Ferill 410. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 410 . mál.


Nd.

770. Frumvarp til laga



um stofnun hlutafélags um ríkisprentsmiðjuna Gutenberg.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er heiti: Prentsmiðjan Gutenberg hf.
    Í því skyni er ríkisstjórninni heimilt:
a.     að leggja ríkisprentsmiðjuna Gutenberg, þ.e prentsmiðjuna sjálfa ásamt öllu fylgifé hennar, til hins nýja hlutafélags,
b.     að láta fara fram mat á eignum ríkisprentsmiðjunnar til viðmiðunar við ákvörðun um upphæð hlutafjár hins nýja hlutafélags. Við stofnun eru öll hlutabréf í hlutafélaginu eign ríkissjóðs.

2. gr.

    Hlutverk félagsins skal vera að vinna prentverk fyrir Alþingi, Stjórnarráð og ríkisstofnanir. Félagið annast einnig almennt prentverk, svo og skylda starfsemi samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum félagsins.

3. gr.

    Fastráðnir starfsmenn ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg skulu hafa rétt til að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir gegndu áður. Ákvæði 14. gr. laga nr. 28/1954, um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, á því ekki við um þá starfsmenn.

4. gr.

    Verði hlutabréf ríkissjóðs í Gutenberg hf. seld öll eða að hluta skal leita samþykkis Alþingis fyrir þeirri sölu.

5. gr.

    Iðnaðarráðherra fer með eignarhluta ríkisins í félaginu.

6. gr.

    Ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga um hlutafélög, nr. 32/1978, gildir ekki um tölu stofnenda í hlutafélaginu og 1. mgr. 17. gr. sömu laga gildir ekki um tölu hluthafa.
    Að öðru leyti gilda ákvæði hlutafélagalaga um hið nýja félag og greiðir það opinber gjöld með sama hætti og almennt gildir um hlutafélög hér á landi.
    Stofnfund hins nýja hlutafélags skal halda eigi síðar en þremur mánuðum eftir gildistöku laganna og skal leggja fram drög að stofnsamningi og samþykktum fyrir félagið á stofnfundinum.

7. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Hlutafélag skv. 1. gr. yfirtekur ríkisprentsmiðjuna Gutenberg 1. janúar 1990.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Um málefni ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg hafa ekki verið sett sérstök lög. Prentsmiðjan hefur verið í eigu ríkisins frá árinu 1930. Prentsmiðjan var stofnuð árið 1904 af um 20 einstaklingum og tók til starfa í byrjun janúar 1905.
    Meginverkefni fyrirtækisins hafa ætíð verið prentverk fyrir Alþingi, Stjórnarráð, ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki. Árið 1987 voru um 95% af öllum verkum í prentsmiðjunni unnin fyrir opinbera aðila.
    Á árunum 1971–1975 var að tilstuðlan iðnaðarráðuneytisins farið út í endurskipulagningu á prentsmiðjunni. Í tengslum við þessar breytingar flutti prentsmiðjan í nýtt og stærra húsnæði við Síðumúla í Reykjavík. Vélakostur var aukinn og starfsemin löguð að þeirri nýju prenttækni sem ruddi sér þá til rúms. Prentsmiðjan hefur síðan aukið vélakost sinn eftir því sem tækninni hefur fleygt fram.
    Ríkið hefur ekki lagt fram fjármagn til þessara fjárfestinga nema þegar húseignin í Síðumúla var keypt.
    Fjöldi starfsmanna hefur verið nokkuð stöðugur hin síðari ár. Nú starfa um 70 manns í prentsmiðjunni, þar af eru fjórir starfsmenn í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
    Rekstur fyrirtækisins hefur gengið nokkuð vel. Taka verður tillit til að hér er fyrst og fremst um þjónustufyrirtæki að ræða sem hefur ákveðnum skyldum að gegna við hið opinbera og miðað er við að reksturinn standi undir sér. Eigið fé verksmiðjunnar hefur vaxið jafnt og þétt og var í árslok 1987 rúmar 80 m.kr. Áhvílandi skuldir eru tiltölulega litlar.
    Helstu upplýsingar úr rekstrar- og efnahagsreikningi eru þessar (upphæðir í þús. kr.):


          1987    1986
    Rekstrartekjur ..................................         114.942    97.718
    Rekstrargjöld ...................................         114.711    97.171
    Hagnaður ........................................         231    547

     Stærstu liðir í rekstri:
    Launakostnaður ..................................         55.816
    Pappír og filmur ................................         27.049
    Afskriftir ......................................         10.319
    Verðbreytingafærsla .............................         632
    Vaxtagjöld og verðbætur .........................         5.444
    Ýmis annar kostnaður ............................         15.451

Efnahagsreikningur 31. desember 1987.



Veltufjármunir         44.745     Skammtímaskuldir         20.469
Fastafjármunir         70.070     Langtímaskuldir         14.159
             Eigið fé         80.187
————————         —————     ————————         ———–
Eignir alls         114.815      Skuldir alls         114.815

    Um ríkisprentsmiðjuna Gutenberg hafa ekki gilt sérstök lög. Fyrirtækið hefur frá stofnun iðnaðarráðuneytisins árið 1969 heyrt undir það ráðuneyti og hefur iðnaðarráðherra skipað forstjóra fyrirtækisins. Iðnaðarráðherra skipaði hinn 1. september 1984 þriggja manna stjórn yfir fyrirtækinu til tveggja ára í senn.
    Frumvarp þetta miðar að því að gera ríkisprentsmiðjuna Gutenberg að hlutafélagi. Öll hlutabréfin verða í eigu ríkissjóðs. Þegar og ef til sölu hlutabréfa í fyrirtækinu kemur verður málið lagt fyrir á ný.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkisstjórnin láti fara fram mat á eignum prentsmiðjunnar til viðmiðunar við ákvörðun um upphæð hlutafjár hins nýja hlutafélags. Þar verður fyrst og fremst um eignamat að ræða en aðrir þættir koma einnig inn í þetta mat.
    Við þá formbreytingu, sem verður á rekstri verksmiðjunnar er frumvarp þetta verður að lögum, breytast eftirtaldir þættir:
1.     Ábyrgð ríkissjóðs á rekstrinum takmarkast við hlutafjáreign. Fjárhagsleg ábyrgð stjórnenda eykst.
2.     Fyrirtækið hefur enga sérstöðu fram yfir önnur fyrirtæki í landinu. Reksturinn verður sveigjanlegri, t.d. þarf ekki að leita heimilda til fjárfestinga í ríkiskerfinu.
3.     Skattgreiðslur breytast nokkuð. Fyrirtækið þyrfti að greiða eignarskatt, aðstöðugjald og væntanlega tekjuskatt. Aðstöðugjald yrði svipað að upphæð og nú er greitt í landsútsvar.
4.     Málefni starfsmanna yrðu með nokkuð öðrum hætti þar eð hlutafélagið hefði meira sjálfræði um ákvörðun launa.

Hvers vegna hlutafélag?
    Telja verður eðlilegt að atvinnurekstur á vegum ríkisins sé í formi hlutafélaga. Þetta á við jafnvel þótt ríkið sé eini eigandi viðkomandi hlutafélags, en í frumvarpi þessu er gerð undanþága um tölu stofnenda, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga um hlutafélög.
    Fróðlegt er að skoða rekstrarfyrirkomulag ríkisfyrirtækja á Norðurlöndum. Flest ríkisfyrirtæki á Norðurlöndum eru rekin sem hlutafélög. Í Svíþjóð var árið 1970 stofnað eignarhaldsfyrirtæki (statsföretag) sem heyrir undir iðnaðarráðuneytið. Stjórn fyrirtækisins er í höndum tíu manna sem starfa ýmist í atvinnulífinu, hjá hinu opinbera eða eru stjórnmálamenn. Ríkisfyrirtæki og hlutabréf ríkisins í fjölmörgum fyrirtækjum færðust yfir til þessa eignarhaldsfyrirtækis. Síðan hafa nokkur af þessum fyrirtækjum verið seld, lögð niður eða tekin út úr þessum rekstri og eru rekin alveg sér.
    Eignarhaldsfyrirtækið er rekið sem hlutafélag og sama er að segja um öll þau fyrirtæki, sem heyra undir eignarhaldsfyrirtækið.
    Í Noregi og Finnlandi er sömu sögu að segja. Þar eru flest öll ríkisfyrirtæki, sem eru í framleiðsluiðnaði og nokkur sem eru í þjónustu, rekin sem hlutafélög.
    Starfsemi hlutafélaga er samkvæmt vandlega skilgreindu fyrirkomulagi víðast í heiminum og hér á landi hefur löggjafinn sett ítarlegar reglur um starfsemi hlutafélaga. Í þeirri löggjöf eru nákvæmar reglur um starfssvið stjórnar, framkvæmdastjórnar og aðalfundar. Í hlutafélagalögunum er ákvæði sem verndar rétt minnihlutaeigenda og þar sem ríkið býður öðrum til samstarfs um atvinnurekstur er því hlutafélagaformið sérstaklega viðeigandi. Af stjórnunarlegum ástæðum
eru einnig sterk rök fyrir því að reka atvinnufyrirtæki í eigu ríkisins sem hlutafélög. Á þann hátt nýtur framkvæmdastjórn fyrirtækisins aðhalds stjórnar hlutafélagsins og jafnframt nýtur stjórnin betur aðhalds og eftirlits eigenda.
    Á aðalfundum og hluthafafundum getur stjórn og framkvæmdastjórn gert grein fyrir gerðum sínum, ákvörðunum og fyrirhuguðum nýmælum en jafnframt getur þar komið fram gagnrýni eigenda á stjórnendur og tillögur þeirra um breytingar á rekstrinum. Þetta ætti að stuðla að betri stjórnun fyrirtækisins. Kostir þess að reka prentsmiðjuna sem hlutafélag eru að með því móti verður reksturinn sveigjanlegri. Fjárhagsleg uppbygging fyrirtækisins veldur því að mjög æskilegt er að reka fyrirtæki í eigu ríkisins sem hlutafélag. Hverju fyrirtæki er nauðsynlegt að fjárfesta, ráðast í nýjungar og efla starfsemi sína til að vernda stöðu sína á markaðnum. Vilji ríkið ekki leggja fram aukið hlutafé til að halda eiginfjárhlutföllum í horfinu þegar kemur til þess að fjármagna þarf nýja fjárfestingu er unnt að leita eftir nýjum hluthöfum sem færa með sér nýtt hlutafé. Með því móti verður komist hjá því að ríkið taki í sífellu á sig skuldbindingar, t.d. í formi ríkisábyrgðar, er fyrirtæki í eigu þess þurfa að ráðast í framkvæmdir.
    Að öllu jöfnu getur naumast talist eðlilegt að ríkið reki venjulegt atvinnufyrirtæki með fullri ábyrgð ríkissjóðs þannig að áföll í rekstrinum geti leitt til þess að greiða þurfi stórfellda fjármuni úr vasa skattborgaranna. Rétt er að undirstrika að ríkisprentsmiðjan Gutenberg hefur aldrei þurft á slíkum framlögum að halda.
    Telja verður eðlilegt að fyrirtækjum í eigu ríkisins sé settur sami almenni starfsrammi og flestum öðrum atvinnufyrirtækjum í landinu, þ.e. rammi hlutafélagalaga.
    Frumvarp þetta er samið af Jafet S. Ólafssyni viðskiptafræðingi og Sigurði B. Stefánssyni hagfræðingi. Lögfræðilega aðstoð veitti Halldór J. Kristjánsson, lögfræðingur iðnaðarráðuneytisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með grein þessari er ríkisstjórninni gert að stofna hlutafélag um ríkisprentsmiðjuna Gutenberg.
    Allar eignir ríkisprentsmiðjunnar færast yfir til hins nýja hlutafélags. Öll hlutabréfin verða í eigu ríkissjóðs. Nauðsynlegt er að fram fari mat á eignum til viðmiðunar við ákvörðun um upphæð hlutafjár hins nýja hlutafélags. Mat þetta verður framkvæmt af þeim aðila er iðnaðarráðherra kveður til með samþykki ríkisstjórnarinnar.
    Rétt er að undirstrika að verðgildi hlutafjár þarf í raun ekki að merkja hver hrein eign fyrirtækisins er, þar koma inn í myndina ýmis önnur atriði.

Um 2. gr.


    Rétt þykir að skilgreina í lögunum hlutverk hlutafélagsins. Jafnframt er lagt til að nánari ákvæði um hlutverk félagsins verði sett í samþykktum þess. Með þessu hefur eigandinn nokkra möguleika til að laga hlutverk félagsins að aðstæðum hverju sinni.

Um 3. gr.


    Núverandi starfsmönnum prentsmiðjunnar er tryggður réttur til endurráðningar. Af starfsmönnum prentsmiðjunnar eru nú fjórir í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og haldast réttindi þeirra óbreytt við þá formbreytingu á rekstri sem hér er stefnt að.

Um 4. gr.


    Verði hlutabréf ríkissjóðs í fyrirtækinu seld að hluta eða öll skal leita samþykkis Alþingis, t.d. í formi þingsályktunar er lögð verður fyrir sameinað þing.

Um 5. gr.


    Iðnaðarráðherra mun fara með eignarhluta ríkisins í félaginu enda hefur starfsemi Gutenberg heyrt undir starfssvið iðnaðarráðuneytisins.

Um 6. gr.


    Nauðsynlegt er að veita undanþágu frá ákvæðum hlutafélagalaga um lágmarkstölu stofnenda og hluthafa í félaginu. Að öllu öðru leyti gilda ákvæði hlutafélagalaganna. Stofnfund í hinu nýja hlutafélagi skal halda eigi síðar en þremur mánuðum eftir gildistöku laganna. Er þá miðað við að frumvarpið hljóti samþykki nú í vor.

Um 7. gr.


    Lögin öðlast þegar gildi, en Prentsmiðjan Gutenberg hf. yfirtekur rekstur og eignir ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg 1. janúar 1990. Ekki hafa gilt sérstök lög um ríkisprentsmiðjuna Gutenberg.