Ferill 73. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 73 . mál.


Sþ.

402. Nefndarálitum framlög til flóabáta, fólks- og vöruflutninga.

Frá samvinnunefnd samgöngumála.    Samvinnunefnd samgöngumála hefur að venju fjallað um erindi þau sem Alþingi hafa borist um framlög á fjárlögum til stuðnings við rekstur flóabáta vegna vöru- og fólksflutninga á einstökum svæðum. Farsvæði þessara báta er á Faxaflóa, á Breiðafirði, á Ísafjarðardjúpi og á leiðinni frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja. Enn fremur eru flutningar styrktir á Eyjafirði og á milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar.
    Jafnframt hefur nefndin tekið fyrir og rætt erindi sem borist hafa vegna flutninga á landi, svo sem til rekstrar snjóbifreiða eða vegna mikils snjómoksturs þar sem erfitt reynist fyrir byggðarlög að standa straum af þeim kostnaði sem þau verða að bera samkvæmt snjómokstursreglum Vegagerðar ríkisins. Þó að reglurnar hafa verið rýmkaðar á síðustu árum verða íbúar í snjóþungum héruðum fyrir verulegum kostnaði umfram aðra þegna þjóðfélagsins við að halda uppi nauðsynlegum samgöngum. Til að minnka eitthvað þennan aðstöðumun hafa verið veitt á fjárlögum hvers árs framlög til þeirra sem að dómi nefndarinnar eru verst settir að þessu leyti.
    Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóri samgönguráðuneytisins, og Guðmundur Einarsson, forstjóri Skipaútgerðar ríkisins, mættu á fundi nefndarinnar og veittu margvíslegar upplýsingar sem komu nefndinni að verulegu gagni. Færir nefndin þeim sérstakar þakkir fyrir störf þeirra í hennar þágu.
    Skal nú gerð grein fyrir einstökum þáttum tillagna nefndarinnar, sérstaklega varðandi hin stærri verkefni, þ.e. flutninga á sjó og í lofti. Hvort tveggja er að til þeirra gengur mestur hluti þess fjármagns sem nefndin úthlutar og um allt það er lýtur að sjóflutningum hefur nefndin fyllri upplýsingar þó að þeir, sem styrks til landflutninga njóta, hafi einnig sent nefndinni greinargóðar upplýsingar um rekstur og annað er umsóknina snertir. Samt er í nokkrum tilvikum misbrestur á því að reikningar fylgi umsókn og voru
nefndarmenn sammála um að styrkur yrði ekki greiddur á næsta ári fyrr en reikningar bærust samgönguráðuneytinu fyrir yfirstandandi ár. Enn fremur vill nefndin beina því til ráðuneytisins að þeim, sem njóta stofnstyrkja undir liðnum flutningar á landi, verði kynnt sú meginregla nefndarinnar að stofnstyrkir til ákveðinna verkefna verði eingöngu veittir í þrjú ár. Við úthlutun stofnstyrkja hefur að jafnaði verið við það miðað að þeir verði ekki hærri samtals en helmingur kostnaðar við kaup á vélum og tækjum. Þrátt fyrir þessa meginreglu taldi nefndin eftir atvikum rétt að veita tveimur aðilum stofnstyrk í fjórða sinn á næsta ári. Það er til vetrarsamgangna í Árneshreppi og til snjóbifreiðar í Oddsskarði og Fagradal. Nefndin vill leggja á það áherslu að líta beri á þessar styrkveitingar sem algjöra undantekningu og ekki til eftirbreytni.

Akraborg.


    Rekstraraðili Akraborgar, Skallagrímur hf., sækir um 20 millj. kr. rekstrarstyrk á næsta ári. Í ár er styrkurinn 14,4 millj. kr. og rann hann að fullu til greiðslu á lánum hjá Ríkisábyrgðasjóði samkvæmt sérstöku samkomulagi við hann.
    Á árinu 1987 nam hallinn á rekstri Akraborgar 779 þús. kr. Á árinu 1986 var hallinn 12,2 millj. kr. Rekstrartekjur Akraborgar voru 92,2 millj. kr. á árinu 1987 en voru 77,8 millj. kr. 1986. Hækkun milli ára er 20,5%. Rekstrargjöld voru 89,6 millj. kr. 1987 en 68,7 millj. kr. 1986. Gjöldin hækkuðu því um 30,4%.
    Samkvæmt efnahagsreikningi í árslok er eigið fé fyrirtækisins neikvætt um 33,7 millj. kr. Eiginfjárstaðan batnaði um tæpar 40 millj. kr. á árinu. Skýringin er fyrst og fremst sú að með heimild í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1987 var felld niður skuld við Ríkisábyrgðasjóð vegna uppsafnaðra vaxta og dráttarvaxta, samtals að fjárhæð 45.515.519 kr. Þá var langtímaskuld fyrirtækisins hjá Ríkisábyrgðasjóði skuldbreytt á þann hátt að af tveimur gjalddögum á ári af láninu kemur aðeins ein til greiðslu þar til á lokagjalddaga lánsins að hinar frestuðu afborganir koma til greiðslu.
    Afleiðing þessa er sú að skammtímaskuldir minnkuðu úr 69,1 millj. kr. í lok ársins 1986 í 28,1 millj. kr. í lok síðasta árs. Veltufjárhlutfallið er enn mjög lágt eða aðeins 0,22.
    Í lok september sl. var hallinn á rekstri Akraborgar orðinn 6,6 millj. kr. eftir að búið var að taka tillit til fjármunatekna og fjármagnsgjalda. Hér er um veruleg umskipti frá árinu áður að ræða en þá skilaði reksturinn hagnaði fyrstu níu mánuði ársins að fjárhæð 3,1 millj. kr.
    Samkvæmt yfirliti um greiðslubyrði afborgana og vaxta af langtímalánum Akraborgar, sem nefndinni var sent, falla til greiðslu hjá Ríkisábyrgðasjóði eftirtaldar fjárhæðir á árunum 1989–1992 (í þús. kr.):

    Árið 1989 ............         15.659
    Árið 1990 ............         14.740
    Árið 1991 ............         13.845
    Árið 1992 ............         52.406

    Hér fara á eftir upplýsingar um flutninga Akraborgar frá janúar til október 1987 og sömu mánuði þessa árs:

              1987    1988
    Bifreiðar .......................         67.766    64.342
     þar af flutningabílar ........         6.910    6.865
    „Gangandi farþegar“ .............         60.873    60.586

    Samkvæmt þessu yfirlit hefur bílum fækkað um 3413 eða um 5% en lítil sem engin breyting hefur orðið á tölu „gangandi farþega“ milli ára.
    Akraborgin fór 78 fleiri ferðir í ár en í fyrra og flutti að meðaltali 2,33 færri bíla í hverri ferð. Í ár flutti Akraborgin 26,43 bíla í hverri ferð en 28,76 bíla á árinu 1987.

Baldur.


    Eigandi Baldurs, Flóabáturinn Baldur hf., sækir um 20,8 millj. kr. styrk á næsta ári. Í ár er styrkurinn 14,7 millj. kr.
    Í greinargerð rekstraraðila bátsins um starfrækslu hans fyrstu níu mánuði þessa árs segir m.a. að áætlunarferðir Baldurs milli Stykkishólms og Brjánslækjar með viðkomu í Flatey hafi samstals orðið 153. Báturinn flutti í þessum ferðum 4859 farþega og 1311 bifreiðar. Til samanburðar má geta þess að í 151 ferð bátsins fyrstu tíu mánuði ársins 1987 flutti hann 6273 farþega og 1393 bifreiðar.
    Auk viðkomu í Flatey var sem áður komið við í Skáleyjum, Hvallátrum og Svefneyjum. Yfir sumartímann fór báturinn sjö ferðir í viku yfir Breiðafjörðinn þegar þær urðu flestar, en á tímabilinu frá 1. október til 30.
apríl voru að jafnaði farnar tvær ferðir í viku hverri.
    Eins og undanfarin ár voru engar fastar áætlunarferðir farnar milli Reykjavíkur og Breiðafjarðarhafna, en hins vegar voru farnar leiguferðir, m.a. með áburð og salt, svo og aðrar ferðir sem arðbærar þóttu.
    Um þessa flutninga segir m.a. í greinargerð fyrirtækisins:
    „Áburðarflutningar drógust saman í ár eins og búist var við í fyrrahaust. Reiknað var með nokkrum samdrætti á þessu ári. Aukin umræða og smíði nýrrar ferju hefur valdið því að vöruflutningar yfir Breiðafjörð hafa stóraukist.“
    Í bráðabirgðauppgjöri um rekstur bátsins til októberloka í ár og í áætlun til loka ársins er gert ráð fyrir að heildargjöld Baldurs verði 27,9 millj. kr. og tekjur 9,9 millj. kr. Ríkisframlagið verður 14,7 millj. kr., þannig að samkvæmt þessu kemur reksturinn til með að sýna 3,3 millj. kr. halla á árinu 1988.
    Á árinu 1987 var hallinn á rekstri Baldurs 1,3 millj. kr., en 667 þús. kr. á árinu 1986.
    Útgerðin gefur sér þá forsendu að laun hækki um 20% frá árinu í ár, en að aðrir gjaldaliðir hækki mismikið eða á bilinu 20–40%. Þannig er gert ráð fyrir að heildargjöld bátsins eða nýrrar ferju verði 39,2 millj. kr. eða um 40% hærri en í ár. Hér er gert ráð fyrir verulegri magnaukningu gjalda með tilkomu nýrrar ferju, hugsanlega fyrir mitt næsta ár.
    Rekstraraðili áætlar að tekjur tvöfaldist á milli áranna og að þær verði 20,3 millj. kr. Til að jöfnuður náist þarf ríkisframlagið að vera 18,9 millj. kr.
    Með bréfi, dags. 8. maí 1987, veitti fyrrverandi samgönguráðherra, Matthías Bjarnason, samþykki sitt til að hafin yrði smíði Breiðafjarðarferju og í kjölfar þess var undirritaður smíðasamningur við Þorgeir & Ellert hf., Akranesi. Umsamið verð var 156,8 millj. kr.
    Í frumvarpi til lánsfjárlaga, sem nú er til meðferðar á Alþingi, er 85 millj. kr. lántökuheimild til þess að ljúka smíði ferjunnar og á lánsfjárlögum þessa árs er 100 millj. kr. lánsfjárheimild.
    Samkvæmt smíðasamningi á að afhenda nýja Breiðafjarðarferju í mars 1989.

Fagranes.


    Eins og mörg undanfarin ár fylgir umsókn rekstraraðila bátsins greinargott yfirlit um rekstur hans út þetta ár.
    Í bréfi framkvæmdastjóra fyrirtækisins til samvinnunefndar samgöngumála, dags. 18. nóvember 1988, er tekið fram að við gerð rekstraráætlunar fyrir árið
1988 hafi verið gert ráð fyrir 16,96% meðaltalshækkun gjaldaliða milli ára, en hækkunin varð 19,27%. Búist var við 20% hækkun tekjuliða en hækkunin reyndist vera 13,47%.
    Áætlað er að reksturinn skili um 201 þús. kr. hagnaði á þessu ári þegar búið er að taka tillit til 12,7 millj. kr. ríkisframlags.
    Áætlun fyrirtækisins fyrir næsta ár er í hefðbundnum stíl. Útgerðin gefur sér þá forsendu að gjöld hækki um 12–15% frá árinu í ár, að meðaltali um tæp 13,45%, og að þau verði 19,7 millj. kr. á næsta ári. Tekjur eru taldar aukast um 22% milli ára og að þær verði 5,8 millj. kr. Til að jöfnuður náist þarf ríkisframlagið að vera 14,0 millj. kr., samkvæmt umsókn útgerðar bátsins.

Hríseyjarferja.


    Á undanförnum mánuðum hefur sveitarstjóri Hríseyjarhrepps látið vinna frumhönnun að nýju skipi sem hentað gæti til þeirra flutninga sem fellur í hlut Hríseyjarferjunnar að annast.
    Ljóst er að slík ferja er nokkuð sérhannað skip og því kostnaðarsöm í nýsmíði. Síðastliðið haust var áætlað að smíðakostnaður ferjunnar yrði 50–70 millj. kr. Vegna þessa hafa Hríseyingar jafnframt athugað hvort ekki væri á söluskrá erlendis tiltölulega nýlegar notaðar ferjur. Hafa þeir fengið til liðs við sig Jón B. Hafsteinsson skipaverkfræðing og er hann að kanna möguleika á notuðu skipi í löndunum næst okkur.
    Til að standa undir kostnaði á næsta ári við kaup eða smíði nýrrar Hríseyjarferju sækir sveitarstjóri Hríseyjarhrepps um stofnstyrk að fjárhæð 15 millj. kr.

Mjóafjarðarbátur.


    Sótt er um styrk til áætlunarferða milli Mjóafjarðar, Dalatanga og Neskaupstaðar. Fyrirkomulag ferða er með sama sniði og áður. Farnar eru tvær ferðir í viku frá Mjóafirði til Neskaupstaðar með viðdvöl þar og fara 10–12 klst. í hverja ferð. Þá er farið að Dalatanga jafnoft. Farið er á milli Dalatanga og Mjóafjarðar á landi á sumrin og þegar því verður við komið á veturna.
    Vegna áætlunarferðanna til Dalatanga hefur reynst nauðsynlegt að hafa yfir að ráða snjósleða og Subaru-bifreið og einnig Zodiak-gúmmíbát því að þegar landleiðin er ófær er farið á bátnum næsta dag og tekið land á gúmmíbátnum. Eru þær ferðir tímafrekar og bindandi þar sem oft þarf að bíða færis vegna erfiðra lendingarskilyrða á Dalatanga. Hefur það í för með sér allmikinn
aukakostnað og tímatap.
    Þessi bátur, sem keyptur var á árinu 1978, er að sögn heimamanna eini möguleikinn til þess að hafa samband við Neskaupstað þar sem öll verslunarviðskipti fyrir þennan hrepp fara fram.
    Rekstraraðili Mjóafjarðarbáts, Egill Stefánsson, sækir um rekstrarstyrk á næsta ári að fjárhæð 2.640.000 kr. Enn fremur er sótt um stofnstyrk 1.000.000–1.200.000 kr. til endurbóta á bátnum.

Herjólfur.


    Á árinu 1987 var hagnaður á rekstri Herjólfs 392 þús. kr. og er þá búið að taka tillit til 19,4 millj. kr. ríkisframlags. Hér er um að ræða töluverða breytingu frá árinu á undan þegar hallinn var um 10 millj. kr. Samkvæmt efnahagsreikningi í árslok er eigið fé fyrirtækisins jákvætt um 42 millj. kr. og hafði það þá aukist um 12 millj. kr. á árinu. Skammtímaskuldir námu 21 millj. kr. í lok síðasta árs og höfðu þær þá hækkað um tæpar 10 millj. kr. frá árinu áður. Veltufjárhlutfallið er 0,70 sem er nokkuð lægra en það var í lok ársins 1986 (0,96).
    Í lok október sl. var tap á rekstri Herjólfs 13,6 millj. kr. og er þá ekki tekið tillit til ríkisframlags og afskrifta. Í lok þessa árs er reiknað með að gjöld án afskrifta verði 128,2 millj. kr. og tekjur 105,6 millj. kr. Samkvæmt því áætlar útgerðin að tap á rekstri Herjólfs verði tæpar 22,6 millj. kr. í lok þessa árs án ríkisframlags, verðbreytingafærslna, afskrifta, verðbóta og óreglulegra rekstrarliða.
    Samkvæmt bréfi Herjólfs hf. til nefndarinnar er áætlun fyrirtækisins um gjöld og tekjur á næsta ár sett fram á áætluðu meðalverðlagi ársins 1989 með framreikningi á niðurstöðutölum ársins 1988. Gjöld og tekjur hækka samkvæmt því um 20%. Hallinn á rekstrinum hækkar úr 22,6 millj. kr. árið 1988 í 27,1 millj. kr. árið 1989.

Flutningar til Grímseyjar.


    Fyrir nokkrum árum hætti Drangur ferðum sínum um Eyjafjörð og til Grímseyjar. Til þess að sinna þeim flutningaverkefnum, sem flóabáturinn annaðist, var samið við Flugfélag Norðurlands hf. um að flytja vörur til Grímseyjar og jafnframt hefur Skipaútgerð ríkisins séð um flutning á þungavöru til eyjarinnar og fiskflutninga þaðan.
    Áætlað er að þessir flutningar muni kosta um 8 millj. kr. á næsta ári.

    Málefni annarra báta verða ekki rakin hér enda er þar um smáar upphæðir að ræða. Ekki verða heldur tilgreindar sérstakar umsóknir um fjárveitingar til vetrarsamgangna á landi. Ítarlega var fjallað um hverja umsókn og var samstaða í nefndinni um hverja fjárveitingu.
    Um 54. lið Óráðstafað í breytingartillögu nefndarinnar er það að segja að hann er fyrst og fremst hugsaður sem sjóður sem hægt yrði að grípa til í neyðartilvikum þegar samgöngur teppast og grípa þarf til dýrari flutningstækja. Slíkir flutningar yrðu síðan greiddir samkvæmt reikningi og hefur verið farið fram á það við Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóra í samgönguráðuneytinu, að hann annaðist greiðslu slíkra reikninga í samráði við formenn samgöngunefnda Alþingis.
    Samvinnunefnd samgöngumála leggur til að á fjárlögum 1989 verði veittar samtals 109.609.000 kr. til flóabáta, fólks- og vöruflutninga, í staðinn fyrir 92.719.000 kr. á þessu ári og flytur nefndin breytingartillögu þess efnis á sérstöku þingskjali ásamt sundurliðun á framlaginu.

Alþingi, 4. jan. 1989.Karvel Pálmason,

Hjörleifur Guttormsson,

Guðmundur Ágústsson,


form. Ed.-nefndar, frsm.

form. Nd.-nefndar.

fundaskr. Ed.-nefndar.Guðni Ágústsson,

Stefán Guðmundsson.

Árni Gunnarsson.


fundaskr. Nd.-nefndar.Jón Helgason.

Friðjón Þórðarson.

Egill Jónsson.Ólafur Þ. Þórðarson.

Skúli Alexandersson.

Ingi Björn Albertsson.Þorv. Garðar Kristjánsson.

Matthías Á. Mathiesen.