Ferill 203. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 203 . mál.


Ed.

1173. Frumvarp til laga



um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

(Eftir 3. umr. í Nd., 12. maí.)



    Samhljóða þskj. 839 með þessum breytingum:

    26. gr. hljóðar svo:
    Uppgjör sjúkrasamlaga fyrir árið 1989 skal liggja fyrir eigi síðar en 1. júlí 1990.
    Eignir sjúkrasamlaga skulu renna til Tryggingastofnunar ríkisins.

    47. gr. hljóðar svo:
    Í stað 85. og 86. gr. laganna kemur ein ný grein er verður 82. gr. og orðast svo:
    Ríkissjóður greiðir allan kostnað af rekstri fræðsluskrifstofu, þar með talinn allan kostnað við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu í þeim skólum sem lög þessi taka til. Fjárveitingar til þessara starfa skulu greiddar mánaðarlega til fræðsluskrifstofu.
    Í reglugerð skal setja ákvæði um hvernig reikna skuli framlög til fræðsluskrifstofu.

    48. gr. hljóðar svo:
    Við lögin bætist ný grein er verði 83. gr. og orðist svo:
    Sveitarfélög greiða stofnkostnað grunnskóla, sbr. 23. gr. Jafnframt falla úr gildi að því er tekur til grunnskóla ákvæði laga nr. 49/1967, um skólakostnað. Þó skulu haldast ákvæði þeirra laga um verðtryggingu stofnkostnaðarframlaga ríkissjóðs að því er tekur til framkvæmda sem fullgerðar voru eða hafnar í árslok 1989. Menntamálaráðuneytið setur reglur um lágmarksstærð grunnskólahúsnæðis og búnað þess.

    49. gr. hljóðar svo:
    Í stað 5.–10. gr. í II. kafla laganna kemur ein ný grein, sem verði 5. gr., en töluröð greina, sem á eftir koma, breytist til samræmis við það. Greinin orðast svo:
    Bygging íþróttamannvirkja í þágu skóla og til almenningsnota er í verkahring sveitarfélaga.
    Sveitarstjórn veitir byggingarstyrki til íþróttafélaga og íþróttasamtaka eftir því sem ákveðið er í fjárhagsáætlun sveitarfélags.
    Alþingi veitir árlega fé í sjóð sem nefnist Íþróttasjóður. Fé úr sjóðnum skal veita til bygginga íþróttamannvirkja á vegum félaga sem um getur í 2. mgr. Íþróttanefnd gerir tillögur til fjárveitinganefndar um skiptingu fjárins.
    Í reglugerð, sem menntamálaráðuneytið setur, að höfðu samráði við íþróttanefnd og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, skal m.a. ákveða nánar um skilyrði fyrir opinberum styrkveitingum, rekstur og afnot mannvirkja sem njóta styrks.

    57. gr. hljóðar svo:
    1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Frá gildistöku laga þessara skal skemmtanaskatti ráðstafað, í samráði við fjármálaráðherra, til framkvæmda í lista- og menningarmálum og til forvarnarstarfa í áfengis- og fíkniefnamálum. Nánari ákvæði um ráðstöfun fjárins skal menntamálaráðherra setja í reglugerð.

    59. gr. hljóðar svo:
    2. gr. laganna orðast svo:
    Bygging og rekstur dagvistarheimila er í verkahring sveitarfélaga. Menntamálaráðuneytið skal hafa með höndum faglega umsjón með starfi dagvistarheimila og vera sveitarstjórnum til ráðuneytis um þau mál.
    Samþykki menntamálaráðuneytis og hlutaðeigandi sveitarstjórnar þarf til að setja á stofn dagvistarheimili.

    60. gr. hljóðar svo:
    3. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarstjórn ákveður byggingu og fyrirkomulag á rekstri dagvistarheimila í eigu þess samkvæmt lögum þessum.
    Sveitarstjórn getur veitt aðilum, sem reka vilja dagvistarheimili í samræmi við markmið þessara laga, styrki til byggingar og reksturs, eftir því sem ákveðið er í fjárhagsáætlun sveitarstjórnar. Áður en framkvæmdir hefjast skal ganga frá samningi milli sveitarstjórnar og félags um styrk og skilyrði varðandi rekstur heimilisins.

    62. gr. hljóðar svo:
    6. gr. laganna orðast svo:
    Menntamálaráðuneytið skal í samráði við stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga setja í reglugerð almenn ákvæði um húsnæði og búnað og viðmiðunarákvæði um barnafjölda og starfslið dagvistarheimila sem falla undir lög þessi.
    Nú hættir aðili, sem notið hefur opinbers styrks til stofnunar dagvistarheimilis, rekstri þess og getur þá hlutaðeigandi sveitarfélag gert kröfu um endurgreiðslu styrksins.

    71. gr. hljóðar svo:
    Í stað 12. gr. laganna (um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla) komi þrjár nýjar greinar svohljóðandi:
. a.     (12. gr.)
.      Menntamálaráðuneytið skal hafa með höndum faglega umsjón og eftirlit með tónlistarkennslu. Ráðuneytið ræður í þessu skyni námsstjóra tónlistarfræðslunnar til fjögurra ára í senn svo og annað nauðsynlegt starfslið.
.      Verkefni ráðuneytisins eru m.a.: yfirstjórn námsskrár- og námsefnisgerðar, sbr. 3. tölul. 1. gr., samræming náms, prófa og réttinda er þau veita, aðstoð varðandi ráðningar kennara, ráðgjöf varðandi gerð starfs- og fjárhagsáætlana skóla, upplýsingamiðlun og erlend samskipti.
b.     (13. gr.)
.      Ráðuneytið skipar fimm manna samstarfsnefnd tónlistarfræðslunnar til að fjalla í heild um starfsemi tónlistarskóla, samstarf skólanna og/eða rekstraraðila þeirra svo og samstarf tónlistarskóla við grunnskóla og framhaldsskóla.
.      Í nefndinni eiga sæti einn fulltrúi tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga, einn fulltrúi tilnefndur af Samtökum tónlistarskólastjóra, einn fulltrúi tilnefndur af Félagi tónlistarskólakennara, námsstjóri tónmennta í grunnskólum, skipaður án tilnefningar, námsstjóri tónlistarfræðslunnar, skipaður án tilnefningar, og er hann jafnframt formaður nefndarinnar.
. c.     (14. gr.)
.      Menntamálaráðuneytið setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um starfshætti og verkefni samstarfsnefndar tónlistarfræðslunnar.

    72. gr. hljóðar svo:
    21.–24. gr. og 26.–27. gr. laganna falla brott en töluröð annarra greina breytist til samræmis við það.

    73. gr. hljóðar svo:
    28. gr. laganna, sem verði 22. gr., orðast svo:
    Af tekjum til vegamála samkvæmt lögum um fjáröflun til vegagerðar skal árlega veita ákveðna fjárhæð til sýsluvega. Vegamálastjóri annast skiptingu fjárins milli sýslna eftir reglugerð sem ráðherra setur. Við skiptingu skal aðallega miða við notkun og lengd þeirra sýsluvega í hverri sýslu sem falla undir a-c-liði 2. mgr. 19. gr., en jafnframt skal þó höfð hliðsjón af því hve mikill hluti þeirra vega er lagður, ruddur eða ekki akfær.

    74. gr. hljóðar svo:
    Felld eru úr gildi lög nr. 23/1955, um landshöfn í Keflavíkurkaupstað og Njarðvíkurhreppi, lög nr. 38/1951, um landshöfn í Rifi á Snæfellsnesi, og lög nr. 61/1966, um landshöfn í Þorlákshöfn, með síðari breytingum. Um hafnir þessar skulu gilda hafnalög, nr. 69/1984.

    75. gr. hljóðar svo:
    Ríkissjóður greiðir sveitarfélögum og félagasamtökum framlög vegna áfallinna skuldbindinga ríkissjóðs við byggingu dagvistarheimila, grunnskóla, íþróttamannvirkja og félagsheimila miðað við stöðu framkvæmda í árslok 1989. Við mat á þessum skuldbindingum ríkissjóðs skal miða við núgildandi lagaákvæði um hlutdeild ríkissjóðs í byggingarkostnaði fyrrgreindra mannvirkja svo og sérsamninga sem gerðir hafa verið við einstök sveitarfélög um skólamannvirki.
    Þátttaka ríkissjóðs í framkvæmdum, sem unnar eru á árinu 1989, skal þó miðuð við þau framlög sem eru á fjárlögum 1989.
    Náist ekki samkomulag milli ríkissjóðs annars vegar og sveitarfélaga eða félagasamtaka hins vegar um kostnaðaruppgjör skv. 1. og 2. mgr. geta aðilar fyrir 1. janúar 1992 lagt málið til endanlegs úrskurðar nefndar sem starfa skal meðan unnið er að kostnaðaruppgjöri samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Nefndin skal skipuð þremur mönnum, einum tilnefndum af menntamálaráðherra, einum tilnefndum af stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og oddamanni tilnefndum af Hæstarétti Íslands. Meiri hluti ræður úrslitum mála, en fáist ekki meiri hluti skal oddamaður skera úr.
    Um skiptingu fjár samkvæmt þessari grein skal fara eins og og mælt verður fyrir um í fjárlögum fyrir árin 1990–1993, enda verði greiðslu lokið að fullu á því árabili.
    Menntamálaráðherra setur reglugerð í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um framkvæmd þessarar greinar.

    76. gr. hljóðar svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990. Jafnframt falla úr gildi önnur þau lagaákvæði en að framan eru talin sem kunna að brjóta í bága við þessi lög.
    Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella þau inn í meginmál þeirra laga sem þau breyta og gefa þau lög út svo breytt.