Ferill 330. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 330 . mál.


Sþ.

599. Tillaga til þingsályktunar



um að örva viðskipti á hlutabréfamarkaði.

Flm.: Friðrik Sophusson, Matthías Bjarnason, Geir H. Haarde


Birgir Ísl. Gunnarsson, Kristinn Pétursson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera tillögur um ráðstafanir til að örva viðskipti á hlutabréfamarkaði hér á landi. Tillögurnar verði tilbúnar fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Greinargerð.


    Á síðustu árum hefur náðst talsverður árangur í peningalegum sparnaði landsmanna. Ekki þarf að fara mörgum orðum um gildi hans sem undirstöðu hagvaxtar, bættra lífskjara og efnahagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar.
    Þótt verðtrygging sparifjár og samkeppni á fjármagnsmarkaðnum hafi markað tímamót er enn mikið óunnið í þessum efnum. Fleira getur eflt sparnað en verðtrygging og jákvæðir raunvextir. Hér á landi vantar t.d. enn þá einn mikilvægasta hluta eðlilegs fjármagnsmarkaðar, en það er hlutabréfamarkaður sem atvinnufyrirtækin geta leitað til um aukið eigið fé.
    Telja má líklegt að vandi atvinnulífsins væri minni nú en raun ber vitni ef til hefði verið virkur hlutabréfamarkaður sem fyrirtækin hefðu getað leitað til um nýtt eigið fé í stað þess að auka skuldsetningu sína með frekari lántökum.
    Háir raunvextir samhliða mikilli skuldsetningu hafa í för með sér að atvinnulífið á erfitt með að mæta áföllum. Við þessar aðstæður verður rekstrarvandi fyrirtækja ekki leystur með greiðslufresti eða nýjum lántökum. Þörf er á auknu framtaksfé.
    Hæfilegt hlutfall eigin fjár er ávallt nauðsynlegt hverju fyrirtæki þar sem það skapar fyrirtækjum nauðsynlegan sveigjanleika og ver atvinnulífið fyrir ytri sveiflum í árferði. Hátt hlutfall eigin fjár er ekki síst nauðsynlegt á Íslandi þar sem árferðið hefur oft haft afdrifarík áhrif á starfsemi fyrirtækja eins og dæmin sanna.
    Mikilvægt er að örva fyrirtækin til að bjóða út hlutabréf til almennings. Slíkt má gera með skattalegum aðgerðum. Einnig þarf að leggja traustan grunn að hlutabréfaviðskiptum í landinu með þátttöku hinna ýmsu fjármálastofnana í hlutabréfaviðskiptum. Er þar m.a. átt við innlánsstofnanir, lífeyrissjóði, fjárfestingarlánasjóði, tryggingafélög og verðbréfasjóði. Samkvæmt reynslu í öðrum löndum verður hlutabréfamarkaðurinn stöðugri og auðveldara er að selja bréfin á skömmum tíma þegar þeim fyrirtækjum fjölgar sem bjóða út hlutabréf og fleiri fjármálastofnanir annast viðskipti með þau.
    Til þess að unnt sé að beina nýju áhættufjármagni inn í íslenskt atvinnulíf verður að leiðrétta það skattalega misræmi sem er í gildandi skattalögum milli hlutafjár annars vegar og annarra peningalegra eigna hins vegar. Slík breyting hefði í för með sér að hluti af sparnaði þjóðarinnar leitaði beint inn í atvinnulífið sem áhættufjármagn í stað þess að vera nær eingöngu í formi lánsfjár eins og nú á sér stað. Með tilkomu hlutabréfamarkaðar verður atvinnulífið ekki í sama mæli og áður háð dýru lánsfé. Minni eftirspurn eftir lánsfé mun draga úr þenslu á lánsfjármarkaði og stuðla að lækkandi raunvöxtum er fram í sækir. Á hlutabréfamarkaði munu sparifjáreigendur fá fjölbreytta möguleika til ávöxtunar. Á sama tíma verður styrkari stoðum rennt undir atvinnulífið og lífskjör bætt.
    Tilkoma hlutabréfamarkaðar verður jafnframt mikilsvert aðhald að atvinnurekendum og mælikvarði á hæfni og árangur stjórnenda. Aukin hlutabréfaeign almennings leiðir auk þess til aukins skilnings á atvinnurekstri og dregur því úr spennu á vinnumarkaði. Með hlutabréfaeign munu starfsmenn t.d. einnig eiga þess kost að fá arð af vinnu sinni að hluta í formi hagnaðar fyrirtækjanna auk launa. Því er mjög mikilvægt að stjórnvöld skapi það umhverfi sem þarf til að hlutabréfamarkaður nái að þróast.
    Nýlega létu Iðnþróunarsjóður og Seðlabanki Íslands gera úttekt á málefnum hlutabréfamarkaðar. Fengu þeir erlenda fjármálastofnun, Enskilda Securities Ltd. í London, til verksins, en þetta fyrirtæki hefur m.a. yfir að ráða góðri þekkingu á málefnum hlutabréfamarkaða annars staðar á Norðurlöndum. Skýrsla þeirra um þróun hlutabréfamarkaðar á Íslandi var lögð fram í maímánuði síðastliðnum og fékk nokkra umræðu. Hins vegar ber lítt á því að stjórnvöld sýni málefnum hlutabréfamarkaðar áhuga.
    Árið 1984 voru samþykkt lög sem áttu að greiða götuna fyrir hlutabréfakaupum almennings. Þau fólu í sér þrenns konar möguleika á frádrætti frá skattskyldum tekjum. Í fyrsta lagi með innborgunum á stofnfjárreikninga fyrir þá sem síðar hugðust setja á fót eigin atvinnurekstur, í öðru lagi með
því að kaup á hlutabréfum í félögum sem fullnægja ákveðnum skilyrðum urðu frádráttarbær til skatts að ákveðnu marki, í þriðja lagi með því að kaup á hlutabréfum fjárfestingarfélaga sem sérstaklega eru mynduð til fjárfestingar í áhættufé atvinnufyrirtækja urðu frádráttarbær á sama hátt. Árangurinn af þessari viðleitni hefur þó látið á sér standa og er haldið fram að lögin gangi of skammt. Einnig hefur reynst óhagkvæmara fyrir fyrirtæki að afla fjár með sölu hlutabréfa en taka lán eða selja skuldabréf.
    Enn frekari breytingar á skattalögum til að örva þátttöku almennings í atvinnurekstri eru afar brýnar, ekki síst í ljósi þess sem hefur verið að gerast í nálægum löndum. Frakkar, Bretar, Belgar, Ítalir og fleiri þjóðir hafa breytt skattareglum og ýtt duglega undir hlutabréfakaup almennings í atvinnurekstri. Sterkari staða fyrirtækja vegna aukins eigin fjár er ein af forsendum þess að atvinnulífið spjari sig í ört vaxandi samkeppni. Forsenda góðra lífskjara til frambúðar er m.a. að ryðja úr vegi tilbúnum hindrunum sem koma í veg fyrir að ráðist sé í annars arðvænlega fjárfestingu í atvinnulífinu. Í eftirfarandi upptalningu er bent á nokkur mikilvæg atriði varðandi þetta efni:
1.     Fjárhæðir þær sem nú eru frádráttarbærar frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri verði auknar verulega.
2.     Söluhagnaður af hlutabréfum verði skattfrjáls í þrepum eftir tiltekinn lágmarkseignarhaldstíma, t.d. þrjú ár.
3.     Skattleysismörk vegna eignarskatts verði hækkuð og unnið að því að allar eignir verði meðhöndlaðar eins gagnvart eignarskatti.
4.     Fyrirtæki verði hvött með skattalegum aðgerðum til að bjóða út hlutabréf til almennings.
5.     Arður, allt að 15% af heildar eigin fé fyrirtækis í árslok, verði skattfrjáls hjá mótttakanda en frádráttarbær án takmörkunar hjá greiðanda.
6.     Reglugerðir lífeyrissjóða verði endurskoðaðar þannig að lífeyrissjóðum verði heimilt að kaupa hlutabréf eftir ákveðnum reglum.
8.     Til að fyrirtæki skrái hlutabréf sín frekar en nú er gert á Verðbréfaþingi Íslands þarf að breyta 74. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, en þar segir að opinberlega skráð hlutabréf skuli metin til eignarskatts á síðasta skráða gengi í árslok. Til greina kemur að hafa skattafrádráttarreglur laga nr. 9/1984 rýmri fyrir fyrirtæki sem eru skráð á Verðbréfaþingi Íslands.
9.     Á þessu ári verði málefni hlutabréfamarkaðar tekin til víðtækrar athugunar í því skyni að örva viðskipti með hlutabréf í landinu.



Fylgiskjal.


    Repró í Gutenberg.