Ferill 466. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 466 . mál.


Nd.

827. Frumvarp til laga



um vörsluskyldu búfjár á Reykjanesskaga.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)


1. gr.

    Öllum eigendum og forráðamönnum búfjár í landi Gullbringusýslu, kaupstöðum innan hennar svo og í landi Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Bessastaðahrepps, sem er vestan girðingar sem lögð verður úr höfuðborgargirðingu við Kaldársel um Kleifarvatn og í sjó við Krísuvík, er skylt að hafa allt búfé á þessu svæði, sem ekki er geymt í húsum, í öruggri vörslu á landi sínu eða innan sérstakra beitarhólfa allt árið.

2. gr.

    Girðingar skulu vera löggirðingar, sbr. lög nr. 10 25. mars 1965, eða annarrar gerðar, þannig að þær veiti fullnægjandi vörslu fyrir það búfé sem áformað er að geyma innan þeirra.
    Með búfé er í lögum þessum átt við sauðfé, geitur, nautgripi og hross.

3. gr.

    Landbúnaðarráðherra fer með framkvæmd laga þessara.

4. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum.
    Með mál út af brotum á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.
    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að bann verði sett við lausagöngu búfjár í landi Gullbringusýslu, kaupstöðum innan hennar, svo og Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Bessastaðahrepps, vestan girðingar sem ákveðið er að girða úr höfuðborgargirðingunni, eða svonefndri ofanbyggðargirðingu, við Kaldársel, um
Slysadali, Breiðdal, Kleifarvatn og í sjó fram við Krísuvík niður af Stóru-Eldborg.
    Vestan þessarar girðingar yrði öllum eigendum og forráðamönnum búfjár skylt að hafa allt búfé sem ekki er geymt í húsum í öruggri vörslu innan girðinga allt árið.
    Margir aðilar og félagasamtök hafa hvatt til þess að lausaganga búfjár verði bönnuð í Gullbringusýslu.
    Á aðalfundi sýslunefndar Gullbringusýslu hinn 7. júlí 1988 var samþykkt svohljóðandi tillaga:
    "Sýslunefnd Gullbringusýslu skorar ítrekað á stjórnvöld að beita sér fyrir því, að Gullbringusýsla verði friðuð fyrir lausagöngu búfjár. Sýslunefnd Gullbringusýslu vill vekja athygli á því, að skv. afsalsbréfi landbúnaðarráðherra dags. 29. september 1941 er sýslunefnd Gullbringusýslu eigandi að beitarrétti í landi Krísuvíkur.“
    Í samræmi við framangreinda tillögu sýslunefndar hefur landgræðslustjóri í bréfi til landbúnaðarráðuneytisins, dagsettu 27. júlí 1988, gefið eftirfarandi umsögn:
    "Mál þetta er mjög athyglisvert og brýnt, þar sem ástand gróðurs á Reykjanesi er yfirleitt óviðunandi og þrátt fyrir verulega fækkun sauðfjár á þessu svæði kemur sauðfjárbeitin í veg fyrir að gróðri fari þar fram sem skyldi. Verst er ástandið í útlandi Krísuvíkur og þarfnast það svæði tafarlausrar friðunar. Ljóst er að ef unnt verður að framkvæma bann við lausagöngu búfjár á umræddu svæði væri það fordæmi fyrir fleiri slíkar aðgerðir, sem því miður er víða þörf á. Það er brýnt að taka mál þetta föstum tökum og ná víðtækri samstöðu um aðgerðir. Starfsmenn stofnunarinnar eru reiðubúnir til þess að starfa með landbúnaðarráðuneytinu að framgangi þessa máls“.
    Búfjárhald, og þó einkum sauðfjárhald á Reykjanesskaga, hefur að mörgu leyti sérstöðu miðað við önnur landssvæði.
    Til undantekninga heyrir að fjölskyldur hafi lífsviðurværi af sauðfjárbúskap og ljóst er að ekki væri um verulega byggðaröskun að ræða þótt fé fækkaði og sauðfjárbeit yrði takmörkuð við ákveðin svæði.
    Gróðureyðing á sér stað á vissum svæðum í Gullbringusýslu sem mikilvægt er að stöðva og þá ber nauðsyn til að efla þann gróður sem eftir er. Það væri mikill ávinningur til eflingar gróðurs ef lausaganga búfjár yrði takmörkuð á þessu stóra en hrjóstruga landsvæði.
    Fyrirbyggja þarf slys af völdum búfjár á Reykjanesbraut. Sveitarfélögin hafa ítrekað krafist girðingar sunnan við Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar
að landgræðslugirðingunni í Vogum. Sú girðing yrði kostnaðarsöm auk þess sem hún veldur náttúruspjöllum. Þar að auki er fyllsta ástæða til að fækka girðingum sem mest.
    Fullvirðisréttur bænda á því svæði sem fyrirhugað er að banna lausagöngu á er rúm 1300 ærgildi. Hins vegar eru á svæðinu um 2600 kindur samkvæmt forðagæsluskýrslu 1989.
    Verði bústofn bænda í samræmi við fullvirðisrétt mun sauðfé fækka enn frekar frá því sem nú er og þar með verða léttara að hafa það innan girðingar allt árið.
    Á þessu ári hefur verið unnið að þessu máli af hálfu landbúnaðarráðuneytisins, Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins með það að markmiði að lausaganga búfjár í Gullbringusýslu verði bönnuð frá og með áramótum 1990.
    Sl. sumar fóru fulltrúar ráðuneytisins og Landgræðslunnar á stjórnarfund hjá Samtökum sveitarfélaga á Suðurnesjum og lýstu þar hugmyndum sínum. Þar var þessu máli vel tekið og lýsti stjórn samtakanna stuðningi sínum við þær.
    Þann 25. nóvember var haldinn fundur þar sem fulltrúar allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum voru boðaðir, ásamt sýslumanni Gullbringusýslu, bæjarfógetanum í Hafnarfirði og framkvæmdastjórum SSS. Þar var markmiðið kynnt og rætt. Var ekki annað að heyra en fundarmenn væru sammála erindinu. Sérstaklega var undirstrikað að tíminn væri naumur í þessu máli og að krafa um girðingu meðfram Reykjanesbraut stæði óbreytt ef ekki tækist að koma á banni við lausagöngu búfjár á svæðinu frá ársbyrjun 1990.
    Þann 1. desember var síðan haldinn annar fundur um sama efni. Á þann fund voru boðaðir fulltrúar frá Búnaðarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda, Landssambandi sauðfjárbænda, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Vegagerð ríkisins, Náttúruverndarráði, Búnaðarsambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu, Félagi sauðfjárbænda í Gullbringu- og Kjósarsýslu, ráðunaut Búnaðarsambands Kjalarnesþings og félögum sauðfjárbænda af svæðinu. Alls mættu 18 aðilar á fundinn. Svo sem að líkum lætur voru skoðanir nokkuð skiptar, en umræður málefnalegar. Fram kom nauðsyn þess að fjárhólf væru undirbúin í tíma og að leitað yrði samninga við búfjáreigenda um þau.
    Í janúar sl. skipaði landbúnaðarráðherra fjögurra manna nefnd til að vinna frekar að framgangi málsins. Í henni eiga sæti Níels Árni Lund, deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, Ólafur R. Dýrmundsson, landnýtingarráðunautur Búnaðarfélags Íslands, Stefán H. Sigfússon landgræðslufulltrúi og Valur Þorvaldsson, ráðunautur Búnaðarsambands Kjalarnesþings.
    Nefndin hitti að máli fulltrúa frá Grindavíkurbæ, Vatnsleysustrandarhreppi og Hafnarfjarðarbæ ásamt fulltrúum fjáreigenda og landeigenda á svæðinu, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, formann gróðurverndarnefndar Gullbringusýslu og fulltrúa frá stjórn Reykjanesfólksvangs. Á grundvelli þeirra viðræðna lagði nefndin fram ákveðna tillögu um beitarhólf innan friðaða svæðisins og kostnaðarskiptingu vegna girðingaframkvæmda.
    Góðar vonir standa til að fullt samkomulag geti tekist um tilhögun búfjárhalds á svæðinu og gerð sérstakra beitarhólfa innan hins friðaða svæðis.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin kveður á um vörsluskyldu eigenda og forráðamanna búfjár. Rétt þykir að ákvæði þetta taki bæði til eigenda búfjár og forráðamanna ef þeir eru ekki eigendur. Nær vörsluskyldan til alls búfjár í því landi Gullbringusýslu, kaupstaða innan hennar, Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Bessastaðahrepps sem er vestan þeirrar girðingar sem fyrirhuguð er og gerð grein fyrir í lagagreininni.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. er vísað til girðingalaga nr. 10/1965, en þau lög hafa að geyma ákvæði um gerð og frágang girðinga. Hins vegar hefur 2. mgr. að geyma afmörkun á því til hvaða búfjártegunda lögin ná, þ.e. sauðfé, geitur, nautgripi og hross.

Um 3. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir gildistöku 1. janúar 1990, enda þykir eðlilegt að nokkur tími líði frá samþykkt laganna til gildistöku vegna þeirra ráðstafana sem eigendur og forráðamenn búfjár kunna að þurfa að gera.