Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Þrír hæstv. ráðherrar hafa hér flutt varnarræður gegn gagnrýni minni og ádeilum um heimildalausa meðferð á fjármunum ríkisins. Ég verð að játa það að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þessar ræður. Einn þessara hæstv. ráðherra gerði þó tilraun til þess að svara efnislega. Það var hæstv. viðskrh., staðgengill utanrrh. Hann svaraði nokkurn veginn efnislega því sem um var spurt. Hann lét þó falla athugasemdir sem sýndu að hann hafði ekki tekið nægilega eftir minni ræðu. Ég lét aldrei liggja að því að heimasendiherrar utanrrn. væru án heimilda. Það kom glöggt fram í minni ræðu. Ég hirði ekki um að svara þeim útúrsnúningum sem hann reyndi að draga út úr minni ræðu, en ég tek það fram að ég er ráðherranum ósammála um nauðsyn þess að ráða nú til utanrrn. sérstakan sérfræðing í afvopnunarmálum með tilliti til þess að ríkisstjórnin hefur ríkisrekna nefnd og ríkisrekna starfsmenn á sínum snærum til að sinna þessu verkefni. Og hæstv. fjmrh. ætti að vera best kunnugt um það, þótt í smáu sé, að mannaráðningar hafa í för með sér útgjöld ríkissjóðs sem ekki verða til þess að létta það dæmi sem hann þarf að fást við, það verkefni sem hann hefur gefist upp við en það er að ná tökum á fjármálum ríkisins.
    Ræður þeirra tveggja hæstv. ráðherra, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., ollu mér hins vegar miklum vonbrigðum. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson hefur hér gert að umtalsefni aðalatriðin úr þessum ræðum og ég get þess vegna stytt mitt mál um þau atriði. Það sem blasti við og er meginatriði þessa máls er að þessir tveir hæstv. ráðherrar virðast ekki gera sér grein fyrir því, ellegar neita að staðfesta það, að þeim ber að fylgja lögum og reglum. Þeim ber að hlíta þeim heimildum og lagaákvæðum sem Alþingi setur. Ræður þeirra voru á þann máta að annaðhvort er þetta þeim óljóst, þeir halda að þeir geti farið fram með sínar ákvarðanir og sínar gerðir að eigin geðþótta án tillits til laga, án tillits til reglna, ellegar að þeirra skoðanir, eins og hjá hæstv. fjmrh. á því hvernig beri að reka íslenskt stjórnkerfi, séu æðri íslenskum lögum og reglugerðum. Þetta er hið alvarlega við svör þessara tveggja hæstv. ráðherra og þetta kom glöggt fram í máli hv. 1. þm. Suðurl. En það er sannarlega alvarleg staða fyrir Alþingi og fyrir íslenska þjóð þegar forystumenn í ráðherrastólum halda fram slíkum skoðunum hér á Alþingi.
    Ég tel, þrátt fyrir það að þetta séu meginatriðin sem við blasa eftir þessa umræðu, ástæðu til þess að fara yfir örfá atriði af því sem fram kom í máli þessara tveggja hæstv. ráðherra.
    Í fyrsta lagi var það engin gleymska hjá mér, hæstv. fjmrh., að ráðherra hefur lýst því yfir að hann muni flytja frv. til fjáraukalaga. Þær yfirlýsingar hefur hann gefið eftir fundi með fjvn. þar sem fjvn. hefur lagt á þetta mikla áherslu. Og ég get talað alveg hreint út um það að í því er fólgin viss framför. En við eigum eftir að sjá þetta frv.
    Það leysir hann hins vegar ekki undan þeirri skyldu

að fara að lögum og heimildum sem Alþingi hefur veitt honum sem eiga að gilda þangað til hann hefur aflað nýrra heimilda. Samanburður hans um aukafjárveitingar var allt í senn villandi og kom ekki þessu máli við, enda tók ég fram í minni frumræðu að ég gerði þær ekki að sérstöku umtalsefni. Aukafjárveitingar hafa tíðkast um langa tíð og á þær hefur verið litið með þeim hætti að þær helgist af venjubundnum rétti þrátt fyrir afdráttarlaus ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er hins vegar svo að þær tillögur sem við erum að vinna upp í undirnefnd fjvn. byggjast á ákvæðum stjórnarskrárinnar og að taka fyrir þá frjálslegu meðferð fjármuna ríkisins sem hafa verið fólgnar í svokölluðum aukafjárveitingum.
    Hæstv. ráðherra leyfði sér það í viðurvist margra fjárveitinganefndarmanna að mótmæla því að með þann lista, sem hann afhenti fjvn. 13. júlí, ætti að fara að hans ósk sem trúnaðarmál. Hann leyfði sér að mótmæla því í viðurvist okkar margra úr fjvn. Og hann sagði sem svo að ef hann hefði óskað að láta þetta koma fyrir fjölmiðla þá hefði hann þurft að búa það út með öðrum hætti, setja upp lengri greinargerðir o.s.frv. Þessi listi er hérna. Hann er nákvæmlega eins og slíkir listar hafa verið í áraraðir, nákvæmlega eins að formi til. Skýringarnar eru hérna og hæstv. ráðherra þarf ekkert að bæta úr því sem hér er á blaði. Í orðum hæstv. ráðherra var því hvort tveggja útúrsnúningur og ósannindi.
    Það kemur ekkert þessu máli við að ýmis vinnugögn, gögn sem eru til meðferðar í fjmrn. og í fjvn. eða annars staðar í stjórnkerfinu eru stundum lögð fram og rædd á fundum með fjvn. og er að sjálfsögðu nauðsynlegt að fara með slík gögn sem trúnaðarmál. Það er alveg gerólíkt. Það eru mál sem eru á vinnslustigi, mál sem leitað er til fjvn. um álit á og eðlilegt að ræða öll slík mál sem trúnaðarmál. Ef rætt væri við fjvn. um það hvort rétt væri að veita aukafjárveitingu í þetta mál eða hitt, hvort það ætti að veita þessa fjárhæð eða hina í eitthvert málefni og það væri ekki ákveðið, það væri ekki frágengið, þá væri eðlilegt að það væri trúnaðarmál. En þegar ákvörðun er tekin og greiðsla fer fram, þá er það ekki lengur trúnaðarmál, þá er það
opinbert mál. Og á þessu held ég að hæstv. fjmrh. ætti að geta gert greinarmun og ætti að geta skilið.
    Það sem hæstv. ráðherra sagði hér um húsakaup og þau svör hans við spurningum mínum um það atriði voru mjög ófullkomin. Það sem ég hef hér fyrir framan mig er örstutt greinargerð frá fjmrn. Stofninn úr þeirri greinargerð birtist síðan í athugasemdum með fjárlagafrv. En þessi greinargerð kemur inn á borð fjvn. að minni ósk vegna þess að fjvn. var beðin um álit á kaupum á einu húsi, húseign til starfsemi Listdansskóla Þjóðleikhússins. En í fjárlögum þessa árs er heimild --- og takið nú eftir --- þar er heimild til þess að kaupa eða leigja hús fyrir starfsemi Listdansskóla Þjóðleikhússins, þannig að í því felst ekki á nokkurn máta að það sé út fyrir heimildir Alþingis.
    Þegar ósk kom fram um það að fjvn. liti á þetta

mál, þá óskaði ég eftir því að fá greinargerð um aðrar fyrirætlanir hæstv. ráðherra eða hæstv. ríkisstjórnar í húsakaupum og ég fékk þetta blað. Og skýringar starfsmanns ellegar starfsmanna ráðuneytisins voru í rauninni þær að tvær af þessum húseignum hefðu verið teknar upp í söluskattsskuld. Það var ekki Fannborg 4, Kópavogi, það er Fannborg 6. Og það er Norðurvangur 32 í Hafnarfirði. Hvort sem á þessar eignir hefur verið slegið einhverju verðmætamati og það látið mætast í greiðslum, þá er hér í hæsta máta farið á tæpu vaði og auðvitað hrein lögbrot ef um það er að ræða að þessar húseignir séu teknar sem góð og gild greiðsla á opinberum gjöldum. Og það sannast þegar í stað með þessu plaggi og það sannast í athugasemdum með fjárlagafrv. að ríkið hefur ekkert með þessar eignir að gera og það kemur ekki þar fram að það sé neitt í tengslum við bæjarfógetaembættið í Kópavogi vegna þess að í þessu plaggi og í fjárlagafrv. er strax farið fram á heimild til að selja þessar eignir sem sannar það að hæstv. fjmrh. telur að ríkið hafi ekkert með þetta að gera. Eignir sem hann hafði enga heimild til þess að kaupa eða taka við upp í opinber gjöld. Enga heimild.
    Ég held að það þurfi tæplega að fara mörgum fleiri orðum um vörn hæstv. ráðherra varðandi mannaráðningar. Það er ljóst að starfsmenn eru ráðnir án heimilda. Það er ljóst. Og það er líka ljóst að hæstv. fjmrh. ræður sér pólitíska aðstoðarmenn í sitt ráðuneyti með þeim hætti að gengur alveg á svig við ákvæði reglugerðar um Stjórnarráð Íslands. Við getum deilt um það hvort nota á orðið að gengið sé á svig við eða að reglugerðin sé brotin og það er hreinlega óhætt að segja það. Það er þannig. Það er þetta sem ég sætti mig ekki við, bæði þetta og annað í svörum hæstv. ráðherra, að vegna þess að það sé mikilvægt fyrir fjmrn. að hafa efnahagslegan ráðunaut og það sé mikilvægt fyrir fjmrn. að hafa upplýsingafulltrúa eða blaðafulltrúa, þá sé bara sjálfsagt að brjóta reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Það sé bara sjálfsagt, enda hafi þetta verið gert af fyrirrennara hans og það er raunar satt. Þar sagði hæstv. ráðherra satt því hæstv. fyrrv. fjmrh., Jón Baldvin Hannibalsson, braut einnig þessi sömu ákvæði í þessari reglugerð. Og hann gerði raunar enn þá meira vegna þess að hann setti á fót nýja deild, hagdeild innan ráðuneytisins án allra heimilda.
    Hæstv. ráðherra sagði: Hagdeildin er nauðsyn. Hæstv. ráðherra sagði: Efnahagsráðgjafi er eina viðbótin í minni tíð. En hvort tveggja hefur verið gert án heimilda Alþingis og án heimilda í reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Og hvort tveggja er því þess efnis að Alþingi á að krefjast þess að því fólki sem þar starfar sé sagt upp ellegar að þessari reglugerð sé breytt. En að því var ekki ýjað einu einasta orði í máli hæstv. fjmrh. Hann virðist telja það sjálfsagt og raunar guma af því að geta farið sínu fram um mannaráðningar, um ákvarðanir er kosta útgjöld ríkissjóðs á þann hátt að það þjóni því sem hann telur vera skynsamlegt eða gott fyrir ráðuneytið eða gott fyrir sig, jafnvel gott fyrir íslenska þjóð, þó að það sé

andstætt og í bága við reglugerð og heimildir frá Alþingi. Ég segi fyrir mig að það er ekki við því að búast að Alþingi líði vel undir þeim kringumstæðum að þetta sjónarmið sé ríkjandi hjá æðstu ráðamönnum þjóðarinnar. Þess vegna hlýtur að koma að því að þegar æðstu ráðamenn þjóðarinnar hugsa á þennan máta þá hljóta það að verða fleiri en stjórnarandstæðingar sem kjósa það að knýja þessa ríkisstjórn frá hið allra fyrsta.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að eyða fleiri orðum að ræðu hæstv. fjmrh. Megineinkenni hennar hafa komið fram og þau valda vonbrigðum. Þau valda sannarlega áhyggjum.
    Hæstv. forsrh. sagði í sínu svari eitthvað á þá lund að hann teldi að það væri rangt hjá mér sem málshefjanda að um lögbrot væri að ræða að ráða starfsmann sem deildarstjóra í forsrn. með starfssviði utan ráðuneytis. Og hann var býsna hróðugur yfir því að hæstv. ríkisstjórn hefði samþykkt að sú skipan skyldi halda áfram, og enn að það hefði á hinn bóginn verið mesta skömm fyrir ríkisstjórnina og líklega Alþingi ef þessum ágæta hv. þm. Stefáni Valgeirssyni hefði ekki verið útveguð sómasamleg aðstaða, væntanlega þá til þess að geta stutt ríkisstjórnina. Ég hlýt að lýsa vonbrigðum mínum með þessa afstöðu hæstv. forsrh. sem lýsir í raun sambærilegum viðhorfum þó í hófsamari
orðum væri fram sett heldur en hjá fjmrh. Ég held að það séu engin tvímæli að hér er um að ræða brot á reglum og lögum um Stjórnarráðið, lögum um ráðningu opinberra starfsmanna eins og fram kom raunar og þarf ekki að ítreka hjá hv. þm. Geir H. Haarde. Ég vitnaði til þess að þetta er í eðli sínu sambærilegt við það að ráða skrifstofustjóra í forsrn. sem væri ritstjóri t.d. á DV, óháðu dagblaði, ellegar fréttastjóri á óháðum ríkisfjölmiðli í þeim tilgangi að þessir fjölmiðlar væru nú vinsamlegir ríkisstjórninni. Þetta er sambærilegt. Það hlýtur að hryggja mig að skynja siðferðisvitund hæstv. forsrh. á þessu stigi. Það hlýtur að hryggja mig.
    Síðan tala menn hér alltaf um það, eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson sem ekki er þingflokkur, að hann njóti einskis stuðnings frá Alþingi eða á fjárlögum í tengslum við þá aðstoð sem veitt er til þingflokka. Þetta er rangt. Hann nýtur þar einnig stuðnings, fjárhagslegs stuðnings. Og eftir þeim gögnum sem ég hef séð, þá fær þessi hv. þm. á þessu ári talsverða fjárhæð, um 685 þús. kr. Eðlilegt er að sú fjárhæð væri notuð, og er til þess ætlast að sú fjárhæð sé notuð til þess að standa straum af kostnaði við aðstoð. En hæstv. forsrh. er mjög ánægður yfir því að hafa til viðbótar lagt manninum sem annast þessa aðstoð til deildarstjóralaun í forsrn.
    Ég held að það sé ekki tilefni til þess fyrir mig að svara ræðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar. Hans ræða var nú stutt. Hann var undrandi á ræðu minni og mest undrandi á því að ég skyldi ekki skilja það að annaðhvort varð hann að taka ráðuneyti, eins og hann orðaði það, eða aðstoðarmann. Hv. þm. Stefán Valgeirsson, sem því miður er ekki hér viðstaddur, var

allra mest hissa á því að ég skyldi ekki skilja að hann varð að gera annað hvort. Það hefði verið mér til mikillar ánægju að sjá hv. þm. Stefán Valgeirsson í ráðherrasæti í stað einhvers hinna sem þar eru nú. En úr því að hann gerði það ekki, úr því að hann varð ekki ráðherra, þá er hann þingmaður eins og ég og við hin og hefur engan rétt til þess að hæstv. forsrh. leggi honum til sérstakan deildarstjóra uppi í forsrn. honum til aðstoðar. Hæstv. forsrh. getur þá alveg eins sett á laggir stöðu og gert að deildarstjóra mann sem væri mér til aðstoðar. Alveg eins. Ég á sama rétt og þessi þingmaður, nákvæmlega sama rétt. Kannski verður það niðurstaðan því að hæstv. forsrh. ýjaði að því að hann hefði í hyggju að breyta ákvæðum um þessi efni. ( Fjmrh.: Þú gerðir það sama 1980.) Þess er ekki nokkur von að ég yrði keyptur til að styðja núv. ríkisstjórn, enda er ég sem óbreyttur þingmaður í sama rétti með opinbera aðstoð eins og óbreyttur þingmaður í liði hæstv. ríkisstjórnar, nákvæmlega sama rétti. Og það er ekki einasta lögbrot heldur eins og ég sagði í fyrri ræðu minni og hneyksli, það er siðleysi að mismuna alþingismönnum á þennan hátt með því að borga stórfé í aðstoð fyrir það að þeir eru stuðningsmenn tiltekinnar ríkisstjórnar. Það er siðleysi af hæstu gráðu. ( Forsrh.: Ég fæ nú ekki séð að Stefáni Valgeirssyni sé greitt stórfé.) Aðstoðarmanni hans.
    Ég verð að segja það að ég hef því miður áður heyrt hjá einum fjarstöddum hæstv. ráðherra í þessari ríkisstjórn sambærileg viðhorf og hér hafa komið fram hjá þessum tveimur ráðherrum um virðingu þeirra fyrir lögum og rétti.
    Á fjölmennum fundi norður í Miðfirði sl. vor sagði einn hæstv. ráðherra úr flokki hæstv. fjmrh. þegar rætt var um það hvort tiltekin ákvörðun í einu ráðuneyti, hvort tiltekin reglugerð stæðist lög eða ekki, þá var meginsvar hans þetta: Það er tittlingaskítur hvort hún stenst lög eða ekki. Vandamálin eru af öðrum toga. Ef þetta er almennt sjónarmið ráðherra í hæstv. ríkisstjórn þá er ekki von að hún hafi fylgi meðal þjóðarinnar.