Ferill 205. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 205 . mál.


Sþ.

288. Tillaga til þingsályktunar



um vinnuvernd í verslunum.

Flm.: Guðmundur H. Garðarsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Halldór Blöndal,


Kristín Einarsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að setningu laga um vinnuvernd í verslunum.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessa efnis var lögð fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga. Tillagan er því endurflutt í þeirri von að mál þetta fáist afgreitt á yfirstandandi þingi.
    Óþarfi er að hafa langa greinargerð með þessari tillögu. Alkunna er að vinnuálag á verslunarfólk hefur aukist gífurlega á síðustu árum. Aukin almenn velmegun og breytt viðhorf í viðskiptum hafa leitt til þess að opnunartími verslana hefur lengst til muna og er nú svo komið að í ýmsum stórmörkuðum getur daglegur vinnutími fólks verið allt að 12–14 klst. fimm daga vikunnar. Þar við bætast 7–8 klst. á laugardögum. Þess eru dæmi að vinnuvikan komist í 70–80 klst. Þrátt fyrir ítarlegar viðræður fulltrúa launþega og vinnuveitenda í verslunum hefur enn ekki tekist að ná viðunandi samkomulagi um tilhögun vinnutíma í þessari grein. Stefnir í fullkomið óefni ef ekkert verður að gert til að tryggja hag fólksins í þessum efnum.
    Með þessari þingsályktunartillögu er ekki stefnt að því að þrengja hag eða rekstrarstöðu verslunarfyrirtækja, heldur lögð sú skylda á Alþingi og ríkisstjórn að tryggja að verslunarfólki verði ekki misboðið með of miklu vinnuálagi, auk þess sem fjölskyldulífi þeirra er starfa við verslun verði ekki stefnt í voða vegna óheyrilega langs vinnutíma sex daga vikunnar allt árið um kring.
    Víða erlendis hafa farið fram miklar umræður um sams konar vandamál og hér er við að stríða. Unnið hefur verið að setningu laga og útgáfu reglna sem m.a. eiga að veita verslunarfólki ákveðna vinnuvernd.
    Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn hljóta samkvæmt framansögðu að koma hér til skjalanna með setningu laga sem fela í sér ákveðna vinnuvernd fyrir verslunarfólk jafnframt því sem kröfum nútímans um aukna þjónustu er mætt á viðunandi hátt.