Ferill 301. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 301 . mál.


Nd.

555. Frumvarp til laga



um verndun fornleifa.

Flm.: Alexander Stefánsson, Árni Gunnarsson, Ólafur G. Einarsson,


Ólafur Þ. Þórðarson, Kristín Halldórsdóttir.



I. KAFLI

Tilgangur.

1. gr.

    Tilgangur laga þessara er að stuðla að verndun fornleifa þannig að þeim verði hvorki spillt né grandað af manna völdum eða náttúruöflum.
    Jafnframt eiga lögin að auðvelda almenningi að umgangast og virða fornleifar sem hluta náttúrulegs umhverfis því að í fornleifum felst vitneskja um lífsskilyrði og menningu horfinna kynslóða.

Fornleifar.


2. gr.

    Jarðfastar fornleifar 100 ára eða eldri eru friðhelgar. Þeim má hvorki spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær né flytja úr stað nema leyfi Fornleifafræðistofnunar eða landsminjavarðar komi til, sbr. 18. og 21. gr.

3. gr.

    Til fornleifa teljast hvers kyns leifar jarðfastra minja sem mannaverk eru á, svo sem:
a.     byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi mannvirkjum, húsaleifar hvers kyns, svo sem kirkna, bænhúsa, klaustra og búða, leifar af verbúðum, naustum, verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum;
b.     vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri;
c.     gömul tún- og akurgerði, áveitumannvirki og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita;
d.     gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra;
e.     virki og skansar eða önnur varnarmannvirki;
f.     gamlir þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð;
g.     áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum;
h.     haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið;
i.     skipsflök og hlutar úr þeim.

4. gr.

    Fornleifafræðistofnun ber í samráði við landsminjaverði að friðlýsa fornleifar og sögustaði sem teljast hafa sérstakt menningarsögulegt gildi. Við slíkum friðlýstum stöðum má ekki hrófla á neinn hátt nema leyfi friðlýsingaraðila komi til. Fornleifar, sem friðlýstar hafa verið samkvæmt eldri lögum, skulu áfram njóta friðunar. Kostnað vegna friðlýsinga skal greiða úr ríkissjóði.

5. gr.

    Þeim minjum, sem friðlýstar eru skv. 4. gr., skal fylgja ákveðið friðhelgað svæði frá ystu mörkum sýnilegra fornleifa og allt umhverfis þær. Um slíkt skal leita samþykkis landeiganda.
    Tilkynna skal friðlýsingu fornleifa í Stjórnartíðindum, en auk þess landeiganda, ábúanda eða öðrum rétthöfum. Auðkenna skal friðlýstar minjar eða minjasvæði með sérstökum merkjum.
    Skylt er að viðhalda á kostnað ríkissjóðs fornleifum þeim sem á friðlýsingarskrá standa.

6. gr.

    Finnist fornleifar, sem áður voru ókunnar, skal finnandi skýra viðkomandi landsminjaverði eða Fornleifafræðistofnun, sbr. 18. og 21. gr., frá fundinum svo fljótt sem unnt er. Sama skylda hvílir á landeiganda og ábúanda er þeir fá vitneskju um fundinn. Ef fornleifar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd uns fenginn er úrskurður landsminjavarðar og Fornleifafræðistofnunar um það hvort verki megi halda áfram og með hvaða skilmálum.

7. gr.

    Telji landeigandi, ábúandi eða nokkur annar, þar á meðal sá sem stjórnar framkvæmdum, að hann þurfi að gera jarðrask er haggar við fornleifum skal hann skýra landsminjaverði eða Fornleifafræðistofnun frá því áður en hafist er handa við verkið. Lýst skal nákvæmlega breytingum þeim er af framkvæmdum muni leiða. Fornleifafræðistofnun og landsminjavörður ákveða hvort eða hvenær framkvæmd megi hefjast og með hvaða skilmálum. Sömu aðilar hafa rétt til að fresta framkvæmdum uns nauðsynleg rannsókn hefur farið fram.
    Við allar meiri háttar framkvæmdir skal sá sem fyrir þeim stendur bera kostnað af nauðsynlegum rannsóknum. Setja skal í reglugerð frekari ákvæði um efni þessarar greinar.

8. gr.

    Landeiganda eða ábúanda ber að gera landsminjaverði eða Fornleifafræðistofnun viðvart ef fornleifar liggja undir spjöllum af manna völdum eða vegna náttúruafla. Fornleifafræðistofnun og landsminjavörður ákveða þá hvaða ráðstafanir skulu gerðar til að vernda fornleifarnar.

9. gr.

    Fornleifafræðistofnun skal hafa samráð við landsminjaverði um framkvæmd laga þessara að því er varðar verndun fornleifa.

10. gr.

    Fornleifafræðistofnun og landsminjaverðir hafa yfirumsjón með öllum fornleifarannsóknum í landinu og ber þeim að sjá til þess að einungis viðurkennt fagfólk annist rannsóknir á fornleifum.
    Fornleifafræðistofnun getur í samráði við landsminjavörð heimilað öðrum aðila rannsóknir á fornleifum enda uppfylli hann ákveðin menntunar- og þekkingarskilyrði sem Fornleifafræðistofnun setur. Ef um erlenda aðila er að ræða er skylt að rannsóknirnar séu undir yfirumsjón Fornleifafræðistofnunar og hlutaðeigandi landsminjavarðar og að rannsóknarleyfið sé veitt með samþykki þeirra. Beina skal til Fornleifafræðistofnunar öllum rannsóknarbeiðnum erlendra aðila er varða fornleifar á einhvern hátt, þar á meðal þeim sem einnig er skylt að beina til Vísindaráðs skv. l. nr. 48/1987.

11. gr.

    Fornleifafræðistofnun ber í samráði og samvinnu við landsminjaverði að hafa yfirumsjón með skráningu fornleifa. Á fornleifaskrá skal færa upplýsingar sem nauðsynlegar eru taldar til varðveislu og friðlýsingar þeirra. Heildarskrá fyrir landið skal vera á Fornleifafræðistofnun og hjá landsminjavörðum og skal stefnt að því að gefa skrárnar út eftir þörfum. Sömu aðilar skulu stuðla að því að fornleifar, sem hafa sérstakt menningarsögulegt gildi, verði gerðar aðgengilegar almenningi og annast uppsetningu upplýsingaskilta við minjarnar.

12. gr.

    Skylt er að fornleifaskráning fari fram á skipulagsskyldum svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess. Skipulagsyfirvöld skulu tilkynna landsminjaverði eða Fornleifafræðistofnun um fyrirhugað skipulag. Fornleifafræðistofnun eða landsminjavörður lætur þá skrá minjar á svæðinu eða endurskoða fyrri skrár með hliðsjón af fyrirhuguðum breytingum.
    Friðlýstar og skráðar fornleifar skulu færðar inn á skipulagsuppdrætti og kort eftir því sem tök eru á.

Forngripir.


13. gr.

    Forngripir eru lausar fornleifar, þ.e. einstakir munir hundrað ára og eldri. Hlutir og hlutabrot sem finnast einir sér eða við fornleifarannsóknir teljast til forngripa og skulu þeir varðveittir í Þjóðminjasafni eða hlutaðeigandi byggða- og minjasöfnum að loknum rannsóknum sem Fornleifafræðistofnun og landsminjaverðir sjá um.
    Forngripir eru munir sem menn hafa notað eða mannaverk eru á. Til þeirra teljast einnig leifar af líkömum manna og dýra sem finnast við fornleifarannsóknir.

14. gr.

    Þegar forngripir finnast, sem ekki eru í einkaeign svo vitað sé, skal finnandi tilkynna landsminjaverði eða Fornleifafræðistofnun um fundinn svo fljótt sem auðið er. Finnandi skal ekki hagga við fundinum nema nauðsynlegt sé talið að taka hann eða hluta hans til umhirðu vegna hættu á að hann spilltist eða fari forgörðum. Slíkir forngripir skulu varðveittir í Þjóðminjasafni eða í hlutaðeigandi byggða- eða minjasafni. Ef upp kemur ágreiningur um hvar varðveita skuli forngripi skal stjórn Fornleifafræðistofnunar skera úr.

15. gr.

    Greiða skal finnanda útgjöld sem hann hefur sannanlega haft vegna forngrips. Nú finnast forngripir úr gulli og silfri, þar á meðal gull- eða silfurpeningar, og skal þá meta málmverð hlutarins og leggja ofan á 10 af hverju matshundraði. Skal annar helmingur matsfjárhæðar greiddur finnanda en hinn landeiganda.
    Útgjöld samkvæmt grein þessari skulu greidd úr ríkissjóði.

16. gr.

    Forngripi, sem taldir eru hafa sérstakt menningarsögulegt minjagildi, má ekki flytja úr landi nema til komi samþykki Fornleifafræðistofnunar, hlutaðeigandi vörslusafns og þjóðminjavarðar.

17. gr.

    Sjái einhver meinbugi á ákvörðun Fornleifafræðistofnunar eða landsminjavarða getur hann skotið máli sínu til stjórnar Fornleifafræðistofnunar, sbr 19. gr.

II. KAFLI


Fornleifafræðistofnun.


18. gr.

    Fornleifafræðistofnun og landsminjaverðir í umboði hennar, sbr. 21. gr., hafa yfirumsjón með allri fornleifavörslu í landinu. Stofnunin skal leggja höfuðáherslu á rannsóknir hvort heldur um er að ræða fræðilegar rannsóknir eða skyndirannsóknir sem nauðsynlegar eru vegna fyrirhugaðrar röskunar á fornleifum.
    Hlutverk stofnunarinnar skal vera tvíþætt: annars vegar skráningar-, eftirlits- og upplýsingastörf og hins vegar friðlýsingar- og rannsóknastörf.
    Fornleifarannsóknum á vegum stofnunarinnar skulu fornleifafræðingar stjórna, en nánari ákvæði um menntunar- og þekkingarskilyrði skal setja í reglugerð.
    Kostnaður af rekstri Fornleifafræðistofnunar skal greiddur úr ríkissjóði.

19. gr.

    Stjórn Fornleifafræðistofnunar skal þannig skipuð: Menntamálaráðherra skipar þrjá stjórnarmenn, einn tilnefndan af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn tilnefndan af landsminjavörðum og lögfræðing tilnefndan af lagadeild
Háskóla Íslands. Auk þess eiga sæti í stjórninni þjóðminjavörður og forstöðumaður stofnunarinnar.
    Ráðherra skipar formann stjórnar úr hópi stjórnarmanna. Skipunartími stjórnar skal vera fjögur ár.

20. gr.

    Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Fornleifafræðistofnunar til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar og skal hann vera fornleifafræðingur að mennt, en skilyrði um menntun og hæfni skal tilgreina í reglugerð.
    Ráðherra skipar einnig aðra starfsmenn Fornleifafræðistofnunar samkvæmt tilnefningu stjórnar.

21. gr.

    Landinu skal skipt í fimm landsminjasvæði. Sérstakir landsminjaverðir skulu starfa á vegum Fornleifafræðistofnunar, einn á hverju svæði. Ríkissjóður greiðir laun þeirra en bæjar- og sveitarfélögum ber að sjá þeim fyrir vinnuaðstöðu.
    Landsminjaverðir skulu vera fornleifafræðingar að mennt, en menntunarkröfur skal nánar tilgreina í reglugerð. Menntamálaráðherra skipar landsminjaverði samkvæmt tilnefningu stjórnar Fornleifafræðistofnunar.
    Starfsmenn Fornleifafræðistofnunar og landsminjaverðir skulu halda reglulega fundi til að samræma starf sitt. Nánari ákvæði um fundahald skal setja í reglugerð.

III. KAFLI


Almenn ákvæði.


22. gr.

    Einstaklingar sem verða fyrir fjártjóni vegna framkvæmda samkvæmt ákvæðum laga þessara eiga rétt á skaðabótum úr ríkissjóði. Skaðabótakröfum sínum skulu þeir beina til stjórnar Fornleifafræðistofnunar.

23. gr.

    Ekki ber að greiða stimpilgjöld eða þinglýsingargjöld af skjölum sem út eru gefin vegna framkvæmda samkvæmt lögum þessum.

24. gr.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara varða sektum til ríkissjóðs nema þyngri refsing liggi við broti skv. 177. gr. almennra hegningarlaga.

25. gr.

    Um framkvæmd laganna í heild eða einstaka þætti þeirra skal setja nánari ákvæði í reglugerð. Reglugerðir, settar samkvæmt lögum þessum, skal endurskoða eigi síðar en fimm árum eftir að lög þessi koma til framkvæmda.

26. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990. Jafnframt fellur þá úr gildi II. kafli þjóðminjalaga, nr. 52 frá 1969.

Greinargerð.


    Við samþykkt núgildandi þjóðminjalaga, nr. 52 frá 1969, var horfið frá fyrri hefð, sem einkenndi lögin um verndun fornleifa frá 1907, þar sem tilefni og tilgangur laganna var fyrst og fremst að stuðla að fornleifavernd. Fyrirmyndin að lögunum 1907 var fengin frá Norðurlöndum. Þessa hefð hafa nágrannaþjóðirnar haldið fast við og eru sérstakir lagabálkar um verndun fornleifa enn við lýði hjá þeim. Lögin um fornleifavernd urðu síðar hornsteinninn í allri menningarminjalöggjöf þessara þjóða. Áhuginn á því að kanna og skýra fornleifarnar og flokka þær í ákveðna tímaröð þróaðist smám saman í sérstaka faggrein, fornleifafræði. Norðurlöndin áttu, og eiga enn, stóran þátt í því að þróa fornleifafræðina sem alþjóðavísindagrein, einkum vegna löggjafarinnar og skilnings stjórnvalda á því að styðja við fornleifafræði sem fag- og vísindagrein í þessum löndum. Við þetta má bæta að fornleifalöggjöf nágrannalandanna hefur verið aðlöguð umhverfisverndarlöggjöf landanna og í Noregi heyra allar menningarminjar, þar með taldar fornleifar, undir umhverfismálaráðuneyti.
    Við erum óneitanlega langt á eftir nágrannaþjóðunum hvað fornleifavernd varðar og því mikilvægt að leggja sérstaka áherslu á að þessum þætti menningarminjavörslunnar verði búin góð skilyrði þegar henni eru sett ný lög.
    Það hefur mikla kosti í för með sér að skilja fornleifavörsluna frá Þjóðminjasafninu og safnastarfsemi yfirleitt. Með því móti er unnt að stórefla
fornleifaverndina. Slíkt fyrirkomulag mundi samtímis létta til muna kvaðir á starfsmönnum Þjóðminjasafnsins sem gætu einbeitt sér að því að styrkja innviði Þjóðminjasafnsins sem safnastofnunar, enda ber að semja sérstaka löggjöf um Þjóðminjasafnið sem og önnur minjasöfn í landinu. Húsavernd getur heyrt undir Þjóðminjasafnið eftirleiðis sem hingað til, hugsanlega með aðstoð byggða- og minjasafnsvarða úti um land. Hér þarf þó að sjá til þess að húsavernd sé hagað þannig að friðlýstum byggingum, og þá ekki síst kirkjum, sé hægt að breyta með tilliti til nútímaþarfa fólksins sem þær nýtir.
    Flutningsmenn telja að viðurkenndir fornleifafræðingar, með menntun og reynslu, eigi að hafa umsjón með fornleifavörslunni. Það er ærinn starfi þó svo að ekki sé verið að setja þeim að sjá um gamlar byggingar og annast þjónustu við byggðasöfn að auki eins og lagt hefur verið til. Það hefur hamlað fornleifavörslunni hérlendis allt of lengi, og þar með framgangi og eðlilegri þróun innlendrar fornleifafræði, að ekki er nægilega ýtt undir það að ráða til starfa vel menntaða fornleifafræðinga né heldur að skapa þeim eðlileg starfsskilyrði. Við erum fyrir allnokkru orðin eftirbátur nágrannaþjóða okkar í fornleifafræðilegum efnum og er því mál til komið að skapa fornleifavörslunni skilyrði sem sæmi okkur sem menningarþjóð en það er einmitt tilgangur þessa lagafrumvarps.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


Um 1. gr.


    Í núgildandi lögum frá 1969 er ekki skilgreindur neinn tilgangur með lagasetningunni og er reynt að bæta úr því hér. Hér er einnig bent á rétt almennings til að njóta fornleifanna sem slíkra en þá einnig skyldur hans að virða þær sem arf sem varðveita þurfi einnig handa komandi kynslóðum.

Um 2. gr.


    Í lögunum frá 1969 eru einungis fornleifar á fornleifaskrá friðhelgar, en hér er lagt til að allar fornleifar samkvæmt hundrað ára reglunni séu friðhelgar.

Um 3. gr.


    Leitast er við að skilgreina hvað geti heyrt til fornleifa til að auðvelda almenningi að standa vörð um þær, enda liggi viðurlög við því að hrófla við þeim (sbr. 24. gr.). Hvað vígða grafreiti varðar ber að taka mið af gildandi kirkjugarðslögum hverju sinni (nú lög nr. 21/1963).

Um 4. gr.


    Lagt er til að sérstök stofnun, Fornleifafræðistofnun, sjái um að friðlýsa fornleifar sem taldar eru hafa sérstakt menningarsögulegt gildi í samráði við viðurkennt fagfólk, sbr. 18. og 21. gr. Það gefur auga leið að landsminjaverðir úti í héruðum geta á auðveldari hátt unnið í samvinnu við hagsmunaaðila á friðlýsingarlandinu að friðlýsingum en þeir sem aðsetur hafa í höfuðborginni. Kostnað vegna friðlýsinga, ef einhver verður, skal greiða úr ríkissjóði.

Um 5. gr.


    Með orðalagi greinarinnar er veitt færi á því að friðlýsa ákveðið svæði umhverfis fornleifar, t.d. til að auðvelda varðveislu þeirra, en þó einnig með tilliti til þess að umhverfi og fornleifar geti myndað eðlilega heild.

Um 6. gr.


    Greinin er samhljóða 14. gr. núgildandi þjóðminjalaga frá 1969 með smávægilegum orðalagsbreytingum.

Um 7. gr.


    Greinin er að hluta til samhljóða 13. gr. núgildandi þjóðminjalaga með nauðsynlegum og tímabærum viðbótum um það hver skuli standa straum af kostnaði af rannsóknum ef samþykki fæst fyrir því að raskað sé við fornleifum vegna framkvæmda. Slíkar rannsóknir, sem og aðrar fornleifarannsóknir, séu undir yfirumsjón eða með samþykki Fornleifafræðistofnunar og umboðsmanna hennar úti í héraði, landsminjavarðanna.

Um 8. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 12. gr. núgildandi þjóðminjalaga nema hvað Fornleifafræðistofnun og landsminjaverðir í umboði hennar taka ákvarðanir um verndun fornleifanna.

Um 9. gr.


    Fornleifafræðistofnun og umboðsmönnum hennar, landsminjavörðum, ber að annast fornleifavörsluna og gera nauðsynlegar ráðstafanir sem henni tengjast. Hér er sérstaklega tilgreint að þeir sem beri ábyrgð á vörslu og rannsókn fornleifa séu fornleifafræðingar að mennt og eru slík skilyrði sett með verndun fornleifanna í huga.

Um 10. gr.


    Með þessari grein á að útiloka að hinn tilskipaði umsjónaraðili, Fornleifafræðistofnun, haldi uppi einokun í rannsóknum gagnvart öðrum, til að mynda bæjar- og sveitarfélögum í landinu sem væru tilbúin að reka eða standa fyrir fornleifarannsóknum eins og t.d. Vestmannaeyjabær, Reykjavíkurborg og Kópavogsbær hafa gert.
    Hér er skýrt kveðið á um að strangt eftirlit sé haft með rannsóknarleyfum til handa útlendingum. Nokkur misbrestur hefur orðið á því.
    Íslendingar eiga sjálfir að stjórna ferðinni í fornleifarannsóknum í landinu, en hlaupa ekki eftir óskum útlendinga í þeim efnum, hvað þá heldur að hleypa þeim eftirlitslaust í íslenskar fornleifar eins og því miður hefur tíðkast undanfarin ár. Því er hér lagt til að um tvö leyfisþrep sé að ræða: leyfisveiting Fornleifafræðistofnunar og viðkomandi landsminjavarðar annars vegar og Vísindaráðs hins vegar eins og áskilið er í lögum um Vísindaráð.
    Við þetta má bæta að setja þarf ströng ákvæði í reglugerð um skilaskyldu útlendinga sem hér vinna eða taka þátt í fornleifarannsóknum, þ.e. hvað varðar teikningar, myndir, dagbækur, muni og annað er rannsóknunum tengjast.

Um 11. gr.


    Með þessari grein er sett sú kvöð á Fornleifafræðistofnun og landsminjaverði í umboði hennar að sjá til þess að fornleifar séu færðar á fornleifaskrá en með því mætti tryggja betur að þær verði ekki fyrir spjöllum. Eins ber sömu aðilum að stuðla að því að gera merkar fornleifar aðgengilegar almenningi í landinu til fróðleiks og ánægju.

Um 12. gr.


    Skipulagsyfirvöld skulu tilkynna Fornleifafræðistofnun eða landsminjavörðum um endurskoðun eða breytingu á landnýtingu á skipulagsskyldum svæðum með tilliti til þess að fyrirhugaðar breytingar gætu raskað fornleifum á svæðinu. Við samningu reglugerða við þessa grein skal taka mið af skipulagsreglugerð, nr. 318/1985, og eins skipulagslögum, nr. 19/1964.
    Færa þarf inn skráðar og friðlýstar fornleifar á skipulagsuppdrætti og kort, en það ætti að auðvelda mönnum að njóta þeirra betur en ella, og jafnframt gæti slíkt einfaldað alla almenna fornleifavörslu. Í þessu sambandi má geta þess að landeigendur og ábúendur hafa í aldanna rás séð um ýmiss konar fornleifavörslu endurgjaldslaust og gera margir enn.

Um 13. gr.


    Hér er leitast við að skýra hvað teljist til forngripa. Forngripir eru auðvitað oft í eigu einstaklinga eða stofnana en forngripi, sem finnast við fornleifarannsóknir eða einir sér á víðavangi, skal varðveita í Þjóðminjasafni eða byggða- og minjasöfnum að loknum nauðsynlegum rannsóknum.

Um 14. gr.


    Fyrstu tveir málsliðirnir eru efnislega samhljóða upphafi 17. gr. núgildandi laga um forngripafundi og varðveislu þeirra. Fornleifafræðistofnun skal skera úr ágreiningi um það hvar forngripir verða endanlega varðveittir.
    Forngripir, sem ekki eru í einkaeigu, heyra að öðru leyti undir vörsluskyldu Þjóðminjasafnsins og byggða- og minjasafna og þyrftu því ákvæði um vörslu þeirra að vera í löggjöf eða reglugerð um þessi söfn.

Um 15. gr.


    Þessi grein er efnislega samhljóða 18. gr. núgildandi þjóðminjalaga.

Um 16. gr.


    Í núgildandi lögum, 1. málsl. 19. gr., segir: „Ekki má flytja úr landi neina muni eða gripi sem eru eldri en 100 ára, nema þjóðminjavörður leyfi.“ Hér er orðalagi breytt með tilliti til þess að ekki er hægt að fylgja eftir banni á útflutningi á öllum „gripum 100 ára og eldri“. Sett er bann við því að forngripir með menningarsögulegt minjagildi séu fluttir úr landi, með þeim fyrirvara að leyfi um slíkt skuli sækja til tilgreindra aðila. Skv. 13. gr. er skylt að varðveita forngripi, sem finnast á víðavangi eða við fornleifarannsóknir, í Þjóðminjasafni og öðrum minjasöfnum og þarf því ekki að tilgreina þá sérstaklega hér þó að þessi lagagrein nái einnig yfir slíka gripi.

Um 17. gr.


    Stjórn Fornleifafræðistofnunar er ætlað að hafa það hlutverk að leysa deilur sem upp kunna að koma milli Fornleifafræðistofnunar og landsminjavarða annars vegar og annarra hagsmunaaðila hins vegar, og þá ekki síst til að greiða úr ágreiningi áður en kemur til kasta dómstóla. Skv. 19. gr. ætti þjóðminjavörður sæti í umræddri stjórn. Að öðru leyti er hér um tímabær nýmæli að ræða þar sem aldrei var samin nein reglugerð hvað þetta varðar þegar núgildandi lög tóku gildi 1969.

Um II. kafla.


Um 18. gr.


    Áður hefur verið vikið að því að létta beri á skyldum og kvöðum Þjóðminjasafnsins með því að skilja fornleifavörsluna frá safninu. Með slíku fyrirkomulagi geta starfsmenn Þjóðminjasafnsins helgað sig sýningar-, varðveislu-, forvörslu- og annarri safnastarfsemi, sem núverandi starfsmenn munu eiga fullt í fangi með að sinna þar sem fyrir liggur að breyta þarf innviðum safnsins, allri sýningarstarfsemi og ýmsum ef ekki flestum öðrum þáttum safnastarfseminnar nú þegar Listasafn Íslands hefur endanlega flutt úr húsakynnum Þjóðminjasafnsins.
    Hér er lagt til að fornleifavörslunni verði komið fyrir í sérstakri Fornleifafræðistofnun sem sé skipuð fólki sem hafi sérmenntað sig í verndun, vörslu og rannsóknum fornleifa. Við það að tryggja afmarkað starfssvið slíkrar stofnunar og starfsmanna hennar yrði hægt að gera tímabært stórátak í fornleifavörslu hérlendis án þess að starfsemi Þjóðminjasafnsins þyrfti að líða fyrir slíkt eða fornleifarnar ella. Aðkallandi er að skapa fornleifavörslunni og innlendri fornleifafræði betri skilyrði en nú er.
    Þegar Fornleifafræðistofnun hefur störf þyrfti a.m.k. um fimm stöðugildi við stofnunina, þ.e. forstöðumann auk þriggja annarra fornleifafræðinga, þar af einn til að sjá um að samræma starfsemi landsminjavarða og þjónustu við þá til að byrja með, og að lokum eina stöðu fyrir skrifstofuhald og sameiginlega fjársýslu stofnunarinnar og landsminjavarða.

Um 19. gr.


    Greinin fjallar um stjórn Fornleifafræðistofnunar og skipun hennar. Menntamálaráðherra skipar stjórnina til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar formann stjórnar úr hópi stjórnarmanna.
    Þar sem stjórninni er ætlað að reyna að leysa ágreining og deilur er upp kunna að koma (sjá 14., 17. og 19. gr.) vegna ákvæða í lögum þessum er lögfræðingi, tilnefndum af lagadeild Háskóla Íslands, ætlað það hlutverk að gæta lögvarðra hagsmuna þeirra er deila við stofnunina.

Um 20. gr.


    Menntamálaráðherra skipar forstöðumann sem og aðra starfsmenn Fornleifafræðistofnunar samkvæmt tilnefningu stjórnar.

Um 21. gr.


    Landsminjaverðir skulu vera fimm, einn á hverju minjasvæði. Fornleifafræðistofnun skal í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga ákvarða hvernig landinu skuli skipt niður í umsjónarsvæði.
    Landsminjaverðir eru umboðsmenn Fornleifafræðistofnunar úti í héraði, en með slíku fyrirkomulagi er hægt að fylgja fornleifavörslunni eftir í nálægð á allt annan og eðlilegri hátt en ef hún væri einungis rekin úr höfuðborginni.
    Um innra fyrirkomulag og skyldur Fornleifafræðistofnunar og landsminjavarða skal nánar tilgreina í reglugerð (sbr. 25. gr.)

Um III. kafla.


Um 22. gr.


    Fyrri málsliður þessarar greinar er samhljóða 47. gr. núgildandi laga, nr. 52/1969, að því viðbættu að stjórn Fornleifafræðistofnunar fjallar um og kemur skaðabótakröfum áleiðis til fjármálaráðuneytis hverju sinni. Dæmi eru þess að einstaklingar hafi orðið fyrir verulegu fjártjóni vegna ákvæða í núgildandi lögum um fornleifar, þó að þeir hafi ekki látið reyna á rétt sinn fyrir dómstólum.

Um 23.–24. gr.


    Samhljóða 48. og 49. gr. núgildandi laga, nr. 52/1969.

Um 25. gr.


    Hér eru ákvæði um að semja skuli reglugerð við þessi lög, reglugerð sem endurskoðuð skuli eigi síðar en fimm árum eftir að lög þessi koma til framkvæmda.

Um 26. gr.


    Starfsemi Fornleifafræðistofnunar skal hefjast 1. janúar 1990 þegar lög þessi taka gildi.
    Á tímabilinu fram að gildistöku laga þessara gefst svigrúm til að undirbúa fjárveitingar, mannaráðningar og annað það sem í löggjöfinni felst.