Jöfnun raforkuverðs
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 31 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh. um jöfnun raforkuverðs. Fsp. hljóðar svo:
    ,,Hver eru áform ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til jöfnunar raforkuverðs í landinu:
    a. að raforkuverð verði það sama til allra dreifiveitna í landinu;
    b. að smásöluverð á raforku verði hið sama til notenda hvort sem um er að ræða til húsahitunar eða almennra nota.
    Það þarf í raun og veru ekki að lýsa því hér að þetta mál, jöfnun á raforkuverði, hefur verið mjög mikið baráttumál á undanförnum árum til þess að jafna aðstöðuna í okkar þjóðfélagi, og það þarf heldur ekki að lýsa því hversu mikill aðstöðumunur er í landinu að því er varðar þennan tiltekna málaflokk, en það er alveg ljóst að jöfnun raforkuverðs er eitt hið þýðingarmesta byggðamál í okkar landi og er búið að vera baráttumál hér á Alþingi svo árum skiptir. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur sett það á sína stefnuskrá að vinna að því að leysa þetta mál svo að viðunandi sé. Það hefur að sjálfsögðu orðið talsverður árangur að þessu leyti til en hann er alls ekki nægur. Enn í dag búum við við það að raforkuverð, sérstaklega raforkuverð til húshitunar, nálgast að vera þrisvar sinnum hærra en t.d. upphitunarverð hér á hitaveitusvæði Reykjavíkur. Og enn er svo að þeir sem búa á orkusvæði Rarik verða að greiða 60--70% hærra raforkuverð til almennra nota en þeir sem búa á þeim svæðum þar sem raforkuverðið er miklu lægra.
    Ég þarf ekki að lýsa þessu öllu nánar, en hér er um svo brýnt mál að ræða að við sem erum fulltrúar fólksins utan ódýru svæðanna getum ekki lengur við það unað að það verði ekki gerðar raunhæfar ráðstafanir til þess að bæta hér um. Og ég vil lýsa því hér yfir í upphafi míns máls að ég tel að það sé alveg óhugsandi í dag að þola það að ný stórvirkjunaráform, og þar af leiðandi um stóriðju sem ég er alls ekki að mæla gegn, verði sett af stað nema því aðeins að áður sé búið að gera ráðstafanir sem eru fullnægjandi að þessu leyti sem stefnuskrá núv. ríkisstjórnar og fyrri ríkisstjórnar hafa raunar mælt fyrir um, að aðgerðir séu raunhæfar þannig að fólkið í landinu sem býr við þetta háa orkuverð þreifi á því þegar það borgar sína reikninga að hér hafi verið staðið við það sem allir hafa lýst yfir að sé hin mesta nauðsyn. Þess vegna legg ég þessar fyrirspurnir fyrir hæstv. iðnrh. og vænti svara vegna þess að ég veit að þetta er áform núv. ríkisstjórnar.