Unnar Þór Böðvarsson:
    Hæstv. forseti. Hv. áheyrendur.
    Fyrir u.þ.b. einu ári síðan tók núv. ríkisstjórn við af ríkisstjórn þriggja flokka sem við lítinn orðstír hafði setið í rúmt ár. Þrír flokkar mynduðu þessa ríkisstjórn undir forustu Sjálfstfl. Ríkisstjórn þessara flokka var lítt starfhæf vegna innbyrðis átaka og Sjálfstfl. var leystur frá störfum í Stjórnarráðinu af því að hann réði ekki við það verkefni sem hann hafði tekist á hendur, þ.e. að halda saman starfhæfri ríkisstjórn.
    Þeir flokkar sem nú fara með völd hafa átt gott samstarf á því ári sem ríkisstjórnin hefur starfað og fram undan er tími sem verulega hlýtur að reyna á samstarfsvilja þeirra. Fram undan er það að skapa atvinnuvegunum varanleg rekstrarskilyrði. Með auknum þingstyrk stjórnarinnar ætti hún að móta og festa í sessi félagslegar áherslur í stjórnvaldsaðgerðum þegar tekið er á vandamálum samfélagsins.
    Í mörgu hefur verið farið vel af stað og gefur það okkur vonir um að ríkisstjórninni ætli að takast að vinna þjóðarbúið út úr þeim margþættu erfiðleikum sem að steðja. Nú þegar þarf að marka ákveðna stefnu í atvinnumálum sem taki mið af því hve byggðin í landinu er dreifð. Landbúnaðinn verður að treysta með bættu skipulagi þar sem tekið er mið af landgæðum og félagslegri stöðu þeirra sem þennan atvinnuveg stunda. Standa verður fast á móti öllum hugmyndum um innflutning á landbúnaðarafurðum. Í samgöngumálum verða framkvæmdir fyrst og fremst að miðast við þarfir þeirra sem á viðkomandi svæðum búa. Stefna ber að úrvinnslu sjávarafurða í mun meiri mæli en nú er gert og við stjórnun á útflutningi á ferskum fiski verður að huga að atvinnuástandi í sjávarplássunum vítt og breitt um landið. Tryggja ber aukna stjórnun heimamanna á eigin málefnum með því að flytja umsýslu- og stjórnunarstörf út í kjördæmin.
    Í menntmrn. eru í gangi mörg mál sem marka munu spor í íslensku þjóðlífi. Í því sambandi vil ég nefna umfjöllun um málefni leikskóla.
    Stofnun umhverfismálaráðuneytis hefur lengi verið baráttumál Alþb. Nú er það mál í höfn og má vænta þess að umhverfismál og umhverfisvernd fái aukið vægi í stjórnmálaumræðu framtíðarinnar.
    Friðarumræðan í heiminum undanfarin ár hefur gert að verkum að stór hluti mannkyns hefur orðið meðvitaður um það þvílík ógn öllu mannkyni vígbúnaðarkapphlaupið er. Viðhorfsbreyting til hernaðaruppbyggingar hjá almenningi og ráðamönnum margra ríkja er staðreynd og tíminn vinnur með okkur í þessum efnum. Þess verður ekki langt að bíða að hernaðarbandalög í þeirri mynd sem við þekkjum þau heyri sögunni til. Í kjölfar þess eru forsendur fyrir hersetu Bandaríkjahers á Íslandi brostnar.
    Í launamálum er vandinn hvað mestur í íslenskum stjórnmálum í dag. Við stöndum frammi fyrir gífurlegu launamisrétti þó tekist hafi að verja kaupmátt lægstu launa. Stór hópur fólks hefur vart til hnífs og skeiðar og á í mestu erfiðleikum með að láta enda ná

saman. Í ræðu hæstv. forsrh. kom fram að ríkisstjórnin er með áform uppi um að lækka framfærslukostnað heimilanna, og kemur það að sjálfsögðu þeim mest og best til góða sem mesta ómegðina hafa. Það eitt að lækka framfærslukostnað dugar bara einfaldlega ekki til að leysa vanda þeirra sem við lökust kjörin búa. Hjá þeim tekjulægstu verður að koma til veruleg kauphækkun samfara þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin er með í undirbúningi.
    Til þess að þessi lagfæring á stöðu þeirra sem við lökust kjörin búa verði að veruleika en ekki innantóm loforð verður að koma til hugarfarsbreyting í þjóðfélaginu hvað varðar kjaramál. Í fyrsta lagi verður með stjórnvaldsaðgerðum að sækja peninga þangað sem þeir eru til að standa straum af kostnaði við launajöfnun. Í öðru lagi verður neyslukapphlaupinu að linna. Það er ekki líðandi að áróðursmeistarar viðskiptalífsins með auglýsingatækni sinni séu búnir að hirða framfærslueyri fjölskyldunnar áður en launin koma til útborgunar. Í þriðja lagi verður fólk að neita því sem sjálfgefnu að launamunur sem hleypur á nokkrum hundruðum prósentustiga sé réttmætur. Öll samtök launafólks í landinu verða að gera með sér kjarasáttmála sem tryggir jafnrétti í launum. Það verður að tryggja það með lagasetningu, ef ekki vill betur, að lagfæring á launum þeirra sem minnst bera úr býtum fari ekki með margfeldiáhrifum upp allan launastigann eins og svo oft hefur gerst. --- Góðar stundir.