PCB-mengun
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegur forseti. Það er aðeins örstutt út af þeirri áréttingu eða þeirri fsp. sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda Hjörleifi Guttormssyni um aðstöðu Hollustuverndarinnar. Það er alveg ljóst að staða Hollustuverndar til starfa sinna hefur á undanförnum árum alls ekki verið nægjanlega góð. Hins vegar eru nú að verða breytingar þar á. Hollustuverndin er að fá nýtt húsnæði og er þar m.a. verið að vinna við uppbyggingu rannsóknastofu á vegum Hollustuverndarinnar svo að ég vænti þess að þar verði betri aðstaða til að fylgjast með þessu svo og öðrum verkefnum sem stofnuninni eru falin og allir vita að eru mjög mikilvæg og mikilvægt að vel sé fylgst með okkar umhverfismálum. Þar gegnir Hollustuverndin veigamiklu hlutverki.
    Svo er rétt að árétta það aftur að þessa reglugerð, sem er þó ekki nema u.þ.b. ársgömul, þarf að endurskoða í ljósi nýrra upplýsinga og fenginnar reynslu og þeirrar staðreyndar líka að aðrar þjóðir, m.a. nágrannaþjóðir okkar sumar, hafa sett miklu strangari reglur en þær sem við settum í þessari reglugerð fyrir u.þ.b. einu ári síðan en vísinda- og eftirlitsmenn okkar telja nú ástæðu til að endurskoða. Við verðum líka að hafa það í huga að það getur haft í för með sér verulega kostnaðarsamar aðgerðir ef uppræta á PCB-efni úr jarðvegi þar sem það kann að leynast en auðvitað verðum við að hafa það í huga líka, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, að þetta er hættulegt efni og við verðum að reyna að forða því úr umhverfi okkar eftir því sem nokkur tök verða á.