Ferill 225. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 225 . mál.


Sþ.

570. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Kristínar Einarsdóttur um framhaldsundirbúning að nýju álveri.

    Vinna að undirbúningi nýs álvers við Straumsvík er af eðlilegum ástæðum bundin gagnkvæmum trúnaði milli íslenskra stjórnvalda og fulltrúa Atlantal-hópsins. Enn fremur er rétt að taka fram að með tilliti til hagsmunagæslu af Íslands hálfu getur verið nauðsynlegt að trúnaður ríki um vinnugögn, útreikninga og forsendur sem liggja til grundvallar varðandi einstaka þætti samningsgerðar og undirbúnings. Vitað er að erlendir samkeppnisaðilar Íslands vildu gjarnan komast yfir sem nákvæmastar upplýsingar um viðræður Atlantal-hópsins við íslensk stjórnvöld. Svör við einstökum liðum fyrirspurnarinnar hljóta óhjákvæmilega að taka mið af þessu.

1. Hvernig er af Íslands hálfu lagt mat á forsendur Atlantal-hópsins vegna


hagkvæmnikönnunar í einstökum atriðum og í heild?



    Hafa ber í huga að Íslendingar verða ekki eignaraðilar að því álveri sem nú er í athugun og standa ekki að þeirri hagkvæmniathugun sem nú er unnið að. Því er ekki um það að ræða að íslenskir aðilar hafi bein afskipti af þeim forsendum sem Atlantal-hópurinn hefur gefið Bechtel Inc. og undirverktökum þeirra (VST) fyrir verkinu, en þeir hafa lagt til ýmsar upplýsingar og fylgjast með þessari athugun. Niðurstaða hagkvæmniathugunar liggur ekki fyrir og því hafa íslensk stjórnvöld ekki enn lagt mat á forsendur Atlantal-hópsins. Á vegum íslenskra stjórnvalda fer hins vegar fram athugun á þjóðhagslegum áhrifum nýs álvers.
    Um frekara svar vísast til minnisblaðs sem fylgdi svari til fyrirspyrjanda á þskj. 120 fyrr á þessu þingi.

2. Hver er áheyrnarfulltrúi og varamaður af hálfu iðnaðarráðherra


í verkefnisstjórn Atlantal-hópsins, sbr. 4. tölul. á þskj. 120?


Hvaða undirhópar hafa starfað á vegum verkefnisstjórnarinnar


og hverjir eru fulltrúar íslenskra stjórnvalda í þeim?


Að hvaða samningum er unnið til undirbúnings nýs álvers


á vegum verkefnisstjórnarinnar?



    Áheyrnarfulltrúi í verkefnisstjórninni er Garðar Ingvarsson, framkvæmdastjóri markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar, og til vara Halldór J. Kristjánsson, yfirlögfræðingur iðnaðarráðuneytisins.
    Undirhópar hafa starfað á vegum verkefnisstjórnar Atlantal um tæknimál, lögfræði og skattamál, fjármögnunarmál og orkumál. Ekki hefur verið um beina þátttöku af Íslands hálfu að ræða í starfi þessara undirhópa en tengiliðir eru eftirfarandi:
    Tæknimál: Andrés Svanbjörnsson yfirverkfræðingur. Laga- og skattamál: Halldór J. Kristjánsson yfirlögfræðingur. Fjármögnunarmál: Garðar Ingvarsson framkvæmdastjóri. Orkumál: Jóhann Már Maríusson aðstoðarforstjóri.
    Varðandi samninga sem unnið er að vísast til 7. liðar í þessu svari.

3. Hvaða „nauðsynlegar upplýsingar“ hefur íslenska ríkið látið


Atlantal-hópnum í té á grundvelli samnings aðila frá 4. júlí 1988,


sbr. 5. tölul. á þskj. 120?



    Þær upplýsingar, sem átt er við í tilvitnuðu svari, varða starfsskilyrði fyrirtækisins hér á landi, fyrst og fremst forsendur orkuverðs og skattlagningar sem er vikið nánar að síðar í þessu svari. Þá hafa verið veittar upplýsingar um launakostnað, þjónustugjöld, kostnað við lóð, vatnsveitu, stækkun hafnar og ýmsa þjónustu sem Hafnarfjarðarbær lætur í té.

4. Hvert er það orkuverð í íslenskum krónum og bandarískum millum á


kílóvattsstund sem Atlantal-hópurinn notar til að reikna inn í


hagkvæmniathugun vegna nýs álvers, upphafsáfanga og síðari áfanga?


Við hvaða forsendur er það verð miðað að því er varðar


"tímasetningu og stærð áfanga, kaupskyldu, afhendingarspennu og aðra


söluskilmála, verðbreytingarákvæði, tímalengd samninga,


endurskoðunarákvæði og fleiri atriði“, sbr. 8. tölul. á þskj. 120?



    Formlegir samningar um orkuverð eru ekki hafnir. Eftir könnunarviðræður við starfshóp um stækkun álvers/ráðgjafarnefnd um áliðju mun Atlantal-hópurinn hafa notað mismunandi verð á bilinu 16–22 mill á kWst (0,82–1,13 ísl. kr.) sem grunnverð miðað við tiltekið álverð. Niðurstaða hagkvæmniathugunarinnar liggur enn ekki fyrir og er því ekki vitað nánar um verðforsendur Atlantal-hópsins á þessu stigi.
    Fyrirhugað er að byggja álver með 185.000 tonna ársframleiðslugetu í tveimur jafnstórum áföngum er hefji framleiðslu á árunum 1992 og 1996. Afhending orku mundi því hefjast á síðari hluta árs 1992 og ná 1300 gígavattstundum í árslok sem héldist óbreytt þar til annar áfangi álversins yrði fullbúinn en þá kæmu til afhendingar 1300 gígavattstundir til viðbótar. Gert er ráð fyrir að afhendingarspenna verði 220 kV. Kaupskylduákvæði verði áþekk og í núverandi stóriðjusamningum og verðbreytingarákvæði tengist væntanlega álverði. Gert er ráð fyrir 25 ára samningstíma. Um þessi atriði og önnur í fyrirspurninni hefur ekki verið samið. Ekki er vitað hve nákvæmar forsendur eru notaðar af hálfu Atlantal-hópsins í athuguninni.
    Að því er varðar forsendur um orkuverð að öðru leyti er varhugavert, með tilliti til íslenskra hagsmuna, að gefa opinberlega nánari upplýsingar um orkuverðið á þessu stigi.

5. Hvers konar skattkerfi og hvaða skattgreiðslum og öðrum gjöldum til


íslenska ríkisins og annarra íslenskra aðila er gert ráð fyrir


í forsendum fyrir yfirstandandi hagkvæmnikönnun?


Hverjir vinna að undirbúningi samninga um skattamál á vegum iðnaðar-


og fjármálaráðuneytis í tengslum við hagkvæmnikönnunina?



    Umræður um fyrirkomulag skattamála hugsanlegs nýs álvers eru á frumstigi. Atlantal-hópurinn hefur óskað eftir að fyrirtækið verði rekið sem bræðslusamlag þar sem eignaraðilar leggja til hráefni og fá afhentan málm í hlutfalli við eignaraðild. Samkvæmt því yrði fyrirtækið rekið fyrir þóknun án þess að verða eigandi hráefna eða framleiðsluvörunnar. Af þessu fyrirkomulagi leiðir að fyrirtækin hafa óskað eftir að nýja álverið greiði framleiðslugjald í stað tiltekinna skatta hér á landi.
    Meginsjónarmið íslenskra stjórnvalda er að fyrirtækið greiði skatta og gjöld samkvæmt íslenskum lögum. Vinna beinist nú að því að kanna hvernig best sé að samræma sjónarmið varðandi þetta.
    Ráðgjafarnefnd um áliðju hefur umsjón með þessum undirbúningi en nýtur aðstoðar Stefáns Svavarssonar, löggilts endurskoðanda, auk starfsmanna nefndarinnar, embættismanna úr iðnaðarráðuneyti og fjármálaráðuneyti og fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar.

6. Hverjar eru niðurstöður viðræðna heilbrigðisráðuneytis og Hollustuverndar


ríkisins um mengunarvarnarkröfur fyrir nýtt álver,


sbr. 7. tölul. á þskj. 120?



    Kröfur um mengunarvarnir í álverksmiðjum eru mótaðar með tilliti til aðstæðna á hverjum stað. Athugun þessa máls mun fara fram á grundvelli gildandi reglna um starfsleyfi samkvæmt reglugerð nr. 390/1985 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Þar segir m.a.:
    „Umsóknir um starfsleyfi skulu sendar viðkomandi heilbrigðisnefnd sem sendir þær til Hollustuverndar ríkisins ásamt umsögn. Umsóknum skal fylgja nákvæm lýsing á starfseminni, upplýsingar um mengunarhættu og fyrirhugaðar mengunarvarnir, lýsing á og uppdrættir af staðsetningu, staðháttum, byggingum og næsta umhverfi, svo og önnur þau gögn sem máli kunna að skipta.“
    Þar sem ákvörðun hefur ekki verið tekin um nýtt álver liggur heldur ekki fyrir umsókn um starfsleyfi. Niðurstöður um mengunarvarnarkröfur liggja því ekki fyrir að svo stöddu, en gert er ráð fyrir að hagkvæmniathugunin miðist við ströngustu kröfur í Evrópu og N-Ameríku.
    Ráðgjafarnefnd um áliðju hafði frumkvæði að því að Atlantal-hópurinn sendi hingað í janúar síðastliðnum sænskan sérfræðing í málefnum er varða mengunarvarnir álvera. Sérfræðingurinn gerði grein fyrir mengunarvörnum í álverum í Svíþjóð og Noregi, sem eru til fyrirmyndar, og fjallaði um væntanlegar mengunarvarnir vegna Atlantal. Rætt var við fulltrúa helstu aðila sem málið varðar, svo sem heilbrigðisráðuneyti, Hollustuvernd ríkisins, Náttúruverndarráð, Vinnueftirlit ríkisins, heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar, flúornefnd og Ísal.

7. Er samhliða hagkvæmniathuguninni unnið að undirbúningi einhverra


samninga og annarra gagna sem tengjast mundu lokasamningum


um byggingu nýs álvers?


Sé svo er óskað upplýsinga hvaða samningar og samningsígildi það eru.



    Samhliða hagkvæmniathuguninni er unnið að undirbúningi formlegra samningaviðræðna sem hafnar yrðu ef niðurstöður reynast jákvæðar. Á þessu stigi er verið að ræða tæknilega form og meginefni slíkra samninga. Ef til
kemur er gert ráð fyrir að sett yrðu heimildarlög um nýtt álver og á grundvelli þeirra laga yrði gerður aðalsamningur um málefni álversins með líkum hætti og gert var vegna járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Þá yrði gerður raforkusamningur milli Landsvirkjunar og nýja álversins en slíkur samningur er háður staðfestingu iðnaðarráðherra skv. 13. gr. laga um Landsvirkjun. Loks er unnið að undirbúningi samninga varðandi aðstöðu fyrir nýja álverið, þar með talið um lóðar- og hafnarmál og ýmis atriði sem semja þarf um við Hafnarfjarðarbæ.

8. Hversu mörg viðbótarársverk yrðu til á vegum Landsvirkjunar við rekstur


tilbúinna virkjana sem reistar yrðu og framleiddu allt að


2600 gígavattstundum fyrir nýtt álver?



    Rekstur nýrra raforkuvera og orkuflutningsvirkja sem framleitt geta 2600 gígavattstundir krefst 40–50 nýrra starfsmanna hjá Landsvirkjun en óbein áhrif slíkra virkjana í atvinnu eru vitaskuld meiri.

9. Hvenær er gert ráð fyrir að hagkvæmniathuguninni ljúki og hvaða málsmeðferð


er fyrirhuguð í framhaldi af því á vegum iðnaðarráðherra?


Óskað er eftir að birt verði sem fylgiskjal með svari við fyrirspurninni


minnisblað um rafmagnssamning milli Atlantal og Landsvirkjunar


frá 24. febrúar 1988.



    Hagkvæmnikönnuninni lýkur væntanlega á næstu vikum og verður niðurstaðan til athugunar hjá aðilum næstu vikur. Leiði sú athugun til þess að aðilar haldi viðræðum áfram verður á næstu mánuðum reynt að leiða í ljós hvort grundvöllur er til samninga og málið síðan lagt fyrir ríkisstjórn og Alþingi til umfjöllunar og endanlegrar ákvörðunar.
    Ekki þykir fært að verða við ósk fyrirspyrjanda um að fá minnisblað um rafmagnssamning milli Atlantal og Landsvirkjunar frá 24. febrúar 1988 birt sem þingskjal enda um trúnaðarskjal að ræða sem varðar viðskiptahagsmuni Íslendinga. Þegar niðurstöður liggja fyrir í málinu mun Alþingi verða gerð grein fyrir þeim, þar á meðal um raforkuverð.