Ferill 435. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 435 . mál.


Sþ.

795. Tillaga til þingsályktunar



um eigin eftirlaunasjóði einstaklinga.

Flm.: Guðni Ágústsson.



    Alþingi ályktar að skipa nefnd sem fái það hlutverk að móta reglur um eigin eftirlaunasjóði allra landsmanna og gera tillögur um hvernig hægt væri að gera upp réttindi launþega í núverandi lífeyrissjóðum.

Greinargerð.


    Nefnd þeirri sem hér er gerð tillaga um er ætlað að kanna stofnun eigin eftirlaunasjóðs fyrir einstaklinga samkvæmt eftirfarandi hugmynd:
1.     Við upphaf ævistarfs eignast hver einstaklingur eigin eftirlaunareikning í umsjón banka, tryggingafélags eða þeirra aðila sem til þess hafa hlotið tilskilin leyfi og fylgir eftirlaunareikningurinn viðkomandi einstaklingi út starfsævina.
.      Í sjóðinn skal greiða iðgjald sem sé 10% af öllum launatekjum hvers launþega og reiknuðum launatekjum þeirra sem sjálfstæðan atvinnurekstur stunda. Að því er varðar skiptingu hjá öðrum en þeim sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur skulu 6% greidd af atvinnurekanda en 4% af launþega.
2.     Eftirlaunasjóðir væru verðtryggðir og ávaxtaðir á bankareikningum eða með verðbréfum skráðum á opinberu verðbréfaþingi.
3.     Allar greiðslur í eigin eftirlaunasjóð væru frádráttarbærar frá skatti.
4.     Þegar einstaklingur verður 65 ára gamall er byrjað að endurgreiða eigandanum eftir ákveðnum reglum úr sjóðnum og er hann endurgreiddur að fullu á 15–20 ára tímabili.
5.     Við andlát er eftirlaunasjóðurinn eign maka eða erfðafé aðstandenda.
6.     Eigin eftirlaunasjóðir eru sameign meðan hjónaband eða sambúð varir en skiptast til helminga við skilnað eða búskipti.
7.     Gagnvart örorkulífeyri og barnalífeyri mætti hugsa sér að einhver hluti af iðgjaldi í eigin lífeyrissjóð, t.d. 1%, væri greiddur í sérstakan landssjóð sem væri tengdur Tryggingastofnun ríkisins og héti Örorku- og barnalífeyrissjóður Íslands.

Kostir eigin eftirlaunasjóðs.
    Kostir þess að taka upp eigin eftirlaunasjóð eru margir. Rétturinn er á einum stað. Í samráði við sitt stéttarfélag heldur einstaklingurinn utan um sína eftirlaunagreiðslu og fær með reglubundnum hætti yfirlit um innborganir og eignarstöðu. Staða fólks er skýr og auðskilin. Fólk hættir að týna rétti sínum þótt það skipti um starf. Fólk felur bankanum eða ábyrgðaraðila sjóðsins að fylgja því fast eftir að greiðslur frá atvinnurekendum berist í eftirlaunasjóðinn. Sáralítið af greiðslum færi í rekstrarkostnað gagnstætt því sem gerist í núverandi lífeyriskerfi.
    Færa má að því talnaleg rök að hver og einn ætti mikla peninga við 65 ára aldur, að vísu misháa upphæð eftir tekjum og lengd starfsævinnar. Við andlát félli þessi sparnaður í hlut erfingjanna.
    Eftirfarandi útreikningar sýna hvernig eftirlaunasjóðirnir mundu ávaxta sig á löngu tímabili, verðtryggðir með 5% vöxtum umfram verðbólgu.

Sparað í 25 á r.



     Mánaðargreiðslur í sjóðinn      Upphæð í lok sparnaðartímabils
        1. 7 þús. kr.         4,0 millj. kr.
        2. 10 þús. kr.         5,7 millj. kr.
        3. 15 þús. kr.         8,6 millj. kr.



Sparað í 35 ár.


     Mánaðargreiðslur í sjóðinn     Upphæð í lok sparnaðartímabils
        1. 7 þús. kr.         7,6 millj. kr.
        2. 10 þús. kr.         10,8 millj. kr.
        3. 15 þús. kr.         16,3 millj. kr.

    Ef einstaklingur leggur fyrir 10 þús. kr. mánaðarlega næstu 20 árin verður söfnunarupphæðin 5.076.000 kr. ef raunvextir héldust fastir 7%. Gæti þessi upphæð gefið 29.610 kr. í mánaðarlegar tekjur án þess að gengið sé á höfuðstólinn eða 60.200 kr. á mánuði ef höfuðstóllinn er endurgreiddur á t.d. 10 árum og vextir héldust í 7%. En tuttugu ár eru í flestum tilfellum tæplega hálf starfsævi, þar er fremur hægt að reikna með 30–45 árum.
    Þetta fyrirkomulag mundi styrkja stöðu banka og fleiri til að takast á
hendur stóraukna þjónustu bæði við einstaklinga og atvinnulífið ekki ósvipað því sem gerist í nálægum löndum.

Lífeyrissjóðakerfið verður að endurskoða.
    Hér er lögð til allróttæk stefnubreyting hvað lífeyrisréttindi og lífeyrissparnað varðar eða að lífeyrissparnaðurinn verði sjálfstæð eign hvers og eins í bundnum reikningi.
    Margur gerir sér þegar grein fyrir því að hið flókna og margskipta lífeyrissjóðakerfi hér á landi mun ekki geta staðið við skuldbindingar sínar. Lífeyrissjóðakerfið sjálft er mannfrekt og dýrt í rekstri ekki síst þar sem það er í mörgum smáum einingum.
    Almenningur sættir sig illa við þá óvissu og það ranglæti sem núverandi kerfi er að þróast í. Fólk er lögþvingað til að greiða tíu prósent af launum sínum í lífeyrissjóðina. Enginn veit um eigin eign í sjóðunum né hvaða öryggi greiðslurnar kunna að skapa á eftirlaunaaldri. Foringjar verkalýðsfélaga og atvinnurekenda stjórna svo sjóðunum og nú eru engir harðari en þeir í því að fá háa vexti og fulla verðtryggingu. Það sést best á því að þegar launþegar sækja um og fá lán úr sínum sjóði, sem þeir fjármagna, skulu þeir hafa öruggan veðrétt og sæta hæstu raunvöxtum utan gráa markaðarins.
    Almenningur í okkar fámenna kunningjaþjóðfélagi sættir sig alls ekki við þann mismun sem fólki er nú gert að hlíta. Sumir ná því að fá öruggar greiðslur úr mörgum sjóðum og það er ríkið sem ábyrgist slíkar greiðslur. Aðrir tapa réttindum sínum og sjóðirnir koma ekki til með að greiða til baka neina þá upphæð sem skiptir máli til lífsviðurværis í ellinni.
    Ósanngjarnastur er mismunurinn hvað makalífeyri varðar. Ekkjur eða ekklar, t.d. ráðherra, alþingismanna og bankastjóra, eru með allgóðan lífeyri en við fráfall sjómanna verður réttur maka sáralítill. Berlegast er svo ranglætið þegar sömu einstaklingar fá greitt úr mörgum sjóðum sem ríkisvaldið ábyrgist og hafa þá í ellinni jafnvel hærri laun en þegar þeir voru í starfi. Vantrú fólks á lífeyrissjóðakerfinu birtist í því að sá hópur er stækkandi sem stendur utan allra sjóða þrátt fyrir lög og reglur.
    Engin heildarlöggjöf er í gildi á Íslandi um lífeyrissjóði. Þó eru lífeyrissjóðirnir orðnir yfir 100 talsins og eiga eignir upp á 73 milljarða króna. Samkvæmt upplýsingum Seðlabankans voru heildarútlán lífeyrissjóðanna 48,4 milljarðar króna árið 1987. Á sama tíma voru heildarútlán bankakerfisins 92,3 milljarðar króna. Heildareignir lífeyrissjóðanna voru 22% af landsframleiðslu 1984, en voru aðeins 10% af landsframleiðslu 1975.
    Lífeyrissjóðirnir starfa að mestu eftirlitslaust, skipulag þeirra er á reiki og réttindi einstaklinga með aðild að sjóðunum einnig. Upplýsingar um ýmsa rekstrarþætti lífeyrissjóðanna eru óljósar og liggja seint fyrir. Í Hagtölum mánaðarins í janúar sl. segir að engar tölur liggi fyrir um ráðstöfun fjármagns lífeyrissjóðanna síðustu árin. Nýjustu tölur í hagtölunum um ráðstöfun sjóðanna eru frá 1984. Tölur liggja þó fyrir um heildarráðstöfunarfé sjóðanna til og með 1987. Talið er að ráðstöfunarfé sjóðanna hafi verið 13 milljarðarkróna árið 1988 og verði 16 milljarðar króna 1989.
    Einn lífeyrissjóður er öðruvísi uppbyggður en aðrir sjóðir. Það er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og er lífeyrir þar tryggður af hálfu ríkisvaldsins.
    Samkvæmt fjárlögum fyrir 1989 er gert ráð fyrir að verja úr ríkissjóði 1125 millj. kr. í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, fyrst og fremst til að greiða uppbætur svo að hægt sé að standa við skuldbindingar við lífeyrisþega. Enn fremur þyngist sífellt skuldbinding sveitarfélaga við að greiða mismun í lífeyrissjóði og á eftir að vaxa til muna á næstu árum.
    Lífeyrissjóðirnir eru nú líkari bankastofnunum en sjóðum sem eru að hugsa um eftirlaunakjör.
    Hér fylgir með yfirlit þar sem fram koma samræmdar upplýsingar um nokkra lífeyrissjóði og eru þessar upplýsingar unnar af Talnakönnun hf.



Fylgiskjal.


REPRÓ í Gutenberg.