Ferill 436. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 436 . mál.


Sþ.

796. Tillaga til þingsályktunar



um söluskattssvik og svarta atvinnustarfsemi.

Flm.: Guðni Ágústsson, Alexander Stefánsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna umfang „svartrar atvinnustarfsemi“ og söluskattssvika, meðal annars með spurningakönnun.

Greinargerð.


    Frá 1984–1986 starfaði hér starfshópur til að kanna umfang skattsvika. Var það gert samkvæmt þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 3. maí 1984. Verkefni starfshópsins var að gera grein fyrir og leggja mat á eftirfarandi:
1.     Umgang skattsvika hérlendis miðað við upplýsingar um þjóðartekjur í þjóðhagsreikningum og öðrum opinberum gögnum annars vegar og upplýsingum um framtaldar tekjur í skattframtölum hins vegar.
2.     Hvort skattsvik megi rekja sérstaklega til ákveðinna starfsstétta og starfsgreina.
3.     Umfang söluskattssvika hér á landi.
4.     Helstu ástæður fyrir skattsvikum og hvaða leiðir eru vænlegastar til úrbóta.
    Nefndin skilaði af sér skýrslu sem lögð var fyrir Alþingi 18. apríl 1986.
    Skýrslan var umfangsmikil. Samandregnar niðurstöður bentu til að hér á landi væru mikil skattsvik og svört atvinnustarfsemi. Niðurstaðan var sú að umfang dulinnar starfsemi hérlendis væri á bilinu 5–7% af VLF. Ef miðað er við 6% sem meðaltal nemur þetta um 6,5 milljörðum króna árið 1985 miðað við verga landsframleiðslu, en næmi 17 milljörðum króna af áætlaðri vergri landsframleiðslu 1989.
    Tap hins opinbera vegna vangoldinna beinna skatta og söluskatts var áætlað 2,5–3 milljarðar króna árið 1985. Starfshópurinn kannaði leiðir skattsvikanna og benti jafnframt á tillögur til úrbóta.
    Nú hefur það gerst að farið hefur verið eftir sumum tillögum starfshópsins, öðrum ekki. Nú er það t.d. ljóst eftir að söluskattur var
lagður á allt, jafnt matvöru sem annað, ef það skilar sér jafn illa og áður hafa þjófarnir enn meira til að moða úr en áður. Starfshópurinn gerði ráð fyrir að umfang söluskattssvika næmi um 11% af skiluðum söluskatti. Þetta jafngilti um 1,3 milljörðum króna 1985.
    En í ár 1989 næmi það um 3,7 milljörðum króna samkvæmt fjárlögum 1989 ef söluskattssvikin væru enn sama hlutfall.
    Ýmsir fullyrða að nótulaus viðskipti og borgun undir borðið hafi vaxið með tilkomu staðgreiðslukerfisins, þetta og margt fleira er nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að láta kanna. Starfshópurinn gerði spurningakönnun á eitt þúsund manna úrtaki. Þar kom fram að heildarumfang nótulausra viðskipta næmi um 1100 milljónum króna sem svaraði til 1,3% af vergum þjóðartekjum frá maí 1984 til maí 1985.
    Þó taldi starfshópurinn að umfang nótulausra viðskipta gæti numið allt að 2% af vergri þjóðarframleiðslu. Samkvæmt opinberum upplýsingum er áætlað í febrúar sl. að verg þjóðarframleiðsla 1989 muni nema allt að 288 milljörðum króna. Væru nótulausu viðskiptin enn 1,3% af þessari upphæð næmi heildarumfang nótulausra viðskipta um 3,7 milljörðum króna á þessu ári.
    Það er í dag, miðað við reynslu af ýmsum kerfisbreytingum í skattamálum, mikilvægt fyrir Alþingi og ríkisstjórn að fá upplýsingar um nýjar innheimtuaðferðir, hvernig og hvort þær skila þeim árangri sem búist var við.
    Líklegt er að slíka úttekt megi gera með tiltölulega ódýrum hætti eftir þá miklu vinnu sem starfshópurinn vann 1984–1986. Hér er lagt til að úttektin verði gerð með spurningakönnun sem einnig var notuð að hluta 1984–1986 og sagði hópurinn að gagnlegt gæti verið að gera slíka könnun árlega.
    Hér eru mörg fyrirtæki orðin mjög þróuð í að gera margvíslegar kannanir sem reynst hafa marktækar. Enn fremur liggja fyrir aðferðir og upplýsingar erlendis frá um mjög marktækar spurningakannanir um umfang skattsvika, nótulausra viðskipta og borganir undir borðið, sem mætti nota til viðmiðunar hér.
    Þessa könnun þarf að vinna í sumar og niðurstöður að liggja fyrir þegar næsta reglulegt Alþingi kemur saman.