Ferill 299. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 299 . mál.


Sþ.

548. Tillaga til þingsályktunar



um sameiningu Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins og jöfnun raforkuverðs.

Flm.: Jón Helgason, Egill Jónsson, Hjörleifur Guttormsson,


Birna K. Lárusdóttir, Óli Þ. Guðbjartsson, Auður Eiríksdóttir,


Alexander Stefánsson.



    Alþingi samþykkir að fela ríkisstjórninni að vinna að sameiningu Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar í samræmi við það. Enn fremur verði með þeirri lagasetningu kveðið á um jöfnun smásöluverðs á raforku þannig að verðlagning hjá hinu nýja fyrirtæki verði sambærileg við vegið meðaltal hjá öðrum rafveitum.

Greinargerð.


    Nú stendur yfir og er fram undan mikið átak í mörgum atvinnugreinum til hagræðingar í rekstri á þann hátt að sameina fyrirtæki og stækka rekstrareiningar. Viðurkennt er að með því móti megi ná fram miklum sparnaði án þess að draga úr rekstri eða þjónustu. Með tilliti til þessara staðreynda er ekki síður þörf á að gera slíkt á sviði orkudreifingar og því fráleitt að ríkið standi að rekstri tveggja fyrirtækja með svo skylda starfsemi sem Rafmagnsveitur ríkisins og Landsvirkjun halda uppi. En um leið og slík skipulagsbreyting er gerð þarf að ná fram því mikilvæga markmiði að jafna smásöluverð á raforku um land allt. Á undanförnum árum hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til þess en aldrei hefur tekist að ná því að fullu. Með endurskoðuðum lögum um Landsvirkjun árið 1983 fékk fyrirtækið að mestu leyti einkarétt á raforkuöflun í landinu og afhendingu orkunnar til dreifiveitna. Jafnframt var lögfest að Landsvirkjun skyldi afhenda raforku samkvæmt gjaldskrá á sama verði til dreifiveitna í öllum landshlutum. Hlutur Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða í raforkuflutningi og dreifingu er hins vegar langtum kostnaðarsamari en hjá rafveitum sem nær eingöngu dreifa raforku í þéttbýli. Þessar ráðstafanir og aðrar hafa því ekki nægt til að
jafna smásöluverð. Verðlagningarkerfið í raforkumálum hefur því þróast þannig að mikill meiri hluti þjóðarinnar nýtur þeirra óeðlilegu forréttinda að búa við lægra orkuverð en þau héruð þar sem orkuöflunin fer fram og önnur þau svæði sem sambærilega aðstöðu hafa. Slíkt er að sjálfsögðu ranglátt og algjörlega óviðunandi. Því verður tafarlaust að gera réttláta lagfæringu á þessu kerfi.
    Núverandi kerfi hefur einnig á sér ýmsa fleiri annmarka. Þar sem verðlagningarkerfið er ekki nægjanlega sveigjanlegt hefur það t.d. verið ódýrara fyrir suma að nota olíu til framleiðslu á raforku til eigin nota í stað þess að kaupa umframraforku frá innlendum orkuverum. Á síðustu árum hafa fjárfestingar Landsvirkjunar verið örari en brýn þörf hefur verið fyrir á sama tíma og endurnýjun dreifikerfis hjá Rafmagnsveitum ríkisins hefur verið allt of hæg. Eftir sameiningu í eitt fyrirtæki ætti að vera hægt að beina framkvæmdum að þeim verkefnum sem mest eru aðkallandi.
    Í árslok 1987 var eigið fé Rafmagnsveitna ríkisins um 5,5 milljarðar króna og Landsvirkjunar 13,6 milljarðar króna. Það er því augljóst að hlutur ríkisins í hinu sameinaða fyrirtæki verður miklu stærri en hann er nú í Landsvirkjun nema fleiri dreifiveitur vilji gerast þar aðilar að. En sjálfsagt virðist að hafa opnar heimildir fyrir slíku.