Ferill 454. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 454 . mál.


Ed.

814. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um framhaldsskóla, nr. 57/1988, sbr. lög nr. 107/1988.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    4. málsl. fyrri mgr. 1. gr. laganna orðist svo: Enn fremur framhaldsdeildir við grunnskóla sem menntamálaráðuneytið hefur heimilað og mun heimila.

2. gr.

    3. gr. laganna breytist þannig:
a.     Á eftir 3. málsl. 4. mgr. komi nýr málsliður svohljóðandi: Kostnað við byggingu heimavistar greiðir ríkissjóður að fullu.
b.     5. mgr. orðist svo:
.      Heimilt er með samþykki Alþingis að víkja frá meginreglum um kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga þegar skóli er í fámennu sveitarfélagi og ekki hefur tekist að fá nærliggjandi sveitarfélög til þess að sameinast um byggingu framhaldsskóla.

3. gr.

    6. gr. laganna breytist þannig:
a.     Síðari málsliður greinarinnar falli brott.
b.     Við bætast þrjár nýjar málsgreinar svohljóðandi:
.      Nefndin skipuleggur samstarf framhaldsskóla og fjallar hún m.a. um verkaskiptingu, samvinnu um fagstjórn svo og önnur mál sem snerta samstarf skóla. Menntamálaráðherra getur skipt nefndinni í hópa til að fjalla um samstarf, verkaskiptingu og skipulag skóla í einstökum landshlutum eða um einstaka málaflokka.
.      Heimilt er menntamálaráðherra að skipta landinu í framhaldsskólasvæði að höfðu samráði við viðkomandi skólanefndir og skólastjórnir. Reglugerð samkvæmt þessari grein skal sett að höfðu samráði við sömu aðila.
.      Nánar skal kveðið á um verksvið og starfshætti samstarfsnefndar í reglugerð.

4. gr.

    1. og 2. mgr. 7. gr. laganna orðist svo:
    Menntamálaráðherra skipar skólanefnd við hvern framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Í skólanefnd skulu sitja sjö menn: tveir fulltrúar starfsmanna kosnir á starfsmannafundi, einn fulltrúi kosinn af nemendum skólans, þrír fulltrúar tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarfélagi eða samtökum sveitarfélaga í viðkomandi landshluta og einn fulltrúa skipar ráðherra án tilnefningar. Fulltrúi nemenda skal þó kosinn til eins árs. Varamenn skulu valdir með sama hætti. Nefndin velur sér formann til tveggja ára í senn.
    Tveir skólar eða fleiri í sama kjördæmi eða landshluta geta sameinast um eina skólanefnd.

5. gr.


    9. gr. laganna breytist þannig:
a.     2. mgr. orðist svo:
.      Skólastjórn skal vera skólameistara til aðstoðar við stjórn skóla og rekstur. Skólameistari er oddviti skólastjórnar sem auk hans skal skipuð fulltrúum kennara, nemenda svo og aðstoðarskólameistara og áfangastjóra starfi þeir við skólann.
b.     Í stað orðsins „skólaráðs“ í 3. mgr. komi: skólastjórnar.

6. gr.

a.     11. gr. laganna verði 10. gr. og orðist svo:
.      Almennur kennarafundur í framhaldsskóla fjallar um stefnumörkun, um námsskipan, kennsluhætti og aðra starfsemi. Nánar skal ákvarðað um verksvið þeirra í reglugerð.
b.     10. gr. verði 11. gr.

7. gr.

    Í stað 2. mgr. 12. gr. laganna komi fjórar nýjar málsgreinar svohljóðandi:
    Menntamálaráðherra setur eða skipar skólameistara (rektor) að fengnum tillögum hlutaðeigandi skólanefndar. Menntamálaráðherra skipar kennara, námsráðgjafa og skólasafnverði að fengnum tillögum skólanefndar og skólameistara hlutaðeigandi skóla.
    Skólameistari ræður að fengum tillögum skólanefndar kennara, námsráðgjafa og skólasafnverði. Hafi umsækjandi um stöðu kennara ekki réttindi til kennslu við framhaldsskóla skal undanþágunefnd framhaldsskóla send beiðni um undanþágu frá ákvæðum laga nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, um að lausráða hann til bráðabirgða enda sé ekki völ á kennara með full kennsluréttindi.
    Skólameistari ræður stundakennara og aðra starfsmenn.
    Skólameistari ræður aðstoðarskólameistara til fimm ára í senn og áfangastjóra til allt að fjögurra ára og deildarstjóra til tveggja ára að höfðu samráði við skólanefnd. Leggja skal þá ákvörðun fyrir menntamálaráðuneytið til staðfestingar.

8. gr.

    13. gr. laganna breytist þannig:
a.     Í stað síðari málsliðar fyrri mgr. komi: Setja skal í reglugerð ákvæði um menntun og starfssvið námsráðgjafa og skólasafnvarða. Setja má í reglugerð ákvæði um menntun og starfssvið annarra starfsmanna.
b.     Síðari mgr. orðist svo:
.      Menntamálaráðuneytið setur skólameisturum, kennurum, námsráðgjöfum og skólasafnvörðum erindisbréf.

9. gr.

    Síðari málsliður fyrri mgr. og 2. málsl. síðari mgr. 16. gr. laganna falli brott.

10. gr.

    32. gr. laganna orðist svo:
    Ríkissjóður greiðir samkvæmt lögum þessum rekstrarkostnað framhaldsskóla. Hver skóli er sjálfstæð rekstrareining og hefur sérstaka fjárveitingu á fjárlögum.
    Ríkissjóður greiðir allan launakostnað við kennslu sem fram fer og skipulögð er í samræmi við áætlun sem samþykkt er af menntamálaráðuneytinu.
    Við ákvörðun fjárveitinga til kennslu í framhaldsskólum skal miða við grunntöluna 1,7 til 2,0 kennslustundir á viku á hvern nemanda í fullu bóknámi eftir stærð og gerð skóla. Þessu til viðbótar skal koma sá stundafjöldi sem nauðsynlegur er til að halda megi uppi kennslu í viðurkenndu verknámi og sérnámi er krefst skiptingar nemenda í smáa námshópa. Þurfi að taka tillit til
sérstakra aðstæðna skal veitt sérgreint framlag til að mæta þeirri þörf.
    Auk kostnaðar við kennslu greiðir ríkissjóður launakostnað við stjórnun, námsráðgjöf, störf í skólasafni, á skrifstofu, félagsstörf, eftirlit og umsjón með heimavistum og eignum skóla og annarra þeirra starfa er nauðsynleg teljast vera.
    Ríkissjóður greiðir enn fremur laun prófdómara á lokaprófi og þann launakostnað er stafar af lækkun kennsluskyldu samkvæmt ákvörðun menntamálaráðuneytisins og annan þann kostnað er leiðir af kjarasamningum.
    Auk launakostnaðar greiðir ríkissjóður annan rekstrarkostnað af starfsemi skólans, viðhaldi húsa og tækja að frátalinni kostnaðarþátttöku nemenda, sbr. 33. gr.
    Við gildistöku laganna skal gerður samningur milli menntamálaráðuneytisins og hvers skóla um tilhögun á greiðslum til skólanna af fjárlagalið þeirra.
    Menntamálaráðuneytið setur nánari reglur um ákvæði þessarar greinar þar sem m.a. skal tilgreint hvaða kennslugreinar skuli teljast verknám og sérnám. Þá skulu settar viðmiðunarreglur um vinnumagn fyrir önnur störf en kennslu er lagðar verði til grundvallar árlegum fjárveitingum.
    Heimilt er að ráða sérstakan fjármálafulltrúa til þess að annast fjárreiður skóla og bókhald og starfar hann þá undir stjórn skólameistara.

11. gr.

    34. gr. laganna orðist svo:
    Menntamálaráðuneytið getur heimilað stofnun og starfrækslu framhaldsdeildar við grunnskóla. Námstilhögun og námsframboð í framhaldsdeildum skal vera undir faglegri stjórn þeirra framhaldsskóla er menntamálaráðuneytið ákveður.
    Ríkissjóður greiðir rekstrarkostnað framhaldsdeilda. Skal við það miðað að framlag á nemanda verði sem næst jafnhátt framlagi til þess skóla er hefur faglega stjórn námsins á hendi.
    Menntamálaráðuneytið setur nánari reglur um lágmarksfjölda nemenda og önnur grundvallarskilyrði um stofnun framhaldsdeilda.

12. gr.

    Í 41. gr. laganna bætist nýr töluliður svohljóðandi:
    5. gr. laga nr. 13/1962, um heyrnleysingjaskóla.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Um 1. gr.


    Greinin kveður á um að heimild til að reka framhaldsdeildir við grunnskóla taki bæði ótvírætt til þeirra deilda sem heimilaðar hafa verið og þeirra sem munu verða heimilaðar.

Um 2. gr.


    Í lögunum er ákvæðið um að ríkið greiði allan stofnkostnað við byggingu heimavistar ekki nógu ótvírætt. Þess vegna þótti rétt að hafa skýr ákvæði um þetta og var ákveðið að skerpa á texta enn frekar.
    Ákvæði b-liðar heimila ríkissjóði með samþykki Alþingis að greiða hærra hlutfall stofnkostnaðar er í hlut eiga fámenn og févana byggðarlög, en ekki er gert ráð fyrir að slík undanþáguákvæði geti tekið til hinna stærstu og öflugustu sveitarfélaga.

Um 3. gr.


    Með þeirri breytingu, sem lögð er til á 6. gr. laganna, er kveðið nánar á um hlutverk samstarfsnefndar framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir að nefndin skipuleggi samstarf framhaldsskóla og fjalli um ýmisleg sameiginleg málefni þeirra.
    Þá er einnig gert ráð fyrir að menntamálaráðherra geti skipt nefndinni í hópa til að fjalla um samstarf, verkaskiptingu og skipulag skóla í einstökum landshlutum og einstökum málaflokkum sem tengjast þeim.

Um 4. gr.


    Í þessari grein er gert ráð fyrir breyttri skipan skólanefndar. Breytingin felur í sér að skólanefndin tengist skólanum nánar en nú er í lögunum.
    Fjölgað er nefndarmönnum úr fimm í sjö. Inn í skólanefndir koma tveir fulltrúar starfsmanna skólans, nemandi og þrír fulltrúar sveitarfélags eða sveitarfélaga, sem að skólanum standa, og einn fulltrúi skipaður af ráðherra.
    Sú breyting er einnig gerð að menntamálaráðherra skipar ekki formann nefndarinnar heldur velur nefndin sér formann til tveggja ára í senn. Þetta eykur á lýðræðislegan hátt sjálfstæði skólans. Þá er það einnig nýmæli að nú er gert ráð fyrir að tveir eða fleiri skólar í sama kjördæmi geti sameinast um eina skólanefnd sem stuðlað gæti að nánara samstarfi skóla en verið hefur.

Um 5. gr.


    Sú breyting, sem hér er gerð, er að í stað skólaráðs komi skólastjórn og inn í hana komi áfangastjóri, starfi hann við skólann, til viðbótar þeim sem voru í skólaráði. Með þessari breytingu er lögð aukin áhersla á samvirka stjórn skólans.

Um 6. gr.


    Ástæða þótti til að kveða nánar á í lögum um hlutdeild almenns kennarafundar í skólastarfi, stefnumörkun skólans og um námsskipan. Þá er einnig kveðið á um að í reglugerð verði verksvið þeirra ákvarðað nánar, en ekki settar um það reglur af menntamálaráðuneytinu eins og áður var.

Um 7. gr.


    Þær breytingar eru gerðar við greinina að skólanefnd ræður kennara, námsráðgjafa og skólasafnverði og felld er niður setning þessara starfsmanna eins og verið hefur til þessa. Hins vegar gengur menntamálaráðherra frá skipun þeirra þegar um það er að ræða. Þá er gert ráð fyrir að skólameistari einn ráði stundakennara og aðra starfsmenn. Einnig ræður skólameistari aðstoðarskólameistara, áfangastjóra og deildarstjóra að höfðu samráði við skólanefnd.

Um 8. gr.


    Breyting sú, sem hér er gerð, er að bætt er við ákvæði þess efnis að setja skuli í reglugerð ákvæði um menntun námsráðgjafa og skólasafnvarða og þeim skuli sett erindisbréf.

Um 9. gr.


    Hér eru felld niður þau ákvæði sem eru í lagagreininni að nemendum sé skylt að stunda fornám í einstökum námsgreinum samkvæmt námskrá hafi þeir ekki náð tilskildum lágmarksárangri. Þetta þótti vera í ósamræmi við ákvæði greinarinnar um að allir ættu rétt á að hefja nám í framhaldsskóla sem lokið hefðu grunnskólanámi. Þótti því sjálfsagt að fella þetta niður. Enn fremur er fellt niður ákvæðið um heimild til að setja lágmarkskröfur til inngöngu í ákveðna námsáfanga. Það þótti ekki heldur í samræmi við rétt nemenda til náms og skólinn yrði að gefa nemendum kost á námi við hæfi hvers og eins eftir því sem tök eru á og námsráðgjöf ætti að beita fremur en að setja hömlur.

Um 10. gr.


    Meginatriði 32. og 34. gr. gildandi laga eru hér sameinuð í eina grein. Brott eru felld ákvæði þess efnis að framlög á hvern nemanda skuli vera sem næst jafnhá hvar sem er á landinu og að framlagið skuli ákveða sem tiltekna upphæð á hvern nemanda árlega. Rekstur framhaldsskólans er svo margvíslegur hvað varðar nemendafjölda, húsnæði, samsetningu náms og allar ytri aðstæður að jafnaðarframlag, eins og miðað hafði verið við, mundi koma afar illa niður á sumum skólum og valda stórfelldri röskun á skólstarfi.
    Þá er sett inn ákvæði þess efnis að gerður skuli samningur milli menntamálaráðuneytisins og hvers skóla um tilhögun á greiðslum til skólanna af fjárlagalið þeirra.
    Með þessari breytingu er að því stefnt að skólarnir taki á sig aukna rekstrarábyrgð og að vaxandi hluti fjárveitinga verði greiddur beint til þeirra, eftir því sem aðstæður leyfa.
    Í upphafi er stefnt að því að rekstrarframlag, annað en kennslulaun, laun fastra starfsmanna og meiri háttar viðhalds- og stofnkostnaður, verði greitt hverjum skóla fyrir fram. Loks er í greininni gert ráð fyrir að settar verði nýjar viðmiðunarreglur um kennslu og önnur störf.

Um 11. gr.


    Meginefni 34. gr. laganna, sem hér er fellt brott, er tekið upp í 32. gr. og sameinað ákvæðum hennar.
    Ný 34. gr. fjallar um starfrækslu framhaldsdeilda við grunnskóla og er helsta nýmælið í henni að ákveðið er að framhaldsdeildir skuli vera undir faglegri stjórn framhaldsskóla til þess að tryggja samræmingu á námsframboði og samstarf milli nálægra skóla.
    Einnig er gerð sú breyting á rekstri framhaldsdeilda að ríkissjóður greiði rekstrarkostnað þeirra á sama hátt og þess skóla sem falin er fagleg forsjá námsins.

Um 12. gr.


    Fellt er úr gildi ákvæði 5. gr. laga um heyrnleysingjaskóla þar sem kveðið er á um að við Heyrnleysingaskólann skuli starfa framhaldsdeild.


Endurprentað upp.