Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 239 . mál.


Nd.

552. Nefndarálit



við frv. til l. um breyt. á vaxtalögum, nr. 25 27. mars 1987.

Frá 1. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Megintilgangur frumvarps þessa er að koma í veg fyrir ósanngjarna vaxtatöku og misneytingu í lánsviðskiptum, sbr. seinasta málslið 6. gr. Fyrsti minni hl. er samþykkur þessum tilgangi frumvarpsins. Þá er 1. minni hl. einnig hlynntur ákvæðum 5. gr. frumvarpsins sem gerir mögulegt að ekki þurfi lengur að sundurliða dráttarvaxtakröfur í langri þulu. Þetta ákvæði frumvarpsins er það mikilvægt að það eitt sér mundi hafa réttlætt framlagningu þessa frumvarps. Við ýmis önnur atriði frumvarpsins gerir 1. minni hl. hins vegar athugasemdir og flytur tvær breytingartillögur þar að lútandi á sérstöku þingskjali.
    Fyrri breytingartillagan lýtur að því að fella brott tvo fyrstu málsliði 6. gr. frumvarpsins enda eru þau ákvæði þegar fyrir í gildandi vaxtalögum. Það er seinasti málsliðurinn sem skiptir máli og lagt er til að hann bætist við gildandi vaxtalög.
    Síðari breytingartillagan lýtur að því að fella brott 7.–10. gr. frumvarpsins. Fyrsti minni hl. nefndarinnar vill benda á í þessu sambandi að með lögum um breytingu á lögum um skattskyldu innlánsstofnana, sem öðluðust gildi 31. des. sl., voru ákvæði laga nr. 13/1975, um launajöfnunarbætur, verðlag o.fl., felld úr gildi. Þau ákvæði voru að verulegu leyti samhljóða 7.–10. gr. þessa frumvarps og gerðu ráð fyrir að ríkisstjórnin færi með endanlegt ákvörðunarvald um lánskjör, þar á meðal vaxtakjör, hjá fjárfestingarlánasjóðum.
    Svo virðist sem niðurfelling þessa ákvæðis í desember ssíðastliðnum hafi verið hluti af samkomulagi fjármálaráðherra við stærstu fjárfestingarlánasjóðina, en í frumvarpinu um breytingu á lögum um skattskyldu innlánsstofnana í sinni upphaflegu mynd var gert ráð fyrir að sjóðirnir yrðu skattlagðir. Í meðförum þingsins tók frumvarpið hins vegar miklum breytingum því notkun hugtaksins „opinberir fjárfestingarlánasjóðir“ þótti ómarkviss (sjá umræður 20.–22.
des.) og var fallið frá því að skattleggja sjóðina. Fjármálaráðherrann gleymdi hins vegar að draga til baka umrætt ákvæði sem veitti sjóðunum fullt vaxtafrelsi.
    Af þessari ástæðu má gera nokkrar athugasemdir við 7.–10. gr. vaxtalagafrumvarpsins. Í fyrsta lagi er notað orðalagið „opinberir fjárfestingarlánasjóðir“ sem þingið taldi ónothæft í desember síðastliðnum. Í öðru lagi má spyrja hvers vegna skrefið til baka er ekki stigið til fulls og vaxtaákvarðanir færðar undir endanlegt ákvörðunarvald ríkisstjórnarinnar eins og lögin frá 1975 kváðu á um. Í þriðja lagi má gagnrýna það óðagot sem „mistök“ af þessu tagi bera vott um. Í fjórða lagi má spyrja hvers vegna fjárfestingarlánasjóðum (sjá 9. gr.) eru ekki settar sams konar reglur um endurlánajöfnuð og innlánsstofnunum, sbr. 1. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands.

Alþingi, 22. febr. 1989.



Matthías Bjarnason,

Hreggviður Jónsson.


frsm.