Greiðslur afurðaverðs til sauðfjárbænda
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Það hefur verið athyglisvert í þessari umræðu að nokkrir þm. Framsfl. hafa hlaupið til varnar fyrir hæstv. landbrh. með því að vitna í landsfund Sjálfstfl. Þess vegna er ástæða til þess að menn átti sig á því nákvæmlega hvað þar gerðist. Landsfundur Sjálfstfl. samþykkti mjög ítarlega ályktun um landbúnaðarmál þar sem mörkuð var stefna í þeim málaflokki og þar var sérstaklega tekið fram að það væri ekki efni til að hefja innflutning á landbúnaðarvörum. Hins vegar komu fram í skýrslu, sem svokölluð aldamótanefnd samdi, hugleiðingar um að það kæmi til greina, undir aldamótin, að opna glufu til innflutnings á landbúnaðarvörum. En það vekur auðvitað athygli að þessir þingmenn Framsfl. skuli verja hæstv. landbrh. með þessum hætti. Þeir skuli taka upp hanskann fyrir hann þegar hann er að brjóta bæði búvörusamning og búvörulög með framgöngu sinni í þessu máli. Það er líka athyglisvert að þeir minnast ekkert á Alþfl. sem hefur þá sérstöku stefnu í landbúnaðarmálum að hefja innflutning á landbúnaðarvörum nú þegar. Alþfl. hefur birt þá stefnu en framsóknarmenn telja sig sennilega ekkert eiga vantalað við Alþfl. vegna þess að þeir sitja með hann í fanginu og þaðan getur Alþfl. sig ekki hreyft.
    Mér þótti nauðsynlegt að þessi athugasemd kæmi hér fram vegna þessarar sérstöku varnarræðu sem nokkrir þm. Framsfl. hafa hér flutt.