Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Hæstv. forseti, hv. þm. Þó að ég sé kannski einn af fáum þingmönnum Reykjavíkur sem búa það vel að eiga föður sem á fullvirðisrétt á Reykjanesi, þá er ég hræddur um að í þessari umræðu verði ég að svíkja lit sem hálfgildings bóndasonur og velta þessu máli fyrir mér frá sjónarhóli Reykvíkinga.
    Mér finnst þessi umræða undirstrika þörfina á því að það sé tekið af alvöru á landbúnaðarmálum og sé reynt að leysa þessi mál úr þeirri sjálfheldu sem þau virðast vera komin í, að það sé tekið á þessu eins og atvinnugrein. Það blasa líka ákveðnir erfiðleikar við fólki í Reykjavík. Það eru veitingahús að loka hér, næstum því í hverjum mánuði. Það eru eigendaskipti í hverri viku, sem fólk tekur ekki eftir þegar einn maður gefst upp og annar tekur við. Söluturnar eru að loka um alla borgina. Það eru verslanir, það eru iðnfyrirtæki og við getum haldið áfram í aðrar iðngreinar úti á landi. Við skulum taka skipasmíðar, málmiðnað. Það er ekki hlaupið upp til handa og fóta þó að heilu atvinnugreinarnar séu komnar á vonarvöl og séu að leggjast niður, fólk sé að verða gjaldþrota. Nú er ég ekki að mæla því bót að það séu brotin lög á bændum nema síður væri. En þessi umræða verður vonandi til þess að við endurskoðum landbúnaðinn og auðveldum honum í rauninni að komast inn í atvinnulífið á Íslandi eins og hver önnur atvinnugrein þannig að hér þurfi ekki menn að koma upp og segja: Af hverju eru greiðslur ekki komnar á þessum degi, af hverju fáum við ekki neinar greiðslur? Að í framtíðinni fái bændur sínar greiðslur um leið og þeir eiga sín viðskipti beint við landsmenn.