Ferill 429. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 429 . mál.


Nd.

789. Frumvarp til laga



um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Kristín Halldórsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir, Kristín Einarsdóttir,


Málmfríður Sigurðardóttir.



1. gr.

    Við 2. mgr. A-liðar 68. gr. laganna bætist svohljóðandi málsliður:
    Einstæðum foreldrum er heimilt að nýta á sama hátt ónotaðan persónuafslátt barna sinna sem eiga hjá þeim lögheimili.

2. gr.

    Við 83. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
    Falli annað hjóna frá greiðir eftirlifandi maki eignarskatt eftir sömu reglum og um hjón væri að ræða meðan hann situr í óskiptu búi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 1. gr. koma til framkvæmda 1. júlí 1989, en ákvæði 2. gr. gilda um álagningu eignarskatts á árinu 1989 á eignir í árslok 1988.

Greinargerð.


    Í þessu frumvarpi eru lagðar til tvær breytingar á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt.
    Sú fyrri felur það í sér að einstæðir foreldrar geti nýtt ónotaðan persónuafslátt barna sinna. Samkvæmt núgildandi lögum er aðeins hægt að færa ónotaðan persónuafslátt á milli hjóna og er þannig í raun gert upp á milli sambúðarforma. Flest ungt fólk stundar nú nám fram eftir aldri til undirbúnings lífsstarfi sínu og nýtur á meðan ókeypis fæðis og húsnæðis eða annarrar aðstoðar hjá foreldrum. Slíkt þykir öllum sjálfsagt, en er misjafnlega auðvelt eftir aðstæðum. Mörgum einstæðum foreldrum er það erfitt
og jafnvel ókleift og er þetta ákvæði fyrst og fremst ætlað til þess að auðvelda þeim þetta hlutverk.
    Síðari breytingin varðar skattlagningu á eignir, en í desember 1988 samþykkti Alþingi lög um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þar sem m.a. var tekin upp ný þrepaskipting í eignarskatti. Er miðað við 7 millj. kr. eign hjá einstaklingi og þar af leiðandi 14 millj. kr. eign hjá hjónum. Það er vissulega álitamál hvort þessar viðmiðunartölur eru réttar og hvort ekki væri eðlilegra að hafa þrepið hlutfallslega hærra hjá einstaklingum en hjónum. Hins vegar er það að dómi flytjenda þessa frumvarps ekkert álitamál að tvöföldun eignarskattsstofns annars hjóna við fráfall hins er óréttlæti og baggi sem margir fá ekki risið undir. Það verður að teljast heldur kaldranaleg kveðja frá yfirvöldum við slíkar aðstæður að neyða eftirlifandi maka til algjörrar uppstokkunar á heimilishögum fyrr en viðkomandi er sjálfur tilbúinn til þess. Oft er um eldra fólk að ræða sem á erfitt með að horfast í augu við allt það umstang og viðbrigði sem fylgja búsetuskiptum og þarf miklu lengri umþóttunartíma en skattalöggjöfin gefur færi á. Þá má minna á að mjög margar konur í þessari aðstöðu hafa lágar tekjur og eru jafnvel ekki í lífeyrissjóði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í A-lið 68. gr. laganna er ákvæði um að bæta megi 80% af ónotuðum persónuafslætti annars hjóna við persónuafslátt hins þegar fundinn er tekjuskattur framteljanda. Hér er lagt til að einstæðir foreldrar geti nýtt persónuafslátt barna sinna með sama hætti.

Um 2. gr.


    Samkvæmt 83. gr. laganna nemur eignarskattur 1,2% af eignarskattsstofni yfir 2.500.000 kr. og 1,5% að auki af eignarskattsstofni yfir 7.000.000 kr. Þar af leiðir að hjón geta átt saman allt að 14.000.000 kr. eign áður en þau lenda í hærra skattþrepinu, en falli annað þeirra frá lendir hitt skyndilega í því að þurfa að greiða miklu hærri skatt af sömu eign. Hér er lagt til að við fráfall maka verði álagning áfram með sama hætti og um hjón væri að ræða.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að framkvæmd ákvæðis 1. gr. miðast við að persónuafsláttur verður næst reiknaður upp 1. júlí 1989.