Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Það er afar vinsælt um þessar mundir að gera skoðanakannanir og þá er spurt: Finnst þér ríkisstjórnin góð, finnst þér ríkisstjórnin vond? Flestir svara svo að núv. ríkisstjórn sé vond og ekki á vetur setjandi. Það kemur raunar ekki á óvart á erfiðleikatímum þegar gera þarf ráðstafanir sem lítt eru til vinsældar fallnar. Næsta ár verður þriðja samdráttarárið í röð í íslenskum þjóðarbúskap og þetta ár, 1989, er fimmta árið í röð sem ríkissjóður Íslands er rekinn með halla. Hallinn var líka fyrir hendi þegar hér var góðæri. Það er bara eins og sumir séu búnir að gleyma því núna. Það er staðreynd að við höfum lifað um efni fram um árabil, eytt meiru en við höfum aflað, nöturleg staðreynd sem við fáum ekki umflúið.
    Haustið 1988 var hér allt að komast í óefni. Hrun blasti við í atvinnurekstri, fyrirtækin voru að stöðvast og stórfellt atvinnuleysi var á næsta leiti. Þá var vissulega úr vöndu að ráða. Þá sátu þrír flokkar í stjórn. Forustan var í höndum stóra flokksins, Sjálfstfl., en í Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg var kjarkurinn ekki fyrir hendi. Þar ríkti ráðleysi og þar var úrræðaleysið í algleymingi á haustdögum 1988. Sjálfstfl. var ekki tilbúinn til að takast á við vandann, skorti hugrekki til að bera ábyrgð á erfiðum ákvörðunum.
    Alþfl., Framsfl. og Alþb. mynduðu nýja stjórn með nauman meiri hluta. Engu að síður tókst stjórninni, vissulega með umdeildum ráðstöfunum, að koma í veg fyrir hrun í höfuðatvinnugrein og lífsundirstöðu okkar með sértækum aðgerðum sem voru mikið gagnrýndar, en sem báru árangur. Það var ekki atvinnuleysi, það var ekki stöðvun og hrun í útgerð og fiskvinnslu og verðbólgan hefur ekki vaðið áfram, þótt vissulega sé hún meiri en við vildum. Skv. skoðanakönnunum nýtur Sjálfstfl. nú meiri vinsælda en nokkru sinni fyrr og fitnar á fjósbitanum eins og fyrirbærið í þjóðsögunni forðum. Flokkurinn sem hafði engin úrræði og fórnaði höndum við landsstjórnina og gafst upp. En í ljósi hinna miklu vinsælda er rétt að spyrja og ég veit að þið spyrjið líka sem enn kunnið að vaka og hlusta á þessa umræðu: Hver eru úrræði sjálfstæðismanna? Ég get ekki svarað því. Þeir hafa ekki svarað því á Alþingi. Þeir svöruðu því ekki á landsfundinum á dögunum og þeir hafa svo sannarlega ekki svarað því hér í kvöld.
    Hamingjuhjólið snýst mönnum og flokkum á ýmsan veg og það er ekkert hætt að snúast. En það er gott ef forustu Sjálfstfl. líður vel núna þegar hún baðar sig í vinsældasljósi skoðanakannana. En hér eins og ævinlega skal spyrja að leikslokum en ekki vopnaviðskiptum.
    Ríkisstjórnin kemur nú til þings með styrkari meiri hluta en í fyrra. Það mun gera henni auðveldara að koma sínum málum fram. Nú er hjalli að baki. Nú skiptir mestu að skapa atvinnuvegunum almenn rekstrarskilyrði. Tími hinna sértæku ráðstafana er liðinn. Við þurfum að losa okkur úr því

millifærslukerfi sem nauðsynlegt var að taka upp um tíma. Við höfum náð fram vaxtalækkunum, verulegum vaxtalækkunum. Við höfum verið í vörn en nú getur farið í hönd tími sóknar.
    Tvennt er það sem skiptir okkur Íslendinga höfuðmáli um þessar mundir. Undir forustu ráðherra Alþfl. er nú unnið að þeim málum sem koma til með að skipta okkur mestu á komandi árum, sem koma beinlínis til með að ráða örlögum okkar, afkomu og lífskjörum. Undir handleiðslu Jóns Sigurðssonar iðnrh. er unnið að undirbúningi nýrrar stóriðju, nýrra virkjana. Nú er lag í þeim efnum. Það hefur ekki verið lengi. Við eigum að sæta lagi. Þúsund kíló af áli sem héðan fara færa okkur jafnmikið í aðra hönd og þúsund kíló af þorski upp úr sjó. Þess vegna varðar þetta lífskjör okkar allra og þeirra sem á eftir koma. Hér hefur verið farið með gát og farið með skynsemd og ég þykist skynja að að baki því sem nú er verið að gera sé þjóðarvilji og mikil samstaða. Í þessum efnum er þó þess að gæta að sá akkur sem við höfum af nýframkvæmdum á þessu sviði dreifist sem jafnast til allra þegna landsins og sveitarfélaga án tillits til þess hvar stóriðjan er staðsett.
    Evrópa er í deiglu. Árið 1992 á að komast á í Evrópu sameiginlegur innri markaður, frelsi til flutninga fólks, fjármagns, framleiðslu og þjónustu. Múrar hinna gömlu landamæra munu smám saman hverfa en það er ekki verið að stofna Bandaríki Evrópu. Evrópuríkin eru staðráðin í að halda í tungu sína og menningu, menningarlega margbreytni og þjóðleg sérkenni. Vafalaust segja margir norður hér: En hvað kemur þetta okkur við? Það kemur okkur við. Um 70% af öllum okkar útflutningi fara til Evrópubandalagsins og EFTA-landa. Þaðan koma 60% af öllu því sem við flytjum inn. Hvernig við tengjumst þessum mikla markaði skiptir sköpum um afkomu okkar og lífskjör á næstu árum. Samtöl eiga sér nú stað. Samningar eru fram undan. Þar höldum við hópinn með hinum EFTA-ríkjunum og það er skynsamleg leið á þessu stigi. Þessum samtölum stýrir nú utanrrh. Íslendinga, Jón Baldvin Hannibalsson. Fiskimiðin eru ekki föl í þessum samskiptum. Það er á hreinu. Afrakstur þeirra dugar okkur ekki og þess vegna getur hann ekki verið til skiptanna fyrir aðra. Vaxandi skilningur er nú
meðal Evrópuþjóða á þessari sérstöðu okkar. Vegna hvers? Vegna þess að íslenskir ráðherrar og embættismenn hafa verið ódeigir að tala okkar máli og því verður að halda áfram. Hvernig til tekst í þessu efni er mesta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar í dag.
    Ef dæma skal eftir skoðanakönnunum er ekki hátt metið pundið í stjórnmálamönnum um þessar mundir. Hvað segir fólk: Þeir lofa og þeir svíkja. Það er sami rassinn undir þeim öllum. En lítum ögn nánar á. Hverju lofaði Alþfl. þegar hann hóf stjórnarþátttöku 1987, fyrir rétt röskum tveimur árum? Einföldun skattkerfis, staðgreiðsla skatta. Staðgreiðsla er komin í framkvæmd, skattkerfið hefur verið einfaldað með margvíslegum ívilnunum til handa hinum tekjulægstu.

Virðisaukaskatti verður komið á. Hann kemur til framkvæmda um áramót. Endurskipulagning og hagræðing í bankakerfinu. Fjórir bankar hafa sameinast í einn öflugan hlutafélagabanka. Frekari bankasameining er á döfinni. Umbætur í ónýtu húsnæðiskerfi þar sem biðtíminn var að verða jafnmörg ár og hann var mánuðir fyrir nokkrum árum. Kaupleigukerfi hefur verið komið á, 500 kaupleiguíbúðum úthlutað á tæpum tveimur árum og húsbréfakerfið tekur gildi um miðjan næsta mánuð. Aðgreining dómsvalds og framkvæmdarvalds er á döfinni. Frv. þar um var samþykkt á síðasta þingi. Aukið sjálfstæði sveitarfélaga. Löggjöf um nýja verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga var samþykkt á síðasta þingi. Þessi mál voru búin að þvælast í kerfinu í tvo áratugi. Þau komast í framkvæmd um næstu áramót. Sett hafa verið lög um verðbréfaviðskipti og eignarleigu, bankalögum breytt og ný hlutafélagalög samþykkt, allt til að laga okkur að breyttum tímum og breyttum aðstæðum. Á sviði umhverfisverndar hafa verið sett lög um endurvinnslu einnota umbúða, öldósir og plastflöskur liggja ekki lengur eins og hráviði um allt. Fram kemur frv. um endurvinnslu brotamálma. Þá hverfa vonandi bílhræin sem nú blasa við um víðan völl. Þetta, góðir tilheyrendur, voru ekki bara loforð. Þetta voru orð sem Alþfl. hefur staðið við en kjörtímabilið er rétt rúmlega hálfnað og enn er margt ógert.
    Við náum vissulega ekki fram öllu því sem við kysum. Að því er varðar breytingar á landbúnaðarstefnu, þá er við gamalt og gikkfast kerfi að eiga. Þar þokast í áttina þó hægt fari. Byggðastefnu þarf að endurskoða m.a. með tilliti til þeirra breytinga sem eiga sér stað í landbúnaði. Undirstaða skynsamlegrar byggðastefnu eru umbætur í samgöngumálum. Í því sambandi er rétt að minna á að nú starfar nefnd að athugun á hagkvæmni þess að gera göng undir minni Hvalfjarðar. Það er örugglega arðbærasta framkvæmd sem við getum ráðist í á sviði samgöngumála og flest bendir til að það verk sé unnt að vinna utan vegáætlunar. Komi engin óvænt vandamál í ljós á hiklaut að ráðast í þá framkvæmd.
    Íslendingar eru fremur lítil fjölskylda en þjóð, sagði Halldór Laxness einhverju sinni. Það er mikið rétt og þessi fjölskylda hefur það gott, betra en næstum allar aðrar í þessari veröld og þá er vissulega mikið sagt en satt er það engu að síður. Samt opnum við ekki svo blað, útvarp eða sjónvarp að við heyrum ekki kvartanir og kveinstafi, neikvæði og niðurrif. Endalausar kröfur eru gerðar til hins opinbera, meiri styrki, meiri lán, hærri fjárveitingar, en hins vegar er svo talað um skattpíningu, ofstjórn og miðstýringu. Ríkið á að gera allt, en fjármagnið verður hvergi tekið annars staðar en hjá okkur sjálfum. Svo einfalt er það. Alþfl. hefur ekki skorast undan ábyrgð. Hann hefur átt aðild að ríkisstjórn í rúm tvö ár, á tímum samdráttar og erfiðleika. Það er ekki til stundarvinsælda fallið. Það er okkur sannarlega ljóst, en við alþýðuflokksmenn munum halda áfram að gera gott þjóðfélag betra og hafa þar að leiðarljósi markmið

jafnaðarstefnunnar. --- Góðar stundir.