Ferill 397. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 397 . mál.


Sþ.

744. Tillaga til þingsályktunar



um varnar- og öryggismál.

Flm.: Guðmundur H. Garðarsson, Halldór Blöndal, Birgir Ísl. Gunnarsson,


Ólafur G. Einarsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að stofnun sérstaks varnar- og öryggismálaráðuneytis er lúti sérstökum ráðherra.

Greinargerð.


    Á undangengnum árum hafa oft komið upp hugmyndir um að nauðsyn bæri til að sett yrði á laggirnar sérstakt ráðuneyti sem svo til eingöngu fjallaði um varnar- og öryggismál Íslands. Flestum er ljóst að varnar- og öryggismál eru veigamikill þáttur í vernd nútíma lýðræðis og þingræðis. Nægir í því sambandi að minnast á að 4. apríl 1989 voru liðin 40 ár frá stofnun Atlantshafsbandalagsins sem hefur það að meginmarkmiði að tryggja frið og öryggi í þeim hluta heims sem bandalagið nær til. Í þeim efnum hefur vel til tekist. Fagna Íslendingar sem aðrir þeim mikilvæga árangri. Á því 40 ára tímabili, sem Ísland hefur verið aðili að Atlantshafsbandalaginu, hefur heimurinn tekið miklum breytingum. Á það ekki hvað síst við á sviði vígbúnaðarmála. Öll viðleitni ríkja Atlantshafsbandalagsins beinist að því að tryggja frið og öryggi í heiminum. En til þess að það mætti takast hafa ríki bandalagsins orðið að vera vel á varðbergi og hafa til reiðu þann varnarútbúnað sem dyggði til að viðhalda því jafnvægi á Atlantshafssvæðinu er héldi aftur af hugsanlegum árásaraðilum. Nægir í því sambandi að minna á að veik staða ýmissa svokallaðra jaðarríkja við landamæri Sovétríkjanna hefur leitt til undirokunar þeirra eða óæskilegra hernaðarátaka. Nýjasta dæmi þessa eru atburðirnir í Afganistan og hryggileg örlög milljóna manna í hernaðarátökum milli frelsisunnandi Afgana annars vegar og innrásarhers Sovétríkjanna hins vegar.
    Þá hefur aukin framleiðsla alls konar eldflauga útbúnum kjarnaoddum varpað skugga sínum yfir heiminn á liðnum áratugum. Þrátt fyrir það hefur tekist að
tryggja og viðhalda friði á vesturhveli jarðar, þ.e. í Evrópu og Norður-Ameríku. Til þess að það takist áfram þarf að styrkja enn frekar bandalag þeirra þjóða sem mynda Atlantshafsbandalagið, m.a. með auknum umsvifum á sviði stjórn-, efnahags-, menningar- og vísindamála, samfara auknum almennum samskiptum þegna þessara ríkja.
    En eftir sem áður verður það meginskylda Atlantshafsbandalagsins að viðhalda því jafnvægi í vopnabúnaði sem tryggir að ofbeldisöfl brjóti ekki niður lýðræðislegt þjóðskipulag vestrænna þjóða í krafti ógnarvopna eða með ólýðræðislegum aðferðum innan viðkomandi ríkja. Sagan sýnir að ef ekki er verið á varðbergi og staðið fast gegn þessum öflum hefur frelsi og lýðræði oftlega verið teflt í mikla hættu og í of mörgum tilfellum verið fótum troðin í skjóli hervalds og vopnabúnaðar. Þá hefur ýmsum þjóðum verið meinað að taka upp lýðræðislega stjórnarhætti, svo sem átti sér stað í Ungverjalandi árið 1956 og Tékkóslóvakíu 1968. Þá eru atburðirnir í Póllandi síðustu árin í fersku minni. Pólsku þjóðinni er haldið niðri í skjóli hervalds og eins flokks, kommúnistaflokks Póllands.
    Þótt friðvænlega horfi í heiminum þessa stundina og tekist hafi samningar um ákveðna afvopnun og dregið hafi úr spennu milli helstu valdaríkja fer því illu heilli víðs fjarri að grundvallarbreyting hafi orðið í lífsskoðunum stríðandi aðila. Enn sem fyrr er ríkjandi djúpstæður hugmyndafræðilegur ágreiningur um æskilega skipan mála. Lítið þarf út af að bera í kommúnistaríkjum Austur-Evrópu til þess að valdhafarnir grípi ekki til vopna til að bæla niður frelsisþrá fólksins. Þrátt fyrir nýafstaðnar „kosningar“ í Sovétríkjunum er það enn tryggt að slíkar kosningar geti í engu breytt völdum kommúnista í Æðstaráði Sovétríkjanna er stjórnar og ræður öllu í þessari fjölmennu ríkjasamsteypu sem telur nú um 280 milljónir manna. Kommúnistaflokkur Sovétríkjanna, sem mun nú telja um 5 milljónir manna, er eini formlegi viðurkenndi flokkur landsins. Félagar flokksins fara með öll meiri háttar völd. Í þessu felast ekki lýðræðislegir stjórnarhættir. Þetta er ósættanlegt stjórnarfar gagnvart lýðræðislegum vestrænum stjórnarháttum.
    Allir virða viðleitni Mikhail Gorbatsjov og nánustu stuðningsmanna hans til að opna sovéskt þjóðfélag og koma þar á frjálsari stjórnarháttum. Vissulega væri það fagnaðarefni ef unnt yrði að leysa fólkið úr fjötrum flokkseinræðis og valdaklíku og koma á frjálsu mannúðlegra þjóðfélagi gagnvart stöðu einstaklingsins. En í lífi fólks duga ekki orðin ein. Fólkið verður að upplifa frelsið í reynd. Það verður að fá áþreifanlega sönnun fyrir betra lífi, m.a. í afkomu og lífskjörum, og það verður að öðlast frelsi til að umgangast þegna annarra ríkja.
    Fólkið sjálft, sovéskir borgarar, verður að fá fullt ferðafrelsi á sambærilegan hátt og þegnar vestrænna ríkja.
    Að framan hefur verið drepið á nokkur atriði sem sýna að því miður skortir enn réttar forsendur fyrir því að unnt sé fyrir vestrænar þjóðir að leggja varnar- og öryggismál á hilluna í þeirri sælu trú að þær umhverfisbreytingar hafi orðið í heiminum sem geri það kleift. Ákveðinn vilji núverandi valdamanna Sovétríkjanna gefur góðar vonir um að unnt verði að draga úr vígbúnaði á næstu árum. Það ber vissulega að taka mið af því og reyna með gagnkvæmum samningum aðila að eyða kjarnorkuvopnum, banna framleiðslu sýklaefna og draga úr alhliða vopnabúnaði.
    Þessi þróun kallar á enn meiri þörf fyrir að smáþjóð eins og Ísland sé vel á verði og fylgist vel með gangi þessara mála. Á það bæði við um innri uppbyggingu varnar- og öryggismála Atlantshafsbandalagsins sem og það sem gerist á samningssviði þessara mála gagnvart Varsjárbandalaginu.
    Þá hafa atburðir síðustu daga á Alþingi Íslendinga, þar sem fram hefur komið að forsætisráðherra, utanríkisráðherra og jafnvel ríkisstjórnin í heild virðast greinilega ekki hafa haft tök á að fylgjast með þessum mikilvægu málum, sannað þörf þess að sérstakur varnar- og öryggismálaráðherra, með tilheyrandi ráðuneyti og starfsliði, fjalli um þessi mál. Varnar- og öryggismál Íslands eru allt of mikilvæg og viðkvæm mál fyrir Íslendinga og bandamenn þeirra til þess að þau séu einhver hornreka tækifærissinnaðra stjórnmálamanna.
    Íslendingar krefjast þess að á þessum málum sé haldið af festu og öryggi. Það varðar frelsi, frið og öryggi allra ríkja Atlantshafsbandalagsins.