Ragnar Arnalds:
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Ekki var laust við að það hlakkaði í Þorsteini Pálssyni hér áðan þegar hann ræddi um þau miklu vandamál sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir. Það er rétt að vandinn er gífurlegur. Gjaldþrot eru í hámarki, atvinnuleysi talsvert, sjávarútvegur og landbúnaður eru í þrengingum og launafólk kvartar réttilega yfir lágum launum. Auk þess er mikill halli á ríkissjóði. Það loga eldar í íslensku atvinnulífi, það er rétt, þar er enn mikil kreppa. Og satt best að segja varð enginn hissa þegar Þorsteinn Pálsson og félagar hans forðuðu sér úr stjórnarstólum og hlupu burt frá þessum vanda. Hitt kemur á óvart að Þorsteinn skuli hlakka yfir erfiðleikunum af slíkri kokhreysti. Því að hvenær varð þessi vandi til og hvernig? Þessi vandi varð einmitt til þegar vextir voru gefnir frjálsir og raunvextir þrefölduðust á skömmum tíma, þegar falskt gengi var látið standa um langt skeið og þegar halli ríkissjóðs jókst stórlega, allt undir stjórn Þorsteins Pálssonar þáv. fjmrh. Þorsteinn hljóp út úr brennandi húsi fyrir einu ári. Núv. stjórn er að vinna það vanþakkláta verk að slökkva þá elda sem kviknuðu áður en hún kom til valda. En sá sem í kveikti stendur glottandi fyrir utan og æpir að þeim sem í eldinum standa.
    Í Morgunblaðinu sl. laugardag reynir hann að telja fólki trú um, með fölsuðum teikningum, að hallarekstur ríkissjóðs sé arfur frá því ég var fjmrh. fyrr á þessum áratug. Matthías Bjarnason át reyndar þetta eftir honum hér rétt áðan. Það er heldur leiðigjarnt að elta ólar við blekkingar. Það getur hver og einn kynnt sér það að 1980, 1981 og 1982 var, öll árin, talsverður afgangur í rekstri ríkissjóðs. Hallareksturinn hófst undir stjórn Sjálfstfl. sem ekki hafði kjark til að leggja á skatta í samræmi við þarfir og heldur ekki getu til að skera niður útgjöldin. Síðan hafa tveir ráðherrar glímt við það vanþakkláta verkefni að rétta þennan halla af, sem ekki er auðvelt, enda þarf að greiða háa vexti af óreiðuskuldinni sem Þorsteinn Pálsson skildi eftir sig.
    Björgunaraðgerðir núv. stjórnar hafa ekki verið vinsælar, en þær hafa skilað árangri. Við erum á leið út úr kreppunni. T.d. fer staða ríkissjóðs ört batnandi. Raunvextir hafa lækkað nokkuð en þyrftu að lækka meira. Staða sjávarútvegs hefur gjörbreyst til batnaðar. Fjárhagur sveitarfélaga er talsvert betri. Nú verður skattur á nokkrum helstu tegundum matvæla lækkaður en það hefur einmitt verið krafa Alþb. alla tíð að veltuskattar á matvæli og menningarstarfsemi séu í lágmarki.
    Ríki Evrópu stefna nú að stóraukinni samvinnu. Þetta er tvímælalaust jákvæð þróun sem mun draga úr árekstrum og eyða tortryggni milli þjóðanna. Hinu verður ekki neitað að þessi þróun setur okkur Íslendinga í mikinn vanda. Þetta er mál sem yfirgnæfir nú öll önnur í íslenskum stjórnmálum. Fyrsta hættan er sú að þegar ríki Evrópubandalagsins auka innbyrðis samstarf, byggi þau um leið um sig múr með hækkuðum tollum. Í framhaldi af þessari

hættu hefur umræðan snúist upp í það hvort ekki sé þá eins gott að afnema allar hindranir á flæði vöru, vinnuafls og fjármagns á milli EFTA-ríkja og Evrópubandalagsins. Þetta þykir mörgum heillaráð og víða virðist að þessu stefnt. Ekki vil ég draga í efa að slík þróun geti hentað mörgum þjóðum Evrópu vel, en misvel, sumum miklu síður.
    Flestir hljóta að gera sér grein fyrir að enn meiri hætta væri á ferðum fyrir íslenskt samfélag ef engar hömlur mætti setja á innflutning vöru eða vinnuafls frá þessum löndum og erlend stórfyrirtæki gætu keypt hér upp fyrirtæki, fasteignir og náttúruauðlindir að eigin vild. Óheftir flutningar fjármagns gætu leitt til þess að risafyrirtæki í Evrópu eignuðust íslenskar útvarps- og sjónvarpsstöðvar, íslensk dagblöð, flugfélög eða skipafélög. Þau gætu keypt upp frystihús og skip, jafnvel eignast heilu sjávarþorpin. Auðvitað gætu íslenskir fjármálamenn flutt sitt fé þar á móti til meginlandsins í stórum stíl og séð sér hag í því, en fyrir þjóðarheildina væri það mjög óhagstætt. Að sjálfsögðu á ekki að útiloka þátttöku útlendinga í íslensku atvinnulífi, hún getur átt fullan rétt á sér í sérstökum tilvikum og í hæfilegum skömmtum og þá fyrst og fremst í sérhæfðum iðnaði og nýjum atvinnugreinum, enda sé þess gætt að Íslendingar séu þátttakendur í rekstrinum og hafi þar nokkurt forræði. Í íslenskan sjávarútveg eiga útlendingar ekkert erindi. Nú eru 30--40 milljónir manna án atvinnu í Vestur-Evrópu. Ef ekki þarf lengur atvinnuleyfi til að fá hér vinnu er ekki unnt að útiloka stóraukið atvinnuleysi í kjölfarið.
    Hversu langt hugsa menn sér að ganga í þessa áttina? Stjórnmálamenn og flokkar verða að svara þeirri spurningu fordómalaust og af fullri hreinskilni áður en lengra er haldið. Alþingi hefur enga stefnu mótað í þessu máli. Varla verður farið út í formlegar viðræður um svo örlagarík mál án þess menn viti nákvæmlega að hverju er stefnt. Er endilega víst að hagsmunamál Íslendinga séu þau sömu og hinna EFTA-þjóðanna? Allar eru þær að vísu smáar á mælikvarða stórþjóða en sú næstminnsta er þó tuttugu sinnum fjölmennari en Íslendingar. Fámennið, smæð fyrirtækjanna og lítil fjármagnseign skapar okkur algera
sérstöðu meðal Evrópuþjóða. Í þessum orðum felst engin minnimáttarkennd, aðeins viðurkenning á staðreyndum. Á erlendum mörkuðum er íslensk framleiðsla ágætlega samkeppnisfær ótolluð. Við eigum að geta skapað hér einhver bestu lífskjör á jörðu.
    Það er alsiða á Íslandi að ræða þannig um efnahagsmál að hvergi á byggðu bóli sé önnur eins óstjórn. Menn bölva öllu og öllum, jafnt stjórnmálamönnum sem embættismönnum og sérfræðingum. Í örvæntingu sinni velta menn jafnvel fyrir sér í alvöru hvort ekki væri skást að binda gengi krónunnar við erlenda mynt, eða tengjast Efnahagsbandalaginu. En hefur þá Íslendingum vegnað illa miðað við aðrar þjóðir? Vissulega er verðbólgan löngum mikil og skuldirnar erlendis eru háar, en við

höfum líka byggt upp atvinnulíf með meiri hraða en flestar aðrar þjóðir.
    Nýlega voru birtar töflur um hagvöxt í 24 iðnríkjum á 17 ára tímabili fram til 1987. Í þessum hópi eru öll ríki EFTA og Evrópubandalagsins, ásamt Bandaríkjunum, Japan, Kanada og öðrum auðugustu ríkjum heims. Þar kemur ljóslega fram að á þessu 17 ára tímabili er hagvöxtur langmestur hér á landi. Í Evrópu er það aðeins Noregur sem eitthvað nálgast vaxtarhraða íslenska hagkerfisins. Í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi var vaxtarhraðinn helmingi hægari en á Íslandi. Þetta eru fróðlegar fréttir fyrir þá sem ímynda sér að stórar einingar gefi alltaf meiri hagvöxt og því hljóti okkur að vegna betur í evrópsku stórríki. Enn fróðlegra væri þó að rannsaka vísindalega hvernig jaðarbyggðum í stórríkjum hefur vegnað síðustu áratugi. Reynslan er yfirleitt sú í hverri ríkisheild að byggðir í útjöðrum ríkja þróast hægar en sterkustu efnahagssvæðin. Staða Íslands í of nánum tengslum við evrópskt stórríki yrði líklega ekki ósvipuð stöðu landsbyggðar hér á landi gagnvart þéttbýlinu við Faxaflóa. Eða hvernig halda menn að lífskjör væru hér ef Ísland hefði frá stríðslokum verið hluti af Stóra-Bretlandi þar sem efnahagsþróun hefur yfirleitt verið helmingi hægari en hér og þó enn hægari í jarðarhéruðum? Ekki er minnsti vafi á að þau væru miklu lakari. Hvernig stendur svo á því að smáþjóð með þröngan heimamarkað og hlutfallslega dýra yfirbyggingu vegnar þrátt fyrir allt betur en ríkustu þjóðum heims? Skýringin er engin önnur en sú að sjálfstæð efnahagsheild, þótt lítil sé, lagar sig ört að eigin þörfum með löggjöf, gengisskráningu og öðrum efnahagsaðgerðum þegar nauðsyn ber til. Þannig vinnur hún upp ókosti fámennisins og gott betur. Í stórríkinu er hins vegar margt þunglamalegt. Þar þarf t.d. sjávarútvegshérað að búa stöðugt við gengisskráningu og aðrar ákvarðanir sem ekki eru teknar út frá þörfum þess svæðis heldur með allt aðra hagsmuni í huga.
    Góðir áheyrendur. Það tók þjóðina öld að öðlast sjálfstæði. Hún gæti gloprað því niður með einum vanhugsuðum leik á taflborði alþjóðastjórnmála. Sjálfstæði Íslands er ekki einungis metnaðarmál þjóðar sem vill varðveita tungu sína og menningu. Sjálfstæði okkar er umfram allt lykill að áframhaldandi efnalegri og menningarlegri velmegun. Þeim lykli skulum við ekki glata.