Ferill 417. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 417 . mál.


Nd.

777. Frumvarp til laga



um umhverfismál.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



I. KAFLI

Gildissvið og yfirstjórn.

1. gr.

    Lög þessi taka til allrar starfsemi og framkvæmda sem haft geta í för með sér mengun eða önnur skaðleg áhrif á loft, láð eða lög.

2. gr.

    Sérstakt umhverfisráðuneyti fer með umhverfismál.
    Til umhverfismála teljast eftirfarandi meginsvið:
    Varnir gegn mengun á landi, í lofti, í ferskvatni og sjó.
    Vernd náttúru, þar með talið eftirlit með ástandi gróðurs, útivistarmál og friðun og verndun villtra dýra og fugla.
    Umhverfisráðuneytið skal efla alhliða umhverfisvernd, varnir gegn óæskilegum umhverfisáhrifum og vernda eftir kostum þau lífsgæði sem felast í óspilltri náttúru landsins, hreinu lofti og vatni.
    Umhverfisráðuneytið fer með rannsóknir og framkvæmd alþjóðasamninga um mengun og önnur umhverfismál.

3. gr.

    Umhverfisráðuneytið skal vinna að samræmdri stjórn umhverfismála og skipulegu samstarfi þeirra aðila sem fjalla um mengunarmál, náttúruvernd, skipulagsmál og aðra þætti umhverfismála. Sporna skal ætíð gegn skaðlegum umhverfisáhrifum. Í landnýtingaráætlunum skal að því stefnt að samræma nýtingu og vernd náttúrugæða landsins.

4. gr.

    Umhverfisráðuneytið skal hafa reglubundið samstarf við önnur ráðuneyti um þá þætti umhverfismála, sem ekki heyra beint undir umhverfisráðuneyti, svo sem nánar er kveðið um í 9. gr. Ráðherra umhverfismála kveður saman samstarfsnefnd, sem skipuð er fulltrúum viðkomandi ráðuneyta í þessum tilgangi. Umhverfisráðuneytið hefur auk þess samráð við önnur ráðuneyti, sveitarstjórnir og stofnanir eftir því sem þessir aðilar eiga hlut að máli.

II. KAFLI

Viðfangsefni.

5. gr.

    Umhverfisráðuneyti fer með framkvæmd eftirfarandi sérlaga um varnir gegn mengun og meðferð hættulegra efna:
    Lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, er varða mengunarvarnir.
    Lög um varnir gegn mengun sjávar af olíu og hættulegum efnum, nr. 77/1966, nr. 20/1972, nr. 20/1973, nr. 53/1973, nr. 14/1979, nr. 67/1981 og nr. 14/1984.
    Lög um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988.
    Lög um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986.

6. gr.

    Umhverfisráðuneytið skal hafa forgöngu um gerð landnýtingaráætlunar með sérstöku tilliti til landverndar og skal hún tekin til endurskoðunar á minnst tíu ára fresti. Slíkar áætlanir skulu taka til eins eða fleiri sveitarfélaga eða landsins alls, að höfðu samráði við skipulagsstjórn, landgræðslu, skógrækt, Náttúruverndarráð og Samband ísl. sveitarfélaga.

7. gr.

    Umhverfisráðuneyti fer með framkvæmd eftirfarandi sérlaga um friðun og
verndun lands og náttúru:
    Lög um náttúruvernd, nr. 47/1971.
    Lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 36/1974.
    Lög um dýravernd, nr. 21/1957.
    Lög um fuglaveiðar og fuglafriðun, nr. 33/1966, með síðari breytingum.
    Lög um eyðingu svartbaks, nr. 50/1965.
    Lög um eyðingu refa og minka, nr. 52/1957
    Lög um friðun hreindýra og eftirlit með þeim, nr. 28/1940, með síðari breytingum.
    Lög um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi, nr. 8/1966.
    Lög um landgræðslu, nr. 17/1965, að því leyti sem tekur til eftirlits með ástandi gróðurs.

8. gr.

    Eftirtaldar stofnanir heyra undir umhverfisráðuneyti: mengunarvarnadeild Hollustuverndar ríkisins, mengunarvarnadeild Siglingamálastofnunar, Náttúruverndarráð og embætti veiðistjóra.

9. gr.

    Stofna skal til samstarfsnefndar umhverfisráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, landbúnaðarráðuneytis og samgönguráðuneytis, sem umhverfisráðherra kveður saman, sbr. 4. gr.
    Samstarfsnefnd skal stuðla að formlegri samvinnu ráðuneyta er lýtur að
umhverfisþætti eftirtalinna laga:
    Skipulagslög, nr. 19/1964
    Jarðalög, nr. 65/1976.
    Girðingarlög, nr. 10/1965.
    Jarðræktarlög, nr. 79/1972.
    Lög um skógrækt, nr. 3/1955, með síðari breytingum.
    Vegalög, nr. 6/1977.
    Hafnalög, nr. 69/1984.
    Lög um Siglingamálastofnun ríkisins, nr. 51/1970.
    Lög um loftferðir, nr. 34/1964, einkum VI. kafli.
    Lög um skipulag ferðamála, nr. 60/1976.
    Orkulög, nr. 58/1967.
    Námulög, nr. 24/1973.
    Sérlög um iðnrekstur.
    Lög um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, nr. 44/1948.
    Lög um hvalveiðar, nr. 26/1949, með síðari breytingum.
    Lög um selveiðar, nr. 30/1925, og nr. 29/1937.

10. gr.

    Áður en efnt er til stórframkvæmda skal fara fram könnun og mat á áhrifum slíks á umhverfið, nema umhverfisráðuneytið telji ónauðsynlegt að slíkt mat fari fram. Ráðuneytið ákveður efnisatriði og umfang slíkrar könnunar og skulu niðurstöður birtar í opinberri skýrslu. Könnun skal kostuð af framkvæmdaraðila, nema ráðuneytið ákveði annað, og fara fram samkvæmt áætlun sem ráðuneytið samþykkir.

11. gr.

    Auk hlutverks sem ráðuneytið gegnir varðandi stórframkvæmdir þá fer ráðuneytið einnig með öll þau atriði er snerta umhverfismál í rekstri þeirra fyrirtækja sem þegar eru til staðar.
    Á sama hátt fer um annan iðnrekstur.

III. KAFLI

Rannsóknir og fræðsla.

12. gr.

    Umhverfisráðuneytið hefur frumkvæði að umhverfisrannsóknum, forgangsröðun og samræmingu þeirra eftir því sem þörf krefur í samráði og samvinnu við önnur ráðuneyti, hlutaðeigandi sveitarfélög og rannsóknastofnanir. Kostnaður við
slíkar rannsóknir greiðist úr ríkissjóði samkvæmt nánari ákvörðun á fjárlögum hverju sinni.

13. gr.

    Umhverfisráðuneytið skal reglubundið afla vitneskju um ástand lífrænna auðlinda og gera tillögur um skynsamlega nýtingu þeirra með tilliti til langtíma hagsmunaþjóðarinnar.

14. gr.

    Umhverfisráðuneytið skal beita sér fyrir samræmingu á fræðslu um umhverfismál.

IV. KAFLI

Eftirlit og viðurlög.

15. gr.

    Auk umhverfisráðuneytis og löggæsluaðila á hverjum stað hafa heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúar, skipulagsnefndir, byggingarnefndir og byggingarfulltrúar, náttúruverndarnefndir, gróðurverndarnefndir og eftirlitsmenn Siglingamálastofnunar eftirlit með framkvæmd þeirra ákvæða þessara laga er tengjast starfssviði þeirra.

16. gr.

    Hver sá sem veldur tjóni á umhverfinu með mengun eða öðrum umhverfisspjöllum skal bæta slíkt tjón eftir almennum skaðabótareglum.

17. gr.

    Ef niðurstöður umhverfiskönnunar, sbr. 10.gr., gefur til kynna að stórframkvæmdir geti leitt til varanlegra lýta á landi eða óviðunandi mengunar getur umhverfisráðuneytið í samráði við viðkomandi fagráðuneyti frestað framkvæmdum þar til viðunandi lausn hefur fengist.

18. gr.

    Ráðuneytið hefur rétt til að leggja á dagsektir allt að 50.000 kr. á dag og láta vinna verk á kostnað aðila, ef ekki er sinnt fyrirmælum þess.

19. gr.

    Brot gegn lögum þessum og reglugerð, sem sett kann að verða samkvæmt þeim, varða sektum, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum. Skal farið með mál út af brotum á lögum þessum að hætti opinberra mála.

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

20. gr.

    Umhverfisráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara. Kostnaður við framkvæmd þeirra greiðist úr ríkissjóði, nema þar sem annað er ákveðið í lögunum.

21. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 1989.

Ákvæði til bráðabirgða.


1.     Lög þessi skulu endurskoðuð innan tveggja ára frá gildistöku. Við endurskoðun skal sérstaklega huga að frekari samræmingu einstakra þátta umhverfismála og stofnana er sinna verkefnum á þessu sviði.
2.     Stöðuheimildir mengunarvarnadeildar Hollustuverndar ríkisins, mengunarvarnadeildar Siglingamálastofnunar, Náttúruverndarráðs og embættis veiðistjóra skulu frá gildistíma laganna heyra undir umhverfisráðuneyti.
3.     Umhverfisráðuneytið skal í samráði við viðkomandi fagráðuneyti láta semja frumvörp til laga um eftirtalda málaflokka:
. 3.1.     Um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit er skilji að þau ákvæði laga nr. 81/1988 er sérstaklega varða mengun og umhverfisvernd og færi framkvæmd þeirra undir ráðuneytið.
. 3.2.     Um eiturefni og hættuleg efni er skilji að þau ákvæði laga nr. 52/1988 er sérstaklega varða mengunarvarnir og umhverfisvernd og færi framkvæmd þeirra undir ráðuneytið.
. 3.3.     Um varnir gegn mengun sjávar er geri ráð fyrir að eftirlit með mengun sjávar færist undir ráðuneytið.
. 3.4.     Um landgræðslu er geri ráð fyrir að eftirlit með ástandi gróðurs færist undir ráðuneytið.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Aðdragandi frumvarpsins.
    Fyrir rúmum áratug var hafist handa um könnun á nýskipun á yfirstjórn umhverfismála í Stjórnarráði Íslands. Þann 4. mars 1975 skipaði Geir Hallgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, nefnd níu manna, undir formennsku Gunnars G. Schram, til að vinna að heildarlöggjöf um stjórn umhverfismála. Nefndin samdi frumvarp til laga um umhverfismál, sem þáverandi félgasmálaráðherra, dr. Gunnar Thoroddsen, lagði fyrir Alþingi vorið 1978.
    Á fundi ríkisstjórnarinnar 18. apríl 1978 var ákveðið að félagsmálaráðuneytið skyldi fara með umhverfismál innan Stjórnarráðs Íslands. Var þessi ákvörðun tilkynnt félagsmálaráðuneytinu bréflega sama dag og félagsmálaráðherra þar með falið að leggja fram það frumvarp sem samið hafði verið. Hlaut frumvarpið ekki afgreiðslu á því þingi, en var endurflutt á Alþingi veturinn 1980–81, en hlaut ekki afgreiðslu fremur en í fyrstu umferð.
    Á tímabilinu 1981–83, í ráðherrratíð Svavars Gestssonar, voru samin tvö frumvörp um þetta efni, hið fyrra af nefnd undir formensku Árna Reynissonar og hið síðara af Ingimar Sigurðssyni lögfræðingi og Stefáni Thors skipulagsstjóra. Hvorugt þessara frumvarpa var lagt fyrir Alþingi.
    Ríkisstjórn Streingríms Hermannssonar, er tók við í maí 1983, ákvað í upphafi starfstíma síns að gengið skyldi frá frumvarpi til laga um umhverfismál með það fyrir augum að málið fengi fullnaðarafgreiðslu frá Alþingi. Til að vinna þetta verk skipaði Alexander Stefánsson félagsmálaráðherra nefnd 5 manna 26. september 1983. Hlutverk nefndarinnar var að semja frumvarp samkvæmt framansögðu og m.a. vinna úr eldri frumvörpum og drögum um þetta efni. Nefndin hélt fimm bókaða fundi haustið 1983. Á síðasta starfsdegi Alþingis fyrir jólaleyfi í desember 1983 lagði dr. Gunnar G. Schram ásamt fimm öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fram frumvarp til laga um umhverfismál. Með frumvarpinu þótti meiri hluta nefndarmanna grundvöllur fyrir frekara starfi nefndarinnar brostinn og fór svo að 12. apríl 1984 var nefndin leyst frá störfum.
    Jafnframt því sem fyrrgreind nefnd var leyst frá störfum var formanni hennar, dr. Hermanni Sveinbjörnssyni, falið að starfa áfram að málinu í samráði við ráðherra í því augnamiði að semja frumvarp til laga um umhverfismál. Af hálfu ráðherra var lögð áhersla á að verkinu yrði hraðað. Með heimild ráðherra var fenginn til aðstoðar Páll Líndal lögfræðingur, einn af höfundum upphaflega frumvarpsins frá 1978. Skiluðu þeir greinargerð til félagsmálaráðherra í ágúst 1984. Greinargerð þessi var kynnt í ríkisstjórn í þingbyrjun haustið 1984 og í framhaldi af því tekin til umfjöllunar í
viðkomandi ráðuneytum. Virtist ekki vera hljómgrunnur eða samstaða í ríkisstjórn til að vinna að framgangi málsins að svo stöddu. Í ársbyrjun 1986 ákvað félagsmálaráðherra að kynna í ríkisstjórn frumvarp til laga um stjórn umhverfismála sem leggja mætti fyrir Alþingi vorið 1986. Um það náðist ekki samstaða.
    Í stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar frá 8. júlí 1987 var sérstaklega fjallað um umhverfismál. Þar segir: „ríkisstjórnin mun samræma aðgerðir stjórnvalda að umhverfisvernd og mengunarvörnum, meðal annars með eftirfarandi hætti:
1.     Sett verði almenn lög um umhverfismál og samræming þeirra falin einu ráðuneyti.
2.     Gerð verði áætlun um nýtingu landsins sem miði að því að endurheimta, varðveita og nýta landgæðin á hagkvæman hátt.
3.     Ríkisjarðir verði nýttar til útivistar, skógræktar og orlofsdvalar fyrir almenning þar sem því við verður komið.
4.     Skógrækt, landgræðsla og gróðurvernd verði aukin í samvinnu ríkis, sveitarfélaga og frjálsra samtaka.
5.     Umhverfisáhrif atvinnufyrirtækja, svo sem í fiskeldi, verði könnuð og reglur settar til að koma í veg fyrir mengun frá þeim.
6.     Við skipulag ferðamála verði þess gætt að hlífa viðkvæmum landsvæðum svo að komið verði í veg fyrir umhverfisspjöll.
7.     Fræðsla um náttúruvernd og umhverfismál verði aukin.
8.     Eftirlit með losun hættulegra efna verði bætt.
9.     Athugað verði hvernig auka megi endurvinnslu á úrgangi.
10.     Strangara eftirlit verði haft með efnanotkun við matvælaframleiðslu og í innfluttri neysluvöru.“
    Með bréfi dags. 3. september 1987 skipaði síðan þáverandi forsætisráðherra, Þorsteinn Pálsson, þriggja manna nefnd, undir forustu Sigurðar M. Magnússonar forstöðumanns, sem falið var að gera drög að frumvarpi til laga um samræmda yfirstjórn umhverfismála. Nefndin skilaði lokaáliti sínu ásamt drögum að frumvarpi í maí 1988. Þau drög voru kynnt í ríkisstjórn og þingflokkum, en ekki vannst tími til að leggja málið formlega fram á því þingi. Hafa nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins nú lagt fram á Alþingi sérstakt frumvarp til laga um samræmda stjórn umhverfismála sem að verulegu leyti er byggt á tillögum nefndarinnar.
    Á Alþingi hafa komið fram fjölmargar tillögur til þingsályktunar um umhverfismál. Hafa þingmenn Kvennalistans nú síðast lagt fram tillögu til þingsályktunar um umhverfisráðuneyti.
    Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar segir um umhverfismál:
    „Ríkisstjórnin mun fela einu ráðuneyti að samræma starfsemi hins opinbera að umhverfismálum og komi það til framkvæmda innan árs. Meðal brýnna verkefna á þessu sviði sem unnið verður að má nefna:
    Gerð verður landnýtingaráætlun sem tekur til hvers konar notkunar lands. Jafnframt verður gert átak í gróðurvernd með svæðaskipulagi er miðar að endurheimt landgæða, meðal annars með endurskoðun laga varðandi stjórnun beitar, þannig að hún sé í samræmi við landgæði.
    Unnið verður gegn umhverfisspjöllum af átroðningi og umferð ferðamanna um viðkvæm svæði.
    Samvinna hins opinbera, einstaklinga og frjálsra samtaka um skógrækt og landgræðslu verður efld. Ríkissjóður mun leggja fram fjármagn til sérstaks skógræktarátaks næstu þrjú árin og mun helmingur fjárins renna til skógræktarfélaga.
    Eftirlit með losun hættulegra úrgangsefna í náttúruna verður bætt. Sett verður löggjöf til að skylda fyrirtæki er vinna með hættuleg og mengandi efni til þess að tryggja sig fyrir hugsanlegum afleiðingum óhappa eða slysa.
    Gert verður átak til hreinsunar úrgangs af strandsvæðum í samvinnu opinberra aðila og umráðamanna lands.
    Stuðlað verður að endurvinnslu og nýtingu úrgangsefna. Komið verður á skilagjaldi á einnota umbúðir til að auðvelda eyðingu þeirra eða endurvinnslu.
    Fræðslu- og rannsóknarstarf á sviði umhverfismála verður aukið.“
    Í samræmi við þetta ákvæði hefur verið á vegum forsætisráðherra unnið að endurskoðun og samræmingu á eldri gögnum. Er afrakstur þess frumvarp þetta. Í grundvallaratriðum er byggt á þeim ramma sem mótaður var í upphafi, þó með þeirri breytingu að nú er gert ráð fyrir stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis er fari með umhverfismál í stað félagsmálaráðuneytis fyrr.
    Af hálfu núverandi ríkisstjórnar hefur einnig verið tekið á öðrum þáttum umhverfismála. Hefur iðnaðarráðherra t.d. lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Í undirbúningi er einnig frumvarp til laga um meðferð brotamálma og skilagjald af ökutækjum. Þá er í undirbúningi staðfesting á Vínarsamningnum um vernd ósonlagsins og Montreal bókunar um efni sem valda rýrnun ósonlagsins.

2. Andstaða við fyrri frumvörp.
    Svo sem að framan er rekið virðist hugmyndin um heildarstjórn umhverfismála hafa átt og eiga töluverðu fylgi að fagna. Um það ber vitni sá fjöldi frumvarpa og tillagna sem saminn hefur verið á undanförnum árum. Þessi frumvörp hafa hins vegar ekki náð fram að ganga, annaðhvort hafa þau ekki verið lögð fram eða þau hefur dagað uppi í meðförum Alþingis. Þetta gefur vissa ástæðu til að ætla að mikilvæga þætti málsins hafi skort eða að þeir séu ekki fullunnir. Í fyrsta lagi má ef til vill ætla að skort hafi nægan pólitískan vilja, jafnvel að enginn vilji hafi verið fyrir hendi þrátt fyrir yfirlýsingar um hið gagnstæða. Í öðru lagi er ljóst, sbr. umsagnir um fyrri frumvörp, að mikillar tregðu gætir hjá viðkomandi ráðuneytum og stofnunum varðandi endurskipulagningu í þessum efnum. Síendurtekin stöðvun málsins vegna andstöðu embættismanna ber vott um skort á pólitískum vilja að baki málinu.
    Reynsla undafarinna ára bendir til að nauðsynlegt sé að fá úr því skorið nú hvort um viljaskort hafi verið að ræða eða vantrú á framlögðum hugmyndum. Mikilvægt er að leggja til úrlausnar Alþingis hvernig fara skuli með tvö meginatriði þessa máls, annars vegar skilgreiningu á hugtakinu umhverfismál þ.e. hvaða málefni og þar með framkvæmd eldri laga og reglugerða eigi að falla undir heildarstjórn umhverfismála og hins vegar yfirstjórn umhverfismála, þ.e. hvort ekki sé rétt að mynda ráðuneyti umhverfismála með tilfærslu málaflokka milli ráðuneyta.
    Í þeim frumvörpum, sem samin hafa verið um umhverfismál, er ekki tiltekið þannig að skýrt sé hvaða viðfangsefni ættu að falla undir heildarstjórn umhverfismála, þ.e. framkvæmd hvaða laga verði lögð undir yfirstjórnina. Þá er ekki heldur tilgreint hvaða lagaákvæði falla eiga úr gildi, heldur einungis farið um það almennum orðum, sem hlýtur að bjóða upp á töluverða réttaróvissu. Telja verður nauðsynlegt að Alþingi sé gert fyllilega ljóst hvað átt er við. Rökræn samræming helstu þátta umhverfismála hefur oft reynst erfið úrlausnar þó svo að slík sameining geti litið vel út á pappírnum. Það er hvort tveggja að menn eru engan veginn á það sáttir í einstökum atriðum hvaða málefni eiga fræðilega séð að teljast til umhverfismála og svo hitt að meðal þessara málaflokka geta tekist á mikilvægir hagsmunir, oft lítt samrýmanlegir. Annars vegar er um að ræða efnahagslega hagsmuni og hins vegar náttúrverndunarhagsmuni sem oft má túlka sem átök milli skammtíma- og langtímahagsmuna.
    Bent hefur verið á að upphaflega frumvarpið, sem lagt var fram af félagsmálaráðherra vorið 1978, væri um of sniðið eftir erlendum fyrirmyndum,
og þá einkum danskri og norskri löggjöf um umhverfismál. Hafa þessir gagnrýnendur álitið að ekki hafi verið tekið nægjanlegt mið af íslenskum aðstæðum né uppbyggingu íslenska stjórnsýslukerfisins. Slík ákvæði varðandi mengunarvarnir eru þungamiðjan í frumvarpinu frá 1978 í samræmi við umhverfismálalöggjöf í Danmörku og Noregi. Þá er fyrst og fremst fjallað um mengun frá atvinnurekstri, en ef til vill of lítil áhersla lögð á varnir gegn skolpmengun í fjörum sem margir telja alvarlegasta mengunarvandamál á Íslandi. Enn fremur má benda á að fyrri frumvörp endurspegli ekki nægilega að uppblástur og landeyðing hefur verið mesta umhverfisvandamál á Íslandi allt frá landnámi. Ísland hefur algera sérstöðu í því sambandi miðað við önnur Norðurlönd sem taka verði tillit til í íslenskri umhverfismálalöggjöf. Reynt er að taka aukið tillit til þessara atriða í þessu frumvarpi þó enn sé í mörgum atriðum byggt á upphaflega frumvarpinu frá 1978. Á ýmsum sviðum mætti þó án efa ganga lengra.
    Meðal þeirra frumvarpa, sem samin hafa verið, má segja að í drögum Árna Reynissonar o.fl. hafi lengst verið gengið í tillögum um að fastsetja heildarstjórn umhverfismála í einu ráðuneyti. Í frumvarpsdrögum Ingimars Sigurðssonar og Stefáns Thors frá mars 1982 var aftur á móti farið lengst frá hugmyndinni um sérstakt ráðuneyti umhverfismála. Í þeim drögum var ekki gengið út frá því að stofnanir og málaflokkar á sviði umhverfismála flyttust undir eitt og sama ráðuneytið, heldur einungis gert ráð fyrir samstarfsnefnd á sviði umhverfismála milli viðkomandi ráðuneyta. Það fráhvarf frá fyrri hugmyndum um stjórn umhverfismála, sem fram kom í frumvarpsdrögum Stefáns Thors og Ingimars Sigurðssonar, endurspeglar í fyrsta lagi þann aukna vanda sem lög um Hollustuvernd ríkisins sköpuðu í þessu sambandi og í öðru lagi tregðu nokkurra stofnana og ráðuneyta varðandi flutning málaflokka yfir í nýja stjórnardeild eða ráðuneyti sem fari með umhverfismál.

3. Þörf lagasetningar um heildarstjórn umhverfismála.
    Fullyrða má að umhverfismál eða umhverfisvernd grundvallist á tveimur megin þáttum: Mengunarvörnum og náttúruvernd. Í dag heyra málefni á þessum sviðum til margra ráðuneyta og undirstofnana þeirra. Slík dreifing kallar á aðgerðir til samræmingar og einföldunar, en úrbætur verða að sama skapi erfiðar. Dreifing skyldra mála milli margra ráðuneyta veldur því að oft vinna stofnanir hinna einstöku ráðuneyta að sömu verkefnum, vinnukrafur vannýtist og reglugerðir eru settar um svipuð mál á vegum hinna einstöku ráðuneyta. Í sumum tilfellum eru jafnvel settar ólíkar kröfur af hálfu tveggja eða fleiri ráðuneyta um sömu hluti.
    Með því að sameina helstu þætti umhverfismála undir einu ráðuneyti ætti afgreiðsla málefna, áætlanagerð og stefnumótun að ganga mun greiðar en ella. Dregið er úr líkum á því að mál lendi í ógöngum vegna ágreinings ráðuneyta eða sérstofnana þeirra innbyrðis. Einnig er dregið úr hagsmunatogi og mótverkandi markmiðum innan sömu ráðuneyta í ýmsum málum, t.d. í þeim tilfellum þegar atvinnuvegasjónarmið og tengd friðunar- og verndunarmál heyra undir sama ráðuneytið eins og algengast er í dag. Ýmis áætlanagerð varðandi umhverfi og auðlindir yrði mun auðveldari í höndum eins aðila sem horft gæti hlutlægt á sjónarmið mismunandi hagsmunahópa. Ábendingar um það sem skortir eða betur mætti fara ættu einnig að koma fyrr fram þegar ábyrgð á afgreiðslu skyldra mála væri í meginatriðum á einni hendi.
    Á alþjóðavettvangi er afar mikilvægt að ímynd Íslands sé hreinleiki og umhverfisgæði, m.a. með hliðsjón af útflutningi á matvælum og vaxandi ferðamannaþjónustu. Í þessu sambandi eru sterkar líkur á að í umhverfismálum verði í vaxandi mæli lögð áhersla á hin samofnu tengsl umhverfisverndar og auðlinda notkunar og jákvætt samhengi umhverfisverndar og hagvaxtar, þegar lengra er litið.
    Með sameiningu helstu þátta umhverfismála í einu ráðuneyti er ekki gert ráð fyrir að slíkt þyrfti að orsaka útþenslu í starfsemi Stjórnarráðsins, eða að stangast á við þá endurskoðun lagareglna um Stjórnarráð Íslands sem fyrirhuguð er. Ákvörðun um heildarstjórn umhverfismála mundi fremur auðvelda þá endurskoðun. Starfsmenn sem í dag sinna mengunarmálum í heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu, náttúruverndarmálum í menntamálaráðuneytinu, gróðurverndarmálum í landbúnaðarráðuneytinu og mengun sjávar í samgönguráðuneytinu, mundu flytjast í hið nýja ráðuneyti. Ef vel tekst til má ætla að slík sameining geti haft sparnað og hagræðingu í för með sér. Dagleg verkefni viðkomandi starfsmanna, svo sem samskipti við tilheyrandi undirstofnanir, yrðu að miklu leyti óbreytt. Þannig yrði stefnt að því að nýta áfram eftir föngum reynslu starfsmanna á viðkomandi fagsviðum.
    Með gildistöku þessa frumvarps yrðu að veruleika þær grundvallarhugmyndir um heildarstjórn umhverfismála sem verið hafa til umfjöllunar hér á landi í hálfan annan áratug. Með því mundu vinnast a.m.k. þrjú mikilvæg atriði til framfara:
1.     Samræming skyldra sviða og heilsteyptari stjórnun og áætlanagerð.
2.     Skýrari aðskilnaður stjórnvalda á sviði umhverfismála frá hagsmunaaðilum.
3.     Grundvöllur fyrir raunhæfri þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi í umhverfismálum einkum á vegum norðurlandaráðs og OECD, í samræmi við þátttöku landsins í slíku samstarfi á öðrum sviðum.

4. Nýmæli frumvarpsins.
    Lengi hefur verið um það deilt í hvaða ráðuneyti vista bæri umhverfismálin. Hefur einkum verið bent á félagsmálaráðuneytið, heilbrigðis- og tryggingarráðuneytið og samgönguráðuneytið í þessu efni, ýmist að fullu og öllu eða að hluta. Nú síðast hefur einnig verið rætt um sérstaka skrifstofu innan forsætisráðuneytisins er færi með málefni umhverfismála.
    Ríkisstjórn hefur fjallað ítarlega um framkvæmd á stefnuyfirlýsingu sinni að því er tekur til umhverfismála. Hefur ríkisstjórnin samþykkt að leggja til að komið verði á fót sérstöku umhverfisráðuneyti sem hafi í meginatriðum með höndum stefnumótun, framkvæmd og eftirlit á sviði umhverfismála. Önnur ráðuneyti, ríkisstofnanir og sveitarstjórnir hafi þó áfram mikilvægum hlutverkum að gegna á því sviði og má þar nefna félagsmálaráðuneytið, sem áfram fer með skipulags- og byggingarmál, heilbrigðisráðuneytið, sem áfram fer með framkvæmd laga og reglugerðar á sviði hollustuverndar innanhúss, og landbúnaðarráðuneytið sem áfram fer með ýmis mál er varða beitarstýringu og gróðurvernd. Umhverfisráðuneytinu er ætlað að samræma aðgerðir allra ráðuneyta, stofnana og sveitarstjórna á sviði umhverfismála.
    Til þess að hrinda þessu í framkvæmd er frumvarp þetta flutt. Jafnframt er lagt til að bæta umhverfisráðuneyti í upptalningu 1. mgr. 4. gr. laga 73 frá 28. maí 1969, um Stjórnarráð Íslands, en skv. 2. mgr. 4. gr. laganna má eigi stofnsetja ráðuneyti nema með lögum. Breyting á stjórnarráðslögunum fylgir því þessu frumvarpi sem fylgifrumvarp.
    Við samning frumvarpsins kom til álita að gera verksvið og umfang umhverfisráðuneytis miklu víðtækara en það er í frumvarpinu. Af mörgum er t.d. talið eðlilegt að skipulagsmál heyri til slíks ráðuneytis. Þá hafa verið uppi hugmyndir um að Hollustuvernd ríkisins í heild flyttist undir slíkt ráðuneyti, Landgræðsla ríkisins, Landmælingar Íslands og Skógrækt ríkisins. Um þessi atriði eru samt sem áður mjög skiptar skoðanir. Hætta var því talin á að ákvörðun um málið frestaðist enn ef á fleiri þáttum ætti að taka nú. Sem fyrsta skref er því lagt til að mengunarmálin annars vegar og náttúruverndarmálin hins vegar flytjist til umhverfisráðuneytis.
    Helstu nýmæli lagaframvarpsins eru þessi:
4.1     Gert er ráð fyrir stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis er fer með umhverfismál (2. gr.).
4.2     Hugtakið umhverfismál er skilgreint sérstaklega í 2. mgr. 2. gr. Nær það annars vegar til varna gegn mengun á landi, í lofti, í ferskvatni og sjó og hins vegar til náttúruverndar, þar með talið eftirlit með ástandi gróðurs, úrvistarmál og friðun og verndun villtra dýra og fugla.
4.3     Umhverfisráðuneytið skal hafa frumkvæði að alhliða umhverfisvernd (3. mgr. 2. gr.) og sinna rannsóknum og framkvæmdum alþjóðasamninga um umhverfismál (4. mgr. 2. gr.) og vinna að samræmdri stjórn umhverfismála og skipulegu samstarfi (3. gr.)
4.4     Sett er á stofn samstarfsnefnd umhverfisráðuneytis og annarra ráðuneyta um þá þætti umhverfismála sem ekki heyra beint undir ráðuneytið (4. gr.). Hefur samstarfsnefndin formlega samvinnu um umhverfisþætti tilgreindra laga í 9. gr.
4.5     Flutt eru beint undir umhverfisráðuneytið annars vegar viðfangsefni er varða varnir gegn mengun samkvæmt tilgreindum lögum í 5. gr. og hins vegar viðfangsefni á sviði verndunar og friðunar lands og dýralífs samkvæmt tilgreindum lögum í 7. gr. Umhverfisráðuneytið hefur forgöngu um gerð landnýtingaráætlana í samráði við þá aðila sem málið helst snertir (6. gr.).
4.6     Felldar eru undir umhverfisráðuneytið mengunarvarnadeild Hollustuvernar ríkisins, mengunarvarnadeild Siglingamálastofnunar, Náttúruverndarráð og embætti veiðimálastjóra (8. gr.). Færast stöðuheimildir þessara stofnana undir ráðuneytið.
4.7     Áður en til stórframkvæmda kemur, svo sem virkjunar, verksmiðjubygginga, vegalagninga o.fl., fer fram könnun og mat á áhrifum slíks á umhverfið (10. gr.).
4.8     Umhverfisráðuneytið fer með öll þau atriði er snerta umhverfismál í rekstri fyrirtækja (11. gr.).
4.9     Umhverfisráðuneytið hefur frumkvæði að umhverfisrannsóknum (12. gr.) og tillögugerð (13. gr.) og sinnir samræmingu á fræðslu um umhverfismál (14. gr.).
4.10     Umhverfisráðuneytið getur í samráði við fagráðuneyti frestað stórframkvæmdum þar til viðunandi lausn fæst ef niðurstöður umhverfiskönnunar gefur til kynna að framkvæmdir geti leitt til verulegra lýta á landi eða óviðunandi mengunar (17. gr.).
4.11     Heimilt er umhverfisráðuneyti að leggja á dagsektir allt að 50.000 kr. á dag og láta vinna verk á kostnað aðila er ekki er sinnt fyrirmælum þess (18. gr.).
4.12     Gert er ráð fyrir endurskoðun laganna innan tveggja ára frá gildistöku (ákvæði I til bráðabirgða) enda verður þá nokkur reynsla komin á framkvæmdina.
4.13     Samin verða sérstök lög um hollustu og heilbrigðiseftirlit, eiturefni og hættuleg efni, mengun sjávar og landgræðslu með það fyrir augum að þættir er snerta mengun og umhverfisvernd færist undir umhverfisráðuneytið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Gert er ráð fyrir að lögin taki til allrar starfsemi og framkvæmda, sem haft geta í för með sér mengun eða önnur skaðleg umhverfisáhrif, þar með talið geislun, hávaða, varma, svo og alls annars er spillt getur hinu ytra umhverfi.

Um 2. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. er gert ráð fyrir því að yfirstjórn umhverfismála verði í höndum sjálfstæðs ráðuneytis, umhverfisráðuneytis. Rök fyrir þeirri tillögu hafa þegar verið rakin hér að framan í greinargerð.
    Í 2. mgr. eru talin upp þau tvö meginsvið sem hugtakið „umhverfismál“ nær yfir í lögunum. Er sú skilgreining í höfuðdráttum í samræmi við það sem er á Norðurlöndum. Nær skilgreiningin til mengunarvarna á landi, í lofti, í ferskvatni og sjó. Einnig til náttúrverndar, þar með talið eftirlit með ástandi gróðurs, útivistarmála og friðunar og verndunar villtra dýra og fugla. Er verksviðslýsingin mjög víðtæk. Sérstaklega skal þess getið að ekki er gert ráð fyrir að ráðuneytið fjalli um mengun í híbýlum manna og starfsstöðum, sem áfram verður á verksviði hinnar almennu deilda Hollustuverndar og Vinnueftirlits ríkisins. Verkefni ráðuneytisins að því er varðar eftirlit með ástandi gróðurs skarast ef til vill við verksvið landbúnaðarráðuneytisins en gert er ráð fyrir að samkomulag verði gert um skýr mörk þar á milli.
    Í 3. mgr. eru talin upp ýmis almenn verkefni ráðuneytisins.
    Í 4. mgr. er minnst á rannsóknir á sviði umhverfisverndar sem ráðuneytið getur ýmist haft frumkvæði að eða styrkt frumkvæði annarra. Þá eru nefndir alþjóðasamningar og alþjóðleg samvinna um mengunarvarnir. Má sem dæmi um slíkt nefna framkvæmd Vínarsáttmála og Montreal-samþykktar um verndun
andrúmsloftsins fyrir áhrifum af klórflúorkolefnissamböndum sem eyða óson-hjúp þess.

Um 3. gr.


    Hér er kveðið á um frumkvæði umhverfisráðuneytis í samræmingu og skipulegu samstarfi á sviði umhverfismála.

Um 4. gr.


    Með ákvæði greinarinnar um sérstaka samstarfsnefnd, sem ráðherra umhverfismála kveður saman og skipuð er fulltrúum annarra ráðuneyta, er átt við óbeina stjórn umhverfismála með samræmingu stjórnsýsluaðila er fást við verkefni nátengd umhverfismálum. Í 9. gr. eru taldir upp málaflokkar sem miklu skipta í þessu sambandi.
    Þrátt fyrir samstarfsnefndina er gert ráð fyrir að einstök ráðuneyti hafi fullt forræði þeirra mála sem undir þau falla. Rísi ágreiningur milli einstakra ráðuneyta er eðlilegt að forsætisráðherra skeri úr slíkri deilu þó að slíkt sé ekki sagt berum orðum í greininni.

Um 5. gr.


    Hér eru talin upp þau viðfangsefni á sviði mengunarvarna sem umhverfisráðuneyti skal fara með. Í dag eru þessir málaflokkar vistaðir í þremur ráðuneytum, heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu, samgönguráðuneytinu og iðnaðarráðuneytinu. Brýnt er að ráðuneyti umhverfismála fari ekki einungis með mengun ferskvatns heldur einnig mengun sjávar, enda leitar öll vatnsmengun til sjávar um síðir. Án slíkrar sameiningar væru lög um varnir gegn mengun sjávar ósamrýmanleg lögum þessum. Skolpmengun sjávar er eitt helsta umhverfisvandamál á Íslandi í dag. Úrbætur í þeim efnum eru mun líklegri með þeirri sameiningu í yfirstjórn mengunarvarna sem hér er lögð til.

Um 6. gr.


    Gróður- og jarðvegseyðing er mesta umhverfismál á Íslandi allt frá landnámi. Ofnýting beitilanda og önnur átroðsla viðkvæmra landssvæða hefur haldið áfram fram á síðustu ár þrátt fyrir stórbætta vísindalega þekkingu. Líkur eru á því að landbætur og landvernd hafi gengið lakara en efni hafa staðið til, m.a. vegna mismunandi hagsmuna og ólíkra markmiða þeirra ráðuneyta og stofnana sem að þessum málaflokki koma. Hér er lagt til að ráðuneyti umhverfismála hagnýti sér ákvæði um skipulagsskyldu landsins alls til að efla stefnumótun í landgræðslu og endurheimt landgæða. Á skipulagsstigi má oft sjá
fyrir og leysa árekstra milli ólíkra sjónarmiða og hagsmuna, svo sem mannvirkjagerðar, nýtingar gróðurs og umhverfisverndar. Umhverfisráðuneytum erlendis eru víða falin víðtæk afskipti af skipulags- og landnýtingarmálum. Lagt er til að ráðuneytið stuðli að yfirsýn og samræmingu á þessu sviði, en framkvæmd yrði að mestu leyti í höndum Skipulagsstjórnar ríkisins. Gert er ráð fyrir samstarfi ráðuneytisins við stofnanir og samtök sem málið varða.

Um 7. gr.


    Hér eru talin upp viðfangsefni umhverfisráðuneytis á sviði verndunar og friðunar lands og dýralífs sem í dag heyra undir fimm ráðuneyti. Rétt þykir að eyðing meindýra sé einnig í verksviði ráðuneytisins, enda er mikilvægt að gætt sé hófs í þeim efnum og að atvinnuvegasjónarmið verði ekki einráð. Með vistun gróðurverndar í ráðuneyti umhverfismála er stuðlað að auknu hlutleysi og sterkari stöðu gagnvart hagsmunaaðilum í landbúnaði.

Um 8. gr.


    Hér eru taldar upp þær stofnanir sem samkvæmt framangreindu verksviði munu heyra undir umhverfisráðuneytið.

Um 9. gr.


    Hér er kveðið á um óbeina stjórn umhverfismála með formlegri samvinnu hlutaðeigandi ráðuneyta og stofnana við umhverfisráðuneytið. Einkum á þetta við um ýmsa málaflokka sem heyra undir önnur ráðuneyti en geta varðað miklu á sviði umhverfismála, svo sem stórframkvæmdir í hafnargerð, vegagerð, virkjunum, stóriðjurekstri o.fl. Gert er ráð fyrir að komið verði á fót sérstökum samráðsnefndum um slík málefni. Upptaling greinarinnar er ekki tæmandi en ætti að gefa vísbendingu um við hvað er átt. Í þessa upptalningu má hugsa sér til viðbótar væntanleg lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjavörur og lög um meðferð brotamálma og skilagjald af ökutækjum. Þegar talað er um umhverfisþætti þessara laga er átt við þau ákvæði sem snerta framkvæmd á þeim viðfangsefnum sem gert er ráð fyrir að lögð verði undir umhverfisráðuneytið. Þetta er gert í því skyni að umhverfissjónarmið, sem hafa verður í huga, komi fram þegar á frumstigi málsmeðferðar eða að minnsta kosti eins fljótt og aðstæður leyfa. Er hér um að ræða mjög þýðingarmikið atriði. Greið framkvæmd gæti sparað mikinn tíma, fyrirhöfn og fjármuni. Ekki virðist nauðsynlegt að hlutaðeigandi ráðuneyti annist beint hina formlegu samvinnu heldur gæti hún verið á vegum stofnana,
sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti, þó þannig að ráðuneytin sjálf fylgdust samt reglulega með því sem um er fjallað.
    Með sérlögum um iðnrekstur er átt við lög um Sementsverksmiðju ríkisins, Álverksmiðju í Straumsvík, Járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, Kísilgúrverksmiðju við Mývatn og sambærileg fyrirtæki.

Um 10. gr.


    Hér er lögbundið að áður en efnt er til stórframkvæmda skuli fara fram könnun og mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Almenn könnunarskylda ásamt kynningu á niðurstöðum hefur ekki verið lögbundin fram til þessa. Ef slíkt mat liggur þegar fyrir á hlutaðeigandi stað er ráðuneytinu heimilt að falla frá hinum almennu skilyrðum, einnig ef rannsókn er talin óþörf. Eðlilegt er að kostnað af rannsókn beri sá aðili, sem framkvæmda óskar, og skoðast sá kostnaður sem hluti af frumfjárfestingu viðkomandi fyrirtækis á staðnum. Umsækjandi getur sjálfur valið óháða aðila til að framkvæma könnunina, enda sé starfað eftir áætlun sem ráðuneytið samþykkir. Gert er ráð fyrir að grundvallarþættir slíkrar áætlunar verði þeir sömu í öllum tilfellum. Með stórframkvæmdum er átt við vega-, hafna- og brúargerð, virkjanaframkvæmdir og byggingu stórverksmiðja svo nokkuð sé nefnt.

Um 11. gr.


    Í sérlögum um Sementsverksmiðju, Álbræðslu við Straumsvík, Kísilgúrverksmiðju við Mývatn, Áburðarverksmiðju ríkisins, Þörungavinnslu við Breiðafjörð, Járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, Steinullarverksmiðju, Sjóefnavinnslu á Reykjanesi og ef til vill fleiri eru ekki sérákvæði um mengun og aðra umhverfisröskun. Með þessu ákvæði frumvarpsins er ráðuneytinu fengin heimild til meðferðar umhverfismála að því er þennan iðnað og annan iðnað varðar sérstaklega. Má telja að meiri líkur séu á umhverfisröskun frá stóriðju og skyldri starfsemi en frá öðrum iðnaði í landinu.

Um 12. gr.


    Hér eru lögbundin ákvæði um almennar umhverfisrannsóknir og heimild ráðuneytisins til að ákvarða framkvæmd þeirra og samræmingu. Er hér átt við grundvallarrannsóknir með tilliti til umhverfisáhrifa framkvæmda og búsetu. Gætu slíkar rannsóknir tekið til stórra samfelldra landsvæða, en ekki verið afmarkaðar við umhverfisáhrif frá einu iðjuveri eða verksmiðju. Ekki er gert ráð fyrir að ráðuneytið sé framkvæmdaraðili í þessu efni nema í sérstökum
tilfellum, heldur sjái um samræmingu og forgangsröðun verkefna í þessu sviði milli ráðuneyta og stofnana.

Um 13. gr.


    Einn af hornsteinum umhverfisverndar er skipuleg nýting náttúruauðlinda sem miðast við langtímahagsmuni þjóðarinnar. Jákvætt samhengi umhverfisverndar og efnahagslegra gæða, þegar lengra er litið, er í vaxandi mæli viðurkennt á alþjóðavettvangi, t.d. á vegum OECD. Í dag fylgjast viðkomandi fagráðuneyti með ástandi auðlinda á sínu sviði í mismunandi miklum mæli. Hætt er við að sú umfjöllun tengist um of hagsmunum viðkomandi atvinnuvegar á hverjum tíma. Því er brýnt að fela einum óháðari aðila að hafa með höndum heildstæða upplýsingasöfnun, tillögugerð og yfirsýn í þessu efni. Ekki er samt sem áður ætlast til að umhverfisráðuneytið grípi inn í starfsemi annarra ráðuneyta hvað þetta varðar.

Um 14. gr.


    Hér er átt við samræmingu, t.d. á útgáfustarfsemi. Í dag eru ýmsar upplýsingar gefnar út um umhverfismál og tengd málefni á vegum hinna einstöku ráðuneyta og stofnana, en nauðsynlegt er að þær verði samræmdar sem mest.

Um 15. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að auk ráðuneytisins hafi löggæsluyfirvöld á hverjum stað eftirlit með framkvæmd laganna, svo og þeir aðilar sem lögum samkvæmt eiga sjálfkrafa aðild að meðferð hvers málaflokks í héraði. Fyrst um sinn er a.m.k. eðlilegt að stuðst verði við fulltingi yfirvalda á hverjum stað fremur en að stofnaðar verði sérstakar stöður í þessum tilgangi.
    Ljóst er að á heilbrigðisnefndir mun reyna mest í þessum efnum, auk annarra nefnda sem starfa samkvæmt lögum og upp eru taldar í greininni. Þess er vænst að nefndirnar starfi í samvinnu við umhverfisráðuneyti, auk þess sem þær gegna þeim skyldum sem þeim eru nú fengnar í gildandi lögum. Í Danmörku og Noregi hefur svipaður háttur verið hafður á og gefist vel.

Um 16. gr.


    Ekki þykir ástæða til að setja neinar sérstakar reglur um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem hlýst á því sviði sem frumvarpið nær til.

Um 17. gr.


    Hér er ráðuneytinu í samvinnu við viðkomandi fagráðuneyti gefin heimild til að fresta stórframkvæmdum, ef sýnt þykir að það muni leiða til verulegra og/eða varanlegra umhverfisspjalla, þar til úr hefur verið bætt, enda liggi fyrir niðurstöður umhverfiskönnunar. Hér er ráðuneytinu gefið vald til viðbótar við annars álíka ákvæði í náttúruverndarlögum, nr. 47/1971. Vísast að öðru leyti til athugasemda við 10. gr.

Um 18. gr.


    Gert er ráð fyrir að beita megi dagsektum ef ekki er sinnt fyrirmælum ráðuneytisins allt að 50.000 kr. á dag. Kann sú upphæð að þykja í lægsta lagi. Við endurskoðun laganna eftir tvö ár verður sú upphæð án efa endurskoðuð og verðbætt framvegis.

Um 19. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 20. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 21. gr.


    Ákvæði greinarinnar um gildistökufrest er miðað við að ráðrúm gefist til þess að undirbúa stofnun ráðuneytisins og skapa því nauðsynlega starfsaðstöðu. Ekki eru í gildandi fjárlögum fjárveitingar til ráðuneytisins, þannig að það mun fara hægt af stað og í byrjun vera rekið með fjárveitingum til þeirra þátta í starfi annarra ráðuneyta sem það tekur við. Síðan verður að gera ráð fyrir að það taki að fullu til starfa með gildistöku fjárlaga ársins 1990.

Um ákvæði til bráðabirgða.


I


    Ákvæðið gerir ráð fyrir endurskoðun laganna innan tveggja ára frá gildistöku. Við slíka endurskoðun hlýtur að koma til álita frekari tilfærsla umhverfisþátta frá öðrum ráðuneytum til hins nýja ráðuneytis.

II


    Þarfnast ekki skýringa.

III


    Nauðsynlegt er að taka til endurskoðunar ýmsa löggjöf er tengist umhverfismálum vegna þeirra breytinga sem frumvarpið gerir ráð fyrir, svo sem á sviði laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, laga um eiturefni og hættuleg efni, laga um mengun sjávar og laga um landgræðslu. Viðbúið er að endursemja þurfi og breyta öðrum lagaákvæðum eftir að starfsemi hins nýja ráðuneytis hefst.