verður að miðast við þroskastig barnsins; það er meginforsenda þess að svo ung börn geti notið og nýtt lengri skóladvöl. Meginskilyrði er þó að námshópar séu ekki of stórir þannig að veita megi einstaklingsbundna umönnun.
    Sem dæmi má taka að 5 og 6 ára börn eru skólaskyld í Bretlandi og sækja þar skóla frá kl. 9–15:30 fimm daga vikunnar. Ekkert bendir til þess að þessi skóladagur sé þeim almennt ofviða.
    Þegar skóladagur yngstu barnanna verður þannig lengdur skapast möguleikar á því að samræma kennslu yngstu aldurshópanna, þ.e. 6, 7 og 8 ára barna.
    Í fámennum skólahverfum í dreifbýli þar sem samgönguerfiðleikar eru þarf að leita annarra lausna. Ýmislegt kemur þar til greina til að leysa vanda
yngri barna, t.d. að hafa færri en fimm skóladaga í viku, en lengja daglegan skólatíma. Einnig mætti nefna vor- eða haustnámskeið ásamt bréfaskóla eða fjarkennslu yfir vetrarmánuði, skólasel o.fl. Mikilvægt er þó að öll börn sitji við sama borð án tillits til búsetu.

Einsetning í grunnskólum.
    Einsetning í grunnskólum er eitt af frumskilyrðum fyrir því að samfelldur heilsdagsskóli komist á.
    Á árunum 1983–1985 starfaði vinnuhópur undir forustu Salome Þorkelsdóttur alþingismanns sem skipaður var af þáverandi menntamálaráðherra, Ragnhildi Helgadóttur. Aðalviðfangsefni hópsins var að athuga tengsl fjölskyldu og skóla og gera tillögur um hvernig bæta mætti þau tengsl. Vinnuhópurinn skilaði skýrslu um störf sín og gerði tillögur í tveimur liðum í lok skýrslu sinnar (sjá viðauka 2). Í könnunum, sem nefndin gerði meðal skólastjóra og foreldra í grunnskólum í eykjavík og Reykjanesi, kom fram skýr ósk um að komið verði á samfelldum skóladegi sem fyrst en samfelldur skóladagur var þar skilgreindur sem samfelld viðvera fremur en samræmdur vinnudagur barna og foreldra. Efst á lista skólastjóra og foreldra yfir þau atriði sem talin voru stuðla að því að koma á samfelldum skóladegi var einsetning skóla, 97% skólastjóra og 90% foreldra töldu það meginatriði.
    Einsetningu fylgir aukinn kostnaður í bráð og er nauðsynlegt að reyna að gera sér eins glögga grein fyrir honum og unnt er. Hins ber þó að gæta að hér er um byrjunarkostnað að ræða og bættur aðbúnaður barna í skólum er góð fjárfesting ef til framtíðar er litið. Hann mun skila sér í betri menntun og betri andlegri og líkamlegri heilsu þeirra sem byggja landið.
    Jón Torfi Jónasson dósent hefur unnið að því að kanna og áætla þennan kostnað. Hefur það verið hluti af vinnu hans sem framkvæmd var fyrir tilstuðlan skólamálahóps framtíðarspárnefndar forsætisráðherra. Greinargerð sem er hluti af niðurstöðum hans og var skrifuð vorið 1988 er birt sem viðauki 1 hér að aftan með góðfúslegu leyfi höfundar.
    Jón Torfi hefur að beiðni flutningsmanna gert afar grófa áætlun og sundurliðun á þeim kostnaði sem þetta frumvarp gæti haft í för með sér. Hann hefur gengið út frá svipuðum forsendum og koma fram í greinargerð hans í viðauka 1.
    Áætlunina ber þó alls ekki að túlka of nákvæmlega. Margir kostnaðarliðir eru óvissir og byggjast á viðmiðunum sem eru álitamál. Enn aðrir hafa ekki verið teknir með í þessa áætlun þar sem ekki er hægt að meta þá að svo stöddu.
    Hins vegar er þessi kostnaðaráætlun að öllum líkindum rúmlega fremur en
naumlega reiknuð. Hún gefur sannarlega nokkra vísbendingu um kostnaðarliði vegna óumflýjanlegra breytinga á grunnskólanum, breytinga sem í raun hefði átt að gera fyrir löngu. Ef til vill venur hún okkur einnig á að hugsa um þarfir grunnskólans í réttum stærðargráðum hvað kostnað varðar. Þess vegna er hún mjög gagnleg.

I. Almennur rekstrarkostnaður.
    Rekstrarkostnaður grunnskóla 1989 er áætlaður um 3,9 milljarðar króna (sjá athugasemdir við fjárlagafrumvarp 1989, þskj. 75, bls. 241).
    Vikulegur kennslustundafjöldi 6–15 ára er samkvæmt reglugerð 288 stundir (sjá töflu 3. Hér er miðað við að allar stærðir séu jafnar, m.a. árgangsstærðir, bekkjarstærðir o.fl. Alls kyns tilfallandi kostnaður er ekki dreginn frá því hann kemur á viðbótartímann líka, a.m.k. að einhverju leyti). Kostnaður á hverja stund er þá um 13,5 milljónir króna. Hér er allur kostnaður ríkisins reiknaður með þannig að þessar tölur eru alveg í efri mörkum. Í viðauka 1 (JTJ) er talið að viðbótarstund 1987 kosti 0,2 milljónir króna (þ.e. 6,8 milljónir króna fyrir árið í stað 13,5 milljóna króna) en þar er fyrst og fremst miðað við launakostnað við kennsluna — og upphæðin því líklega í lægri mörkum. Þar sem hér er um að ræða viðbót við kerfi sem fyrir er þá má setja þessa upphæð nær lægri mörkunum. Hér verður miðað við 8 milljónir króna fyrir hverja viðbótarstund.
    Hér er miðað við að ástandið sé eins að öðru leyti en hvað varðar breyttan stundafjölda (sjá töflu 3.). Þá má búast við eftirfarandi aukningu í rekstrarkostnaði ríkisins (í milljónum króna):

    Árið 1989–1990 er ráðgerð 25 stunda aukning     8 x 25 =         200
    Árið 1990–1991 er ráðgerð 14 stunda aukning     8 x 14 =         112
    Árið 1991–1992 er ráðgerð 11 stunda aukning     8 x 11 =         88
                  —-
                  400

    Hér er látið sem allar stundir séu jafndýrar. Svo er þó ekki.

    Heildaraukning í rekstrarkostnaði, þegar lögin hafa komið til framkvæmda, verður um 400 milljónir króna vegna almenns rekstrarkostnaðar.
    Rekstrarkostnaður ríkisins vegna grunnskóla, sem nú er áætlaður um 3,9 milljarðar króna, yrði nær 4,3 milljörðum króna eftir að einsetningu er komið á. Kostnaður vegna gæslu og matar er ekki talinn með hér.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir fækkun nemenda í bekkjum miðað við það sem nú er. Ef meðalstærð bekkja er nú nálægt 22 (þessi tala kann að vera of lág, en hún er byggð á meðalfjölda nemenda í bekk í þeim skólum sem upplýsingar hafa fengist um), en skal vera 18 (14 hjá 6 og 7 ára börnum) þá fjölgar bekkjum um 22%. Miðist öll kennsla áfram við bekkjareiningar krefst sú breyting ein sér væntanlega um 22% viðbótar í rekstrarkostnaði. Þar á móti
kemur að vísu einhver fækkun í árgöngum. Hér verður miðað við tæplega 20% aukningu í rekstrarkostnaði sem vex þá úr 4,3 milljörðum króna í 5,2 milljarða króna. Viðbót vegna fækkunar í bekkjum er því um 0,9 milljarðar króna.
    Gæslukostnaður vegna veru barna utan skólatíma er ekki reiknaður hér, enda mjög óljóst hve mikið mun reyna á slíkt fyrirkomulag eða hver bæri þennan kostnað.

II. Launakostnaður vegna matartíma.
    Launakostnaður vegna mataraðstöðu er töluverður. Miðað við að ein manneskja á fjögurra tíma vakt anni um 100 manns, enda sé maturinn að einhverju leyti fyrir fram tilbúinn þá verður kostnaðurinn fyrir grunnskólann:

    41.000/100 x 4 x 500 x 5 x 34 = 140 milljónir króna.

    (Fjöldi grunnskólanemenda, stærð hóps, tímar á dag, laungjöld, dagar vikunnar, kennsluvikur.)
    Sé þessari aukningu skipt á þrjú ár er um að ræða 47 milljónir króna á ári.
    Gera má ráð fyrir einhverri niðurgreiðslu matar. Ekki er reiknaður stofnkostnaður vegna matartíma í skólum, en hann ræðst algerlega af því fyrirkomulagi sem notað verður.

III. Stofnkostnaður vegna kennsluaðstöðu.
    Skólastofur vantar vegna einsetningar. Í viðauka 1 (skrifaður vorið 1988) með frumvarpinu áætlar Jón Torfi Jónasson dósent að um 450 stofur vanti svo allar bekkjardeildir hafi aðstöðu samtímis. Samkvæmt því þarf að bæta við um 150 stofum á ári næstu þrjú árin svo þessu marki verði náð. Sérstakur kostnaður vegna þessa ræðst af þeim áætlunum sem þegar liggja fyrir um byggingu skólahúsnæðis. Ef giskað er á að nálægt 100 stofur verði tilbúnar á hverju ári samkvæmt þeim framkvæmdahraða, sem nú er, þá vantar enn 50 stofur á ári. Á árinu 1987 kostaði hver stofa nálægt 4 milljónum króna. Sú tala framreiknuð til 1989 er nálægt 6,5 milljónum króna; 50 stofur á ári kosta því nálægt 325 milljónum króna á ári.
    Í viðauka rökstyður Jón Torfi að allar þessar stofur þurfi þrátt fyrir fyrirséða fækkun í árgöngum. Koma þar m.a. kröfur um sérstofur af ýmsu tagi og kröfur um fækkun í bekkjardeildum.
    Stofnkostnað vegna fækkunar í bekkjardeildum er erfiðara að reikna en hann fæst með því að telja þær stofur sem til eru, bæta við 450 og reikna 22% (til þess að fá fjölda stofanna). Séu til 1400 stofur, bætt við 450 vegna einsetningar, þá verða þetta um 407 stofur. Síðan er margfaldað með 6,5 til þess að fá stofnkostnaðinn. Þá verða þetta um það bil 407 x 6,5 = 2,6 milljarðar króna til viðbótar. Verði ekki miðað við einsetningu þá þarf mun færri stofur, en fer þó eftir skólum og umdæmum og hvernig tvísetningu yrði háttað.

Tafla 3.

Breytingar á fjölda kennslustunda samkvæmt frumvarpi.



         Reglugerð*    Þrep 1    Þrep 2    Þrep 3    Viðb.1    Viðb.2    Viðb.3    Viðb.
1. bekkur 6 ára         18    22    25    30    4    3    5    12
2. bekkur 7 ára         22    25    27    30    3    2    3    8
3. bekkur 8 ára         22    27    30    32    5    3    2    10
4. bekkur 9 ára         26    30    32    32    4    2    0    6
5. bekkur 10 ára         29    32    34    35    3    2    1    6
6. bekkur 11 ára         32    34    35    35    2    1    0    3
7. bekkur 12 ára         34    35    36    36    1    1    0    2
8. bekkur 13 ára         35    36    36    36    1    0    0    1
9. bekkur 14 ára         35    36    36    36    1    0    0    1
10. bekkur 15 ára         35    36    36    36    1    0    0    1
         ——    ——    ——    ——    ——    ——    ——    —–
    Samtals         288                   25    14    11    50

    >h8.5l9<* Stjtíð. B nr. 212/1984. Reglugerðin gefur til kynna færri kennslustundir á viku en grunnskólalögin kveða á um. Því verður viðbót sem svarar einni kennslustund fyrir þrjá elstu bekkina í þessu frumvarpi ef miðað er við reglugerð en engin viðbót ef miðað er við lögin.>h10l11<

IV. Samantekt.
    Heildarviðbót miðað við fjárlagafrumvarp:

         Rekstur    Rekstur    Stofn-
        kennsla    matur    kostnaður    Samtals
Vegna skólaársins 1989–1990 ..         200    47    325    572
Vegna skólaársins 1990–1991 ..         112+200    94    325    731
Vegna skólaársins 1991–1992 ..         88+112+200    140    325    865


    Sú rekstrarviðbót fyrir hvert ár þar á eftir sem þá hefur komið ofan á þann rekstur sem nú er: 400 + 140 = 540 millj. kr.

    Auk gæslu- og matarkostnaðar verður þetta einhvers staðar nálægt þessum tölum (í millj. kr.):
                  Stofn-
             Rekstur    kostnaður
    Vegna einsetningar .........         540    + 975
    Vegna fækkunar í bekkjum ...         900    + 2600


Slys á börnum.
    Mikið skortir á að nógu vel sé almennt hugað að frumþörfum vaxandi barna eins og t.d. næringarþörf. Er undir hælinn lagt hvernig börnin bera sig að því að sinna henni í fjarveru foreldra en almennt er engin aðstaða til þess í skólum. Mikið áhyggjuefni eru einnig tíð slys á börnum. Á Íslandi er lægstur ungbarnadauði í heiminum. Hins vegar er börnum hérlendis búin meiri slysahætta en börnum í nágrannalöndum okkar bæði í umferðinni og í heimahúsum. Er ástæða til að ætla að skortur á umsjá fullorðinna og sundurslitin stundaskrá valdi þar mestu. Vinnudagur foreldra og barna hérlendis er ekki samræmdur. Stundaskrá og kennslutímar grunnskólabarna eru allt of oft ósamfelld og útheimta margar ferðir þeirra á degi hverjum til og frá skóla og börn hafa yfirleitt hvorki tök á því að fá mat í skólanum né hafa þau almennt aðstöðu til að matast þar.
    Það er ótrúlegt skeytingarleysi um tíma og virðingarleysi gagnvart velferð barna að bjóða þeim upp á þann vinnudag í skóla sem við höfum látið viðgangast, fullorðna fólkið í samfélaginu. Við mundum tæplega bjóða fullorðnu fólki upp á slíkt, enda njóta flestir fullorðnir þess að hafa mötuneyti eða aðstöðu til að neyta nestis á vinnustað og finnst það sjálfsagt.
    Í skýrslu landlæknis um barna- og unglingaslys á Íslandi frá því í september 1985 má finna eftirfarandi upplýsingar:
    Í könnun Bjarna Torfasonar læknis, sem gerð var 1979, kom í ljós að slys á gangandi vegfarendum voru algengust meðal barna og unglinga og var hámarkið í 5–9 ára aldurshópnum. Í athugun Guðrúnar R. Briem á umferðarslysum á gangandi vegfarendum í Reykjavík 1981–1982 kom í ljós að 50% slysa á gangandi börnum 14 ára og yngri verða vegna þess að þau hlaupa skyndilega út á akbraut í veg fyrir ökutæki. Meðalaldur þeirra var 8 ár.
    Á aldrinum 5–12 ára urðu 80% slysa eftir kl. 12:40 og 55% eftir kl. 14:20. Sú ályktun var því dregin að slys á leiðinni í skólann væru ekki algeng. Enn fremur að börn slasast fremur eftir skólatímann þegar þau eru að leik. Tæp 80% slysa á börnum verða á akbraut en 12% á gangbraut. Nær 60% barnanna slasast alvarlega og barn, sem slasast, er yfirleitt eitt á ferð eða með öðrum börnum.
    Í könnun Bjarna Torfasonar kom fram að langflestir, sem slösuðust á reiðhjólum, voru á aldrinum 5–14 ára. Afleiðingar reiðhjólaslysa meðal barna eru m.a. tíð höfuðslys en 65% allra höfuðslysa í umferð verða á börnum 14 ára og yngri.
    Slys á börnum verða helst þegar þau eru eftirlitslaus, án umsjónar fullorðinna, en nánari upplýsingar liggja ekki fyrir um aðstæður þeirra barna sem verða fyrir slysum. Brýnt er efla rannsóknir á umferðarslysum til að greina áhættuþætti og renna stoðum undir markvissa fræðslu. Hins vegar vitum við nú þegar nóg til þess að hafa ríka ástæðu til að bæta öryggi barna okkar og samræmdur vinnudagur barna og foreldra hlýtur að vera mikilvægur liður í því.

Mataræði barna.
    Allt of fáar neyslukannanir hafa verið framkvæmdar hérlendis. Þó má draga nokkurn lærdóm af þeim sem hafa verið gerðar.
    Á árunum 1977–1978 fór fram neyslukönnun meðal 10–14 ára skólabarna í Reykjavík á vegum manneldisráðs. Niðurstöður hennar voru eftirfarandi:
1.      Heildarneysla fisks og brauðmetis hefur minnkað um 30% fr á því á árinu 1938, kjötneysla hefur heldur aukist.
2.      Sykurneysla hefur aukist gífurlega, aðallega vegna þess að neysla sælgætis, sætabrauðs og gosdrykkja hefur aukist og samsvarar um fjórðungi af heildarneyslunni, en árið 1938 var neysla þessara tegunda um 5% af heildarneyslu.
3.      Grænmetis-, ávaxta- og mjólkurneysla hefur aukist mikið.
4.      Fæðan er rýr af járni, D-vítamíni og B-vítamíni (folinsýru).
5.      Allt að fjórðungur daglegrar neyslu kemur frá söluskálum.
    Fræðsluskrifstofa Reykjavíkurborgar lét gera svipaða athugun 1973, en hún sýndi m.a. að 17,2% nemenda neyttu ekki morgunverðar áður en þeir fóru í skólann og 35,7% höfðu ekki með sér nesti. Engar nýjar kannanir hafa verið gerðar í þessum efnum sem flutningsmenn vita um en margir telja að þetta ástand fari enn versnandi í grunnskólum, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu, og sé þó lakast í elstu bekkjum grunnskólanna og sumum framhaldsskólanna.
    Íslensk börn hafa um tvisvar sinnum fleiri skemmdar og viðgerðar tennur en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndum. Samt verjum við álíka stórum hluta opinberra útgjalda til tannlæknaþjónustu og aðrir og erum fimmta best setta þjóðin í heiminum hvað varðar fjölda tannlækna á íbúa. Tíðar tannskemmdir stafa fyrst og fremst af lélegri tannhirðu en ekki síður af hinni miklu sykur- og sælgætisneyslu Íslendinga. Nærri lætur að hver maður neyti að meðaltali um 53 kg af sykri á ári og eru börnin og unglingarnir með ansi drjúgan skerf á sinni könnu miðað við líkamsþyngd.
    Í könnun manneldisráðs 1977–1978 voru þessi ráð m.a. gefin til úrbóta:
1.      Meiri áróður ber að reka fyrir heilnæmum neysluvenjum á heimilum.
2.      Mötuneytum verður að koma upp í heimangönguskólum. Þar eiga börn og unglingar að fá heilnæma máltíð ásamt vítamínum. Ýmis smærri sveitarfélög sinna þessu, en mörg stærri sveitarfélög hafa ekki komið málinu í f ramkvæmd.
3.      Söluskálar (sjoppur) eru að verða ein aðaldreifingarstöð matvæla. Mikilvæg krafa er að þar séu á boðstólum sæmilegar fæðutegundir, s.s. brauð, grænmeti, ávextir og mjólk. Ef eigendur söluskála axla ekki þá ábyrgð sem rekstri þeirra er samfara ber að vanda betur til úthlutunar söluleyfa.
    Vert er að vekja athygli á 2. lið en þar er þegar lögð áhersla á nauðsyn þess að börn geti matast í skólum. Þessi könnun er þó framkvæmd fyrir tíu árum en allt of lítið hefur þokast í þessum efnum síðan.
    Eins og áður er getið kom fram í könnunum, sem vinnuhópur um tengsl fjölskyldu og skóla gerði meðal skólastjóra, foreldra og nemenda í grunnskólum í Reykjavík og Reykjanesi, skýr ósk um að komið verði á samfelldum skóladegi sem fyrst, en samfelldur skóladagur var þar skilgreindur sem samfelld viðvera fremur en samræmdur vinnudagur barna og foreldra.
    Þau atriði, sem skólastjórar töldu að mundu stuðla að því að hægt yrði að koma á samfelldum skóladegi, voru eftirfarandi:

    einsetning      (97%)
    skólasafn — lesstofa      (94%)
    máltíðir í skóla      (86%)
    skólanesti      (78%)
    fámennir skólar      (66%)
    viðmiðunarstundaskrá fyrir heildir      (61%)
    sveigjanlegt skólastarf      (50%)

    Það sem foreldrar álitu að mundi auka líkur á samfelldum skóladegi voru eftirfarandi atriði:

    einsetning skó la      (90%)
    skólasafn — lesstofa      (90%)
    skólanesti afgreitt í skólanum      (79%)
    máltíðir frambornar í skóla      (77%)
    fámennir skólar (færri en 500 nemendur)      (76%)
    óskir kennara um samfellda kennsluskrá      (75%)
    starfsemi foreldra- og kennarafélaga      (68%)

    Enn fremur bentu foreldrar á aðra þætti sem betur mættu fara:

    byggja fleiri og smærri skóla
    upplýsa foreldra betur um skólamál
    miða rými í skólum við barnafjölda
    auka skilning á því að skóli er vinnustaður barna
    bæta skipulag í skólum
    auka gæslu utan kennslustunda
    koma á kerfi „matmæðra“ sem tækju að sér 6–8 nemendur í mat í hádeginu
    bæta kjör kennara og gera vinnutíma þeirra samfelldan
    fjölga starfsfólki skóla
    útbúa notalegt afdrep þar sem nemendur geta dvalist ef þeir þurfa að bíða
    efla skólasöfn og lesaðstöðu fyrir nemendur
    vinna stundaskrár í tölvu
    miða stundas krár við nemendur en ekki við kennara.

    Hvað nemendum í 7.–9. bekk við kom, en þeir voru einnig spurðir, vildu 81,3% geta fengið mat í skólanum, 83,6% vildu eiga þess kost að kaupa nesti í skólanum og 54,6% vildu líka geta farið heim til sín í hádeginu. Það fór greinilega ekki á milli mála að nemendur vildu gjarnan borða mat í hádeginu og lái þeim hver sem vill!
    Í skýrslu frá vinnuhópnum segir í 3. kafla um skólanesti og skólamáltíðir:
     „Enda þótt fæstir mæli á móti þv í að skólamáltíðir eða afgreiðsla nestis í skólum auki líkur á samfelldum skóladegi virðast vera skiptar skoðanir um
hvernig best verði staðið að framkvæmdum. Rökstyðja má þörf fyrir líkamlega næringu í skólum með fleiru en samfelldum skóladegi. Neyslukannanir sýna m.a. að skólanemendur skortir viss nauðsynleg næringarefni. Ákveðin stýring á mataræði í skólum gæti tryggt holla og rétt samsetta fæðu.“
    Enn fremur:
     „Varla er hægt að segja að íslensk börn og unglingar líði af hungri en augljóst er að nemendur, sem t.d. vegna útivinnu foreldra verða að sjá um matseld upp á eigin spýtur, eru að ýmsu leyti betur settir ef þeir eiga aðgang að næringu í skólanum.
    Þá má nefna þau rök að á vinnustöðum gildir almennt sú regla að starfsfólk eigi aðgang að mat og aðstöðu til að matast. Skóli er vinnustaður nemenda og séu þeim ætluð sömu réttindi að þessu leyti og fullorðnum eiga þeir kröfu á sambærilegri aðstöðu til að matast.
    Óskir um að skólar sinni þessum málum eru mjög ákveðnar bæði frá foreldrum og skólamönnum. Skoðanir eru hins vegar skiptar um
fyrirkomulag, t.d. hvort eigi að sjá nemendum fyrir heitum máltíðum eða nestispökkum. Heitar máltíðir gera kröfu um sérstaka aðstöðu og starfsfólk. Fengist hefur mikilvæg reynsla af tilraun með nestispakka í skólum Reykjavíkur. Af þeirri tilraun má ráða að nemendur hafi ekki nýtt sér möguleikann á nestispakka í eins ríkum mæli og upphaflega var vænst. Má e.t.v. skýra þetta á þann veg að pakkarnir hafi fyrst og fremst verið notaðir sem morgunverður í venjulegum nestistímum en e kki sem hádegisverður.“
    Einnig:
     „Af sömu ástæðu varð fyrirkomulagið líklega ekki til þess að auka samfelldni eins og vonir stóðu til. Enn fremur er ljóst að lipur afgreiðsla á skólanesti eða máltíðum krefst skipulags, vinnu og umsjónar sem kennarar eru ekki reiðubúnir að skilgreina sem hluta af starfi sínu nema sérstaklega sé umbunað fyrir þá vinnu.“
    Oddur Helgason forstjóri gefur eftirfarandi upplýsingar um tilraunir Mjólkursamsölunnar til að leysa nestisvanda barna í leikskólum, dagheimilum og grunnskólum:
     „Í rekstri leikskóla og dagheimila er gert ráð fyrir að börn séu nestuð að heiman. Þar er því engin kæligeymsla fyrir nestið. Afleiðingin var sú að börnin fengust ekki til að hafa mjólk að heiman því að hún var orðin volg og ólystug á matmálstímanum og því höfðu þau með sér sæta drykki. Á síðustu tveimur árum hafa mjólkursamlög um allt land því boðið öllum leikskólum og dagheimilum kælikistur að láni. Þær eru komnar í notkun á langflest um stöðum og 90–100% barnanna neyta nú mjólkur þar.
    Það er ákaflega mikilvægt að börn á þeim aldri venjist ekki af mjólkurneyslu og þeim sama sið þurfa þau að halda þegar þau ganga síðan upp í grunnskóla og framhaldsskóla.
    Á síðasta ári var tekin upp niðurgreiðsla á skólamjólk til grunnskólanema, 3 kr. á 1 / 4 lítra nýmjólkur, og hefur haldist óbreytt síðan. Þátttaka hefur verið dræm víðast hvar en góð í einstaka skólum. Meðaltal er 10–15%.
    Mjólkursamsalan gerði tilraun með kaldar skólamáltíð
ir fyrir fjórum árum. Sú tilraun gekk ekki; nú eru einungis samlokur seldar í nokkra skóla. Ef til vill hefur nestið ekki fallið að smekk nemenda en önnur meginástæða er að í skólakerfinu er ekki gert ráð fyrir slíku og starfið lendir að mestu á skólastjórum sem aukið vinnuálag. Tengja þyrfti líka nám í heilsufræðum við fyrirkomulag og val á skólanesti.“
    Í raun hljóta allir að vera sammála um að það sé sjálfsagt réttlætismál barna að þeim sé tryggður samfelldur vinnudagur, holl og góð næring og öryggi gagnvart slysum. Flutningsmenn telja að skref sé stigið í rétta átt með þeim breytingum á grunnskólalögunum sem hér eru lagðar til. Ýmsar fleiri breytingar hefði þó mátt gera en aðeins hefur verið tekið á því sem brýnast þótti. Rétt þykir að grunnskólalögin séu endurskoðuð reglulega og er lagt til að slík endurskoðun fari fram að 5 árum liðnum.
    Eins og fram kemur í þessari greinargerð telja flutningsmenn að nú verði ekki lengur beðið eftir því að koma betri skipan á málefni grunnskólans. Til þess þarf átak stjórnvalda og samvinnu allra þeirra sem telja sig ábyrga fyrir farsælli framtíð barna.
    Kjörorð þessa átaks gætu verið:
    „Öll börn eru á ábyrgð okkar allra.“

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er lagt til að lögleidd verði bæði fræðsluskylda og skólaskylda 6 ára barna. Gert er ráð fyrir því að fræðsluskylda verði lögbundin strax og lög þessi taka gildi, þ.e. á skólaárinu 1989–1990 en skólaskylda hins vegar ekki fyrr en á skólaárinu 1990–1991 eins og segir í bráðabirgðaákvæði.
    Nauðsynlegt þykir að gefa aðlögunartíma fyrir skóla og þá einkum skóla í dreifbýli til að búa sig undir það að 6 ára börn erði skólaskyld.
    Auk áskilins aðlögunartíma eru síðan jafnframt undanþáguákvæði í 5., 7. og 8. gr. grunnskólalaganna sem nota má þegar aðstæður leyfa ekki að 6 ára börn sæki skóla eins og ákvæði um skólaskyldu bjóða.

Um 2. gr.


    Ástæða þykir til þess að taka skýrt fram í lögum um gerð eða breytingar skólamannvirkja hver æskileg stærð skólahúsnæðis eigi að vera.
    Eins og fram kemur í greinargerð eru kennarar og skólamenn almennt þeirrar skoðunar að heppilegra sé að hafa grunnskóla smáa og fámenna en stóra og fjölmenna. Þetta á ekki síst við um skóla fyrir yngri börnin. Smærri skólar hafa reynst bæði nemendum og kennurum manneskjulegri og betri vinnustaðir. Auðveldara er að skapa þar heimilislegri aðstæður og mæta má ýmsum tæknilegum ókostum smærri skóla með aukinni samvinnu og samstarfi skóla og kennslumiðstöðvar og skóla innbyrðis.
    Hér er miðað við tveggja hliðstæðna skóla, þ.e. þar sem tvær bekkjardeildir eru í hverjum árgangi. Lagt er til grundvallar það meðaltal nemenda í bekkjardeild sem frumvarpið gerir ráð fyrir eða 14 börn í 1. og 2. bekk og 18 börn í 3.–10. bekk. Í slíkum skóla yrðu því 344 börn.

Um 3. gr.


    Rétt þykir að taka skýrt fram í meginskilgreiningu á skólahúsnæði að þar eigi nemendur að geta neytt málsverðar og hvíldar. Aðstaða til hvíldar er einkum nauðsynleg fyrir yngstu nemendurna þar sem kennslutími þeirra verður lengdur. Ekki er alls staðar nauðsynlegt að hafa sérstakt húsnæði sem eingöngu er notað til að neyta nestis eða málsverða. Víða má nota sali sem einnig þjóna öðrum tilgangi en gera þarf ráð fyrir því jafnframt að þar sé hægt að matast.

Um 4. gr.


    Líklegt er að skólar velji ýmist að bjóða nemendum upp á heitar máltíðir, léttar, kaldar máltíðir eða að nemendur neyti nestis að heiman í skólanum.
    Nauðsynlegt er því að kveða skýrt á um ráðningar og stöðu þess starfsfólks sem ætlað er að sjái um mötuneyti og framreiðslu eða umsjón skólamáltíða.
    Einnig þarf að kveða skýrt á um ráðningar þeirra sem sinna börnum utan kennslustunda.

Um 5. gr.


    Nauðsynlegt er að samræma betur vinnudag barna og foreldra og rétt þykir einnig námsins vegna að lengja kennslutíma yngri barna, þ.e. fram að 13 ára aldri.
    Jafnframt er einnig mikilvægt að börnin eigi kost á því að dveljast í skólanum utan kennslustunda og þá í þroskandi og öruggu umhverfi og í umsjá
fólks með uppeldisfræðilega menntun. Misjafnt getur verið hve lengi börn dveljast í skólanum á hverjum degi en nauðsynlegt er að það sé ævinlega ljóst og í samráði við bæði börn, foreldra og kennara hve lengi hverju barni er ætlað að dveljast í skólanum utan kennslustunda. Lenging kennslutímans er ráðgerð í áföngum til að leyfa aðlögun að þeim breyttu kröfum sem slíkt hefur í för með sér, en þeim áföngum er nánar lýst í bráðabirgðaákvæði.
    Sú lenging, sem hér er ráðgerð, krefst þess í raun að skólar verði einsetnir heilsdagsskólar og víða þarf að bæta við einhverju kennslurými til þess að svo geti orðið. Jafnframt eigi öll börn kost á því að matast í skólanum.
    Gert er ráð fyrir styttri kennslutíma fyrir yngri börnin en þau eldri en í kennslutíma eru að sjálfsögðu meðtaldar allar kennslugreinar, þar á meðal list- og verkmennt og líkamsrækt. Einnig má reikna með því að lengri kennslutími dragi mjög úr nauðsyn heimanáms, einkum hjá yngri bekkjardeildum, þannig að þegar börnin koma heim úr skóla er vinnudegi þeirra lokið.
    Þegar frumvarp þetta verður að lögum má gera ráð fyrir því að dagleg skóladvöl grunnskólanemenda verði a.m.k. 6 klst. á dag að meðtöldum eðlilegum stundahléum og matarhléum.
    Rétt þykir að taka fram að ákvörðun um breytingar á kennslutíma séu teknar af skólastjóra í fullu samráði við kennara.

Um 6. gr.


    Hér er lagt til að hámarksfjöldi barna í hverjum bekk verði takmarkaður og þá einnig að meðaltal verði lægra en nú er.
    Einkum þykir mikilvægt að fjöldi nemenda í yngri bekkjum (6 og 7 ára) sé takmarkaður til þess að hægt sé að veita þeim einstaklingsbundna kennslu. Jafnframt þykir ástæða til þess að tryggja með lögum að eldri bekkjardeildir séu ekki fjölmennar þannig að einnig megi bjóða þeim upp á viðfangsefni sem samsvara þroskastigi hvers og eins eins og lögin gera ráð fyrir.

Um 7. gr.


    Lagt er til að þegar skólaskylda 6 ára barna verður lögbundin verði 74. gr. felld niður og þar með almennt heimildarákvæði fyrir sveitarfélög að starfrækja forskóla fyrir 5 ára börn. Síðasta málsgrein greinarinnar flyst þá yfir í 75. gr. Þessi ákvörðun er í samræmi við þá stefnu sem hér er mörkuð varðandi þátttöku hins opinbera í uppeldi og menntun 5 og 6 ára barna og nánar er rökstudd í greinargerð.
    Fimm ára börn eiga nú völ á mun betri umönnun og þjónustu á dagvistarheimilum en í skólum og þykir rétt að vanda fremur til aðbúnaðar þeirra aldurshópa sem þegar eru í grunnskóla en að auka við nýjum árgangi og bjóða honum upp á lakari kost en hann á völ á.

Um 8. gr.


    Hér er fellt úr ákvæði til samræmingar en einnig aukið við ákvæði sem áður var í 74. gr. Er það fyrst og fremst til að tryggja áframhaldandi rekstur gróinnar stofnunar eins og skóla Ísaks Jónssonar.

Um 9. gr.


    Hér er lagt til að allir nemendur grunnskóla eigi tilskilinn rétt til reglubundins náms á skólasafni. Enn fremur er fellt niður að slíkt þurfi að vera hópnám heldur geti nemendur og kennarar ákvarðað hvernig slíkt nám fer fram.

Um 10. gr.


    Þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Hér eru skilgreindir þeir áfangar sem rétt þykir að verði í þróun grunnskólans í átt að einsetnum heilsdagsskóla með samfelldri kennslu fyrir nemendur.



Viða uki 1.

Jón Torfi Jónasson dósent:

Einsetning í grunnskólum.


(Skrifað vorið 1988.)



    Oft er rætt um mikilvægi samfellds skóladags eða jafnvel einsetningar í skólum sem m.a. fæli í sér samfelldan skóladag. Í skýrslu starfshóps undir forsæti Salome Þorkelsdóttur alþingismanns var fyrri kosturinn einkum gerður að umtalsefni. Hér verður ræddur sá síðari, þ.e. einsetinn grunnskóli.
    Röksemdir fyrir einsetningu í skóla eru margvíslegar, en sameiginlegt inntak þeirra er að við einsetningu gjörbreytist aðstaða til skólastarfs. Hér verða nefndar nokkrar.

    Einsetinn skóli:
    opnar leiðir fyrir fjölbreyttara skólastarf,
    auðveldar skipulag vinnutíma kennara,
    auðveldar að ná til kennara utan kennslutíma til vinnufunda,
    gefur meiri festu fyrir börn útivinnandi foreldra,
    hefur alla kosti samfellds skóladags.

    Við einsetningu í skóla skapaðist allt annað viðhorf til skólastarfs og skipulag þess yrði mun sveigjanlegra. Í fyrsta lagi yrði ramminn um skólastarfið auðveldari viðfangs, skólinn hæfist á tilteknum tíma á hverjum degi, en auðveldara væri að ráðskast með það hvenær nemendur hættu. Þetta þýddi m.a. að mun auðveldara væri að innleiða ýmsar nýjungar í skólastarfið, m.a. að taka upp ný vinnubrögð (sbr. heimavinnu í skóla) eða nýjar námsgreinar, tímabundið utan námsskrár. Rökin fyrir einsetningu eru mörg og sterk, en verða ekki skoðuð nánar hér. Fremur verður leitast við að skoða og meta þau rök sem helst hafa heyrst gegn þessu fyrirkomulagi.

    Helstu rökin gegn einsetningu eru:
    stofnkostnaður yrði mun meiri en við tvísetningu og óeðlilega mikill,
    fleiri kennara þyrfti og yki það kostnaðinn,
    léleg nýting húsnæðis þar sem það yrði einungis nýtt hluta úr degi,
    fyrirsjáanleg fækkun nemenda mælir gegn fjárfestingu,
    erfiðara verður að skipuleggja skólastarfið þannig að kennarar fái eftirvinnu æski þeir þess.

    Athugum nú þessi rök.

     Stofnkostnaður. Helsti kostnaðarliðurinn er fjölgun skólastofa þannig að hver bekkur hafi sína heimastofu. (Það má hugsa sér aðrar leiðir en þær kæmu í sama stað niður — eða svipað.) Hvað vantar margar skólastofur nú á grunnskólastigi? Þessu verður svarað hér með vísbendingum eingöngu vegna þess að mörg álitamál koma upp. Tökum dæmi: Í 21 skóla í Reykjavík eru 480 deildir. Fjöldi almennra stofa er 338 en sérstofur af ýmsu tagi eru 192. Miðað við þessar tölur vantar þessa skóla 142 stofur ef hver deild ætti að hafa sína
eigin almennu stofu í einsetnum skóla. Án þess að teygja sig mjög langt má telja 27 af þessum 192 stofum almennar (hugsanlega helmingi fleiri, en þá er ákveðin fórn færð). Með þessu móti fást 365 almennar stofur og þá vantar 115 almennar stofur í þessa skóla.
    Sjá eftirfarandi töflu:

              Almennar        Stofur sem
Reykjavík (21 skóli):          Deildir    stofur    Sérstofur    vantar*
Aðferð 1 ...................         480    338    192    142
Aðferð 2 ...................         480    365    165    115
Reykjanes:     
Aðferð 1 ...................         489    270    176    228
Aðferð 2 ...................         489    314    132    175
Vesturland: ................         172    136        36

>h8.5<* Deildir og almennar stofur.>h10<

    Fjöldi nemenda í þessum skólum er nálægt 12.000 (1985–1986) eða um 30% nemenda á öllu landinu. Þetta þýðir að 3,8 stofur vantar fyrir hvert prósent nemenda sem þýðir um 380 almennar stofur ef svipað ástand er á landinu öllu. En það eru fleiri hliðar á þessu máli. Í fyrsta lagi má minna á að til eru fleiri stofur í þessum skólum en sem nemur fjölda bekkjardeilda, en fáir eru tilbúnir til þess að fórna öllum sérstofunum fyrir einsetningu. Það er því tómt mál um að tala. En ef svo væri þyrfti ekki að bæta við mörgum stofum. Á hinn bóginn má segja sem svo að ef sérstofurnar eru svo nauðsynlegar sem raun ber vitni og hlutfall milli sérstofa og almennra stofa í þeim skólum, sem teknir eru inn í þetta dæmi, er nálægt 6:10 virðist nauðsynlegt að margfalda þá tölu, sem áður var nefnd, með samsvarandi stuðli, þ.e. 1,6. En jafnvel þótt ekki væri gengið svo langt heldur notaður hálfur sérstofustuðull (t.d. 3:10) til þess að nálgast núverandi hlutfall væri ekki nóg að bæta við 380 stofum heldur 380 x 1,3 = 49 stofum. (Hér er byggt á tölum frá Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur haustið 1987. Allar samantektir, einfaldanir og ágiskanir eru þó höfundar.) Ekki eru teknir inn í þessar tölur nýjustu skólabyggingar í Reykjavík — svo sem Grandaskóli og Foldaskóli, en þeir breyta þessu eitthvað.
    Í áðurnefndri skýrslu um samfelldan skóladag kom fram að í Reykjavík var lægst hlutfall nemenda í einsetnum skóla (10%). Næstlægst var þetta hlutfall á
Vesturlandi. Ef þar eru taldar allar almennar stofur og sérstofur bóklegra greina teknar með vantar þar 36 stofur til einsetningar. (Þessar tölur eru byggðar á upplýsingum frá Fræðsluskrifstofu Vesturlands, haustið 1987.) Miðað við að í þessu umdæmi séu um 7% nemenda vantar u.þ.b. fimm stofur fyrir hvert prósent nemenda sem þýðir að það vanti 500 stofur á landinu öllu ef sama ástand ríkti. Í Reykjanesumdæmi eru 498 bekkjardeildir, 446 stofur og þar af 270 almennar stofur. (Þessar tölur eru fengnar frá Fræðsluskrifstofu Reykjanesumdæmis, haustið 1987.) Strangt til tekið vantar þá 228 stofur. (Miðað við að rúmlega fjórðungur nemenda landsins er í þessu umdæmi þýddi það að nálægt níu stofur þyrfti á hvert prósent nemenda.) Á sama hátt og gert var í umfjöllun um Reykjavík og Vesturland má reikna hluta sérstofa sem almennar stofur. Sé fjórðungur sérstofanna reiknaður þannig vantar 184 stofur á Reykjanesi svo að hægt sé að einsetja (eða rúmlega sjö stofur fyrir hvert prósent nemenda).
    Samkvæmt skýrslu nefndar Salome Þorkelsdóttur voru ofangreind þrjú umdæmi verst sett hvað varðaði einsetningu í skóla (þ.e. lægst hlutföll nemenda í einsetnum skólum). Þrátt fyrir mörg álitamál má því ætla að milli 400 og 500 stofur þyrfti til viðbótar svo að hægt væri að koma við fullkominni einsetningu. (Þetta er byggt á tölum um fjölda bekkjardeilda og stofa frá Reykjavík, Reykjanesi og Vesturlandi en reiknað með að allt að fimmtungur núverandi sérstofa yrði notaður sem almennar stofur.) Ef miðað er við 450 stofur sem hver kostar um 4 milljónir króna kostar þessi viðbót um 1,8 milljarða króna. Dreift á fjögur ár er hér um að ræða 450 milljónir króna á ári. Á fjárlögum 1987 er u.þ.b. 200 milljónum króna varið til skólabygginga fyrir grunnskólann en þar með er talið íþróttahúsnæði og fleira sem kemur þessu máli ekki beint við. Annað eins kemur frá sveitarfélögunum, en sú upphæð er oft hærri þegar á reynir. Ef stefna ætti að einsetningu grunnskólans innan fjögurra ára þýddi það því um 150 milljónir króna til viðbótar á ári (150 frá ríki + 150 frá sveitarfélögum + 150 viðbót = 450).
    Það ætti að vera ljóst af því sem að framan er sagt að þegar til lengri tíma er litið vantar meira skólahúsnæði en þær almennu stofur sem nauðsynlegt er að hafa vegna einsetningar. En vilji menn einsetningu mætti komast langt á fjórum árum sé þessu verkefni gefinn forgangur með því að reisa 120–140 skólastofur á ári.
    Í þeim tölum, sem hér voru nefndar, var gert ráð fyrir mun lægra hlutfalli sérstofa en nú er algengt. Sú einsetning, sem hér er talað um, væri því varla viðunandi til lengdar. Einnig er margt sem bendir til þess að annars konar húsnæði sé eftirsóknarvert fyrir yngstu árgangana en hentar
þeim sem eldri eru og taka mætti mið af því þegar bætt er við húsnæði. Raunhæft er að ætla að í mörgum tilvikum verði 5–8 ára börn saman í skóla upp úr miðjum næsta áratug og ef gerð væri gangskör að því að leysa húsnæðisvanda vegna einsetningar væri vel til fundið að gera það með þessa aldurshópa sérstaklega í huga. En það er vissulega full ástæða til þess að taka mið af fækkun nemenda og nýta húsnæðið á fleiri en einn veg þegar fram í sækir. Vegna vandkvæða, sem skapast vegna mishraðrar uppbyggingar hverfa, má vel hugsa sér að einhver hluti þess húsnæðis, sem um er rætt, sé bráðabirgðahúsnæði sem jafnvel mætti flytja á milli staða eins og nú er gert í einhverjum mæli.
    Aukinn launakostnaður kennara er oft nefndur í sambandi við einsetningu. Á því máli eru tvær hliðar. Ef ekki er gert ráð fyrir neinni viðbótarkennslu er ekki nauðsynlega um neinn viðbótarkostnað að ræða. Þótt sumir aldurshópar hafi færri kennslustundir en sem nemur kennsluskyldu kennara í fullu starfi eru fjöldamargir kennarar í hlutastarfi. Dæmið lítur svona út:
    Kennslustundafjöldi kennara í fullu starfi er 29 stundir á viku en við beina kennslu bætast allar aðrar starfsskyldur hans og vinnuvikan er 46 stundir á veturna. Nokkrir árgangar barna (þ.e. 6–9 ára) eru færri tíma í skólanum en sem nemur vinnuskyldu kennara í fullu starfi auk þess sem hluti kennslustunda barnanna er hjá sérhæfðum kennurum, t.d. í handavinnu og leikfimi. Skólatími barna er þessi (Stjtíð. B, nr. 212/1984):

     6 ára .........     breytilegur
     7 ára .........     22 stundir
     8 ára .........     22 stundir
     9 ára .........     26 stundir
    10 ára .........     29 stundir
    11 ára .........     32 stundir
    12 ára .........     34 stundir
    13 ára .........     35 stundir
    14 ára .........     35 stundir
    15 ára .........     31–35 stundir

    (Sex ára börn hafa ekki skólaskyldu en áætluð er í opinberum útreikningum ein kennslustund á viku á hvert barn. Skólatími þeirra er því breytilegur eftir umdæmum og fer eftir fjölda barna í hverjum bekk. Samkvæmt upplýsingum frá Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur eru
17–18 kennslustundir á viku algengu skólatími sex ára barna á höfuðborgarsvæðinu. Á landsbyggðinni er hann yfirleitt mun styttri.)
    Síðan má benda á að stór hluti kennara er í hlutastarfi að eigin ósk. Þegar athugað var starfshlutfall 3100 kennara í skrá menntamálaráðuneytisins um starfandi skólastjóra og kennara 1985–1986 fengust eftirfarandi hlutfallstölur. Í þessum tölum er aðeins miðað við þá sem eru settir eða skipaðir, stundakennarar eru ekki taldir með:

    Í fullu starfi eru ...........         63%
    Í 2 / 3 úr starfi eru ......         15%
    Í hálfu starfi eru ...........         22%

    Þegar á heildina er litið ætti því styttri starfsdagur yngstu hópanna ekki að valda sérstökum vandræðum hvað varðar skipulag vinnutíma kennara. Einsetning ætti því ekki endilega að eyðileggja möguleika kennara á eftirvinnu, en það hefur verið nefnt sem rök gegn henni. Það er því raunar ekkert sem bendir til þess að einsetning þyrfti út af fyrir sig að þýða breytingu á launakostnaði, enda þótt ýmislegt sem fylgdi í kjölfarið yrði væntanlega til þess að hækka þann lið, t.d. virðist eðlilegt að lengja skóladag yngstu aldurshópanna.
    Þar kemur að hinni hlið launamála kennara. Setjum svo að árgangur sé um 4000 nemendur. Ef fjöldi nemenda er um 20 í meðalbekk eru um 200 bekkir í árgangi. Setjum svo að hver klukkustund kosti 1000 krónur í launum og vegna viðbótarrekstrarkostnaðar. Ein viðbótarstund fyrir árganginn kostar því 200.000 kr. Miðað við 34 kennsluvikur er hér um að ræða 6,8 milljónir króna á ári fyrir hverja viðbótarstund í árgangi. Sé bætt við tveim stundum á dag 5 daga vikunnar verður viðbótin fyrir þann árgang 68 milljónir króna. En sé dæmið sett upp á almennari hátt og reiknað með að 60 vikustundum sé bætt við í heildina, þannig að flestar fari þó til yngstu árganganna þá verður það viðbótarkostnaður við rekstur sem nemur 408 milljónum króna á ári.
    Hvað varðar rök, sem lúta að lélegri nýtingu húsnæðis, er það að segja að ef starfsdagur í einsetnum skóla verður jafnstuttur og nú er raunin er það áhyggjuefni. Hins vegar má benda á margar leiðir til þess að nýta húsnæði skólanna. Í fyrsta lagi er sjálfsagt að lengja skóladag yngstu hópanna. Enn fremur má hugsa sér að nemendum væri í auknum mæli búin vinnuaðstaða í
skólanum og starfsdagur í skólanum þannig lengdur þótt það fæli ekki alltaf í sér lengingu skóladags í venjulegum skilningi þess orðs. Það mætti einnig hugsa sér að hluti af nýju húsnæði yrði byggður með önnur not fyrir augum, t.d. stofur sem auðvelt væri að tengja saman og nota fyrir stærri hópa eða annað skólastarf svo sem námsflokka, fræðslustarf stofnana, ýmiss konar kvöldnámskeið, miðstöðvar fjarkennslu o.fl.
    Það getur varla farið á milli mála að kostir einsetningar réttlæta þann stofnkostnað sem nauðsynlegur yrði og það húsnæði sem bættist við mundi verða vel nýtt jafnvel þótt fyrirsjáanleg sé nokkur fækkun nemenda. Launakostnaður mundi hugsanlega aukast í kjölfar einsetningar en ekki vegna hennar, en launakjör einstakra kennara ættu ekki að versna fyrir bragðið.



Viðauki 2.


Samfelldur skóladagur barna á grunnskólastigi.


(Fyrirspurn Unnar Stefánsdóttur og svar menntamálaráðherra,


114. mál, 110. þings.)



    Fyrirspurnin hljóðar svo:
1.     Hvað eru margir skólar á landinu sem bjóða börnum á grunnskólaaldri samfelldan skóladag?
2.     Hvenær er að vænta þess að allir grunnskólar á landinu hafi samfelldan skóladag?

    Um efni fyrri spurningarinnar eru ekki til nýrri upplýsingar en þær sem fram koma í skýrslu nefndar er fyrrverandi menntamálaráðherra, Ragnhildur Helgadóttir, skipaði til að fjalla um samfelldan skóla og tengsl heimila og skóla. Nefndin skilaði niðurstöðum sínum og heildartillögum í janúar 1986. Í framhaldi af störfum þessarar nefndar var skipuð önnur til að huga sérstaklega að samfelldum skóladegi í grunnskólum Reykjavíkur. Sú nefnd hefur ekki lokið störfum.
    Skilgreining á „samfelldum skóladegi“ skiptir máli. Venja er að skilgreina samfelldan skóladag sem samfellda viðveru, þ.e. að nemendur þurfa aðeins að fara tvær ferðir á dag milli skóla og heimilis. Í þessu felst að þegar nemendur fara heim í hádegi er ekki um samfelldan skóladag að ræða.
    Sumum foreldrum, kennurum og skólastjórum finnst eftirsóknarvert að börn komi heim í hádegismat og vilja skilgreina skóladag samfelldan þótt um fleiri en tvær ferðir sé að ræða á dag milli skóla og heimilis ef ekki eru aðrar eyður í stundatöflu. Hefur þá gjarnan verið talað um samfelldan vinnutíma.
    Samkvæmt könnunum, sem gerðar voru á vegum fyrrnefndu nefndarinnar, má ætla að samfelldur skóladagur í merkingunni samfelld viðvera sé sem hér segir:

    REYKJAVÍK (24 skólar, alls 12.709 nemendur).
     Samfelld viðvera: 7 skólar eða 29% skóla með 3268 nemendum eða 26%.

    REYKJANES (27 skólar alls, nemendur 10.454).
     Samfelld viðvera: Að miklu leyti í 17 skólum (63%) með 7666 nemendum eða 73%.

    VESTURLAND (17 skólar, nemendur alls 2851).
     Samfelld viðvera: Í 9 skólum (flestir heimavistarskólar) 53% hjá 1020 nemendum eða 36%.

    VESTFIRÐIR (23 skólar, nemendur alls 1863).
     Samfelld viðvera: Í 13 skólum að mestu eða í 57% skóla hjá 1154 nemendum eða 62%.

    NORÐURLAND VESTRA (20 skólar, nemendur alls 2041).
     Samfelld viðvera: Í 16 skólum eða 80% skóla að mestu með 969 nemendum eða 47%.

    NORÐURLAND EYSTRA (35 skólar, nemendur alls 4758).
     Samfelld viðvera: Í 18 skólum eða 51% skóla með 1018 nemendum eða 21%.

    AUSTURLAND (27 skólar, nemendur alls 2375).
     Samfelld viðvera: Að mestu í 19 skólum eða 70% með 659 nemendum eða 28%.

    SUÐURLAND (33 skólar, nemendur alls 3937).
     Samfelld viðvera: Að mestu í 21 skóla eða 64% skóla með 1478 nemendum eða 38%.

    Eins og þessar upplýsingar bera með sér er hlutfall skóla og hlutfall
nemenda sem njóta samfelldrar viðveru mjög mismunandi eftir fræðsluumdæmum. Hlutfallið hækkar verulega ef spurt er um samfelldan vinnutíma. Má ætla að á landinu öllu sé samfelldur vinnutími í u.þ.b. 85% skóla og að u.þ.b. 60% nemenda hafi samfelldan vinnutíma.
    Á þeim tíma, sem liðinn er síðan nefndin um samfelldan skóladag og tengsl heimila og skóla lét kanna stöðuna, má sjá ýmis merki þess að ástandið hafi batnað. Reykjavíkurnefndin lét athuga sérstaklega stöðuna í grunnskólum borgarinnar skólaárið 1986–1987 (sjá fylgiskjal I). Þar kemur m.a. fram að í forskóla, 1., 2. og 3. bekk, er nánast um 100% samfellda viðveru að ræða. Aukaferðum milli heimilis og skóla fjölgar eftir því sem ofar kemur í grunnskólann. Í heild njóta rúmlega 70% grunnskólanemenda í Reykjavík samfelldrar viðveru og ef bætt er við þeim sem aðeins þurfa að fara eina aukaferð á viku milli heimilis og skóla er talan komin í tæp 83%.
    Seinni spurningunni er ógjörningur að svara beint. Ef tryggja á samfellda viðveru fyrir alla nemendur grunnskóla þarf fjárfrekar aðgerðir. Þá þyrfti t.d. að koma upp íþróttaaðstöðu og mötuneyti við hvern skóla, fjölga starfsliði vegna gæslu o.fl. Samfelldri viðveru verður því varla komið á í einu vetfangi í öllum skólum landsins.
    Ætla má að skemmri tíma taki að koma á samfelldum vinnutíma og í reynd hefur mjög þokast í þá átt á síðustu árum. Það sem líklega ræður úrslitum er stöðugleiki í kennaraliði og almenn aðstaða í skólum, svo sem skólasöfn.
    Samfelld viðvera kennara í skólum er þó líklega mikilvægasta forsendan fyrir bæði samfelldri viðveru nemenda og samfelldum vinnutíma. Ráðuneytið hefur beitt sér fyrir því að skapa slíkar forsendur og jafnframt haft hliðsjón af tillögum nefndarinnar frá 1986 sem hér fara á eftir:

1.     Stefnt verði að samfelldri viðveru nemenda í grunnskólum með því að:

1.1.     Bæta skipulag og stundaskrárgerð.
..    Aukin tölvueign skóla gerir kleift að hagnýta þá tækni við stundaskrárgerð.
..    Við skipulag skólastarfsins verður nemandinn, tími hans og vinna að vera í brennidepli.
..    Þegar kennarar skipta vinnu sinni milli skóla verða þeir skólar sem í hlut eiga að hafa samráð um skiptinguna.
..    Fastur viðverutími kennara í skólum eykur líkur á samfelldni hjá nemendum.

1.2.     Taka tillit til samfelldni við hönnun skólahúsnæðis og í framkvæmdum við skólabyggingar.
..    Miða stærð skóla eða stærð skipulagseininga innan skóla við 400–600 nemendur eða færri.
..    Hafa skóla einsetna eða því sem næst.
..    Gera ráð fyrir vinnuaðstöðu nemenda og kennara utan fastra kennslustunda.
..    Gera ráð fyrir aðstöðu til að afgreiða og neyta skólanestis eða aðstöðu til að framreiða og neyta skólamáltíða.
..    Stuðla þarf að frekari þróun í hönnun færanlegs skólahúsnæðis.
..    Hraða uppbyggingu aðstöðu fyrir list- og verkgreinar.

1.3.     Efla skólasöfn og vinnuaðstöðu nemenda utan fastra kennslustunda.
..    Tryggja verður hverjum skóla lágmarksbókakost.
..    Auka þarf fjölbreytni gagna á skólasöfnum og gera þau að eins konar miðstöð skólastarfsins.
..    Koma þarf upp lesaðstöðu í tengslum við skólasöfn.

1.4.     Gefa kost á nestispökkum eða máltíðum á skólatíma.
..    Ráða þarf sérstakt starfsfólk til að sjá um móttöku, afgreiðslu og fjárreiður vegna nestispakka.
..    Sjái nemendur og kennarar um skólanesti eða skólamáltíðir verður að umbuna þeim fyrir vinnu sína.
..    Til að auka líkur á að skólanesti eða máltíðir verði almennt notaðar og þar með auknar líkur á samfelldni þarf að stilla verði í hóf.
..    Skólamatur verður að vera í senn hollur, næringarríkur og fjölbreyttur og falla að síbreytilegum smekk nemenda.

1.5.     Skipuleggja skólastarf á sveigjanlegan hátt.
..    Athuga þarf möguleika á að haga skipulagi starfsins þannig að nemendur geti byrjað og lokið skóladegi á mismunandi tíma.
..    Fella verður kennslu í list- og verkgreinum inn í aðra kennslu þannig að bæði viðvera og verkefni myndi eðlilega heild.
..    Losa þarf um fastmótað bekkjakerfi ef önnur hópaskipan eykur samfelldni.



Fylgiskjal I.


Samfelldur skóladagur í Reykjavík.


Forsendur og skýringar.



    Á meðfylgjandi yfirliti er það talinn samfelldur skóladagur þegar nemandi þarf ekki, samkvæmt stundaskrá, að fara nema fimm ferðir í skólann á viku eða eina ferð á dag. Ferðir í skóla umfram þetta mark eru í yfirlitinu nefndar aukaferðir.
    Kennsla í sérgreinum hindrar oft samfelldni. Sérgreinastofur, svo sem fyrir handmennt, myndmennt og tónmennt, rúma einfaldlega ekki á réttum tíma þann stundafjölda sem þar þarf að koma fyrir.
    Sú sérgrein, sem þó er algengasta hindrunin, er leikfimi. Litlu salirnir, sem ekki rúma nema einn leikfimihóp í senn (tvær hálfar bekkjardeildir), hindra samfelldni í flestum tilvikum.
    Hins vegar er það ekki talin aukaferð í skóla í yfirlitinu þegar nemendum er ekið í annan skóla til leikfimikennslu vegna þess að ekki er búið að byggja íþróttahús, enda er þá um bráðabirgðatilhögun að ræða. Þetta gildir m.a. um Foldaskóla og Selásskóla. Þá er það heldur ekki talin aukaferð þegar íþróttahúsið liggur of langt frá skólanum til að hægt sé að flétta leikfimitímana inn í stundaskrá hjá öllum bekkjardeildum. Þetta á við um Ölduselsskóla og Laugalækjarskóla.
    Það er talin aukaferð hjá öllum nemendum þegar skólar gefa klukkustundar matarhlé um hádegi, t.d. Hagaskóli og Réttarholtsskóli. Þetta skýrir háa tíðni fimm aukaferða á viku hjá nemendum unglingadeilda (7., 8. og 9. bekkjar).
    Ljóst er að tekist hefur að bæta verulega stundaskrá nemenda í grunnskólum borgarinnar að því er samfelldni varðar og hafa skólastjórar lagt sig mjög fram um það. Ekki er líklegt að öllu lengra verði komist í því efni. Þeir annmarkar, sem enn hindra samfelldni, felast því mestmegnis í ytri aðstæðum, þ.e. of þröngu sérgreinahúsnæði og vöntun á aðstöðu og starfskröftum til fullnægjandi hádegismatar. Þá þyrfti einhver aukning á heimiluðu kennslumagni að koma til.



Fylgiskjal II.


Daglegur fjöldi ferða hjá nemendum í forskóla og 1.–9. bekk


í grunnskólum í Reykjavík veturinn 1986–1987.



Forskóli (5 og 6 ára): 1602 nemendur.     
Samfelldur skóladagur hjá öllum ................................     100,0%
1. bekkur: 1478 nemendur.     
Þar af 1456 með samfelldan skóladag eða ........................     98,5%
Þar af 22 með 1 aukaferð á viku eða ............................     1,5%
2. bekkur: 1342 nemendur.     
Samfelldur skóladagur hjá öllum ................................     100,0%
3. bekkur: 1281 nemandi.     
Þar af 1038 með samfelldan skóladag eða ........................     81,0%
Þar af 132 með 1 aukaferð á viku eða ...........................     10,3%
Þar af 111 með 2 aukaferðir á viku eða .........................     8,7%
4. bekkur: 1292 nemendur.     
Þar af 926 með samfelldan skóladag eða .........................     71,7%
Þar af 212 með 1 aukaferð á viku eða ...........................     16,4%
Þar af 44 með 2 aukaferðir á viku eða ..........................     3,4%
Þar af 110 með 3 aukaferðir á viku eða .........................     8,5%
5. bekkur: 1298 nemendur.     
Þar af 836 með samfelldan skóladag eða .........................     64,4%
Þar af 264 með 1 aukaferð á viku eða ...........................     20,3%
Þar af 154 með 2 aukaferðir á viku eða .........................     11,9%
Þar af 44 með 4 aukaferðir á viku eða ..........................     3,4%
6. bekkur: 1298 nemendur.     
Þar af 902 með samfelldan skóladag eða .........................     69,5%
Þar af 88 með 1 aukaferð á viku eða ............................     6,8%
Þar af 132 með 2 aukaferðir á viku eða .........................     10,2%
Þar af 154 með 3 aukaferðir á viku eða .........................     11,8%
Þar af 22 með 4 aukaferðir á viku eða ..........................     1,7%
7. bekkur: 1303 nemendur.     
Þar af 555 með samfelldan skóladag eða .........................     42,6%
Þar af 198 með 1 aukaferð á viku eða ...........................     15,2%
Þar af 176 með 2 aukaferðir á viku eða .........................     13,5%
Þar af 66 með 3 aukaferðir á viku eða ..........................     5,0%
Þar af 44 með 4 aukaferðir á viku eða ..........................     3,4%
Þar af 264 með 5 aukaferðir á viku eða .........................     20,3%
8. bekkur: 1359 nemendur.     
Þar af 508 með samfelldan skóladag eða .........................     37,4%
Þar af 322 með 1 aukaferð á viku eða ...........................     23,7%
Þar af 115 með 2 aukaferðir á viku eða .........................     8,4%
Þar af 69 með 3 aukaferðir á viku eða ..........................     5,1%
Þar af 46 með 4 aukaferðir á viku eða ..........................     3,4%
Þar af 299 með 5 aukaferðir á viku eða .........................     22,0%
9. bekkur: 1241 nemandi.     
Þar af 344 með samfelldan skóladag eða .........................     27,7%
Þar af 391 með 1 aukaferð á viku eða ...........................     31,5%
Þar af 69 með 2 aukaferðir á viku eða ..........................     5,6%
Þar af 184 með 4 aukaferðir á viku eða .........................     14,8%
Þar af 253 með 5 aukaferðir á viku eða .........................     20,4%
Samtals: 13.494 nemendur.     
Þar af 9509 með samfelldan skóladag eða ........................     70,5%
Þar af 1629 með 1 aukaferð á viku eða ..........................     12,1%
Þar af 801 með 2 aukaferðir á viku eða .........................     5,9%
Þar af 399 með 3 aukaferðir á viku eða .........................     2,9%
Þar af 340 með 4 aukaferðir á viku eða .........................     2,5%
Þar af 816 með 5 aukaferðir á viku eða .........................     6,1%



Viðauki 3.


Helstu heimildir.



Bjarni Torfason: Umferðarslysin og afleiðingar þeirra. (Heilbrigðisskýrslur 984. Fylgirit nr. 1.)
Bolli Þór Bollason: „Hlutur kvenna á vinnumarkaðnum.“ Morgunblaðið 25. mars 1987.
Byggð og atvinnulíf 1985. Byggðastofnun desember 1986.
Fátækt á Íslandi. Ráðstefna haldin í Reykjavík í mars 1986 af samtökum félagsmálastjóra.
Frumvarp til laga um grunnskóla, 354. mál 109. löggjafarþings.
Fræðsluskrifstofa Reykjavíkur: Könnun varðandi morgunverð og nesti nemenda. Skólaskýrsla barna- og gagnfræðaskóla Reykjavíkur 1973–74.
Guðrún R. Briem: Umferðarslys á gangandi vegfarendum í Reykjavík samkvæmt lögregluskýrslum 1981–82.
Hafdís Hrönn Ottósdóttir: Konan — vinnan — kjörin. Kandídatsritgerð í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, september 1987.
Ísland 2010. Gróandi þjóðlíf. Framkvæmdanefnd um framtíðarkönnun á vegum forsætisráðuneytisins 1987. (Sérrit 1.)
"Kennarar telja brýnt að ekki séu fleiri en 20 nemar í bekk. Könnun á högum og viðhorfum grunnskólakennara.“ Morgunblaðið 19. febrúar 1988.
Kristinn R. Guðmundsson: „Höfuðáverkar.“ Læknablaðið 1969 (5. tbl.), 1983, bls. 131–137.
Kvennalistinn: Stefnuskrá í landsmálum 1987.
Magnús R. Gíslason: „Svört skýrsla um tannheilsumál Íslendinga.“ Morgunblaðið 26. október 1984.
Manneldisráð: Mataræði skólabarna í Reykjavík. Könnun Manneldisráðs 1977–78. (Heilbrigðisskýrslur 1981. Fylgirit nr. 1).
Með fólki. Tímarit um uppeldismál. SAMFOK janúar 1988.
Oddur Helgason, Mjólkursamsölunni, persónulegar upplýsingar.
Ólafur Ólafsson: Barna- og unglingaslys á Íslandi. Landlæknisembættið september 1985.
Ólafur Ólafsson: Mannvernd. Landlæknisembættið desember 1987.
Skólastefna Kennarasambands Íslands 1987.
Skóli Ísaks Jónssonar 50 ára, 1926–1976. Skóli Ísaks Jónssonar 1979.
Skýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar um menntast efnu á Íslandi. Menntamálaráðuneytið ágúst 1987.
Skýrsla forskólanefndar menntamálaráðuneytisins. Desember 1981.
Skýrsla frá landlæknisembættinu/lögreglunni í Reykjaví k.
Skýrsla heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um íslenska heilbrigðisáætlun. Lögð fyrir Alþingi 1986–87, 435. mál.
Tillögur starfshóps um forskóla, 15. mars 1984 og 15. ágúst 1986.
Vinnuhópur um tengsl heimila og skóla: Samfelldur skóladagur. Tengsl heimila og skóla. Menntamálaráðuneytið 1984.