Verndun vatnsbóla
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég er einn af flm. þessa máls sem hér hefur verið mælt fyrir og þarf ekki að lýsa með öðrum hætti yfir stuðningi við tillöguna. Það sem ég vildi segja hér, nú þegar till. er flutt öðru sinni, er að ég vænti þess að mál þetta fái skjóta og góða meðhöndlun af þeirri þingnefnd sem fær það til meðferðar. Ég tel að þetta sé mjög þarft mál sem er hér á ferðinni og æskilegt að það dragist ekki lengi að það fari til framkvæmdarvaldsins til athugunar og tekið verði á málum með þeim hætti sem till. gerir ráð fyrir. Þar reynir auðvitað á þá aðila sem eiga að taka við málinu í sambandi við meðferð skipulags. Þetta á ekki að vera kostnaðarsamt, a.m.k. ekki í upphafi. Þó að gert sé ráð fyrir rannsóknum af ýmsu tagi, þá geta þær komið á seinni stigum þær sem kostnaðarsamari eru en aðalatriðið er að það sé hafist handa við undirbúning í þá átt sem till. gerir ráð fyrir.
    Ég er viss um það að formaður allshn. sem er viðstaddur þessa umræðu muni taka á þessu máli sem þegar hefur fengið umsögn aðila og ég vænti þess að við fáum það aftur inn í þingið frá nefndinni fyrir lok þessa árs þannig að það verði ekki langur dráttur á því að við getum tekið afstöðu til málsins.