Ferill 144. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 144 . mál.


Sþ.

151. Tillaga til þingsályktunar



um eflingu hafbeitar á Íslandi.

Flm.: Guðmundur H. Garðarsson, Eyjólfur Konráð Jónsson,


Halldór Blöndal.



    Alþingi ályktar að efla beri laxahafbeit á Íslandi og felur ríkisstjórninni að vinna að því að þessi atvinnuvegur sitji við sama borð og aðrar útflutningsgreinar. Í því sambandi er sérstaklega áréttað:
1.     Að starfsskilyrði hafbeitar hérlendis verði í samræmi við það sem gerist almennt í fiskeldi, enda verði staða atvinnuvegarins í heild stórbætt.
2.     Að hagnýtar rannsóknir á sviði kynbóta verði stórefldar. Enn fremur verði rannsakað eftir því sem unnt er gönguferill og uppeldisskilyrði lax.
3.     Komið verði á afurðalánakerfi, sniðnu fyrir hafbeit, sem geri fyrirtækjunum kleift að fjármagna reksturinn fram að sölu afurðanna.
4.     Söluskattur og aðflutningsgjöld af stofn- og rekstrarkostnaði hafbeitarstöðva verði endurgreiddur eins og í öðrum útflutningsgreinum.

Greinargerð.


    Hvergi í heiminum eru aðstæður eins góðar og á Íslandi til að stunda hafbeit í atvinnuskyni. Byggist það fyrst og fremst á þeirri staðreynd að bannað er að veiða lax í sjó við Ísland. Að auki eru aðstæður til seiðaeldis á Íslandi hinar ákjósanlegustu þar sem nóg er til af fersku vatni, svo ekki sé minnst á jarðhita. Hafbeitarlax er í raun villt afurð og ber að selja hana sem slíka. Á þann hátt getum við skapað okkur sérstöðu á mörkuðum og verið betur undirbúin fyrir stóraukna samkeppni.
    Samanborið við önnur lönd, sem stunda hafbeit, bendir allt til þess að Ísland hafi sérstöðu í þessari atvinnugrein. Hafbeit hefur verið stunduð í smáum stíl hér á landi frá því árið 1961 og benda rannsóknir til þess að 8–15% endurheimtur séu raunhæf viðmiðun.
    Við stöndum á tímamótum á þessu sviði. Nokkur fyrirtæki hafa uppi áform um stórfellda hafbeitarstarfsemi og önnur sem hafa mikla reynslu í hafbeit eiga við fjárhagserfiðleika að etja þar sem ekki fæst sú fyrirgreiðsla sem eðlileg getur talist.

Rekstrarlán.
    Meðal starfsskilyrða í hafbeit er aðgangur að afurðalánakerfi eins og önnur útflutningsfyrirtæki hafa. Fiskeldisfyrirtæki á Íslandi sem lagt hafa megináherslu á hafbeit eiga ekki kost á því að fá afurðalán. Hefðbundin fiskeldisfyrirtæki geta nú fengið 37,5% af tryggingarverðmæti framleiðslu sinnar sem engan veginn er talið nóg, en hafbeit hefur enn sem komið er ekki fengið viðurkenningu á starfsemi sinni og þar með ekki fengið lán. Orsökin er að öllum líkindum sú að stöðvarnar sleppa veðhæfum seiðum í hafið í stað þess að selja þau og þurfa að bíða í eitt til tvö ár þar til þau koma aftur og skila tekjum. Vandamálið er fólgið í því að veðin eru þar með ekki áþreifanleg eða í vörslu t.d. lántaka, heldur óskilgreind í hafinu. Leysa þarf þetta vandamál sérstaklega fyrir hafbeitarfyrirtæki vegna sérstöðu þeirra, en að öðru leyti vísast til niðurstöðu starfsskilyrðanefndar fiskeldis um sama efni fyrir hefðbundin fiskeldisfyrirtæki.