Ferill 318. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 318 . mál.


Sþ.

742. Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Hreggviðs Jónssonar um meðferð Olís-málsins í Landsbanka Íslands.

     Spurt er hvort viðskiptaráðherra telji að meðferð bankastjóra Landsbanka Íslands á Olís-málinu svokallaða sé í samræmi við lög um bankastarfsemi eða til þess fallin að auka trú manna á þjóðbankanum.
     Svar: Ekki verður séð að bankastjórar Landsbankans hafi farið út fyrir verksvið sitt eða valdsvið í viðskiptum sínum við Olís. Þeir eiga að gæta hagsmuna bankans gagnvart viðskiptavinum og að því markmiði hafa aðgerðir þeirra í Olís-málinu beinst. Að sjálfsögðu geta verið skiptar skoðanir um einstök atriði, en hafa ber í huga að erfitt er fyrir utanaðkomandi að dæma um viðskipti aðila sem um langt skeið munu hafa gengið heldur erfiðlega.

     Spurt er hvort bankaeftirlitið hafi gert athugasemdir við útlán Landsbanka Íslands til fleiri fyrirtækja en Olís hf. Ef svo sé, hve mörg þau séu og hve háar fjárhæðir þau skuldi hvert fyrir sig.
     Svar: Samkvæmt upplýsingum bankaeftirlits Seðlabanka Íslands hefur það gert athugasemdir við útlán til viðskiptaaðila Landsbanka Íslands. Athugasemdirnar eru af ýmsum toga spunnar og sumar kunna fremur að flokkast sem ábendingar en athugasemdir. Á árinu 1988 var bankastjórn Landsbankans afhent skýrsla bankaeftirlitsins um athugun á nokkrum þáttum í rekstri og efnahag Landsbanka Íslands. Drög að sambærilegri skýrslu voru lögð fyrir og rædd við bankastjórn Landsbankans í febrúar 1989. Í umræddum skýrslum er að finna niðurstöður bankaeftirlitsins, þar með taldar athugasemdir og ábendingar er varða útlán til þeirra lánþega bankans sem komu til skoðunar. Ekki er hægt að greina opinberlega frá efni skýrslunnar í einstökum atriðum samkvæmt eðli málsins, enda gildir um það þagnarskylda, sbr. hér á eftir.

     Spurt er hve mörg fyrirtæki skuldi Lansbanka Íslands meira en 50 milljónir króna og hve háar fjárhæðir skuldi þau tíu fyrirtæki, sem skulda bankanum mest, hvert fyrir sig.
     Svar: Í 25. gr. viðskiptabankalaganna, nr. 86/1985, segir m.a. „að bankaráðsmenn, bankastjórar og aðrir starfsmenn viðskiptabanka séu bundnir þagnarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptamanna bankans og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli málsins nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt


    
“ Með tilvísun til þessa ákvæðis telur bankastjórn Landsbanka Íslands sér óheimilt að veita umbeðnar upplýsingar, þar eð þær mundu leiða til getsaka sem lagagreininni hafi m.a. verið ætlað að vernda viðskiptamenn bankans fyrir.