Samgöngur yfir Hvalfjörð
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Hv. fyrirspyrjandi sóar ekki tímanum til einskis því að það var einungis fáum dögum eftir þá dagsetningu sem starfshópur sá sem ég skipaði hafði fengið tilmæli um að skila áliti ef kostur væri, að þessi fsp. var lögð fram. Málið stóð þá þannig að ég hafði þegar og á réttum degi fengið bráðabirgðaniðurstöðu, bráðabirgðagreinargerð frá starfshópnum. Ég hafði reyndar hugsað mér, daginn eftir að ég varð þess var að fsp. kom fram, að senda hv. alþm. með bréfi þessa bráðabirgðagreinargerð þannig að þeim mætti öllum þá þegar verða ljóst hver staða málsins var. En samkvæmt góðri venju féll ég frá því ráði þegar fsp. var komin fram og held mig við það grundvallaratriði þingskapanna sem ég hef lært, að svara fyrirspurnum sem einu sinni eru komnar fram á Alþingi hér en ekki í fjölmiðlum né heldur leggja fram upplýsingar um þær fyrr en þær eru reiddar fram á hinu háa Alþingi þannig að mönnum gefist kostur á að ræða þær um leið og þær eru birtar.
    Þessi bráðabirgðagreinargerð starfshópsins, sem er bráðabirgðagreinargerð vegna þess að það er niðurstaða hópsins að það sé ókleift að skila endanlegu áliti með svo stuttum fyrirvara, felur í sér að hópurinn hefur komist að samkomulagi um vinnutilhögun um það hvað leggja beri áherslu á í vinnunni næstu vikur og reyna að skila endanlegri niðurstöðu fyrir næstu áramót, svo það sé nú rakið í örfáum atriðum hvað í þessu felst.
    Hér er á ferðinni mjög stórt mál, mikið hagsmunamál, en jafnframt að mörgu leyti tímamótamál í okkar samgöngumálum. Fyrir það fyrsta er mannvirkið þess eðlis að verði í það ráðist verður það tímamótaverk, nýbreytni í íslenskri mannvirkjagerð sem auðvitað hlýtur að kalla á verulega vandaða undirbúningsvinnu. Mannvirkjagerð á hafsbotni eða jarðgöng undir hafsbotn hafa aldrei áður verið unnin á Íslandi og jafnvel þó að menn hafi góða reynslu af slíkum framkvæmdum erlendis, þarf að kanna hvernig það leggst út við íslenskar aðstæður. Hér er líka stórt verk í peningum talið á ferðinni. Talið er að kostnaður hljóti a.m.k. að verða þrír milljarðar hvort sem valin er sú leið að gera jarðgöng undir hafsbotninn eða leggja stokk eftir botninum. Brúargerð yrði væntanlega enn dýrari yrði í hana ráðist.
    Í þriðja lagi er hér á ferðinni mál sem kemur inn á ýmsar lagalegar og skipulagslegar forsendur, bæði vegalög og skipulag opinberra framkvæmda sem hingað til hefur verið viðhaft.
    Í fjórða en ekki síðasta lagi, það er ekki síst mikilvægt eigi þetta mál að hafa farsælan framgang, verður að skapa breiða pólitíska samstöðu. Það hefur frá upphafi vega verið mín viðleitni að vinna þannig að þessu máli að um það mætti takast góð samstaða á hvorn veginn sem í raun og veru fer. Og til þess að það sé hægt þarf að vanda undirbúninginn og það þarf að vinna málið þannig að menn hafi efnislega traustar

forsendur til að taka ákvörðun á. Ég vil segja við hv. fyrirspyrjanda að mér hefur á köflum ekki þótt alls kostar sanngjörn sú umfjöllun sem hefur verið um þetta mál og beinst hefur að mér sem samgrh. vegna þess að ég hef kosið að halda þeim vandkvæðum hjá mér sem í málsmeðferðinni hafa komið upp til þess að málið gyldi þess ekki, yrði ekki fyrir skakkaföllum af þeim sökum því það eru deildar meiningar, ýmsum finnst umhugsunarefni hvort þessi framkvæmd eigi að vera efst á okkar forgangslista. Ég vil til að mynda segja við hv. fyrirspyrjanda að ég hef fengið mjög skýra fyrirvara frá forystumönnum í hans flokki varðandi þetta mál og að hér þurfi að vanda mjög allan undirbúning og ekki megi taka ákvarðanir í þessu máli fyrr en á mjög traustum efnislegum forsendum. Því er ég líka sammála og mín reynsla og menntun býður mér að vanda undirbúninginn þegar svo stórt og mikilvægt verkefni á í hlut.
    Þetta vil ég leyfa mér að taka fram en að lokum undirstrika það, og ég vona að menn taki mark á því og líka hv. fyrirspyrjandi, að ég hef frá upphafi verið jákvæður gagnvart því að þetta verkefni væri skoðað, það yrði kannað til þrautar að mati færustu sérfræðinga hvort hér væri um arðbæra framkvæmd að ræða af því tagi að hún gæti staðið undir sér sjálf og þjóðhagslega hagkvæma fjárfestingu í því tilliti. Þá tel ég einboðið að leita leiða til að ráðast í þessa framkvæmd, en stærðar hennar og eðlis vegna má ekki rasa um ráð fram í undirbúningnum að því verki. Við höfum allt of mörg og allt of stór dæmi um það að það er hættulegt og gæti orðið mönnum dýrt að stytta sér leið í undirbúningi að flókinni mannvirkjagerð.